kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Árni Sigurðsson. Minningarorð. · Heim · Í sömu sporum. Og þó ekki. »

Predikun í Langholtskirkju 5.sd. e.þrettánda

Kristján Valur @ 13.02 6/2/11

Hér er predikun dagsins.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Vertu Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni,
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd eg hafni.  Amen.

Skyldi vera nokkur sá á meðal þeirra sem hér leggja við eyru sem ekki þekkir þetta vers? Skyldi það ekki miklu frekar vera þannig að einmitt þetta vers sé eitt af því sem fylgt hefur öllum sem heyra frá fyrstu bernsku.

Við sem ólumst upp við það að fara að sofa á kvöldin umvafin bænum og versum sem mynduðu eina heild með mjúkri sæng og kodda og elsku þess sem með okkur las, munum öll geta sagt að við eigum perlu sem er jafn dýrmæt og sú sem guðspjallið greinir frá, sjálfa perlu himnaríkis. Hvergi er himininn nær nokkrum manni en í bæn og kærleiksríku samfélagi.  Þar er Guð. Og þar sem Guð er, þar er himnaríki. Það þarf sem sagt ekki lengi að leita.

Guðspjallið á þessum fimmta sunnudegi eftir þrettánda er sett saman úr þrem styttri og lengri dæmisögum Jesú Krists, en alls raðar guðspjallamaðurinn saman sjö dæmisögum í þennan eina kafla, sem allar fjalla um himnaríki og útbreiðslu guðsríkisins á jörðu.

Lokaversið í kaflanum sem tilheyrir guðspjalli dagsins hljóðar svo:

Jesús sagði við þá: „Þannig er sérhver fræðimaður sem orðinn er lærisveinn himnaríkis líkur húsföður sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“(Matt.13.52)

Sumir ritskýrendur benda á að þessi setning sé til leiðbeiningar fyrir predikunina í kirkjunni. Vegna þess að þau sem predika séu fræðimenn sem eru lærisveinar himnaríkis. Og þar gildir sannarlega sem meginregla að hvorki hleypur maður  eftir nýjungunum einum, né gleymir sér  eingöngu yfir því sem er löngu liðið. Predikari ber sannarlega fram nýtt, það er hlutverk hans, en hann dregur líka fram það sem reynslan og yfirsýnin hefur kennt og miðlað kynslóðunum og þar með honum sjálfum.

Hið sama gildir auðvitað um hvern þann sem starfa vill á ökrum guðsríkisins. Hvort sem það er kristniboði í Kenýa eða  foreldri á Finnastöðum. Það sem er nýtt í eyrum þess sem heyrir, kann að vera mjög gamalt í eðli sínu, eins og til dæmis orð heilagrar ritningar, og eru þó alveg ný orð. Og versið gamla sem hér var lesið, og fylgt hefur kynslóðunum í þessu landi í meira en þrjár aldir, er alveg nýtt fyrir barninu sem lærir það í kvöld.

Þannig getur hið gamla orð Biblíunnar talað til okkar  í dag með alveg nýjum og ferskum hætti, svo að okkur líður eins og við höfum aldrei heyrt það fyrr.

Þetta köllum við verk heilags anda, sem lýkur upp munni þess sem talar og les og eyrum þess sem heyrir.

Við höfum heyrt alla texta dagsins. Lexíuna úr Gamla Testamentinu, í dag úr lögmálinu, pistilinn úr bréfum Nýja Testamentisins, í dag úr bréfi Páls postula til Galatamanna, og guðspjallið sem fyrr var nefnt.
Allir textarnir snúast um það að velja og hafna.

Stundum verðum við að velja og hafna. Það er einfaldlega ekkert undanfæri.
Stundum getum við ekki valið og hafnað, vegna þess að það er ekki ljóst hvað er gott og gagnlegt og hvað er það ekki.
Stundum er beinlínis rangt að velja og hafna, vegna þess að málstaðurinn er affluttur, stundum af almannarómi  og oft vegna þess að hann er gegnsýrður af fordómum, gömlum eða nýjum og við kunnum ekki að greina á milli.

Guðspjallið í dag er fyrst og fremst áminning um hið síðasta. Í loka uppgjöri verðum við að láta Guð um að greina á milli.

Lexían er alveg afdráttarlaus. Veldu lífið. Hafnaðu því sem sækir að lífinu, eða spillir því. Ekki bara með því að hættu að setja inn í líkama þinn það sem skemmir hann, heldur með því að Guðs boði.

Veldu lífið, segir Guð.

Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann því að þá muntu lifa og verða langlífur í landinu.( 5.Móse. 30.19-20)

Pistillnn gengur enn lengra, þegar hann segir: Fyrst andinn hefur vakið okkur til lífs skulum við lifa í andanum. En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. (Gal 5.22-26)

Guðspjallið í dag horfir fram til Biblíudagsins eftir þrjár vikur. Það er sama hugsun í guðspjalli dagsins  og í guðspjallinu um sáðmanninn sem fer út að sá því sáðkorni sem er  Guðs orð, og breiða þannig út boðskapinn um Guðs ríki sem Jesús Kristur kemur með til okkar og gerir okkur hluta af og gerir himnaríki hluta af okkar lífi.

Frammi fyrir guðspjallinu sem útleggja skal vakna ævinlega tvær spurningar:

Hvað merkir þessi texti í upphaflegu samhengi?
Til hvaða kringumstæðna í samtímanum  vísar hann?

Himnaríki er líkt neti sem lagt er í sjó og safnar allkyns fiski. Þegar það er fullt draga menn það á land setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. (Matt.13.47-48)
Við sem erum eldri munum kannski eftir því að hér áður fyrr þegar ekki var svo sjálfgefið að það væri alltaf nóg til  að borða, þá lærði maður tvennt: Ekki ganga frá leyfðu. Kláraðu matinn þinn, – og:   Ekki henda mat.

Í netinu í dæmisögunni voru greinilega tegundir sem menn töldu þá ekki mat, og hafa hent. En allur  aflinn kom að landi. Ef maður færi bókstaflega eftir þessu þá væri heldur  ekkert brottkast á fiskimiðum nútímans. Þá kæmu allir með að landi allt sem veiddist. Það eru nú ekki nýtt að slíkar óskir komi fram. Það er ekki allt óætur matur sem hverfur í sjóinn.

En svo er annað. Þekking mannanna á því sem veiðist er önnur en var. Þegar við hin eldri vorum börn og unglingar þá datt ekki nokkrum manni i hug að það væri hægt að borða rækjur. Það væri eins hægt að bjóða upp á marflær. Nú er svo komið miðað við þróun mannfjölda í heiminum sem vex hraðar en framleiðsla matvæla, að það getur komið að því að marflær séu góður kostur og ekkert síðri en rækjur. Ber okkur að hugsa um það? Já.
Og svo minnir þetta á  enn annað. Það eru, Guði sé lof, líka breytt viðhorf til tegunda, og ekki bara fiskanna í sjónum heldur líka manna og kynþátta og litarhafts, lífskoðana og menningarheima. Við erum öll saman í sama neti þessa litla heims.

Og það er ekki á okkar færi að ákveða hvað er góður fiskur og óætur. Jesús segir: Komið með allt sem er í netinu. Hér gildir hið sama og í guðspjallinu um illgresið og hveitið. Látið hvort veggja vaxa saman allt að kornskurði.

Báðar  dæmisögurnar um illgresið meðal hveitisins og þessi með netið  vísa til þess aðskilnaðar sem óhjákvæmilegur er við endi aldanna, og við getum ekki haft nokkur áhrif á. En samt er  mikill munur á.
Þessi dæmisaga um netið er fyrst og fremst um nálægð himnaríkis hér á jörðu.

Myndin af netinu sem varpað er í sjóinn, vísar beinlínis til þeirra starfa sem fyrstu lærisveinarnir höfðu. Þeir voru fiskimenn, sem yfirgáfu net sín og fylgdu Jesú til þess að veiða menn, en ekki fiska.

Þeir gátu ekki sem fiskimenn hindrað að ólíkar tegundir færu í net þeirra. Ekki frekar en að sá sem hefur kvóta á ýsu getur stoppað þorskana sem vilja í netið. Þess vegna koma í net lærisveinanna  meðfram hinum góðu fiskum til átu einnig óætir fiskar, sem er kastað burtu þegar þeir koma í land. Það eru einskonar marhnútar, sem bryggjukrakkar allra tíma veiða, en enginn étur. Alla vega ekki enn, nema grænlendingar.

Eins og sá sem netinu kastar ræður ekki því hvað í það kemur, ræður maðurinn engu um það hverjir safnast saman undir merkjum Guðs, og það er gott. Aðskilnaður  af  þeim toga er ekki manna heldur Guðs eins. Hann metur gott og illt. Einn.

Hér er sem sagt verið að ræða um hina huldu merkingu góðs og ills, og ekki það að halda reglur eða brjóta þær, sem mannlegir dómstólar á jörðu dæma um og skulu dæma um.

Sjálfsskilningur kirkjunnar og boðunar hennar er hinn sami í dæmisögunni um fiskana og netið og um illgresið meðal hveitisins, en hér  er ennþá meiri áhersla á að kirkjan er send  með fagnaðarerindið  um guðsríkið til þeirra sem það ekki þekkja.

Þannig er það líka í hinu stóra neti kirkjunnar að þar eru margar manneskjur sem eru ekki bara ólíkar inbyrðis á sinn manneskjulega hátt heldur nýtast á mjög misjafnan og margvíslegan hátt fyrir kirkjuna.

Í fornum myndverkum kirkjunar er fiskurinn ekki bara tákn Jesú Krists, og þeirra sem tilheyra honum, heldur er hann einnig  tákn hinna kristnu sem í yfirfærðri merkingu lifa í vatni skírnarinnar.  Og fiskurinn vísar líka  til þess þegar Jesús mettaði fjöldann í óbyggðum með nokkrum brauðum og fiskum. Í því samhengi er fiskurinn einnig táknið fyrir  fæðu Krists í heilögu sakramenti kvöldmáltíðarinnar.  Sjálft brauð lífsins sem við sem hér erum á staðnum, neytum hér á eftir.

Þegar Jesús gekk hér um á jörðu kynnti hann hversu eftirsóknarvert það er að eiga himininn. Myndirnar sem hann dregur upp af því eru tvenns konar. Annarsvegar er það sem okkar bíður við endi aldanna, þegar Guð gerir alla hluti nýja og hitt er hvernig viðbrögð okkar eru, sem höfum verið helguð og merkt honum, við þeim boðsakap að himnaríki sé mitt á meðal okkar  og hið innra með okkur sjálfum. Það er að hið endanlega við endi allra hluta sé nú þegar virkt í okkur sjálfum hér og nú. Sem þýðir að lokadómur alls heims sé nú þegar að verki í okkur og að himnaríki sé ekki bara framtíð heldur nútíð.

Af guðspjalli dagsins má ráða að ekkert sé jafn dýrmætt eins og að eignast himnaríki. Að mega gleðjast yfir nálægð himnaríkis á jörðu og að eiga þar sitt heima þegar jarðvistardögum lýkur, ásamt  þeim sem við megum vænta  hitta þar og  fóru á undan. Þannig merkir himnaríki einnig eilíft líf og eilíft samfélag við Guð.

En himinn sem alltaf er  yfir okkur stígur niður til okkar í hvert eitt sinn sem við söfnumst saman  um Guðs Orð í bæn og þakkargjörð, og alveg með sama hætti þegar þú ert einn eða ein við hvílu barns, og með öllum söfnuðinum  við altarið í kirkjunni. Og ávextir þess er þeir sömu hvarvetna í hinum stóra heimi sem net Guðs heldur utan um:

kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda . Amen

url: http://kvi.annall.is/2011-02-06/predikun-i-langholtskirkju-5-sd-e-threttanda/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli