kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Viðbætur við svör við spurningum · Heim · Ásdís Sigfúsdóttir. Minningarorð »

Guðrún Ólafsdóttir Minningarorð

Kristján Valur @ 21.30 15/3/12

Í dag var Guðrún Ólafsdóttir á Efra Lóni á Langanesi borin til moldar. Hún var komin yfir nírætt, en hún geymdi samt í sér alla tíð einhvern dularfullan æskubjarma. Hún var listamaður. Ég þjónaði Sauðanesi í forföllum 1975-1977. Hún var organistinn minn. Organistar eru oftast nánustu samstarfsmenn prestanna. Við Guðrún messuðum aldrei saman eftir að ég fór frá Raufarhöfn 1977. Samt var hún alltaf organistinn minn.

Guðrún Ólafsdóttir  Minningarorð

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Ritað er í fyrstu  bók Biblíunnar:

Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns,þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar,því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa! 1M.3.19

Og í síðust bók Biblíunnar er ritað, eins og við heyrðum hér lesið:
Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.  Hið fyrra er farið. Opb,21.4

Tveir textar. Annar um hið jarðneska og skammvinna, hinn um hið himneska og eilífa.Skáldið Einar Benediktsson tengir þetta tvennt saman í versinu:

Til moldar oss vígði hið mikla vald,
hvert mannslíf sem jörðin elur.
Sem hafsjór er rís með fald við fald
þau falla en Guð þau telur
því heiðloftið sjálft er huliðstjald
sem hæðanna dýrð oss felur.
(Sb.418,1.2.)

Þegar einhver kveður úr okkar hópi erum við vön að eiga áningarstað í kirkjunni þar sem við berum hinn látna fram  fyrir auglit Guðs og þökkum fyrir líf hans eða hennar, og biðjum Guð að taka á móti þeim í eilífu ríki sínu. Þannig túlkum við einnig dauðann. Sem áfanga á leiðinni  heim til Guðs.
Í ljósi upprisutrúarinnar er það líka sannleikurinn. Að Jesús reis upp frá dauðum, og sigraði dauðann fyrir okkur.
Samt er dauðinn  aldrei annað en óvinur lífsins.Dauðinn er óvinur vegna þess að hann tekur frá okkur þau sem við elskum.

Ég er upprisan og lífið, segir Jesús Kristur.
Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.
(Jh.11.25)

Jesús glímir við dauðann, og hefur sigur. Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín, segir hann við lærisveinana.

Við elskum hið jarðneska líf  af því að það er  elskuvert. Það er lífið í allri sinni dýrð, í fegurð og tign fólksins, fjallanna,  lækjanna, lindanna, í söng fuglanna og í suði flugnanna, í tryggð dýranna og  jarmi lambanna, í þokka mannanna og yndisleik barnanna, -  í ilmi jarðar og moldar undir sól og regni.

Lífið er okkur  kært og dauðinn óvinur, líka þótt hið himneska taki hinu jarðneska fram. Skýringin liggur í eðli mannsins. Hann er mold og heyrir jörðinni til, og  hann væri ekkert nema mold nema af því að Guð hefur blásið lífsanda í  moldina. Það er andi, fæddur af hans og hverfur til hans aftur um eilífð þegar lífsdagur er liðinn og hin jarðneska tjaldbúð fellur til jarðar. Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var, segir Predikarinn, en andinn til Guðs sem gaf hann.
Jesús Kristur býr honum stað á himni  sem er svo dýrmætur að hann lætur líf sitt til að tryggja hann.   Og staðfestir þá gjöf í undri upprisunnar.

Við komum saman til að kveðja aldraða konu að loknum löngum starfsdegi sem var fagur og bjartur og ávaxtaríkur. Það er gott að mega kveðja í  fullvissu þess að ekki mun minni birta yfir þeirri vegferð sem bíður að liðnum degi, en sú sem lýsti hina fyrri.

Dauðinn er alltaf ógnvænlegur. En að deyja í sátt við líf sitt og í glaðri von þeirrar trúar sem festir traust á eilíft líf fyrir sigur Jesú Krists yfir dauðanum, það er ekki ógnvænlegt. Það er  friðsælt. Eins og þegar sólin sest við hafsbrún í heiðríkju. Og eins og að koma heim, þar sem vinir bíða í varpa.

Ég hefi beint til ykkar þessum orðum er við nú komum saman til að heiðra minningu látinnar systur.

Guðrún Ólafsdóttir sem hér er kvödd var fædd þann 11. desember árið  1919 á Ytra Álandi í Þistilfirði, eldri dóttir hjónanna Ólafs Hjartarsonar frá Flautafelli  (f. 2.9. 1894,  d. 1.9. 1923)  og Hólmfríðar Stefánsdóttur frá Efri Hólum  (f. 13.3. 1896, d. 25.6 1929.) Yngri dóttir þeirra var  Ólöf f. 1923, hún lést 1991.

Guðrún bjó ásamt foreldrum sínum á Ytra-Álandi í Þistilfirði til 1922 en þá fluttu þau til Reykjavíkur þar sem faðir hennar starfaði við smíðar. En hans naut ekki lengi við. Ári síðar, 1923 dó hann úr berklum. Móðir hennar bjó með dætrunum tveimur um hríð áfram í Reykjavík, við Skólavörðustíginn og þaðan átti Guðrún margar bernskuminningar. Svo fluttu þær aftur norður í Ytra-Áland þar sem móðir hennar hélt áfram búskap meðan heilsan leyfði. En berklarnir tóku hana líka. Hún lést 1929 þegar Guðrún var á tíunda ári. Þær systur Guðrún og Ólöf fluttust þá að fullu í Laxárdal í Þistilfirði, og ólust þar upp hjá móðurömmu sínni Guðrúnu Guðmundu Þorláksdóttur og  seinni manni hennar, Ólafi Þórarinssyni, til fullorðins ára.
U
ppvaxtarár Guðrúnar liðu við almenn sveitastörf og fáeinar vikur á farskóla. Hún var góðum tónlistargáfum gædd að eðlisfari og því var afdrifaríkt að hún fékk ung orgelkennslu í sex vikur, hjá Ara Jóhannessyni, kennara, og organista við Sauðaneskirkju.  Það reyndist henni drjúgur skóli.
En á þessum árum fékk hún margt annað í veganesti sem entist henni alla tíð,  eins og næma tilfinningu fyrir náttúrunni og vernd hennar, fegurðarskinið og glöggsýnina á hið smáa, og ást á jurtum og plöntum og dýrum.

Guðrún hélt til náms við Samvinnuskólann haustið 1936 og lauk þaðan prófi vorið 1938. Meðan á námsdvölinni stóð söng hún með Tónlistarfélagskórnum undir stjórn Victors Urbancic, ýmiss kórverk stór og smá. Líkast til vegna þess fékk hún aukinn áhuga á þýsku og stundaði síðar nám í þeirri grein hjá sendikennara við Háskóla Íslands,sem nýttist henni vel. Hún stundaði einnig píanónám nokkra hríð.

Eftir útskriftina frá Samvinnuskólanum fór Guðrún aftur norður. Hún var einn vetur hjá föðurbróður sínum séra Hermanni Hjartarsyni á Skútustöðum en annars í Þistilfirði. Og svo fundust þau Sigurður Jónsson á Ytra Lóni. Það varð upphaf að samferð þeirra sem varaði ætíð eftir það og ástin sem fyrst kviknaði kulnaði aldrei.

Ástir mannanna eiga samhljóm í fegurð náttúrunnar, allavega við Þistilfjörð.
Einar Benediktsson horfði út á Þistilfjörðinn á vorkvöldi og sagði:

Nú vefjast saman varmi og bjarmi
sem viðarkróna á einni rót,
þar sjór og himinn saman ganga
um sólskinsnótt á ástamót.

Sigurður var fæddur í Fagranesi á Langanesi 1911 en fluttist með foreldrum sínum að Ytra Lóni 1930. Þau Guðrún gengu í hjónaband 20. júní 1942, og ári síðar fluttu þau að Efra Lóni þar sem þau áttu sitt heimili í fjóra áratugi og höfðu þar hefðbundinn búskap.

Húsmóðurstörfin tóku  eðlilega mestan tíma Guðrúnar, en hún var líka um tíma kennari við farskólann á bænum, og hafði líka námskeið í ýmsum fögum og tók  nemendur heim til sín til þess. Sjálf var hún óþreytandi að bæta við sig öllu því sem hún gat sinnt í sjálfsnámi. Lífið tók á sig margskonar myndir sem vert væri að skrifa um heilar bækur, en sjálf skrifaði hún á laust blað þessa vísu:

Hér verður eyða, og aldrei neitt skrifað
um það – hvernig var starfað og lifað
Ein og ein smámynd mun ef til vil geymast
annað er líklegast til þess að gleymast

Óhætt er að segja að þau Sigurður og Guðrún hafi verið samhent hjón. Þau voru ólík en jafnframt mjög sterk saman. Þau voru í bókstaflegri merkingu útverðir þeirrar  menningarsögu og byggðasögu sem óhjákvæmilega var á tímamótum þegar þau hófu búskap. Sú byggðaþróun sem hófst á stríðsárunum  varð ekki stöðvuð þegar frá leið. Það tók á Sigurð og hann barðist hart fyrir tilvist byggðarinnar. Hann var eldhugi, en hann var einhver yfirlætislausasti eldhugi sem ég hef nokkru sinni hitt.

Hann gegndi því sem næst öllum ábyrgðarstöðum fyrir sína byggð sem sinna þurfti og sumum öllum í einu. Þetta merkti að allir áttu erindi í Efra Lón. Og stundum stóðu fundir allan daginn.

Heimili þeirra hjóna, þótt lengst af væri ekki margir fermetrar að stærð, var stjórnsýslumiðstöð, skólasetur og bókasafn. Og allir fengu ævinlega einhverja hressingu.
Þá er von að þriðja kynslóðin spyrji: Hvernig fóru þau að þessu? Þegar jafnvel sú fyrsta veit ekki svarið.
Kannski var leyndarmálið það eitt að þarna átti hamingjan heima.
Ég er alveg viss um að Guðrún vill ekki að ég sé að flíka því hér hvernig hún setti hugsun sína í ljóðmál. En galdurinn sem gerði henni kleift að standa fyrir heimili eins og hún gerði felst í tveim línum í ljóðakveri hennar, þar sem hún hugsar um húsið sitt og manninn sinn og segir:

Þetta er húsið sem hýsti hamingju mína,
og hún var sú að þú gafst mér æfi þína.

Þau Sigurður og Guðrún  eignuðust 5 dætur:

Elst er Sigríður. Maður hennar var Skjöldur Vatnar Björnsson, sonur þeirra er Rúrik , kona hans er Harpa Helgadóttir, þau eiga Andra Vatnar,  Sigurberg, Lilju og Dagbjörtu.
Næst er  Þóra Guðrún. Maður hennar er Gunnar Haukur Jóhannesson,  Börn þeirra eru Guðrún Dröfn, sem gift er Sigurjóni Ólafssyni, þau eiga Þórdísi Ólöfu, Signýju Kristínu og Ólaf Þorra,  Jóhanna Sif er gift Einari Pálma Sigmundssyni, þau eiga  Snæfríði Birtu, Sindra Heiðar og Sólveigu Emblu,  Rúnar Haukur  er kvæntur Helgu Björnsdóttur og þau eiga Arnar Hauk og Maríu Katrínu.
Þriðja dóttir Guðrúnar og Sigurðar er Jónína Stefanía. Maður hennar er Rúnar F. Sigurðsson, sonur þeirra er Sigurður sem er kvæntur Auði Hannesdóttur, þau eiga  Freydísi Maríu og Berglindi Emelíu, og dóttir þeirra Una er gift Tryggva Jónassyni og þau eiga Elvar Jökul.
Sú fjórða er Ólöf Unnur. Maður hennar er  Bernhard Svavarsson, þau eiga Tómas Karl og Friðrik Elí.
Yngst er  Anna Björk.  Maður hennar er Erlingur Sigtryggsson og þau eiga soninn Stefán.

Þetta er myndarlegur hópur sem Guðrún var stolt af.
Ein dóttirin sagði: Hún var góð mamma, betri amma, langbest langamma.
Guðrún hélt vel utan um hópinn sinn, og bað fyrir hverjum og einum.

Guðrún Ólafsdóttir hafði fallega söngrödd og fór vel með hana og hélt henni mjög lengi. Hún söng í kirkjukórnum á Sauðanesi hjá Oddnýju og tók við organistastarfinu af henni  í kringum 1970 og sinnti því að heita má allan tímann þangað til hún flutti suður. Hún sótti námskeið söngmálstjóra í Skálholti reglulega. Haukur Guðlaugsson fyrrum söngmálastjóri sem af óviðráðanlegum ástæðum getur ekki verið hér í dag, hefur beðið mig um að koma á framfæri þakklæti sínu og kveðjum til aðstandendanna, en þau Guðrún áttu langt og traust samstarf á sviði kirkjutónlistarinnar.

Guðrún og Sigurður fluttu til Reykjavíkur árið 1983 og bjuggu á Lokastíg 4 þar til Sigurður lést árið 1987. Skömmu síðar fluttist Guðrún í íbúð sína í Skálagerði 7 þar sem hún bjó við góða heilsu fram á síðasta aldursár.

Hér flutt kveðja frá Guðrúnu Eggertsdóttur frá Laxárdal sem er erlendis og Jónas Lárusson á Hallgilsstöðum biður fyrir kveðjur sínar.

Það er sagt um sumt fólk að það láti sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Það gildir fullkomlega um Guðrúnu Ólafsdóttur. Hún hafði mjög fjölbreytt áhugamál. Tónlist, tungumál, handavinna, íslenskar jurtir, skólamál og fræðslumál, kirkjumál, náttúvernd, fuglalíf, verndun fuglastofna. Fjölskyldulíf, og almennt siðferði landsmanna.

Hún hafði gott auga fyrir fegurðinni og kunni að greina fegurðina í öllu, ekki síst í hinu smáa, og smæsta. Hún var sérstaklega næm á fegurð mannlífsins, eða eins og ein dóttirin sagði: Hún var fagurkeri á mannlíf.

Hún var listræn, það sást strax á því hvernig hún klæddist og bar sig, hún setti saman ljóð, setti texta og form á blað, og setti saman lög. En hún var ekki mikið fyrir að flíka því, þar var meðfædd  hógværðin hindrun. Þó fékk nánasta fjölskylda hennar að njóta þess bæði á prenti og hljóðupptökum.

Hún hafði sterkar skoðanir. Það var gott að tala við hana, einnig um þau mál sem hún var ekki sammála um því hún sá alltaf nýja vinkla.  En hún gat líka verið nokkuð dómhörð.

Guðrún gat horft yfir langa æfi og auðugt líf þeirra verðmæta sem mölur og ryð fær ekki grandað. Hún var örlát kona. Örlát á tíma og örlát á hrós, örlát á allt sem hún átti. Og hún var þakklát.

Guðrún dvaldi  síðustu fjóra mánuði ævi sinnar á öldrunardeild í Fossvogi, Hér er komið á framfæri þakklæti til starfsfólks frá aðstandendum fyrir frábæra aðhlynningu og umönnun.

Hér var áður nefnt að enginn kom í Efra Lón án þess að vera boðið að þiggja veitingar. Eftir á að hyggja fær enginn skilið hvernig það var ævinlega hægt. Það var eins og einhver vísir að mettunarundri guðspjallanna leyndist þar að baki. Í sama hug og þá er í dag öllum boðið að þiggja veitingar hér í safnaðarheimilinu að lokinni útför. Þar verður ef að líkum lætur samfélag gleði og þakklætis fyrir að hafa átt samleið með þessari merku konu sem nú er genginn. Og þar verður líka andblær þeirrar birtu og fegurðar sem allir þekkja sem horft hafa yfir Þistilfjörð.
Í kvæðinu Lágnættissól við Grímseyjarsund  segir skáldið Einar Benediktsson

Minn hugur spannar himingeiminn.
Mitt hjarta telur stjörnusveiminn
sem dylur sig í heiðlofts hyl.
Svo hátt og vítt mér finnst ég skynja.
Guðs veröld! Andans hlekkir hrynja
sem hjóm við þetta geislaspil.
Mér finnst ég elska allan heiminn
og enginn dauði vera til.

Við munum nú senn bera Guðrúnu Ólafsdóttur til hinst hvílu á jörðu við hlið manns síns í Gufuneskirkjugarði. Þar verður kista hennar ausin moldu eins og fyrr var alltaf venja. Það var skilningur Guðrúnar, og einnig minn, að þau öll sem fylgja vilja síðustu sporin alla leið, eigi að gera það ef hugur þeirra stendur til þess. Atöfnin í garðinum er ekki bara fyrir hina nánustu frekar en sú athöfn sem fer fram í kirkjunni. Útfararathöfn lýkur ekki fyrr en í garði.

Lokið er langri ævi og viðburðaríkri. Við kveðjum í þökk og virðingu. Sjálf hefur hún orðað kveðju og kvöldvers  sem segir:

Gef , ó Guð oss öllum,
góða þessa nótt,
Láttu líkn og mildi
líða yfir jarðardrótt
.

Far þú í friði Guðrún Ólafsdóttir
Friður Guðs þig blessi
og hafðu þökk fyrir allt og allt.
En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2012-03-15/gudrun-olafsdottir-minningarord/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli