kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Guðrún Ólafsdóttir Minningarorð · Heim · Nýársdagur 2014 »

Ásdís Sigfúsdóttir. Minningarorð

Kristján Valur @ 22.02 30/5/12

Ásdís Sigfúsdóttir f. 27.nóvember 1919. d. 20.maí 2012. Útför frá Langholtskirkju miðvikudaginn 30.maí.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Það sem kallað  hefur verið ljóð Páls postula um kærleikann, byrjar eins og barið sé þrisvar að dyrum.

Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.

Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
(1.Kor. 1.- 3.)

Við komum saman við kistu Ásdísar Sigfúsdóttur og búum okkur undir að bera hana til síns hinsta hvílustaðar á jörð, því að moldin hverfur sannarlega aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, þegar andinn fer til Guðs sem gaf hann. Til Guðs sem er upphaf og takmark kærleikans. Til Guðs sem er kærleikurinn sjálfur. Hann sem gefur lífið og heldur því við og hann sem hefur dauðann á valdi sínu. Sigur lífisins yfir dauðanum staðfestir hann margsinnis í lífi sérhverhvers manns, þó að við séum sum stundum of upptekin til að taka eftir því, meðan önnur fylgjast með því dag frá degi og fá staðfestingu þess í eigin lífi og í lífi sjálfrar náttúrunnar, í hverju smáblómi jafnt og sterkustu trjábolum. Og allt byggir það á þeirri fullkomnu sannfæringu að með upprisu Jesú Krists frá dauðum hafi Guð gefið okkur börnum sínum sjálfa endurnýjun lífsins, tekið burtu allt hið óhreina og spillta og gefið okkur hreinleikann og sakleysið til baka  og með því sigurinn yfir dauðanum. Eilíft líf með Jesú Kristi í kærleiksríkum faðmi Guðs með öllum þeim sem hann geymir þar.  Engillinn sagði við konurnar. Hann er ekki hér, hann er upprisinn. Sjá þarna er staðurinn sem þeir lögðu hann. (Mark.16.6)

Það er gott að lifa lífi sínu dag frá degi í þessari trú, og að sofna í þeirri trú eins og Ásdís Sigfúsdóttir, er öruggasti móðurfaðmur sem til er.

Við nemum staðar á vegamótum  þegar liðinn er lífsdagur sem spannar nærri heila öld.  Það er því ekki aðeins hennar eigið lífsskeið sem við minnumst og sjáum fyrir okkur með einhverjum hætti, heldur gætum við kallað það  kafla í sögu lands og þjóðar eða kafla menningarsögunnar í víðu samhengi.

Það var samkomulag okkar Ásdísar að þessi minningarorð yrðu ekki upptalning á smáatriðum, enda yrði það langur lestur, eftir svo langa ævi. Við vorum hinsvegar ekki sammála um það hvað væru smáatriði. Við sem komum hér saman í dag til að kveðja og þakka búum til okkar eigin minningarorð í huganum, og munum sjálf flétta saman þætti sem hún vildi kalla smáatriði, en við höfum allt annan skilning á því.

Ásdís fæddist inn í heim íslenskrar bændamenningar sem nú er að mestu leyti horfinn. Um sumt má segja, sem betur fer, en um annað, því miður. Sumum hefur tekist vel að fylgja þeirri þróun sem orðið hefur á þessum langa tíma, í sátt og í jafnvægi. Ásdís tilheyrir þeim hópi. Það var, eins og svo margt annað, blessun hennar lífs.

Ásdís Sigfúsdóttir fæddist hinn 27. nóvember árið 1919 í Vogum í Mývatnssveit. Hún var dóttir Sigfúsar Hallgrímssonar bónda og organista í Vogum  og Sólveigar Stefánsdóttur frá Öndólfsstöðum í Reykjadal. Þau Sólveig og Sigfús eignuðust 10 börn og komust átta til fullorðinsára. Ásdís var fimmta barn þeirra hjóna. Elsta barnið, stúlka, dó sama dag og hún fæddist, næst elst var Ólöf  og hún dó  á fjórtánda ári. Látin eru nú einnig systkinin Bára, Stefán og Valgerður, eftir lifa  Hinrik, Sólveig Erna, Jón Árni  og Guðfinna Kristín.

Ásdís ólst upp í Vogum í fjölmennum hópi fjölskyldu og frændfólks. Heimilislífið var að því leyti frábrugðið hinu hefðbundna, að söngur og hljóðfæraleikur var þar óvenjulega ríkur þáttur. Sólveig hafði lært söng og Sigfús hljóðfæraleik og hafði annast orgeleik og söngstjórn í Reykjahlíðarkirkju frá unga aldri. Ásdís fékk tilsögn í orgelleik hjá föður sínum og söng nánast frá fyrstu stundu til sinnar síðustu.

Hún var alltaf bundin Vogaheimilinu sterkum böndum og dvaldi að heita má sérhvert sumar þar heima meðan foreldrar hennar lifðu og gekk í öll störf innan dyra sem utan.  Fyrir það voru þau mjög þakklát, eins og  sést af þessari línu úr bréfi Sigfúsar í Vogum til vinar síns:  Og svo gaf guð okkur elsku Ásdísi, sem ekkert vill ljótt sjá af því hún er svo góðhjörtuð.

Veturinn 1940-1941 stundaði hún nám við við Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal og veturinn  á eftir 1941- 42 starfaði hún sem húsmóðir við Héraðsskólann á Laugum.

Haustið 1942 hélt hún hingað suður til Reykjavíkur og hóf nýtt tímabil ævi sinnar. Menntun hennar frá Laugum reyndist henni gott veganesti, eins og reyndar uppvaxtarárin öll í Vogum.

Hér í Reykjavík starfaði hún um hríð á saumastofu hjá kjólameistara og lærði þar kjólasaum. Það kom sér vel fyrir marga. Hún var einnig í vist, sem kallað var, en vann annars lengst við matreiðslu.

Þetta var árstíðabundin vinna. Hún var  fyrir norðan á sumrin, fyrir sunnan á vetrum.  Þótt ekkert væri víst um vinnu þegar lagt var af stað að norðan leið aldrei á löngu að vinna var fundin. Það leit hún alltaf á sem sérstaka blessun og handleiðslu.
Hún var nægjusöm og gerði ekki miklar kröfur til lífsins eða þæginda þess. Reykjavík var að sönnu dvalarstaður, en þar var ekki heima. Það var í Vogum.

Davíð Stefánsson yrkir svo í kvæði sínu : Við Sellandafjall:

Hver er hann þessi sefjandi seiður
er sættir við lítil kjör
Geta það verið eyjar og andir
og egg og reyður og stör?
Hér er vargur og vetrarharka
og veiðin stopul og treg.
Það hlýtur að vera hlýrra að búa
í húsi við Laugaveg.

Veturinn 1947 – 1948 réðist Ásdís í vist til hjónanna Ástu Jónsdóttur og Bjarna Ásgeirssonar bónda og alþingismanns á Reykjum í Mosfellssveit. Bjarni var þá landbúnaðarráðherra. Þetta varð örlagaríkur tími í ævi Ásdísar. Hún fór norður  um vorið og  þann 19. febrúar árið 1949 fæddist henni dóttir sem hlaut nafnið Sólveig Ólöf. Faðir hennar var Jón M Guðmundsson á Reykjum, bróðursonur Ástu.

Ásdís bjó heima í Vogum samfellt næstu ár eða 1948 – 1953 þar til Sólveig var fjögurra ára. Þá tók Ásdís þá ákvörðun að framtíð hennar væri ekki í Mývatnssveit og  þær fluttu til Reykjavíkur.  Í framhaldi af því þá varð einnig til það góða samband við föðurfólk Sólveigar á Reykjum sem varð ríkuleg blessun allra.

Þó að nýtt og varanlegt Reykjavíkurtímabil væri hafið hét það eftir sem áður alltaf að fara heim, þegar farið var norður í Voga.
Hugurinn til sveitarinnar, og skilningurinn á lífinu,  endurspeglast vel í ljóði Einars Benediktssonar um Slútnes:

Og vorperla, leyfðu ljósinu inn
í litla, viðkvæma barminn þinn,
því senn dökknar aftansins sólroða kinn
og sumrið er byrjað – að líða.”

Eg veit að alt er af einu fætt,
að alheimsins líf er ein voldug ætt
dauðleg, eilíf og ótalþætt
um afgrunns og himins slóðir.

Blaðvarir hvísla svo hljótt þitt mál
ég hallast að bikarsins lifandi skál
mér finnst eins og speglist fjötruð sál
í frjóhnappsins daggarauga.

Ásdís starfaði  m.a. sem matráðskona í Skíðaskálanum í Hveradölum, í Laugarnesskólanum um árabil og hjá Vegagerð Ríkisins fram til starfsloka árið 1980.

Þær mæðgur bjuggu á ýmsum stöðum og höfðu lengi lítið umleikis, en þó það sem þurfti og bar ekki á nokkrum skorti. Aftur  má vísa í bréf Sigfúsar í Vogum þar sem hann segir um Ásdísi:  og miðar uppeldi dóttur sinnar við að hún sé sem best siðfáguð og kurteis.”

Árið 1964 fluttu þær í Eskihlíð 22 þar sem Ásdís hélt heimili fyrir þá nafna Jón Sigurðsson, sem flestir kalla afa Jón, og Jón Stefánsson sem á því ári tók við organistastöðunni hér í Langholtinu.

Ásdís hafði sungið með Liljukórnum undir stjórn Jóns Ásgeirssonar en hér í Langholtskirkju varð hennar söngheimili alla tíð og alveg sérstaklega ánægjulegur kafli í lífssögu hennar. Hún var stolt af frænda sínum og gladdist yfir öllu sem hann gerði og samfélagið í kórnum gaf henni þá lífsfyllingu sem við þekkjum , og hvergi er að finna með sama hætti nema í kór.

Ásdís hafði gaman af að segja frá. En hún sagði ekki sína eigin sögu nema óbeint. Hún sagði sína sögu með því að segja sögu einhverra annarra. Mest sagði hún sögu fjölskyldunnar þar sem Sólveig Ólöf var eðlilega oftar en ekki í aðalhlutverki. Hún var hennar stærsti fjársjóður, og um leið lífstilgangur, sem svo færðist yfir á Pétur og hans fólk og börnin og barnabörnin. Sérstakan sess skipaði svo fjölskylda Jóns á Reykjum, föður Sólveigar. Margt hefur breyst í mannlegum samskiptum gagnvart einstæðri móður og flest til bóta, en einmitt þess vegna þykir mörgu yngra fólki margt sérstakt í hinu liðna. Það samband sem myndaðist við fjölskyldu Jóns á Reykjum var auðvitað öllum blessun, og mest Sólveigu sjálfri. Föðurlaus í bókstaflegum skilningi þess orðs var hún sannarlega ekki.

Sólveig Ólöf er gift Pétri R. Guðmundssyni. Þau Sólveig og Pétur eiga fjögur börn:

Það eru Guðmundur Hrannar,  kona hans er  Elín B. Gunnarsdóttir og dætur þeirra eru Eva Sólveig,  Ásdís Eir, og Erla Margrét.
Birgir Tjörvi, kona hans er Erla Kristín Árnadóttir og börn þeirra eru Kristín Klara, og Árni Pétur.
Ásdís Ýr, maður hennar er Haraldur Örn Ólafsson og börn þeirra eru Sólveig Kristín, og Ólafur Örn.
Bryndís Ýr, maður hennar er Jürgen Maier. Börn þeirra eru Ísak Þorri, Freyja, og Marta,

Hvað var það sem einkenndi líf Ásdísar Sigfúsdóttur umfram annað?  Því má raði í fimm stef og  öll stór: Fjölskyldan, tónlistin, heimasveitin, andlegt líf og náttúran og gróandinn.

Ásdís var í senn skilgetin dóttir íslenskrar sveitamenningar eins og hún gerðist best á mestu mektarárum Mývatnssveitar, og hún var stáss- og hefðardama vaxandi borgarmenningar. Samt var hún aldrei neitt annað en fátæk móðir. Það sem ræður úrslitum er það hvernig maður bregst við aðstæðum sínum. Hún var meistari í því. Hún var skipulögð og flanaði ekki að neinu. Hún mætti undirbúin.  Hún stendur ekki heldur óundirbúin við hlið himinsins.
Hvernig bregst maður við aðstæðum sínum?  Kannski eins og Páll postuli í fangelsinu:  (2.Kor. 6, 10)  … með grandvarleik, þekkingu, þolinmæði og mildi, með heilögum anda, með falslausum kærleika,  … hrygg en þó ávallt glöð, fátæk en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.

Ásdís var mjög sjálfri sér samkvæm um útlit og klæðaburð, og enginn kom svo óvænt að hún kæmi ekki vel til höfð til dyra. Hún hafði mikla ánægju af að taka á móti fólki og gefa því veitingar. Á heimili hennar var alltaf gestkvæmt. Systkinabörn hennar bjuggu hjá henni á námsárum sínum  mánuðum og jafnvel árum saman, og aðrir ættingjar þegar sinna þurfti erindum í höfuðborginni um lengri og skemmri tíma.
Gestrisni hennar var viðbrugðið. Í þeirri sömu gestrisni er ykkur öllum boðið að þiggja veitingar hér í safnaðarsalnum að lokinni þessari athöfn. Og þau ykkar sem ekki farið í garðinn biðjum við að gefa ykkur góðan tíma yfir kaffinu, svo að þegar fólkið kemur allt til baka verði  hægt að syngja að gömlum sveitarsið. Þið gætuð jafn vel æft nokkur lög meðan þið bíðið.

Kórinn gaf mér stóran kertastjaka þegar ég vígðist.  Ég tók á móti honum hérna hinummegin við þilið.  Á honum strendur; Gefðu þig sem kveikur ljósi kærleikans. Þessi fallegu orð eru örugglega valin af fermingarföður mínum séra Sigurði Hauk. Ég skal játqa að ég hef aldrei getað gert það sem áletrunin biður um. En það gat Ásdís. Áreynslulaust og eðlilega og hefði aldrei samþykkt að það væri svo, enda tók hún ekki eftir því sjálf.
Hún var oftar upptekinn af þörfum annarra en eigin þörfum og fann sína lífsfyllingu í því.

Ég átti að muna að þakka ykkur öllum sem hingað komið í dag til þessarar kveðju- og þakkarstundar. Og ég átti að þakka kórnum og þeim hjónum Ólu og Jónsa. Og svo átti ég að þakka öll mörgu handtökin í undirbúningi þessarar athafnar, þótt hún reyndar orðaði það ekki nákvæmlega þannig. En mest er þörf á því að þakka þessa löngu samfylgd. Með ykkur. Þessa ánægjulegu og gefandi samleið með ykkur.Þegar maður horfir til hennar, þá er gott að halla sér. Mér finnst að ég hafi líka átt að segja það.

Ásdís var listræn og hafði öflugt fegurðarskyn. Hún hafði unun af lestri góðra bóka, ekki síst ljóðabóka.  Hún hafði mikla frásagnargáfu og festi minningar sínar á blað fyrir afkomendur sína. Hæfileikar hennar fengu einnig að njóta sín í listmálun og ljóðaskrifum.
Hún segir um sumarnóttina:

Ó, þú fagra sumarnótt
með fallegu litina þína.
Hvert fórstu, hvar get ég fundið þig,
hver vill mér leiðina sýna?

Það var svo indælt á meðan þú varst
með björtu litina þína,
sofna og vakna og vita að þú gast
gefið svo margt og þitt lillaða skart
og síðan fór sólin að skína.

En ég veit það svo vel þú ert farin um sinn
til að safna birtu í forðann þinn.
En þú kemur aftur með blæjuna björtu
og breiðir svo ljúft yfir vanga og hjörtu
.
(Ásdís Sigfúsdóttir)

Ásdís  hafði yndi af að annast heimili sitt og búa það fallega af mikilli alúð fram undir það síðasta. Hún hafði reyndar áhyggjur af því síðustu árin að kannski yrði einhvern tíma hjá henni eins og hjá gömlu fólki. En auðvitað varð það aldrei. Nálgun hennar að því  var alltaf jafn ung.

Hún lagði mikla alúð við að fegra umhverfi sitt og vann sérstaklega að uppbyggingu á fjölskyldulundinum í Vogum, í Húsnestá.  Þegar hún flutti í Hörðalandið tók hún til við að rækta garðinn sinn þar sem varð eins og lítill skrúðgarður. Það er lítill heimur í fermetrum en fullkominn og óendanlegur í eðli sínu, og ber höfundi sínum fagurt vitni.
Henni var annt um landið og umhverfið og þekkti vel samspil manns og náttúru og  byrjaði snemma að nýta jurtir til heilsubótar og sótti hollustu og heilbrigði til gróandans og jarðarinnar. Og nú leggjum við líkama hennar til hinstu hvilu í faðmi móður jarðar, meðan andi hennar fer til fundar við frelsara sinn  á himnum.

Far þú í friði Ásdís Sigfúsdóttir,
friður Guðs þig blessi
og hafðu þökk fyrir allt og allt.
En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2012-05-30/asdis-sigfusdottir-minningarord/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli