kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Vígslubiskupskjör. Um Skálholt. Fyrsti partur. · Heim · Er þörf fyrir vígslubiskupa? »

Er þörf fyrir bæði vígslubiskupa og prófasta?

Kristján Valur @ 22.07 30/4/11

Spyrja má : Eru ekki prófastar tengiliðir milli biskups og presta?  Og, eru ekki prestarnir hver á sínum stað ábyrgir fyrir nærþjónustunni?

Svar:  Í fyrsta lagi eru prófastarnir sjálfir starfandi sóknarprestar í nánu samneyti við presta sína sem kollegar fremur en verkstjórar,  í öðru lagi er hlutverk vígslubiskupa miklu frekar stuðningur en stjórnun, í þriðja lagi eru þeir sjálfir prestar  um leið og þeir eru leiðtogar,  og hafa það hlutverk að vera bæði próföstum og prestum sá bakhjarl sem þeim er nauðsynlegur í krefjandi störfum þeirra.

Hin mikla fækkun prófasta á undanförnum mánuðum leiðir óhjákvæmilega til þess að þyngri byrðar leggjast á hvern prófast í tilsjónarskyldunni, ekki síst vegna þess að þeir eru jafnframt sóknarprestar. Vígslubiskupinn getur sannarlega hlaupið þar undir bagga en til framtíðar litið er brýn þörf áþví að skilgreina starfsvið beggja nánar í starfsreglum og erindisbréfum til þess að efla samvinnu og fækka árekstrum.

Óháð þessu öllu tel ég nauðsynlegt að skilgreina betur en gert hefur verið samband vígslubiskupa og prófasta í stiftinu. Að mínu mati ætti  vígslubiskup að vera einskonar stiftsprófastur og prófastarnir nánustu samstarfsmenn hans.

Ég tel þar að auki að óháð því skipulagi sem nú er á stjórn Skálholts  þurfi vígslubiskup í Skálholti að hafa sér við hlið einskonar heimastjórn með aðkomu þeirra sem fara með málefni heimafyrir á staðnum,  bæði vegna staðarins sjálfs og stiftisins í heild.

Með samstarfi vígslubiskups og prófasta myndast tengsl við héraðsnefndir prófastdæmanna, en þar fyrir utan  þarf  vígslubiskup að hafa með sér einskonar stiftisráð presta  í þeim tilgangi að efla  innra starf kirkjunnar, enda  eru þeir forystumenn í trúarefnum safnaðanna.

Vígslubiskupar eru  samkvæmt gildandi reglum í stjórnunarstöðu einungis  þegar þeir gegna tilteknum verkefnum sem biskup Íslands felur þeim.

Ég tel það gefa vígslubiskupi gott og nauðsynlegt  svigrúm til þess að beita sér fyrir því sem til hagsbóta er fyrir kirkjulíf og kirkjustarf,  einmitt vegna þess að hin endanlega ákvarðanataka, sem oftar en ekki er af fjárhagslegum toga, er ekki í hans höndum.

url: http://kvi.annall.is/2011-04-30/er-thorf-fyrir-baedi-vigslubiskupa-og-profasta/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli