kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Hvað er vígslubiskup? · Heim · Spurningar Guðmundar Pálssonar vegna biskupskjörs »

Biskupskjör

Kristján Valur @ 21.33 29/1/12

Nokkur orð í einlægni um það hversvegna ég gef kost á mér í kjöri næsta biskups Íslands.

Þann 3.september 2011 var kunngjört að ég hefði holtið 80 atkvæði í kjöri vígslubiskups í Skálholti og væri því rétt kjörinn til þess embættis. Séra Sigrún Óskarsdóttir fékk 61 atkvæði. Kosningaferillinn tók langan tíma og var erfiður. Mest er þó um vert að mínu viti hversu friðsamlega kosningin fór fram og var þeim öllum sem tilnefnd voru, séra Agnesi, séra Jóni Dalbú og séra Karli V.auk séra Sigrúnar, til mikils sóma. Ég fann aldei, allan þennan langa tíma, neitt nema hlýju og elskusemi, og hafi einhversstaðar fallið hnjóðsyrðiu, þá var það aldrei  svo ég heyrði eða vissi af.
Ég var vígður vígslubiskup í Skálholti þann 18.september 2011. Tveim vikum síðar vígði ég einn prest og tvo djákna í Skálholtsdómkirkju. Laust fyrir jól gátum við hjónin flutt sængurnar okkar og lögheimilið í Skálholt.
Í ljósi þess hversu nýliðið þetta allt er þá er ekki skrítið þótt spurt sé hvort þetta sé ekki bara nóg, hvort ég hafi ekki stefnt í alvöru í Skálholt, og hvort ég þurfi endilega að seilast enn lengra til ábyrgðar í þjóðkirkjunni. Mér hefur líka verið bent á að ef til vill þyki þeim sem kusu mig til Skálholts ég vera að bregðast þeim og Skálholti með því að gefa kost á mér til biskups Íslands. Hægt er að hafa margar skoðanir á þessu. Mér þykir sannarlega leitt ef ég hef hryggt einhvern með þessu, en ég hlýt að telja það ólíklegt  að einhver þeirra áttatíu sem veittu mér brautargengi til Skálholts hafi gert það í þeim tilgangi að tryggja að ég gæfi ekki kost á mér í kjöri biskups Íslands ef til þess kæmi.

Dagurinn þegar biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson tilkynnti að hann hygðist láta af embætti, var ekki liðinn þegar fyrst var á það minnst við mig að ég gæfi kost á mér sem næst biskup Íslands. Vikurnar sem í hönd fóru geyma mörg samtöl sama efnis.Ég játa að í fyrstu vakti þessi hugsun mér ótta, vegna þeirra mörgu og stóru verkefna sem eru á borði biskups. Engum dettur í hug að sú ágjöf sem kirkjuskipið hefur verið í að undanförnu hverfi þótt skipt sé um biskup. Ég tók mér frest, fyrst til jóla, svo til áramóta, og þá hafði ég sannfærst um að það var samhljómur  í sjálfum mér og í óskum og þrýstingi þeirra sem vildu að ég gæfi kost á mér. Þessi breyting fólst í því að óttinn við þau erfiðu verkefni sem bíða á borði biskups landsins hvarf, en í staðinn kom löngunin til að glíma við þetta stóra verkefni sem biskupsembættið sannarlega er. Ástæðan fyrir þessum sinnaskiptum var  sú að ég gerði mér betur grein fyrir þeirri miklu breiðfylkingu lærðra og leikra sem er tilbúinn til að leggja lið kirkju og kristindómi í landinu og bera vitni í orðum og gjörðum frelsara sínum Jesú Kristi.
Inn í þá mynd kom óvænt til mín upphafið á öðrum kafla fyrra Korintubréfs:

Þegar ég kom til ykkar, systkin, og boðaði ykkur leyndardóm Guðs gerði ég það ekki með háfleygri mælsku eða spekiorðum. Þegar ég var með ykkur ásetti ég mér að hafa ekkert í huga annað en Jesú Krist og hann krossfestan. Og ég dvaldist á meðal ykkar í veikleika, ótta og mikilli angist. Orð mín og boðun studdust ekki við sannfærandi vísdómsorð. Ég treysti sönnun og krafti Guðs anda. Trú ykkar skyldi ekki byggð á vísdómi manna heldur á krafti Guðs. (1.Kor. 2.1-5)

Auðvitað er biskupinn sjálfur stór þáttur í biskupsembættinu, en tilsjónin er falin öllum þeim sem taka við Jesú Kristi. Foreldrið sem leiðir barn sitt inn í heim bænarinnar er því barni biskup á þeirri stundu. Að vera biskup með þeim sem  á svo margvíslegan hátt annast tilsjónina í þéttriðnu neti trúarinnar, það get ég gert og það vil ég gera.

Næstu daga mun ég segja frá því sem ég myndi vilja að kirkjan beitti sér fyrir og tæki fastari tökum á næstunni, undir farsælli stjórn kirkjuráðs, kirkjuþings og embættismanna.

url: http://kvi.annall.is/2012-01-29/biskupskjor/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Hulda Guðmundsdóttir @ 1/2/2012 09.00

Við bíðum spennt eftir að heyra af því sem þú telur að sé brýnt að kirkjan beiti sér fyrir og taki fastari tökum á næstunni. Það er mikilvægt fyrir okkur sem þurfum að velja milli margra mætra biskupsefna að þau komi skýrt fram með stefnumál sín. Með góðum kveðjum, Hulda


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli