kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Er þörf fyrir vígslubiskupa? · Heim · Biskupskjör »

Hvað er vígslubiskup?

Kristján Valur @ 22.10 30/4/11

Vígslubiskupsembættið er fyrst og fremst prestsembætti. Það er sannarlega sérstakt prestsembætti að því leyti að starfssvæðið er ekki einn söfnuður eða eitt prestakall heldur heilt stifti með mörgum prestum og söfnuðum. En í grunninn  eru skyldur vígslubiskups  alveg hinar sömu í grundvallaratriðum og prests í sínum söfnuði. Meginhlutverk hans er þjónustuhlutverk.  Þjónusta hans er tvenns konar. Hún er annars vegar við þau sem honum er trúað fyrir að annast eins og hirðir, en hins vegar við Guðs Orð sem honum er falið að boða og bera vitni um. Sú ábyrgð sem þessu fylgir er hin sama og sérhvers prests, en í víðara samhengi. Eins og biskup er prestur prestanna, gegnir vígslubiskupinn sama hlutverki gagnvart prestum síns stiftis, ef honum tekst að afla sér trausts til þess meðal þeirra.

Stærsta hlutverk vígslubiskups snýr einmitt að prestum og söfnuðum. Það er vegna þess að þar er að finna kraftinn og kímblöðin fyrir kirkju morgundagsins. Styrkur kirkjunnar út í frá gagnvart þeim heimi sem hún á erindi við, felst í traustu innra starfi hennar. Einmitt á erfiðum tímum skiptir öllu að þjappa saman þeim sem best kunna til verka, til þess að efla hið persónulega trúarlíf einstaklinga og fjölskyldna.

Hið mikilsverðasta í allri þjónustu biskups og vígslubiskups er að vera verndari trúarinnar. Allt kirkjufólk á að geta treyst því að hver sem til þess embættis velst sé fyrst og fremst einmitt það. Enginn getur verið verndari trúarinnar nema sá sem sjálfur hvílir í trúnni og iðkar hana. Þess vegna verður vígslubiskupinn að sjá til þess að dagleg verkefni hans miðist við það.  En það getur hann ekki nema að hann hvíli sjálfur í fyrirbæn annarra.  Þess vegna þarr vígslubiskupinn að leita uppi starfandi bænahópa og stofna til nýrra.

Hvað gerir vígslubiskup

Samkvæmt lögum skulu vígslubiskuparnir hafa tilsjón með kristnihaldi í umdæmum sínum. Starfsreglur um vígslubiskupa kveða nánar á um það. Þar segir: veitir vígslubiskup andlega leiðsögn og tilsjón innan kirkjunnar í umdæmi sínu, eflir kirkjulíf, vísiterar og annast sáttaumleitanir. (Starfsreglur nr 968/2006).

Í kollektubæn biskupsvígslunnar, sem er hin sama hvort sem vígður er biskup Íslands eða vígslubiskup, biður presturinn sem annast altarisþjónustuna í upphafi athafnarinnar: Gjör hann styrkan í þér, að hann megi styrkja aðra í heilagri trú og efla ríki þitt. (Handbók íslensku kirkjunnar 1981, bls. 195-196) Þetta tvennt er sameiginlegur grunnur allra starfa vígslubiskupanna.

Hvernig styður vígslubiskup  presta og söfnuði?

Í fyrsta lagi með því að biðja fyrir prestum og söfnuðum og starfsfólki kirkna og safnaða og störfum þeirra. Skálholt er staðurinn þar sem bænin hljóðnar ekki. Allt fólk í stiftinu á að geta treyst því. Eitt af því sem fylgdi í kjölfar siðbótar sextándu aldar var að klaustrastarf lagðist af, þar sem hinn nýi siður var tekinn upp. Fyrir því voru frekar efnahagslegar en trúarlegar ástæður. Ýmislegt af föstum liðum í starfi klaustranna færðist yfir á biskupstólana og prestssetrin. Hið stöðuga bænahald er eitt af því sem biskupsstólarnir skulu tryggja, sem klaustur væri.

Í öðru lagi með því að vaka yfir velferð presta og safnaða. Það gerir vígslubiskup með reglubundnum heimsóknum til þeirra,  með samtölum við starfsfólk kirkna og safnaða, með námskeiðahaldi fyrir starfsfólk og með því að vera málsvari þeirra gagnvart kirkjuráði og ef svo ber undir í umræðum á kirkjuþingi og síðast en ekki síst í samtölum við biskup Íslands og á biskupafundum.

Í þriðja lagi með því að leita úrlausna í hvers kyns aðsteðjandi vanda með hjálp fagfólks sem er að störfum bæði hjá kirkjunni sjálfri og einnig annars staðar.

url: http://kvi.annall.is/2011-04-30/hvad-er-vigslubiskup/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli