kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Arnbjörg Halldórsdóttir. Minningarorð. · Heim · Um vígslubiskup í Skálholti »

Fundur á vegum PÍ með kandidötum í vígslubiskupskjöri

Kristján Valur @ 21.08 28/2/11

Í  dag, mánudaginn 28.febrúar var haldinn fundur í Strandbergi Hafnarfjarðarkirkju á vegum stjórnar Prestafélags Íslands, með þeim fimm sem gefið hafa kost á sér í vígslubiskupskjöri. Stjórnin sendi okkur eftirfarandi spurningar og bað okkur að svara þeim á tíu mínútum: Hverjar eru þínar guðfræðilegu áherslur ? Hyggstu breyta einhverju, ef já, hverju ? Hvað hugsarðu þér að sitja lengi og hyggst þú sitja Skálholtsstað? Hvert er hlutverk vígslubiskups að þínu mati?

Hér eru spurningarnar og  svör mín.

Hverjar eru þínar guðfræðilegu áherslur ?

Kærar þakkir fyrir þessa spurningu. Þetta er  einhver sú heilsusamlegasta spurning sem ég hef fengið lengi. En hvernig svarar maður henni ?

Það er eins með guðfræðina og listirnar. Eins og til eru skapandi listamenn og túlkandi listamenn, eru til skapandi guðfræðingar og túlkandi guðfræðingar. En í báðum tilfellum gildir að það er í raun ekki hægt að greina á milli að fullu, nema með því einu að mæla það eftir því hvort viðkomandi gefur úr frumsamin verk.
Því að hinn túlkandi listamaður er sannarlega skapandi þegar hann túlkar.
Ég hef ekki skrifað bækur um guðfræði, en ég hef kennt guðfræði, og skrifað eitthvað af greinum og kennt á ýmisskonar námskeiðum um kirkjustarf, og svo hef ég predikað. Í gegnum allt þetta beitir maður guðfræðiþekkingu sinni. En til þess að reyna að greina hver guðfræðin er verður maður að spyrja um uppsprettur og hvata.

Sú grein guðfræðinnar þar sem ég er best heima, nefnilega sú sem  er  í guðfræðideild HÍ kölluð kennimannleg guðfræði, er ekki skilgreind þannig annarsstaðar nema að því leyti sem hún er pastoral guðfræði. Það er eiginlega miklu betra  þegar hún er kölluð praktísk guðfræði, vegna þess að þá rúmar hún hina kennimannlegu eða pastoral  en tekur um leið til miklu fleiri sviða, og hefur augljósa tengingu inn í aðrar greinar og raunar allar greinar guðfræðinnar. Eins og sérhver prestur veit sem predika skal á sunnudaginn þá er sú tenging nauðsynleg.

Vegna starfa minna hef ég einkum lagt mig eftir líturgískum fræðum, en þau verða ekki stunduð án þess að nálgast þau jafnframt út frá díakoníunni, og eins og sumir vita kenndi ég þessar greinar báðar um hríð. Ætli mætti þá ekki segja að fyrsta guðfræðiáherslan í mínu tilfelli væri hin þjónandi kirkja. En þá verður líka að taka fram um leið, að það er hin þjónandi kirkja sem þjónar Jesú Kristi, með tvennum hætti: Með því að fara með erindi hans fyrir hann,  til þeirra sem þurfa að heyra það, til að  frelsast fyrir það og breyta eftir því, og fara með erindi hans til hans þegar hann birtist okkur í hinum þurfandi og nauðstöddu.
Dæmisagan um miskunnsama samverjann, þar sem þjónustan birtist með tvennum hætti, það er þjónusta Krists við okkur sem liggjum við veginn og þjónusta okkar við Krist sem liggur sjálfur við veginn, er ennþá besta dæmið um þetta. Og ég er þess fullviss að hlutverk kirkjunnar hættir ekki að vera þjónusta miskunnsama samverjans við þann sem var rændur, þó að hún bregðist líka við þeirri kröfu að beita sér fyrir því að það séu engir ræningjar við veginn.

Að öðru leyti og þessu tengt liggur áhersla minnar guðfræði á predikuninni, í hinni víðustu merkingu hennar.  Það er að allt starf kirkjunnar sé í rauninni predikun, og að predikun prestanna sé ekki nema að litlum hluta til þessar fimmtán mínútur sunnudagsmessunnar.
Ýmsar mínar predikanir eru finnanlegar á vefnum, bæði á trú.is, og á annálnum mínum.Stór hluti predikunarinnar kemur hinsvegar fram í sálmum mínum. Ég hef þýtt og samið yfir áttatíu sálma sem hafa verið og eru notaðir. Þeir birta líklega best þá guðfræði sem ég stend fyrir.

Ég fylgist dálítið með nýrri guðfræði, einkum frá Þýskalandi, en líka dálítið frá Norðurlöndunum og BNA, en ég er samt frekar gamaldags guðfræðingur, og hef meira dálæti á mörgum guðfræðingum á síðari hluta síðustu aldar, en ýmsum þeim nýjustu, sem ég kann naumast að nefna.

Hyggstu breyta einhverju, ef já, hverju ?

Ef við viljum halda embætti vígslubiskupanna þá þurfum við að skilgreina það upp á nýtt. Reyndar tel ég að það þurfi að gaumgæfa  alla stjórnsýslu í kirkjunni alveg frá grunni og ekki síst æðstu stjórn kirkjunnar. Ég hef mikinn hug á því að leggja mitt af mörkum til þess að svo verði. Nú stendur yfir vinna við endurskoðun þjóðkirkjulaganna að beiðni kirkjuþings, og ég á sæti í þeirri milliþinganefnd sem kirkjuþing skipaði og ég vænti góðs af störfum hennar.

Óháð þeim störfum tel ég alveg nauðsynlegt að skilgreina upp á nýtt samband vígslubiskupa og prófasta í stiftinu og tel að vígslubiskup þurfi að vera einskonar stiftsprófastur, og að prófastarnir séu nánustu samstarfsmenn hans. Ég tel að það ætti að verða báðum embættum til góðs.

Ég tel þar að auki að óháð því skipulagi sem nú er þurfi vígslubiskup í Skálholti að hafa einskonar heimastjórn hjá sér á staðnum, bæði vegna staðarins sjálfs, með aðkomu þeirra sem fara með málefni á staðnum:

Þ.e. kirkjan, presturinn  og sóknarnefndin, skólinn, rektorinn og framkvæmdastjórinn, organistinn og bóndinn, en einnig einskonar þriggja til fimm manna stiftisráð með prestunum einum, í þeim tilgangi að efla hið innra starf kirkjunnar í stiftinu. Stiftisráð væri valið af prestunum til eins árs í senn.

Hvað hugsarðu þér að sitja lengi og hyggst þú sitja Skálholtsstað?

Vígslubiskup skal sitja í Skálholti samkvæmt lögum. Ég sé enga ástæðu til að breyta því, og teldi raunar mjög misráðið að breyta nokkru í því. Það er gott fyrir Skálholt og gott fyrir biskupinn í Skálholti að vera þar heimilis-fastur, þó hann vegna starfa sinna hljóti að vera dáltítið á faraldsfæti.

Ég er 63 ára og fjögurra mánaða í dag, sem þýðir að hæsta skor er tæplega sjö ár, eða  rúmlega sex ár eftir því hvernig er talið. Ef ég held lífi og heilsu myndi ég vilja starfa þann tíma. Mér þykir reyndar alltaf dálítið fyndið þegar talað er um að sitja svo og svo lengi í embætti. Það er einhvernvegin svo mikil kyrrstaða fólgin í hugtakinu. En án  gamans þá tel ég að sú hugmynd að biskup sitji í sex ár og eigi kost á öðrum sex til viðbótar ef svo ber undir,  geti verið góð regla. Ég mæli með því að einmitt  það verði tekið inn í ný lög og reglur.

Hvert er hlutverk vígslubiskups að þínu mati?

Í kollektubæn biskupsvígsluathafnarinnar segir:  Gjör hann styrkan í þér, að hann megi styrkja aðra í heilagri trú og efla ríki þitt.

Og í starfsreglum um vígslubiskupa segir: veitir vígslubiskup andlega leiðsögn og tilsjón innan kirkjunnar í umdæmi sínu, eflir kirkjulíf, vísiterar og annast sáttaumleitanir.

Þetta er hlutverk vígslubiskups, alveg óháð mínu mati, en ég er því hinsvegar alveg sammála.

Vígslubiskupsembættið er fyrst og fremst prestsembætti. Það er sannarlega  sérstakt prestsembætti að því leyti að starfssvæðið er ekki einn söfnuður eða eitt prestakall heldur heilt stifti með mörgum prestum og söfnuðum. En í grunninn eru skyldur  vígslubiskups alveg hinar sömu í grundvallaratriðum  og sérhvers prests í sínum söfnuði. Meginhlutverk hans er þjónustuhlutverk.  Samkvæmt gildandi reglum er vígslubiskupinn þá og því aðeins í  eiginlegri stjórnunarstöðu þegar hann  gegnir tilteknum verkefnum sem biskup Íslands felur honum eða heyra undir hið eina biskupsembætti þjóðkirkjunnar.

Hér segja gildandi lög: Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. (6.gr.)

Vígslubiskupar skulu vera tveir …etc. Þeir hafi tilsjón með kristnihaldi í umdæmum sínum og séu biskupi til aðstoðar um kirkjuleg málefni og annist þau biskupsverk er biskup Íslands felur þeim.  (16.gr)

Vígslubiskupsembættið er samkvæmt þessu ótvírætt hluti af embætti biskups Íslands. Ég lít svo á að mikil þörf sé á að skilgreina þessi innri tengsl upp á nýtt með ýtarlegu erindisbréfi fyrir biskupinn og biskupana og eða sérstökum starfsreglum.  Jafnframt því fái biskupafundur nýja skilgreiningu. Biskupafundur er til dæmis ekki stjórnvald samkvæmt skilgreiningu 6.gr. sem hér var vísað til. Vígslubiskup er sem slíkur heldur  aldrei stjórnvald og tekur því aldrei bindandi ákvörðun einn sér.

Þau biskupsverk sem hann annast eru öll á ábyrgð biskups Íslands og verður því ekki séð að hann gæti gengið gegn biskupi og ákvörðun hans verði ágreiningur þeirra í milli. Það er álitamál hvort þetta er gott fyrirkomulag eða hvaða annað fyrirkomulag væri heppilegra. Sjálfur tel ég þetta  gefa vígslubiskupi ákveðið svigrúm til þess að beita sér fyrir  ýmsu því sem til  hagsbóta er fyrir kirkjulíf og kirkjustarf , einmitt vegna þess að hin endanlega ákvarðanataka, sem oftar en ekki er af fjárhagslegum toga, er ekki í hans höndum.
Vígslubiskup sinnir því lítilli stjórnun en þeim mun meiri þjónustu.

Þjónusta hans er tvennskonar. Hún er annars vegar við þau sem honum er trúað fyrir að annast eins og hirðir, en hinsvegar við Guðs Orð sem honum er falið að boða og bera vitni um. Sú ábyrgð sem þessu fylgir er hin sama og sérhvers prests, en í víðara samhengi. Segja má að vígslubiskup sé sá sem fer með nærþjónustu við presta og söfnuði. Sem slíkur  verður hann að vera mjög vakandi fyrir hinum daglegu áhyggjuefnum. Hann á að hafa fingur á púlsinum og  mæla hjartslátt og æðaþrýsing.

Dæmi um þetta er eftirfarandi:
Nýjustu fregnir um traust almennings á Þjóðkirkjunni eru mikið áhyggjuefni, þegar ekki nema rúmlega þrír af hverjum tíu bera mikið traust til hennar.

Í þessu felst mikil áskorun til allra þeirra sem unna kristni og kirkju að taka höndum saman og bæta stöðu kirkjunnar og ímynd hennar meðal þjóðarinnar.
Á sama tíma berast fregnir af því að sú aukning sem varð vart fyrst eftir hrun í kirkjusókn og fjöldbreytilegu starfi safnaðanna sé víða að engu orðin og meira en það, sumstaðar megi beinlínis tala um hrun í kirkjusókn og fjölda þeirra sem sækja barna og unglingastarf.

Á sama tíma herðir að sóknum vegna minkandi tekna, með þeim afleiðingum að víða hefur verið óhjákvæmilegt  að skera niður útgjöld, fækka launuðum störfum eða skerða starfshlutfall starfsfólks.

Það er tvímælalaust hlutverk vígslubiskups á slíkum tímum að kalla saman einstaklinga úr þeim hópum sem eru í eldlínunni  til að greina vandann og bregðast við honum,  og leiða viðbrögðin.

Þess vegna hlýtur fyrsta verkefni nýs vígslubiskups að vera svohljóðandi:
Með trú sinni, starfi sínu og persónu sinni  þarf vígslubiskupinn  að afla sér trausts og virðingar meðal presta og safnaða og forðast allt sem grafið getur undan því.

url: http://kvi.annall.is/2011-02-28/fundur-a-vegum-pi-med-kandidotum-i-vigslubiskupskjori/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli