kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Biskupskjör · Heim · Opnuð heimasíða »

Spurningar Guðmundar Pálssonar vegna biskupskjörs

Kristján Valur @ 23.40 7/2/12

Guðmundur Pálsson hefur beint þrjátíu og þrem spurningum til okkar sem höfum gefið kost á okkur í kjöri til biskups Íslands. Hér eru mín svör:

1. Hvert er að þínu mati hlutverk Biskups Íslands?

Svar: Biskup er fyrst og fremst  prestur með stærri verkahring en aðrir prestar. Prestur hefur yfirleitt eitt prestakall, biskup hefur þau öll. Hann tengir þau saman.  Biskup  er verndari trúarinnar (defensor fidei). Hann boðar Guðs orð, samkvæmt heilagri ritningu og játningum kirkjunnar, eins og hann hefur heitið í vígslu sinni. Hann fylgist með í trúarefnum með því að heimsækja presta og söfnuði, samkvæmt fornri hefð vísitasíunnar. Hann ber ábyrgð á þjálfun prestsefna og djáknaefna og vígir presta og djákna og kristniboða til þjónustu. Hann er fyrsti fulltrúi þjóðkirkjunnar útávið  gagnvart ríkisvaldinu og gagnvart öðrum trúfélögum. Biskup er forseti kirkjuráðs. Kirkjuráð þiggur umboð sitt frá kirkjuþingi og fer með framkvæmdavaldið í umboði kirkjuþings, sem fer með æðsta vald í málum þjóðkirkjunnar, eins og lög mæla fyrir um. Biskup skipar presta í embætti að loknu vali þeirra og hefur agavald yfir þeim. Hann tengir saman í embætti sínu  hina andlegu og hina efnislegu ábyrgð kirkjunnar í samfélaginu.

2. Hver eru helstu stefnumið þín fyrir þjóðkirkjuna næstu árin?

Svar. Þjóðkirkjan er í ákveðnu ferli bæði innávið og útávið.  Nýr biskup gengur inn í þau. Með biskupi í þessu ferli eru kirkjuráð, embættismenn Biskupsstofu, kirkjuþing og nefndir þess, prófastar, prestar, sóknarnefndir og embætismenn safnaða. Stefnumið nýs biskups hljóta að vera í samhljóm við það sem er á dagskrá kirkjunnar hverju sinni.
Til viðbótar við það vil ég mega nefna:

a) biskup er í senn leiðtogi í trúarefnum og áhrifavaldur í efnislegum greinum. Í hvorutveggju þarf hann að leita ráðgjafar. Fyrsta skref nýs biskups er að leita ráðgjafar og kalla til ráðgjafa bæði innan úr stjórnsýslu kirkjunnar og utanfrá meðal hinnar almennu kirkju.,
b) biskup þarf að fylgja eftir endurskoðun lagaumhverfis þjóðkirkjunnar sem nú stendur yfir

c) fara þarf yfir alla samninga ríkis og kirkju sem í gildi eru.

d) skoða þarf skipurit Biskupsstofu og gera nauðsynlegar breytingar til eflingar samskiptaflæði milli hinnar almennu kirkju í landinu og þjónustu Biskupsstofu.

e) skoða þarf aðstæður allra safnaða í landinu í þeim tilgangi að efla innra starf kirkjunnar og semja um fjárskuldbindingar vegna framkvæmda með það fyrir augum að skuldir skerði ekki hið lifandi starf.

f) að vitja allra presta, organista, djákna og safnaða til upplýsinga, uppörfunar og hvatningar í þjónustu Guðs kristni í landinu.

3. Hver eru helstu vandamálin sem blasa við innan skipulags kirkjunnar?

a) Finna þarf ásættanlega niðurstöðu í því ágreiningsmáli hvernig biskup Íslands kemur að stjórn kirkjunnar og ganga frá ályktun um stöðu biskups sem æðsta yfirmanns kirkjunnar.

b) gera þarf skýra grein fyrir hlutverki prestastefnunnar í stjórnsýslunni

c) setja þarf starfsreglur fyrir biskup Íslands og vígslubiskupa  (eins og er þá eru engar starfsreglur um biskup Íslands, en til eru starfsreglur um vígslubiskupa).

d) í ljósi tillagna um breytingar á lagaumhverfi Þjóðkirkjunnar þarf á næstunni að kljást við mörg mjög erfið mál á þessu sviði. Þar ber hæst að ekki er vitað hvort þjóðkirkjan verður nefnd í nýrri stjórnarskrá og ef svo verður þá hvernig.

4. Hver eru helstu vandamálin sé litið til trúarlífs þjóðarinnar og siðferðis?

Svar.

Hið sama hefur gerst í kirkjunni og í hinum almenna heimi venjulegs manns. Ábyrgð manns  gagnvart sjálfum sér og hinu nánasta samfélagi fer dvínandi. Trúarlífið og siðferðið verða í auknum mæli svo mikið einkamál að hver og einn getur haft sína einkaútgáfu trúar og siðar.Þetta er stærsta vandamálið, eða öllu heldur áskorunin.

5. Á kirkjan að skipta sér af siðferði þjóðarinnar og þá hvernig?

Svar. Boðskapur kristinnar trúar geymir sérstakan skilning siðferðisins. Það er alveg útilokað að hægt sér að kunngjöra fagnaðarendi Jesú Krists án þess að í því felist boðskapur um siðferði einstaklinga og þjóðarinnar allrar. Sannarlega er boðun trúarinnar miklu meira en áminningar um siðaboðskap. Heimsósómapredikanir eiga erfiða leið að eyrum nútímans, og ábendingar um tilteknar misgjörðir einstaklinga varða þá eina en ekki siðferði þjóðarinnar. Einn mikilsverður þáttur í predikun prestanna er hin spámannlega ræða. Spámenn í biblíulegum skilningi eru fyrst og fremst gagnrýnendur samtímans og gagnrýnendur almennings. Þessi gagnrýni getur aldrei verið persónulegt innlegg predikara eða mat hans á aðstæðum. Hún hefur þá og því aðeins og gildi og áhrif ef hún byggir á biblíurýni. Það er jú þess vegna sem ritskýring er svo þýðingarmikill þáttur í menntun prestnema.

5. Hvar eru takmörk embættisins? Hvað ætti biskup ekki að skipta sér af?

Svar. Takmörk embættisins liggja í forsendum trúarinnar. Viðbrögð biskups ráðast af því, eins og viðbrögð sérhvers trúaðs manns. Ákvörðun um það á hverju hann tekur og hvað hann lætur liggja verður að taka hverju sinni í samráði við ráðgjafa.

6. Hvað er sönn trú?

Svar. Um þetta má lesa margar bækur. En til að stytta langt mál  tel ég rétt og einfaldast  að vísa í Hebreabréfið. Þar er ritað :  Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.

7. Hver er Jesú Kristur?

Svar: Þessu verður ekki betur svarað en í Matt. 16. 13-19.:

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“  Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir  Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“
Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“  Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“  Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon  Jónasson! Enginn maður  hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í  himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju   mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og  hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu   mun leyst á himnum.“


8. Hvað er sannleikur?

Svar:

Við þessu er bara eitt svar. Það er í  Jóh. 14. 6. :  Jesús segir við hann: „

Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.
9. Hvernig getur maðurinn þekkt hina sönnu trú og lært að þekkja Guð og vilja hans?

Svar. Maðurinn getur þekkt hina sönnu trú og lært að þekkja Guð og vilja hans  vegna þess að Guð vitjar hans sjálfur.  Guð vitjar manns með ýmsu móti. Hann vitjar hans í heilögu orði Biblíunnar, í sköpunarverkinu sjálfu, í nálægð Jesú Krists í tilbeiðslunni og guðsþjónustunni, og í heilögum anda í hverri þeirri mynd sem hann velur sjálfur að gera vart við sig með. Engin ein leið er öllum gefin, en bænin og Guðs Orð er alltaf grundvallandi  lykilatriði.

10. Hvernig útskýrir þú hið illa. Bölið í heiminum?

Svar. Mér sýnist best að vísa hér í annað svar: (smella á heitið!)  Hvers vegna er ofbeldi i heimi sem gud hefur skapað , sem ég hef gefið um sama efni á tru.is.

11. Mætti ég biðja þig að útskýra Faðirvorið. Hverja setningu fyrir sig og hvað hún merkir?

Svar: Bestu skýringar okkar kirkju eru enn að finna í Fræðum Lúthers hinum minni. Ég get ekki gert betur, en ég tel samt að það megi færa þýðinguna meira til nútímamáls.

Skýringarnar við Faðir vor eru hér

12. Hvers vegna ertu kristinn. Hvað varð til þess á yngri árum og hvenær gerðist það?

Svar. Það er enginn vafi á því að ég er kristinn vegna þess að foreldrar mínir voru það og að ég var leiddur inn í heim bænarinnar svo snemma að ég var enn  ómálga barn; að ég fékk að trítla á eftir föður mínum til kirkju þar sem hann var meðhjálpari og hringjari og söng í kirkjukórnum; og að móðir mín kom inn til mín að kvöldlagi þegar ég var á fimmtánda ári og spurði mig, í þann mund sem ég var að byrja að gleyma kvöldbænunum: Ertu nokkuð farinn að gleyma bænunum þínum?

Ég var fjósastrákur á Grenjaðarstað hjá sr. Sigurði Guðmundssyni og lærði þar undir skóla. Í desember 1961 í eldhúsinu á Grenjaðarstað ákvað ég að ef mér tækist að læra það sem þyrfti skyldi ég verða prestur. Mig langaði til þess að verða að liði í kirkjunni. Síðan þá hefur mér aldrei dottið í hug að ég væri ekki á réttri leið.

13. Hverjir eru helstu persónulegu áhrifavaldar þínir á leið þinni?

Svar. Ég tel rétt að hafa sama svar við þessari spurningu og þeirri næstu, að því viðbættu að mér þykir það dásamleg forréttindi að mega búa við hið óvænta, þegar hinir áður óþekktu áhrifavaldar stíga í veg fyrir mann. algjörlega óvænt.

14. Hverra lítur þú upp til sem fyrirmynda og hvers vegna?

Svar. Fyrirmyndir eru yfirleitt tvennskonar. Það eru bernskufyrirmyndir og fullorðinsfyrirmyndir. Mér sýnist að bernskufyrirmyndirnar hafi orðið mér gagnlegastar.En það má segja um þær eins og allar þær persónur sem leiddar eru inn á svið heilagar ritningar og útaf því aftur án þess að nefna nafn þeirra: Þetta er fólkið sem hefur fengið nafn sitt skráð í lífsins bók, og enginn þekkir það vel nema Guð, og svo ég, í þessu tilliti. Ég hygg að líkt sé farið öðrum þeim sem hafa haldið sig við trúna, að þau sem í upphafi vísuðu veginn hafi ráðið mestu þar um og séu dýrmætustu fyrirmyndirnar.

Um hinn síðari flokkinn get ég sagt að þar eru fyrst og fremst margir góðir kennarar, bæði hér við  guðfræðideild Háskóla Íslands og guðfræðideild háskólans í Heidelberg, og svo fjöldamargir hugsuðir og höfundar á sviði guðfræðinnar. Það yrði langur listi ef ég ritaði hann. Ég geri það ekki. Þau eiga örugglega öll nöfn sín rituð í lífsins bók, og ég lofa hann sem gaf mér þau og geymir þau.

15. Eru öll trúarbrögð leit að hinum sanna Guði eða hefur kristin trú þar einhverja sérstöðu?

Svar:  Maður leitar þess sem maður væntir að finna. Þess vegna eru trúarbrögð ólík og mismunandi. Jesús Kristur er birtingarmynd hins eina Guðs. Það eru sannarlega ekki allir að leita að honum. Kristin trú hefur sérstöðu. Það er ekki hægt að blanda henni saman við önnur trúarbrögð.

16. Margir segja að trú sé á undanhaldi hjá ungu fólki. Ef það er rétt hver er skýring þín á því og hvað ber að gera í því?

Svar;  Ég lít svo á að trúin sé á undanhaldi hér á vesturlöndum yfirleitt. Ekki bara hjá ungu fólki. Ég tel þetta vera stærstu áskorun kristinnar trúar í samtímanum. Það eru margar skýringar á þessu, en þær eru ekki aðalatriðið þó þær séu hjálplegar, heldur eru það viðbrögðin. Hið fyrsta er að viðurkenna vandann og greina hann. Næsta skref er að setja upp viðbragðaáætlun. Sú áætlun þarf fyrst að finna þá verkferla og þau viðbrögð sem kirkjur og einstaklingar eru að beita núna og bera árangur. Í annan tíma  skal ég skrifa hér langt mál, en ég læt nægja að benda á að aðstæður okkar hér á Íslandi eru þær að 90%  13-14 ára barna koma í fermingarfræðslu. Meira en 80 % allra ungra foreldra bera börnin sín til skírnar, næstum 100% allra Íslendinga eru borin til moldar í kristnu samhengi. Þetta eru dásamleg tækifæri! Við þurfum að nota þau betur!

17. “Kirkjan er lýðræðisleg stofnun og almenningur á að móta stefnu kirkjunnar.” “Kirkjan er stofnun sem verður að fylgja lögmáli Guðs og því verður hún umfram allt að vera sjálfstæð og getur ekki alltaf farið eftir skoðun fjöldans.” Hver er skoðun þín á þessum fullyrðingum?

Svar. Kirkjan er ekki lýðræðisleg stofnun í skilningi nútímans og almenningur mótar ekki stefnu hennar. Æðsti yfirmaður kenningar kirkjunnar er biskupinn. Ef upp koma álitamál á sviði kenningarinnar hefur hann sérstaka ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni, og þar að auki ber honum að leggja slík mál fyrir prestastefnu. Lokaorðið hefur síðan kirkjuþingið. Engar breytingar á þessu sviði geta orðið án þess að þetta sé gert. Einhverskonar almenn atkvæðagreiðsla hefur ekkert gildi ef hún er andstæð því sem kenningarnefnd, prestastefna og biskup úrskurða og kirkjuþing staðfestir. Þar að auki er þjóðkirkjan hluti af ákveðnu kirknasamfélagi sem líka úrskurðar í ákveðnum málefnum kenningarinnar sem eru bindandi fyrir þjóðkirkjuna.

Það skiptir engu hvort ég hef skoðun á þessu, þetta eru gildandi reglur (sem ég er reyndar mjög sammála og sáttur við)


18. Trú og skynsemi. Gætir þú gefið þitt sjónarhorn á þessum hugtökum?

Svar. Nei, í rauninni á ég ekkert gott svar. Hinsvegar hafa margir góðir guðrfæðingar svarað þessu. Fyrir mér eru þetta ekki andstæð sjónarhorn og því myndi ég vilja fá fleiri spurningar í sama dúr til þess að geta brugðist við.

19. Trú verður fyrir aukinni gagnrýni og jafnvel áreitni. Hvert er viðhorf þitt til þessarrar gagnrýni og hvernig ber að taka henni. Hvað eiga kristnir menn að gera – og kirkjan.

Svar.  Gagnrýni á kirkjuna er tvennskonar: Innanfrá og utanfrá. Gagnrýni innanfrá þarfnast samtals við þau sem gagnrýna í þeim tilgangi að leysa ágreiningsmál og efla samhug, gagnrýni utanfrá verður best svarað með góðu starfi og einlægum vitnisburði, og með þeim guðfræðingum sem vel er lagið að sinna trúvörn. Allt þetta þarf að vera til í kirkjunni á öllum tímum.

20. Hefur kirkjan of lítil áhrif? Kemur að þínu mati til greina að kirkjan reki skóla eða leikskóla? Jafnvel að kirkjan hafi dagblað, tímarit eða sjónvarpssendingar?

Svar. Ég tel ekki að kirkjan eigi að fara út í rekstur eins og hér er minnst á, en ég tel að fólk sem tilheyrir þjóðkirkjunni og játar Jesú Krist sem frelsara sinn og Drottin eigi á sérhverjum vettvangi lífsins að bera honum vitni með lífi sínu og trú.

21. Hvert er álit þitt á fríkirkjulegum söfnuðum og öðrum kirkjudeildum ss. kaþólskum og söfnuði rétttrúaðra. Ber þjóðkirkjunni að hafa samráð við þessar kirkjur, eða fara sína eigin leið?

Svar. Það er tvímælalaust mjög nauðsynlegt að efla samstarf kristinna safnaða, kirkna og kirkjudeilda. Grundvöllur aukins samstarfs hlýtur að vera orð Jesú sjálfs. Ég bið ekki einungis fyrir þessum heldur og fyrir þeim sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig. Jóh,. 17.20-21

22. Margir segja að hjónaband og fjölskyldan eigi í vök að verjast. Finnst þér koma til greina að styðja hjónabandið og fjölskylduna með einhverjum hætti, jafnvel vekja máls á því við stjórnvöld?

Svar. Um það bil tveir þriðju allra hjónabanda varir meðan hjónin lifa. Það er hátt hlutfall. Samt er eins og umræðan um hjónabandið mótist meira af því að hjónabönd endist illa og skilnaðartíðni sé mjög há. Það virðist vera einkennandi í samtímanum að allt of margt fólk á erfitt með að standa við skuldbindingar sínar, eða forðast skuldbindingar yfirleitt. Vísindalegar kannanir sem staðfesta þetta eru mér þó ekki handbærar. Skilnaðartíðni er alltaf of há. Ég teldi sannarlega mjög jákvætt að hið opinbera myndi styðja hjónabandið og fjölskylduna, vegna þess að þar væri verið að treysta  grunngildi og stoðir samfélagsins.

23. Hver er afstaða þín til fóstureyðinga? Ber kirkjunni að taka þátt í umræðum um fóstureyðingamál og andæfa þeim eða ber henni að halda sig til hlés?

Svar: Kirkjan á að sjálfsögðu að taka þátt í umræðu um fóstureyðingar, og sérhver sá sem tekur trú sína alvarlega. Ég tel mjög brýnt að sú umræða sé alltaf í gangi, til þess að halda öllum almenningi vel vakandi. Ég viðurkenni að það kunna að vera þær aðstæður til sem réttlæta fóstureyðingu. Til dæmis þegar lífi beggja, móður og barns er stefnt í hættu.  En að öllu öðru leyti er ég jafn mikið á móti fóstureyðingum og því að stytta fólki aldur með svokölluðum líknardauða. (euthanasie).

Ég tel alveg sérstaklega  rangt að eyða fóstri vegna þess að læknavísindin telji að barnið sé með einhverjum hætti öðruvísi en svokölluð venjuleg börn, t.d. dvergur.

24. Hver er afstaða þín til jafnréttis kynjanna? Hver er skoðun þín á öðru jafnrétti?

Svar. Ég er að sjálfsögðu fylgjandi jafnrétti kynjanna, og mér þykir það hrein hneisa  ef ekki eru greidd sömu laun fyrir sömu vinnu, eins og þó dæmi sanna. Ég tel líka áhyggjuefni að það er  því miður staðreynd að konur búa enn við það misrétti að eiga erfitt með að hasla sér völl á tilteknum sviðum samfélagsins vegna sögulegrar venju eða hreinna fordóma.  Hinsvegar  er ég hreint alls ekki viss um að eitthvað sem heitir jákvæð mismunun geti gengið sem verkfæri til að fjölga konum á tilteknum vettvangi. Ég tel að fordómum verði ekki eytt með þeim hætti, heldur eingöngu með hugarfarsbreytingu. Það gengur hægar, en þeim fækkar sem betur fer, þótt of hægt fari sem hafa karllega nálgun í ráðningum en ekki hæfileika nálgun. Það er einfaldlega úrelt hugsun að eitthvert svið mannlífsins henti körlum betur en konum, nema þá að vera faðir og eiginmaður.

25. Hver er þín stjórnmálaskoðun?
Svar.

Ég hef frá upphafi minnar prestsþjónustu talið mjög nauðsynlegt að láta aldrei uppi nokkrar flokkspólitískar stjórnmálaskoðanir. Ég tel að í því sé ekki fólgin nein gagnrýni á þá presta sem hafa starfað með stjórnmálaflokkum og jafnvel setið á þingi. Ég tel einmitt að þeir hafi sem slíkir veitt kirkjunni sérstaka þjónustu sem ekki hefði fengist með öðrum hætti.

En þessi spurning tengist eðlilega hlutverki predikunarinnar og þar með spurningunni um það hvort predikari á að fjalla um málefni stjórnmálanna, eða pólitíska aðkomu að dægurmálum yfirleitt í predikuninni. Um það efni hef ég sagt á öðrum stað að a) predikari á ekki að tala um pólitík, b) predikari getur ekki komist hjá því að tala um pólitík.  Þessi niðurstaða byggir á því að ég þekki ekkert jafn pólitískt og fagnaðarerindið, en flokkspólitískt er það ekki.
Ég tel alveg nauðsynlegt og sjálfsagt að predikun Guðs Orðs hljóti alltaf að fara inn á það svið sem stjórnmálamenn starfa á.  En útlegging Orðsins hlýtur alltaf að byggjast fyrst á inntaki textans og svo á heimfærslunni til safnaðarins. Vitnisburður predikarans hlýtur sömuleiðis alltaf að byggja á Orði Guðs en ekki á hans persónulegu skoðunum á málefnum dagsins.

26. Hvert er viðhorf þitt til deilu Palestínumanna og Ísraelsríkis? Og kjarnorkudeilu við Írana?

Svar. Ég er ekki vel til þess fallin að fjalla um mál af þessum toga. Ég tel þó að þessi deila verði ekki leyst á grundvelli sögulegra heimilda og aðstæðna, heldur í einungis ljósi samtímans. Réttindi fólks og samfélaga verða aldrei tryggð með ofbeldi og blóðsúthellingum.

Um Íran vil ég bara segja:  Guð gefi að hægt verði að stöðva gerð og notkun kjarnorkuvopna í heiminum.


27. Margir einstaklingar sem barist hafa gegn óréttlæti hafa þurft að grípa til terrorisma. Hvað finnst þér um það?

Svar. Hryðjuverk eru aldrei réttlætanleg.

28. Ef þú mættir gagnrýna forvera þína í embætti. Hvernig myndir þú gera það?

Svar. Eins og ég skil gagnrýni þá er hún tæki og möguleiki til að leiða eitthvað til betri vegar. Umfjöllun um gengna menn eða forvera í embætti getur aldrei orðið tæki til þess að þeir geri hlutina betur eða öðruvísi, þeir eiga þess ekki kost. Ég kýs þess vegna að gagnrýna þá ekki með beinum hætti, heldur nýta áfram það góða sem þeir lögðu af mörkum, en vara mig á hinu, ef þar er eitthvað til að varast.

29. Hvað tekur við ef þú verður biskup. Hvernig mun almenningur verða var við þig í embætti?

Svar. Það er nú þannig með embætti biskups Íslands að þar gengur maður inn í ákveðnar venjur og hefðir. Ég hef hvorki þörf né löngun til þess að breyta því. Að öðru leyti tel ég að biskup eigi að vera sýnilegur og heyranlegur á gefnum forsendum kristinnar trúar og kirkju sinnar og myndi  vilja hafa forystu um það.

30. Hvernig er háttað persónulegu bænalífi yðar?

Svar. Þetta er auðvitað mjög persónuleg spurning sem vekur umhugsun um það hvort henni eigi að svara. Ég er  hreint ekki viss um að svo sé. En ég skal samt gera það.  Ég geri bæn mína á morgnana þegar ég vakna, og á kvöldin áður en ég sofna. Ég tel líka til persónulegs bænalífs það sem er fast í formi eins og bænir í Skálholti sérhvern virkan dag kl. 9 og kl. 18, þó að það sé líka opinbert bænahald. Mér þykir vænt um að geta gengið að því aftur daglega, ég hef saknað þess.  Ég hef allt frá ungum aldri beðið á ýmsum tímum og eftir þörfum, bæði stutt og skyndilega. Það eru í raun bara svona venjuleg bænaandvörp, Ég er mikið á ferðnni akandi, og þykir gott að nota rautt ljós eða aðrar tafir fyrir bænaandvörp. Fyrir utan bænir sem verða til á staðnum þykir mér gott að lesa sálma sálmabókarinnar og sálma Davíðs, bænir annarra og bænavers, og texta ritningarinnar. Ég hef á langri ævi reynt að færa í íslenskan búning mikinn fjölda bæna úr ýmsum áttum og einnig sálma og hef haft af því mikla blessun. Bæn er jafn nauðsynleg og eðlileg og andardrátturinn.

31. Hver er eftirlætis Davíðssálmur þinn?

Þessu á ég ekki gott með að svara. Ég hef sérstakt dálæti á þeim öllum, og mitt frekar hefðbundna bænalíf gerir ráð fyrir ríkulegri notkun Saltarans alls. Ég sæki í þá bæði styrk og leiðsögn. En til þess að geta svarað einhverju þá komst ég að því þegar ég hugsaði mig um að ég kunni þrjá, og þó kannski fjóra utan að án þess að reka í vörðurnar. Þeir eru auðvitað allir stuttir. En fyrst ég kann þá hljóta þeir að hafa verið oftast á tungu minni og mega teljast til eftirlætis. Þetta eru sálmarnir nr. 23, 100, 121 og 150. Svo vil ég nefna nr. 4 til viðbótar, sem er fastur sálmur í næturbænum kirkjunnar eins og nr.91. Þeir hafa fylgt mér frá ungum aldri. Annars eru það meira stök vers eða sálmahlutar sem leita á hugann og koma til manns þegar þarf, en það yrði og löng upptalning. (Best er að sá/sú sem les taki nú fram Saltarann og þiggi sjálf(ur) þá blessun sem hann gefur).
_


32. Mætti ég biðja þig að útskýra Trúarjátningu kristinna manna, merkingu hverrar setningar fyrir sig og þýðingu hennar fyrir einstaklinginn?

Svar . Hér vísa ég  til skýringa Lúthers í Fræðunum minni, eins og í spurningunni um Faðir vor. Þetta get ég örugglega ekki gert betur. Sjá:

33. Hvaða orð úr Ritningunni verða einkunnarorð þín í embætti?

Svar. Þessu get ég ekki svarað. En sem lokaorð þessara spurninga vildi ég mega vísa í Hebreabréfið 10.23. Höldum fast við játningu vonar okkar án þess að hvika því að trúr er sá sem fyrirheitið hefur gefið.

url: http://kvi.annall.is/2012-02-07/spurningar-gudmundar-palssonar-vegna-biskupskjors/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli