kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Kyndilmessa · Heim · Erindi Michael Bünker »

Erindi dr. Margot Käßmann á Skálholtshátíð 2017

Kristján Valur @ 19.29 27/9/18

Dr.Margot Käßmann

Siðbreyting sem áskorun

Erindi á Skálholtshátíð, 23. Juli 2017

1. Frelsun til alþjóðlegs  og samkirkjulegs samhengis.

Í sögulegu samhengi er augljóst hversu þjóðernissinnuð afmæli siðbótarinnar  voru á fyrri öldum. Það gildir í sérstaklega ríkum mæli  fyrir Þýskaland. 1817 til dæmis var hátíðin haldin sem trúarleg-þjóðernisleg hátíð, í minningu þjóðaorustunnar við Leipzig 1813.[1] Lúther varð að þýskri þjóðhetju. Það er þó alveg ljóst að  sjálfur var Lúther ekki þjóðernissinni. Þýskaland var á tímum hans ekki ein þjóð, og hugmyndafræði þjóðernishyggjunnar kom ekki fram fyrr en miklu síðar.  En sagan hefur engu að síður innlimað hann í þjóðernishyggjuna Að þessu leyti er ljóst: Siðbreytingarafmæli voru alltaf spegilll samtíma síns.


2017 hafa orðið þrjár grundvallarbreytingar sem ég vil draga fram hér í upphafi.

-       Við höfum yfirunnið hið þrönga sjónarhorn þjóðernisyggjunnar. Lúterskir í Þýskalandi líta á sjálfa sig í dag með þeim hætti sem  evangelíski guðfræðingurinn Ernst Lange hefur skilgreint  sem  ,, Umdæmi innan kristninnar í heiminum“.  Við höfum sem lúterskar kirkjur í heild í dag víðan sjóndeildarhring vegna tengslanna við kirkjur í Evrópu og um allan heim, en einnig vegna kristinna karla og kvenna frá öllum löndum  heimsins sem hafa sest að í löndum okkar og að hluta til auðgað líf okkar eigin safnaða, eða koma sínum áherslum á framfæri í nýjum eigin söfnuðum. Að vera kristinn byggir enga múra eftir þjóðerni. Við lítum svo á að við séum systkin í fjölskyldu Guðs barna um allan heim.

-       2017 uppskerum við ávexti hinnar samkirkjulegu hreyfingar!  Hátiðahöld okkar eru ekki lengur undir and-kaþólskum formerkjum því að við höfum,- í heimi sem er í auknum mæli afhelgaður -  skilið að það er fleira sem tengir okkur saman en það sem aðskilur okkur. Við skilgreinum okkur ekki með  aðgreiningu frá reformertum og þeim sem eiga upphaf sitt í endurskírendahreyfingunni, heldur lifum okkar lútersku sjálfsvitund í víðum samkirkjulegum sjóndeildarhring. Kaspar kardináli sagði meira að segja í Wittenberg fyrir mánuði síðan að siðbótarafmælið 2017 væri samkirkjulegur náðartími. (Kairos)

-       Það er samstaða ekki aðeins yfir þjóðernislega og trúfélagslega múra, heldur einnig múra trúarbragðanna. Við höfum yfirunnið hina neikvæðu afstöðu Luthers til gyðinganna. (Antijudaismus). Kirkjuþing Evangelisku kirknanna í Þýskalandi (EKD) tók í nóvember 2015 afstöðu gegn ritum Lúthers um gyðingana. Það sýnir að við höfum mjög mikið lært. Og í dag spyrjum við hvernig við getum átt uppbyggilegt samtal við múslima. Það er að öllum líklindum hið miðlæga siðbreytingarverkefni á okkar dögum.

2. Europa reformata

Þessi víði sjóndeildarhringur var ekki til staðar frá upphafi undirbúningsins fyrir afmælisárið 2017. Svissneska evangeliska kirknasamfélagið (SEK) spurði til dæmis þeirrar spurningar hvort það yrði yfirleitt pláss fyrir siðbreytinguna í efra hluta [2] Þýskalands innan þess atburðar sem miðaði  sig við Wittenberg. Þegar ég heimsótti Kirkjuþingið í Zürich 2012 var að því spurt hvort lútherskir ætluðu aftur að niðurlægja  Calvín og hafa hann  í forrétt en Zwingli í eftirrétt. Luther væri alltaf í aðalrétt!  Þessi spenna var leyst af SEK og EKD á viturlegan hátt. Árið 2013 var haldið alþjóðlegt þing í Zürich í tilefni siðbreytingarafmælisins þar sem bæði kirknasamböndin buðu til þings sínum samstarfskirkjum frá öllum heimshornum.
Fyrir mig var þetta ,,Durchbruch“ [3]. Það varð alveg ljóst að 1517 er táknrænt ár sem við getum notað í sameiningu til að minnast siðbreytingarinnar og um leið til spyrja hvar endurnýjunar og  siðbreytingar (siðbótar) sé þörf í kirkjum okkar og samfélögum. Og, já, það verður ekki framhjá Marteini Lúther gengið sem persónulegu tákni siðbreytingarinnar.
En siðbreyting er víðtækt verkefni sem spannar  marga áratugi og margt fólk ber ábyrgð á og mótar.

Einn af siðbreytingarmönnunum var Jan Hus. Fyrstu helgi í júlí 2015 var hans minnst í Prag með mikilli hátíð í gamla miðbænum, með tónlist, fyrirlestrum og alþjóðlegri þátttöku. Borgin Konstanz minntist atburðanna á kirkjuþinginu 1414-1418. Hus, Wycliff og Hieronimus – einnig sú hreyfing rúmlega hundrað árum áður en Luther birti sínar 95 tesur, er hluti siðbreytingarhreyfingarinnar.

Hinn 31.október 2015 hófst síðasta Temaár Lutherdekade[4] í Strassburg með sjónvarpsguðsþjónustu og móttöku í Evrópuþinginu. Það var mjög mikilvægt tákn.Yfirskrift guðsþjónustunnar var 9. vers 16. kafla  Postulasögunnar. Páll er kallaður til Makedóníu.: Kom yfir til Makedóníu og hjálpa okkur. Í þessari guðsþjónustu las stúlka guðspjallið sem misst hafði báða foreldra sína meðan hún var á flótta. Eina fyrirbæn bað Afríkubúi sem býr á götunni í Strassburg. Í kórnum söng ung kona einsöng sem með hjálp kirkjunnar og sinnar stórkostlegu raddar eignaðist jákvæða sýn á lífið.  Evangelisku kirkjurnar í Frakklandi hafa kröftuglega lagt  áherslu á  að nota siðbreytingarafmælið til víkka út hina of oft þröngu guðfræðilegu eða evrópumiðlægu umræðu.

Margar evrópskar siðbreytingarkirkjur hafa lagt upp í nýja vegferð. Sænska lútherska kirkjan var í október 2016 gestgjafi á hátíð í tilefni af stofnun Lutherska heimssambandsins sem fór fram þar árið 1947. Nú tilheyra LWB 145 kirkjur með fulla aðild í 98 löndum heimsins og þeim tilheyra rúmlega 74 milljónir kristinna kvenna og karla. Þess vegna hitti Franziskus páfi ekki aðeins sænska erkibiskupinn Antje Jackélen þegar hann kom til Lundar heldur einnig Martin Junge, aðalritara Lutherska heimssambandsins, sem kemur frá Brasilíu, og þá verandi forseta LWB Munib Younan, biskup Evangelisk lúthersku kirkjunnar í Jórdaniu og í Landinu helga. Það var gott tákn um hið alþjóðlega samhengi sem lútherskar kirkjur búa við.

Meðan Lutherska heimssambandið hélt heimsþing sitt í Namibíu, til að sýna að siðbreytingin sem kom frá Wittenberg fann leiðir út um allan heim, þingaði allsherjarþing Heimssambands reformertu kirknanna, sem telur 225 kirkjur með fulla aðild, í Leipzig 29.júní – 7.júlí og kom einnig saman í Wittenberg til að leita þar eftir sínum eigin rótum. Á þessu þingi tóku reformertu kirkjurnar undir  hina  sameiginlegu yfirlýsingu um réttlætingingarkenninguna (réttlæting  af trú) frá árinu 1999.[5]

Samtöl og fyrirlestrar á Englandi sýna að fjölmargir innan Anglikönsku kirkjunnar telja að þar hafi verið ,,systur siðbreyting“ eða siðbreyting af öðrum toga. Hinn 31.október verður mikil hátíðarguðsþjónusta í Westminster Abbey. Á Írlandi hefur litla lutherska kirkjan í Dublin mikla þýðingu vegna þess að hún vekur engum ótta um að ætla að ná völdum, og getur því áreynslulaust boðið   til samkirkjulegs samtals.

Þegar ég hef verið boðin í heimsókn til kirkna í Póllandi og Kalingrad, á Spáni og í Rúmeníu, í Brussel og Amsterdam hef ég upplifað hve mjög þessar sumpart agnarsmáu kirkjur sækja sér sjálfsöryggi frá hinni evangelisku sjálfsmynd.

Við erum í dag sem lutherskar kirkjur hluti hins alþjóðavædda heims en siðbreytingin var og er evrópskur atburður. Í ritinu Europa Reformata[6] er á fallegan máta dregið saman hið mikla ríkidæmi evrópskrar siðbreytingarsögu. Eða vissuð þið að Jeanne d´Albret fursti, innleiddi með tilskipun frá Nérac í Frakklandi 1561, kirkjur sem notaðar eru af mótmælendum og kaþólikkum á sama tíma?[7] Eða að Dr. Egido, dómherra í Sevilla, sem gerði tillögu um að Karl V. yrði biskup í Tortosa biskupsdæmi, var 1550 ákærður fyrir lúthersku, þ.e. fyrir hina þýsku villutrú?[8] Eða að Patrick Hamilton sem stundaði nám í Marburg og flutti kenningar Luthers á Skotlandi var brenndur á báli 1528 eftir sýndarréttarhöld?[9]

Við sendum þess vegna  2.nóvember 2016  sérstakan Siðbótartrukk í ferðalag. Undir yfirskriftinni:   evrópsk stöðvaleið – sögur á ferðalagi voru 67 staðir í Þýskalandi og Evrópu heimsóttir, þar sem saga þeirra tengd siðbreytingunni var sögð í bílnum. Og spurt var hvar breytinga og siðbótar væri þörf í kirkjum þeirra og samfélagi.  Það er gott fyrirkomulag, finnst mér: Við heimsækjum hvert annað í Evrópu og segjum sögu okkar og áform okkar til breytinga. Og sérstaklega unga fólkið í kirkjum okkar stýrir því. Þannig verður til framtíðarskipulag kirkju sem teygir sig yfir múra og mæri.

3. Minnst 500 ára  siðbreytingar víða um heim

Á ferðum mínum til Bandaríkja Norður-Ameríku hef ég upplifað hve sundrung kirkna siðbreytingarinnar er þungur baggi. Það er líkast til stærsti veikleiki siðbreytingarhreyfingarinnar: að stofna nýja kirkju þegar upp kemur ágreiningur við þá gömlu. Hvernig gætu, í það minnsta lútherskar kirkjur, fundið leið að nýju samfélagi og einingu um kvöldmáltíðina? Er ágreiningurinn um samkynhneigð í raun og veru af guðfræðilegum rótum, eða eru ekki-guðfræðilegir kraftar með í leiknum? Og hversu mikið telja baptistar og hvítasunnuhreytingin sig vera hluti af kirkjum siðbreytingarinnar?

Á  Indlandi reyna lútherskar kirkjur að setja menntun á oddinn. Einmitt möguleiki stúlkna til að fá aðgang að menntun er og verður þar sérstök áskorun. Í Guatemala verður á þessu ári reist minnismerki um siðbreytinguna á Berlinartorgi. Þær lúthersku kirkjur sem hraðast vaxa eru í Ethiopiu og Tansaníu!

Þetta eru allt dæmi sem sýna: Afmælisárið er haldið hátíðlegt um allan heim. Fyrrverandi aðalritari Alkirkjuráðsins í Genf, Konrad Raiser, hefur í bókarkafla [10] á mjög áhrifamikinn hátt sett fram staðreyndir um það hvernig vægi færist til í heiminum.

,,Á meðan nálægt 80% allrar kristninnar var í Evrópu og Norður Ameríku árið 1900, hefur þessi hlutdeild meira en helmingast og er komin niður í 32.6%. [11] Þetta setur siðbreytingarafmælið í nýtt heimsljós. Við verðum vör við það á þessu ári hvernig áhrif siðbreytingarinnar ná um allan heim.

Og einnig temu guðfræðinnar eru rökrædd á nýjan hátt í nýju samhengi. Þannig varð spurningin um réttlætingu af trú skyndilega spurning dagsins í Singapúr, þessum stað sem er algjörlega upptekinn af peningum og að ná  árangri. Kona sem er prófessor þar sagði að hún hefði fundi hið fullkomna frelsi í því þegar hún gerði sér grein fyrir því að hún gæti fundið tilgang í lífinu án þess að vera fullkomin. Í Bangkok sagði annar prófessor að hann öfundaði siðbreytingarkirkjurnar af því að geta sífellt endurnýjað sitt tungutak. Í Búddismanum væri því sem næst ómögulegt. Þar væri haldið fast við hið gamla tungutak sem væri ungu fólki framandi og héldi því frá.

Og í lútherska háskólanum í Hongkong var rætt um birtingarmyndir mannsins. Að manneskja sé ekki bara alveg góð eða alveg vond, heldur gæti verið simul justus et peccator  (réttlætt og syndug í senn). Sú hugsun vakti undrun margra.  Á Indlandi og í Bangladesh vilja innfæddir kirkjuráðsmenn vekja athygli á minnihlutahlutskipti sínu með stórum opinberum atburðum. Frelsi sem felst í spurningunum um trú og samvisku er í hæsta máta það sem nú brennur á fólki í mörgum samfélögum.

Og þar að auki: Hvatning siðbreytingarinnar til menntunar sem beint er að hverjum kristnum einstaklingi, konum sem körlum, að hugsa sjálfstætt, að spyrja, að byggja upp sína eigin trú, það eru kröfur í heimi sem stendur frammi fyrir  nýrri bókstafshyggju. Bókstafshyggjan segir: Trúðu eða deyðu. Trú siðbreytingarinnar segir: Hugsaðu sjálfstætt. Samviska þín og trú þín hafa til viðmiðunar skynsemina og Heilaga Ritningu. Ekkert annað.

Á málþingi um áhrif siðbreytingarinnar í Mið- Austurlöndum, í Beirút var eftirtektarvert að sagt var: Við leitum ekki kristinna afkima, heldur er það sem við viljum læra þetta: við viljum að hinir hófsömu kraftar í öllum trúarbrögðum styrkist í (afhelguðu) trúarbragðahlutlausu ríki. Kennig Luthers um ríkin tvö lifnaði að nýju í samtalinu.

Á alþjóðlegu málþingi í Atlanta gaf spænski guðfræðingurinn Alberto García innsýn í bók sína „Wittenberg meets the World“, [12]og sagði frá því hvað kenning Luthers um náðina eina merkti andspænis erfiðu aðstæðum suðuramerískra innflytjenda í Norður Ameríku.

Í stuttu máli: Siðbreytingin aldrei fyrr í svo alþjóðlegu samhengi !

Meðan Heimssýningin:  Reformation, undir yfirskriftinni ,,Hlið frelsissins“ stendur í 16 vikur fram í september í Wittenberg mun það sjást greinilega! Fyrir mig er þessi sýning sjálft hjartað í siðbreytingarsumrinu 2017. Fólk getur komið og á einum degi upplifað, tjáð sig um og hugsað upp á nýtt hvað siðbreyting merkir fyrir okkur í dag, með tilliti til andlegs lífs og alþjóðavæðingar, eða með tillti til samkirkjulegs starfs og samtals trúarbragðanna um réttlæti, frið, samkirkjumál eða sköpunina. Þarna eru einnig temavikur, þar sem fólki er boðið á sérstökum dögum til sérstakra tema: Evropa eða friður, Samkirkjulegt starf eða sköpunarverkið.  Alþjóðleg er sýningin annarsvegar af því að fólk kemur saman frá öllum heimshornum og kirkjur frá öllum heiminum eru til staðar og hinsvegar af því að siðbreyting tekur mið af sjóndeildarhring alls heimsins og hugsar fram á veg.

Því vona ég að við getum sagt um síðir: Hér má uppgötva að nýju litlar plöntur hins nýja upphafs! Þá hefur sýnt sig að við áttum að starfa í samræmi við siðbreytinguna. Þar var fyrstu tengingum komið á sem gáfu fyrirheit um breytingum. Hinn fyrsti nóvember verður þessvegna engin endastöð, heldur tákn um nýtt upphaf. Þannig viljum við hafa siðbreytandi áhrif á 21. öld!

4. Guðfræðilegur grundvöllur.

Hin evangelisku, hvort sem þau eru lútersk, reformert eða fríkirkjuleg, standa alltaf frammi fyrir þeirri spurningu, hver þeirra evangeliski prófíll sé. Hvernig getum við á ábyrgan hátt staðið reikningsskil á trú okkar, og von okkar? Og þá vaknar spurningin um samstarf kirkjudeildanna. Ætlum við að halda upp á klofninginn, eða sögu um viðbótar frelsi. Er aðskilnaður 16. aldar í raun og veru relevant. Hvað er þá evangeliskur prófíll?

Reikningsskil andspænis voninni var miðlæg áhersla Marteins Luther. Hann eignaðist stórkostlegt frelsi  innra með sér þegar honum varð ljóst að hvorki páfinn né keisarinn, hvorki syndir né lögmál, gæti skilið hann frá Guði.  Guð er hér. Guð hefur þegar rétt út hönd sína. Þennan guðsskilning gaf Biblían honum. Þess vegna er það að sola scriptura, ritningin ein, hefur svo miðlæga merkingu hjá öllum mótmælendum. Áhersla Lúthers er að taka ekki við trú sem stýrt er af  trúarkenningum og siðvenjum   heldur  að fólkið verði sjálft myndugt í trú sinni.

Sola fide – Trúin ein, aðeins fyrir trú.: Líf mitt finnur enga merkingu ef ég reyni að standast kröfur mælistiku þessa heims. Heldur að ég þigg það að gjöf, og merkingu þess hef ég meðtekið. Orðað á tungu hagfræðinnar:  Lífsreikningur okkar er í svörtum tölum, af því að Guð hefur lagt inn á reikninginn. Og ekkert sem við eigum eða gerum getur sett okkur í rauðar tölur, – skulda megin.

Kristur einn. Ákvörðun lífs míns er hjá honum. Kristur er mælistikan. Enginn Führer, ekkert ímyndað þúsund ára ríki, engin hugmyndafræði getur komið í staðinn fyrir hann. Þegar ég horfi á krossinn finn ég staðarákvörðun eigin lífs.
Stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Hvernig yfirfærum við þessa guðfræðilegu grundvallarsannfæringu inn í hið sívaxandi afhelgaða umhverfi Evrópu?  Þar getur málsnilldargáfa Marteins Luther hjálpað og gefið innblástur; hann sem ekki aðeins þýddi texta heldur færði þá milli málheima svo að venjulegur maður á götunni, konan í eldhúsinu og sérhvert barn skildi hvað hann var að segja.

5. Pólitískar áskoranir.

Við lifum á tímum þar sem boðuð er útilokun og einangrun í stað heimsopnunar, innmúrun í stað múraopnunar. Það nær frá Trumps „America first“, yfir synjun Victors Urban í Ungverjalandi að taka á móti flóttamönnum allt til þjóðernishyggjuáherslna  Marianne le Pen. Nú þurfum við að yfirvinna  lúterska yfirvaldshugsun og veita ríki og samfélagi heiðarlega gagnrýni. Í Þýskalandi er oft sagt að kirkjan eigi ekki að blanda sér í pólitísk málefni, því að með því sé hún á þeirri leið að afhelga sjálfa sig. Þetta tel ég vera ranga skilgreiningu. Okkur lúthersku fólki þykir vænt um guðsþjónustur okkar og lítúrgíu, við syngjum gjarna og berum virðingu fyrir  helgisiðunum. En í öllu stendur Biblían í miðju.

Tvö dæmi. Í Mattheusarguðspjalli segir Jesús í kaflanum um hinn síðsta dóm yfir heiminum (Matt.25.35,36) ,, Ég var framandi ( gestur)  og þið hýstuð mig…
Í hinum framandi gesti, í neyð, á flótta undan stríði og örbirgð í Afríku sem kemur til okkar, mætum við Jesú Kristi!. Flóttamenn eru sendiherrar hörmunganna í heiminum öllum og standa við dyrnar hjá okkur. Þá getum við ekki, eins og mörg okkar þó gera, fundið afsökun í því að náungi okkar sé eingöngu sá sem stendur okkur næst. Nei, miskunnsami samverjinn, er einmitt alls ekki einn af okkar þjóðerni, ekki trúbróðir, og er ekki á nokkurn hátt okkur næstur í þeirri merkingu. En einmitt hann velur Jesús sem besta dæmið  fyrir náungakærleika. Við erum sem lútherskar kirkjur í Evrópu krafin um það af Biblíunni  sjálfri að axla ábyrgð gagnvart þeim sem til okkar leita og eru á flótta. Það merkir líka samstöðu með Ítalíu og Grikklandi sem bera þyngstu byrðarnar, af því að flestir koma fyrst í þeirra land. Schengen samkomulagið er alltof einföld afsökun. Og þó að Ísland, sem ég sé því miður að ekki tilheyrir Evrópusambandinu, þá leysir það ekki landið eða kirkjuna frá þeirri skyldu að leggja fram aðstoð sína.

Í öðru lagi. Í Fjallræðunni segir svo: Sælir eru friðflytjendur. (Matt. 5.9) Frammi fyrir gífurlegu hernaðarbrölti samtímans getum við ekki horft framhjá því í köldu hlutleysi.

Það er þá einmitt   ,,hið eiginlega“, nefnilega ritningarorð, sem vísar okkur á góðri lúthersku beint til okkar ábyrgðar í heiminum.  Ef kirkja siðbreytingarinnar vill vaxa og þroskast þá verður hún líka að þora að spyrja sig hvort stuðningur við stríð, eins og Ágsborgarjátningin leggur til, og höfnun friðarsamtaka, á tímum gjöreyðingarvopna og hernaðaruppbyggingar sé verjandi. Hér gildir að þora að glíma við andstæð sjónarmið.

Mér fellur það auðvitað vel að enginn her skuli vera á Íslandi. En varðandi spurningar um réttlæti, frið og varðveislu sköpunarinnar getið þið blandað ykkur í samtalið, sérstaklega í samtökum lútherskra kirkna um allan heim.

6. Umburðarlyndi

Það er enginn spurning að siðbótar /siðbreytingarmennirnir voru ekki unburðarlyndir, og það voru ekki heldur þau kirkjulegu yfirvöld sem þeir glímdu við. Á eftir guðfræðilegum deilum fylgdu ofbeldisaðgerðir þar sem spurningin um það hver valdið hefði skiptu miklu. Sagnfræðingurinn Heinz Schilling vill samt meina í Ævisögu Luthers frá 2012 að siðbótarfrömuðurinn hafi: ,,hvorki á hinum fyrstu átakaárum siðbreytingarinnar né síðar að barist yrði fyrir fagnaðarerindinu með ofbeldi og drápum“.[13] Og hann dregur skýrt fram að þó að  Luther væri umburðarlyndi í skilningi nútímans framandi, hafi hann alltaf barist fyrir því   … að trúin væri innri og andlegur veruleiki og óháður íhlutun jarðneskra valdhafa“.[14]

Það er sem sagt ríkur guðfræðilegur og refomatoriskur grundvöllur hins trúarlega umburðarlyndis. Það var einmitt trúfrelsi og samviskufrelsi sem leiddi Luther til þess að standa fast á sannfæringu sinni sem lagði grunninn að því að tryggja einnig öðrum sama frelsi. Ef sérhver manneskja er sköpun Guðs, sköpuð í Guðs mynd, þá ber að virða sérhverja manneskju í sannfæringu sinni svo lengi sem hún ekki stígur yfir mærin sem eiga að tryggja  virðingu fyrir skoðun annarra.  Ef það er meiningin að deila ekki ,, með valdi og dauða“ verður að leita leiða til samtals án valdbeitingar. Að mati siðbreytingarmannsins Philip Melanchtons var friðaruppeldi hluti af skilningi siðbreytingarinnar á menntun.

Í dag verður þetta að vísa veginn!. Á tímum íslamfóbíunnar verðum við að standa vörð um trúfrelsið sem við á sínum tíma urðum að berjast svo hart fyrir. Hvað merkir þar hugtakið umburðarlyndi? Það merkir ekki afskiptaleysi samkvæmt mottóinu: Sérhver maður á að verða sáluhólpinn að sínum hætti!

-       Umburðarlyndi merkir áhuga fyrir öðrum, fyrir andstæðingum, fyrir annarri trú eða engri trú, fyrir annarri pólitískri eða siðferðilegri skoðun. Til þess þarf stefnumót og tíma fyri samtal, og vilja til að hlusta.

-       Það snýst um að halda ágreiningi til hliðar vegna hins friðsamlega samlífs. Til þess er nauðsynlegt að bera virðingu fyrir afstöðu hinna, og líka þegar mér reynist það þungbært.

-       En umburðarlyndi er ekki takmarkaleysi. Ekta umburðarlyndi mun finna mæri óþolinmæðinnar og leggja allt kapp á að halda réttar reglur.

-       Virðingu tilheyrir að taka tillit til og virða sjálfstæði annarra. Þegar það er óvirt með kynþáttafordómum, kynferði, niðurlægingu, ofbeldi, eða hótunum, hafa mörk umburðarlyndisins verið vanvirt.

Eða eins og kirkjuréttafræðingurinn Michael Heinig í Göttingen setti það fram:

,, Umburðarlyndi í evangelisku samhengi merkir ekki að horfa framhjá mismuninum  milli trúfélaga, trúarbragða  og lífsskoðana eða hafna þeim.  En umburðarlyndið hefur mótandi áhrif á það hvernig við mætum mismuninum… „

Það merkir að umburðarlyndi er ekki stöðnun, heldur kraftmikill gjörningur á báða vegu. Það snýst ekki um kjarkleysi eða ótta við andstæðar skoðanir, heldur um stríðandi umburðarlyndi, sem hvetur til að standa fast á sínu, en er fært um samtal, og já, er opin fyrir þvi að læra nýtt og víkka sjóndeildarhringinn. Í fyrra bréfi Páls til safnaðarins í Þessaloniku segir: Prófið allt,  haldið því sem gott er!  (1.Þess.5.21)

7. Siðbreytingin er orðin alþjóðleg.

Sú skilgreining  aðalritara Lutherska heimssambandsins, Martin Junge wirðist mér vera frábær lýsing þróunarinnar undanfarna áratugi.

Hugsun siðbreytingarinnar gerir fólk myndugt til sjálfsábyrgðar. Já, jafnvel svo myndugt að það kýs að lifa án trúarbragða.

Við verðum á þessu ári að mæta kröfum og áskorunum þjóðernishyggju og bókstafshyggju.  Samtal trúarbragðanna er þar lykilatriði ef við viljum leggja eitthvað af  mörkum til friðar.  Við verðum að bregðast við spurningunni um það hvernig við mætum kristnum trúarhreyfingar sem ekki vilja vera hluti hinna hefðbundnu trúfélaga.

Aftur og aftur er því lýst yfir að kirkjan megi ekki vera pólitísk. En hvaða merkingu hefur það þegar bæði Biblían og trúararfur siðbótarinnar senda okkur inn í heiminn miðjan? Siðbreytingarmennirnir lögðu áherslu á að: Lifandi kristindómur felst ekki í því að draga sig í hlé inn í klaustur og einlífi, heldur að vera í miðjum andstæðum heimsins og í ábyrgðinni frammi fyrir Guði.  Konrad Reiser skrifar:[15] ,,Samkirkjuleg umræða hefur á umliðnum meir en þrjátíu árum með virkri þátttöku kirkna siðbreytingarinnar dregið fram í dagsljósið  að ósamræmið í reynslu hin eina heims, er birtingarmynd alþjóðlegrar menningar  eigna-einstaklingshyggju, takmarkalausrar samkeppni, eyðileggingar hins nátturulega grundvallar lífsins að yfirlögðu ráði, og árekstra vegna andstæðra skoðana þar sem beitt er ofbeldi.

Ef siðbreytingin á heimkynni sitt í  þessum heimi verður hún að leggja spurningarsem varða þessi atriði á borðið. Þetta snýst ekki um einhverskonar Lútherpartý  heldur um alvöruna í kröfum og áskorunum okkar tíma.

Að lokum

Leyfið mér að draga saman. Siðbreytingin færði kirkjuna til baka á grundvöll sinn, og gaf fólki frelsi til að hugsa sjálfstætt, líka í trúarefnum, og hún setti Krist og Biblíuna aftur í miðju. Og kirkjur siðbreytingarinnar geta lært og tileinkað sér nýtt. Við fögnum 2017 ekki gegn kaþólikkum heldur undir samkirkjulegu sjónarhorni. Andstaða Luthers gegn gyðingum er yfirunnin. Siðbreyting er ekki atburður einnnar þjóðar heldur atburður sem við deilum með trúsystkinum frá öllum þjóðum. Við erum hluti samfélagsins því að Lúther sá að trúin er varðveitt í heiminum. Þess vegna þurfm við að læra umburðarlyndi sem viðurkennir frelsi trúar og samvisku, en þekkir mæri og mörk umburðarlyndisins sem liggja í frelsi annarra.

Og er það ekki sannarlega ástæða til að halda hátíð ! Ég þakka áheyrnina.


[1] Rússland, Prússland, Austurríki og Svíþjóð börðust gegn herjum Napoleons Bonaparte og höfðu sigur.

[2] Hér er vísað til þess þegar talað er um efra, mið, og neðra Þýskaland. Efra, eða Oberdeutschland miðast við línu sunnan við Main og nær inn í Elsass, þýskumælandi Sviss og hluta Austurríkis

[3] Durchbruch er orð sem í raun merkir hið sama og þegar síðasta haftið rofnar í jarðgöngum.

[4] Orðið Lutherdekade vísar til tíu ára áætlunar kirkjunnar í Þýskalandi EKD til að minnast siðbreytingarinnar 2008-2018.

[5] The Joint Declaration on the Doctrine of Justification 1999.

[6] Europa reformata. Reformationsstädte Europas und ihre Reformatoren, Leipzig 2016.

[7] Vgl. sama rit bls. 59f.

[8] Vgl. sama rit bls 369f.

[9] Vgl. sama rit bls. 115f.

[10] Konrad Raiser, 500 Jahre Reformation weltweit, Bielefeld 2016.

[11] Sama rit bls   154.

[12] Alberto L. García & John A. Nunes, Wittenberg meets the World. Reimagining the Reformation at the Margins, Grand Rapids 2017.

[13] Schilling bls. 209.

[14] Sama rit. bls 627.

[15] Raiser, aaO., S. 221.

url: http://kvi.annall.is/2018-09-27/erindi-dr-margot-kasmann-a-skalholtshatid-2017/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli