kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Nýársdagur 2014 · Heim · Bóas Gunnarsson »

Predikun á nýársdag 2014

Kristján Valur @ 20.42 1/1/14

Í dag sá ég um messu í Langholtskirkju í Reykjavík. Þaðan á ég margar góðar minningar einkum frá þeim sex árum sem ég var félagi í kórnum. Þau ár eru langt að baki. 1968 – 1974. Í dag voru  hjón til kirkju sem líka voru þar sérhvern sunnudag á sínum tíma. Jóhann og Laufey. Þau tilheyra hinum trúföstu. Ekkert haggar þeim eða trúfesti þeirra.    Hér fylgir predikun dagsins.Afmælisárið 2014

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Kæri Langholtssöfnuður. Gleðilegt nýtt ár. Í Jesú nafni.  Í Jesú nafni áfram enn.
Aldrei fer það öðruvísi en svo að þegar gengið er til kirkju hér á Hálogalandshæð, að hátt loga leiftrin í arni minninganna.

Ljóssins herra, lof sé þér,
líkn í hverju tári.
Gef oss styrk að vaka, vinna,
vorri trú og köllun sinna,
nú á nýju ári.

Íslenska útgáfan af Nýjársljóði Mendelssohns og Hebels sem Benedikt mun syngja hér á eftir, var flutt í fyrsta sinn hér í Langholtssöfnuði fyrir 44 árum. Svo oft höfum við staðið í sömu sporum og nú við áramót síðan það var fyrst flutt. Í þakklæti fyrir hið góða sem er liðið og í glaðri von um hið góða sem er í vændum og mun algjörlega setja í skuggann það ljóta og leiðinlega sem æfinlega eltir hið góða og sækir að því. 44 ár eru mörg ár, en ekki langur tími. Nánast eins og örskotsstund þegar þau eru liðin.  Þannig er tíminn og eilífðin þegar þau fallast í faðma og fæða af sér lífið.

Við heilsum nýju ári og bjóðum það velkomið. Við þiggjum þetta ár og öll ár úr hendi hans sem er höfundur tímans og ræður eilífðinni.

Í almáttugri hendi hans,
er hagur þessa kalda lands.

Við heilsum nýju ári í nafni Guðs Föður, skaparans, í nafni Guðs, sonarins Jesú Krists, frelsarans og leiðtogans,  og í nafni Guðs, heilags anda, hjálparans og lífgjafans.
Í nafni Guðs býr máttur hans. Þess vegna helgum við okkur honum, við upphaf hins nýja árs, eins og við upphaf hvers nýs dags. Og við leggjum hið liðna, hið liðna ár og allan liðinn tíma í lófa eilífðarinnar, í hendi Guðs.

Í nafni Guðs er ákall hvert og í Jesú nafni sérhver bæn. Því nafnið hans frelsar, nafnið hans gefur kraftinn sem hann heitir okkur. Nefndu nafnið mitt ef þér liggur lítið við, segir í ævintýrunum. Hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra,   (Jh 14:13-14), segir í alvörunni. Jesús Kristur.

Vertu Guð faðir faðir minn
í frelsarans Jesú nafni
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni

Nú er ég klæddur og kominn á ról,
Kristur Jesús veri mitt skjól,
í guðsóttanum gef þú mér
að ganga í dag svo líki þér.

Við heilsum nýju ári. Það er afmælisár. Fjórar aldir eru liðnar frá fæðingu Hallgríms Péturssonar. Hvernig munum við minnast þess?  Hversu þýðingarmikill er kristinn trúararfur þjóðarinnar, og hversu þýðingarmikil er trúariðkunin?

Fullvíst má telja að enginn hafi komið við sögu trúarlífsins í landinu með sama hætti og Hallgrímur Pétursson. Það sést best á því að enn eru vers hans fastur liður í bænahaldi þjóðarinnar. Og jafnvel eru falleg vers sem hann ekki samdi, eignuð honum. Hann er ennþá heimagangur á langflestum heimilum þessa lands.  Grunnur að bænaiðju allra þeirra sem biðjast fyrir í þessu landi eru bænaversin sem hann lagði okkur á tungu.

Hallgrímur Pétursson skipar veglegan sess í kirkjulífi og trúarlífi þessa lands, ekki aðeins þjóðkirkjunnar heldur allra kristinna trúfélaga. Áhrif hans til mótunar og blessunar eru stærri og meiri en svo að mælanleg séu með ágiskunum. Þess vegna væri verðugt verkefni á afmælisári að kanna það, og ekki aðeins hversu mikil þau séu, heldur einnig hversvegna þau séu.
Eitt svarið er augljóst. Vers Hallgríms eru oftar en ekki hluti af bænahefð foreldranna sem þau miðla til barnanna í kvöldbænum þeirra.  En þar, í  kvöldbænahefðinni, er einmitt að finna  eina hina stærstu ástæðu þess hversu djúpum, föstum rótum kristin trú stendur meðal fólksins í landinu.

Þess vegna er arfleifð Hallgríms Péturssonar ekki einungis hluti trúariðkunarinnar og kirkjustarfsins, heldur er hún mjög sterkur þáttur í menningararfleifð Íslendinga. Vægi Hallgríms Péturssonar í menningarsögu þessa lands er miklu meira en margra þeirra sem oftar er getið, og væri verðugt verkefni að skoða einnig það nánar á afmælisári.

Við heilsum nýju ári. Það er afmælisár. Sjötíu ára afmæli lýðveldisins Ísland er framundan.  Hvernig munum við minnast þess?  Hversu þýðingarmikið er lýðveldið?  Hversu þýðingarmikið er frelsi þjóðar og frelsi lands?

Við lifum í veröld sem annarsvegar þenst út á ógnarhraða og verður sífellt stærri og stærri ef marka má sérfræðinga á sviði þeirra vísinda sem rannsaka himindjúpin og vetrarbrautirnar, en hinsvegar verður sú veröld sem við best þekkjum á hnettinum jörð, sífellt minni og minni. Við lifum í einu litlu þorpi, í heimsþorpinu, og erum hér á Íslandi hluti þeirrar heildar með margskonar skuldbindingar og samþykktir og sambönd sem snerta aðrar þjóðir jafnvel meira en okkur, en við erum þó hluti af. Við hljótum að standa föstum fótum í því samhengi, þó við skiljum ekki alltaf nauðsyn alls regluverksins.
Það er reyndar ekki nýtt. Meðan við vorum hluti af danska ríkinu tóku gildi hér ýmisskonar lög og reglur við það eitt að vera þýdd á íslensku og lesin upp í heyranda hljóði. Þess vegna tóku hér gildi lög um umferð hestvagna á Indlandi á sínum tíma.

Ef það er einhvers virði að vera maður sjálfur, skyldi þá ekki líka vera einhvers virði að vera þjóð, og að vera fólkið í landinu, þar sem hver einstaklingur er svo óendanlega dýrmætur, og við svo fá að við erum alltaf í fjölskylduboði, og samt erum við að reyna að vera eins og milljónaþjóð, og hafa allt og missa ekki af neinu því sem milljónaþjóðirnar hafa, nema gallana á þess konar samfélagi, nafnleysið, vonleysið, fátæktina, þýðingarleysið, áhrifaleysið.  Einn lítill kall í milljónaþjóð er jafn bjargarlaus gagnvart áhrifavöldum í stjórnmálum og stefnumálum sinnar þjóðar eins og við andspænis náttúruöflunum, og þó er sá munur á að við eigum syni og dætur sem jafnvel rísa upp gegn náttúruöflunum eins og hin ógleymanlega glíma nokkurra manna sýndi sem börðust með vatnsbunum gegn framrás hraunsins í Vestmannaeyjagosinu, og fólkið sem þraukaði og sigraði öskufall Eyjafjallajökuls.

Aðeins eitt er jafn erfitt viðfangs allstaðar. Það er framrás hins óheftanlega straums peninganna.
Hvað er ógnvekjandi fyrir framtíð þjóðarinnar og kirkjunnar og samspil beggja? Eldgos, jarðskjálftar, veðurhörkur, uppskeru- og aflabrestur ?  Nei ekkert af þessu.  Allt þetta þjappar þjóðinni saman, en sundrar henni ekki.

Hættuleg og sundrandi er hin hömlulausa peningadýrkun.

Þegar peningar eiga að búa til peninga og vinna fyrir eigendur sína sem þurfa ekki að gera neitt nema horfa á þá margfaldast.
Peningar hafa ekki tilfinningar, ekkert siðferði, engin viðmið önnur en að fjölga sér óheft, eins og maðkafluga í rotnandi fiski.
Og á meðan sviðnar jörð, heimili brotna, fjölskyldur bugast, einstaklingar taka eigið líf.
En peningarnir vaxa á sínum sérstöku ökrum.

Hvað er hættulegast kristinni trú og kirkju?  Ekki andstæðingar hennar, ekki hælbítar innan hennar, heldur peningjahyggjan sem vill hafa gróða af öllu og einnig af helgidómunum.

Það eru ekki líkar kirkjur í Skálholti og á Þigvöllum, en það sem er þeim sameiginlegt er hin einlæga trú þeirra sem vitja þeirra sem tilbeiðsluseturs. Satt er það að margir sem ganga inn í Þingvallakirkju eða Skálholts-dómkirkju sýna ekki á sér nein ytri merki tilbeiðslunnar, og maður gæti haldið því fram að þeir væru bara að skoða hús.  En hinn mikli fjöldi þeirra sem signir sig og sest niður, tendrar bænaljós og biðst fyrir, birtir lifandi mynd tilbeiðslunnar.

Það er mikil blessun að fá að vera í senn starfandi í Skálholti og prestur á Þingvöllum. Það vottar sá er hér stendur. Dómkirkjan í Skálholti er fagur helgidómur. Hún gegnir enn sama móðurhlutverki meðal kirkna landsins og þær kirkjur sem þar stóðu áður.  Litla kirkjan  á Þingvöllum minnir hinsvegar  á vöggu. Það er ekki aðeins af því að hún er ekki stærri en hún er, heldur vegna þess að á Þingvöllum var kristnin lögð í vöggu landsins fyrir þúsund árum. Sannarlega eru Þingvellir annarskonar helgistaður og helgidómur en Skálholt vegna þess að Þingvellir eru helgistaður alls fólksins í landinu hverrar trúar sem það er. En framhjá því verður ekki horft að Þingvellir eru helgur reitur allra kristinna manna, bæði þeirra sem þetta land byggja og alls hins kristna heims, vegna þess með hvaða hætti „við trúnni var tekið af lýði.“ og um það vitnar Þingvallakirkja með sama hætti og Skálholtsdómkirkja, og allar kirkjur og bænahús þessa lands og alls heimsins. Einmitt þess vegna mun hin litla kirkja á Þingvöllum fagna sérstaklega því að lýðveldið á afmæli, með því að efla og auka sitt helgihald og sína tilbeiðslu á afmælisárinu 2014 í fögnuði yfir því að fá að vera til og búa við það frelsi og það öryggi. Sannarlega er Þingvallasöfnuður smávaxinn og ekki burðugur til stórræða, en um leið er hann söfnuður alls landsins og alls heimsins, og Þingvallakirkja sóknarkirkja en einnig kirkjan í þjóðgarðinum sem hefur það hlutverk að minna sífellt á þann grunn sem bæði kirkjan og þjóðin öll í þessu landi stendur á.

Ég nefni Skálholt og Þingvelli því það eru þeir kirkjustaðir sem ég þekki best í seinni tíð.  Það eru staðir tilbeiðslunnar og þangað streyma þúsundir. Þetta eru staðir fyrir augliti Guðs sem kallar þúsundirnar til sín. Við eigum ekki að falla í þá freistni að horfa á mannfjöldann sem sækir þá heim með augum ferðaþjónustunnar eingöngu þó ferðamenn séu. Þó að fjölgi þeim sem sjá í fjöldanum sem streymir inn í Skálholtsdómkirkju  allt árið um kring, rétt eins og inn í Þingvallakirkju, þegar við getum haft hana opna, tækifæri til að græða peninga, þá er það ekki hlutverk þeirrar þjónustu sem við veitum þar.

Hin óhefta pengingahyggja er bölvun kirkjunnar og kristninnar og alls siðmenntaðs lífs. Langholtskirkja og söfnuður hafa sannarlega ekki farið varhluta af þessari hugsun peningastofnana sem er sama um allt nema peninga og meiri peninga.

Sannarlega getum við ekki verið án peninganna. En við þurfum að beisla vald þeirra til góðs. Peningar eiga að þjóna hinu heilaga, en ekki selja það eða reyna að græða á því.

Sannarlega þurfum við að halda í horfinu og standa í skilum. Sannarlega þurfum við að gæta þess að eiga fyrir útgjöldum, hvort sem er á heimilinu eða í söfnuðinum, en gróðafíknin er fædd af fjandanum eins og allar fíknir, hverju nafni sem þær nefnast og okkur ber að standa í ístaðinu gagnvart þeim öllum.

Við heilsum nýju ári. Það er afmælisár. Tvöþúsund og fjórtánda ár eftir Krists burð. Það er alveg sama hvert ferðast er um heiminn og hvaða trúarbrögð eða lífsskoðanir ríkja þar. Allir vita að ártalið sem heimurinn miðar við er tengt við komu Jesús Krists í heiminn. Hvernig munum við minnast þess?  Hversu þýðingarmikill er Jesús Kristur?

Enginn getur svarað því nema fyrir sig.
Söfnuður Jesú Krists á jörðu er líkami hans, píndur, brotinn, krossfestur og lífvana, en upprisinn, endurnýjaður og væntanlegur í dýrð. Hann getur svarað því  fyrir sig hver hann er og hversu þýðingarmikill. Því ekki mun hann afneita sjálfum sér.

Stærsta hlutverk okkar, hins kristna safnaðar, á hinu nýbyrjaða ári er að varðveita trúna, og fara áfram með vers Hallgríms, að játa nafn Jesú Krists með trúariðkuninni, með reglulegri kirkjugöngu, föstu bænahaldi og vitnisburði og með trúaruppeldinu, til þess að kristin trú megi áfram vera leiðsögn handa þjóðinni og ein af stærstu máttarstoðum samfélagsins, til farsælda fyrir fólkið í landinu.  Við skulum gera það í þeirri þolinmæði og með því umburðarlyndi  gagnvart þeim sem vilja fara aðrar leiðir í trúarefnum, eða jafnvel alls enga sem hefur verið einkenni þjóðkirkjunnar til þessa og gerir hana hæfa til að mega vera áfram þjóðkirkja á árinu þegar fagnað er afmæli Hallgríms Péturssonar og afmæli lýðveldisins Ísland.

Í ár og ævinlega.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og heilögum Anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen

url: http://kvi.annall.is/2014-01-01/predikun-a-nyarsdag-2014/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli