kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Um vígslubiskup í Skálholti · Heim · Er þörf fyrir bæði vígslubiskupa og prófasta? »

Vígslubiskupskjör. Um Skálholt. Fyrsti partur.

Kristján Valur @ 20.08 11/3/11

Bréf til þeirra sem eru á kjörskrá í vígslubiskupskjöri er farið í póst. Það fjallar um áhersluatriðin þrjú sem ég nefndi í fyrsta bréfi mínu. Þar er fyrst fjallað um Skálholt. Í bréfinu er þess getið að ég muni hér á annálnum gera nánari gein fyrir því sem bréfið fjallar um. Hér er fyrsti hluti Skálholtskafla bréfsins.

Skálholt er fyrst og fremst helgistaður. Megináherslan í lífi og starfi staðarins hlýtur alltaf að hvíla á því að Skálholt er miðstöð í kristnu trúarlífi. Það var í upphafi tilgangurinn með því að gefa jörðina til biskupsstóls og það hefur verið tilgangur Skálholts æ síðan.

Skálholt hefur skyldum að gegna við allt kristið fólk, heimamenn sem gesti, þó að þjóðkirkjufólk hafi þar sérstöðu, enda þjóðkirkjan formlegur eigandi Skálholtsstaðar að lögum. ( Lög nr. 32/1963,  um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað).  

Mikill fjöldi fólks sækir Skálholt heim á hverju ári, um langan veg eða skamman.  Vígslubiskup hefur skyldum að gegna við það fólk sem leitar heim á staðinn þegar það vitjar þar helgistaðar  trúarinnar. Við hinn almenna ferðamann hefur vígslubiskup ekki skyldur að öðru leyti.

Skálholtskirkja. Þó að yfirstjórn kirkjunnar hafi verið færð frá Skálholti og Hólum til Reykjavíkur á sínum tíma og Skálholtskirkja sú sem nú stendur geti naumast talist móðir allra vígðra húsa á Íslandi eins og eitt sinn var sagt um Dómkirkjuna í Skálholti, er það móðurhlutverk erfðahlutur hennar,  sem varðveita ber með því að þar hljóðni aldrei bænahald og helgur söngur.  

Vígslubiskupi ber að styðja hverja þá starfsemi á staðnum og í kirkjunni sem tilkomin er vegna trúariðkunar og trúarþarfar í kristninni. Jafnframt ber honum að vera fremstur í hópi þeirra sem standa vörð um helgi og virðingu Skálholtskirkju og sjá til þess ásamt staðarpresti, rektor, organista og sóknarnefnd að allt helgihald í kirkjunni fari fram með sem prýðilegustum hætti. Þar er messað hvern helgan dag og einnig á virkum dögum þegar svo ber undir. Þar hafa verið óslitið frá 29. nóvember 1992, (sem var  mánudagur eftir 1.sunnudag í aðventu,) morgun- og kvöldbænir sérhvern virkan dag og náttsöngur þegar hann fellur að annarri dagskrá.
Starfsreglur um vígslubiskupa (nr.98/2006) mæla fyrir um að vígslubiskupar skuli bera ábyrgð á helgihaldi dómkirkna sinna í samráði við viðkomandi sóknarprest. Sóknarpresturinn í Skálholti sem ber hitann og þungann af helgihaldinu á dómkirkjunni hefur þrem kirkjum öðrum að sinna og er því sjálfsagt að vígslubiskupinn sinni helgiþjónustunni Í Skálholtskirkju ásamt með honum eftir því sem þörf er á.

Skálholtsskóli er sjálfstæður aðili að lögum (Lög nr. 22/ 1993 um Skálholtsskóla) og lýtur daglegri stjórn rektors. Vígslubiskup kemur eingöngu að rekstri Skálholtsskóla þegar hann er formaður stjórnar. Vígslubiskupi ber að styðja rektor og starfsemi skólans með ráðum og dáð, en ætti að mínu viti  ekki að  blanda sér í málefni skólans umfram það sem nauðsynlegt er og felst í umboði hans og embætti gagnvart staðnum í heild. Skólinn gegnir afar þýðingarmiklu hlutverki sem sjálfstæð fræðslu- mennta- og menningarstofnun í eigu þjóðkirkjunnar, en ekki síður sem kyrrðar – og íhugunarsetur. Hin faglega stjórn þessara mála, sem og verulega þýðingarmikil og vaxandi tengsl skólans við rannsóknir og vísindi á sviði guðfræði og trúarbragða, eru í góðum höndum þess rektors sem nú situr.

Í samræmi við þá reynslu sem ég hef sjálfur af því að vera rektor Skálholtskóla (1992 – 1999)  er ég gat leitað stuðnings og ásjár vígslubiskups með hið mikla helgihald sem starfsemi skólans fylgir, íhuganir og sálgæslu á kyrrðardögum og gestamóttöku, til dæmis þegar erlendir gestir sækja skólann heim, tel ég eðlilegast að leggja skólanum lið einmitt með slíkum hætti.
Hinsvegar þarf vígslubiskup einnig að leita samstarfs við rektorinn varðandi námskeiðahald sem hann hefur sjálfur frumkvæði að. Um það þarf að gera sérstakt samkomulag. Hið sama gildir um nauðsynlega eflingu starfsþjálfunar presta, djákna, organista og annars fastráðins starfsfólks kirkjunnar sem vígslubiskup hlýtur að leggja mikla áherslu á og vel getur  farið fram í Skálholti að einhverju leyti, eins og venja var á fyrstu árunum eftir að lög um starfsþjálfun tóku gildi.

Sumartónleikar í Skálholti. Vígslubiskup tengist Sumartónleikunum með þeim hætti að embætti vígslubiskups er stofnaðili samkvæmt skipulagsskrá Sumartónleikanna, (Skipulagsskrá fyrir Sumartónleika í Skálholtskirkju. Nr. 740 20. ágúst 2004) ásamt Helgu Ingólfsdóttur,(d. 2009) stofnanda og listræns stjórnanda hátíðarinnar frá 1975. Samkvæmt skipulagsskránni skipar vígslubiskup formann stjórnar Sumartónleikanna.  Þó að vígslubiskup komi að öðru leyti ekki beint að starfseminni, hlýtur hann að styðja við hana eftir mætti, enda hafa Sumartónleikarnir alla tíð varpað ljóma á nafn Skálholts og eru heimamenn því í mikilli þakkarskuld við þau sem að þeim standa. Skálholtskirkja er eitt besta tónlistarhús landsins, og það eitt segir mikið um veg og vegsemd tónlistar á Skálholtsstað. 
Með óbeinum hætti kemur vígslubiskup einnig að starfseminni vegna tengsla tónleikastarfsins við Helgisiðastofu í Skálholti og þeirrar nýsköpunar í kirkjutónlist sem byggst hefur á tónlist í fornum íslenskum handritum.

Organisti og annað tónlistarstarf. Við Skálholtskirkju starfar fastráðinn organisti, sem ber ábyrgð á tónlistinni við helgihaldið í kirkjunni samkvæmt gildandi reglum og starfssamningi. Hann  er náinn samstarfsmaður vígslubiskups og annarra klerka staðarins. Fjöldi kóra dvelur einnig á hverju ári við æfingar í Skálholti og nýtur kirkjan góðs af því. Nauðsynlegt er að mikið og gott samstarf sé milli vígslubiskups og allra þeirra sem koma að tónlistarstarfi í Skálholti. Það gildir ekki síst um þá eflingu kirkjutónlistar í landinu sem tengd er nafni Skálholts og gert er ráð fyrir í lögum um Skálholtsskóla.
Æskilegt er að efla enn frekar menntun kirkjutónlistarfólks með auknu námskeiðahaldi í Skálholti. Um þetta hefur söngmálastjóri þjóðkirkjunnar forystu. Löng hefð er fyrir námskeiðahaldi í Skálholti á vegum hans. Efla þarf nýsköpun kirkjutónlistarinnar í helgihaldinu með liturgískum æfingabúðum fyrir organista og presta. Vígslubiskupinn hlýtur að styðja slíkt starf og sýna því ræktarsemi, enda skili það árangri inn í starf annarra safnaða í stiftinu og á landinu öllu.

 


 

url: http://kvi.annall.is/2011-03-11/vigslubiskupskjor-um-skalholt-fyrsti-partur/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Kristján Valur Ingólfsson @ 13/3/2011 14.04

Hér hefði verið ástæða til að skrifa líka dálítinn pistil um bókasafnið í turni Skálholtskirkju. Það verður gert.


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli