kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Er þörf fyrir bæði vígslubiskupa og prófasta? · Heim · Hvað er vígslubiskup? »

Er þörf fyrir vígslubiskupa?

Kristján Valur @ 22.08 30/4/11

Samkvæmt gildandi lögum er Ísland eitt biskupsdæmi. Þegar biskupsdæmið er eitt, með einn biskup Íslands, sem hefur sér til aðstoðar prófasta sem  samkvæmt lögum er falið að hafa almenna tilsjón með kirkjulegu starfi í umboði biskups, þá hlýtur að vakna sú spurning hvort nokkur þörf sé á því að hafa tvo vígslubiskupa.

Sá einn er munur á prófasti og vígslubiskupi samkvæmt lögum að hinn síðarnefndi getur annast vígslur í umboði biskups, þ.e. kirkjuvígslur og prestsvígslur. Reynslan sýnir að sjaldgæft er að biskup Íslands feli vígslubiskupum að annast vígslur, og aldrei hefur það gerst frá stofnun vígslubiskupsembættanna 1909 að báðir vígslubiskupar væru uppteknir við vígsluathafnir á sama degi, auk biskups Íslands.

Augljóst er að forsenda þess að til eru tvö vígslubiskupsembætti byggir á einhverju öðru en því að þeir eigi að leysa biskup Íslands af í störfum sínum.  Vígslubiskuparnir  skulu að öðru leyti en því að annast biskupsverk í umboði biskups Íslands,  gegna hliðstæðu hlutverki gagnvart prestum og söfnuðum og prófastar, en  þó við lakari skilyrði, því að vígslubiskup hefur að lögum engan hliðstæðan samráðsvettvang heima í héraði eins og prófastur, þar  sem  er héraðsnefnd og héraðsfundur.

Ástæða þess að auk biskups Íslands eru tveir vígslubiskupar, byggir á því hvers eðlis kirkjan er. Þjóðkirkjan er sannarlega stofnun með mikið mannahald  og mikinn rekstur og mikla veltu fjármuna, en fyrst og fremst er hún samfélag trúarinnar. Í samfélagi trúarinnar skiptir trúin sjálf höfuðmáli. Það er varðveisla trúarinnar, viðhald hennar og endurnýjun þar sem grundvöllurinn er annars vegar Guðs Orð í Heilagri ritningu, lesið og boðað, en hins vegar iðkun trúarinnar á Jesú Krist, Guðs son, frelsara manns og heims.

En vegna þess að þjóðkirkjan er ekki aðeins trúfélag og þar með samfélag þeirra sem játa sömu trú, heldur er hún einnig  stofnun, þurfa að vera til aðstoðarbiskupar.  Biskup Íslands er æðsti yfirmaður kirkjunnar  og forseti kirkjuráðs sem stýrir fjármálum hennar. Biskup Íslands annast því sem næst allar vígslur og  hann vísiterar söfnuði og kirkjur landsins. Landið er stórt og strjálbýlt. Þegar best lætur kemst biskup yfir að vísitera allar sóknir einu sinni á starfstíma sínum.

Biskupi Íslands til aðstoðar þurfa að vera tveir vígslubiskupar  vegna nærþjónustunnar við presta og söfnuði í landinu. Biskup Íslands hefur eðli málsins samkvæmt ekki þann tíma til að sinna henni sem vert væri vegna allra annarra verkefna sinna

url: http://kvi.annall.is/2011-04-30/er-thorf-fyrir-vigslubiskupa/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli