kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Pálsmessa · Heim · Predikun í Langholtskirkju 5.sd. e.þrettánda »

Árni Sigurðsson. Minningarorð.

Kristján Valur @ 18.04 26/10/10

Í dag var gerð frá Fossvogskapellu í Reykjavík útför Árna Sigurðssonar fyrrum bónda og kennara í Hjarðarási í Núpasveit, í dásamlega fögru haustveðri. Vegna þeirra sem ekki gátu verið viðstödd eru minningarorðin sett hér á annálinn. Rétt er að geta þess að vers úr Kvæðinu um fuglana (Snert hörpu mína himinborna dís) við lag Atla Heimis Sveinssonar voru sungin á undan minningarorðunum.

Árni Sigurðsson 1927-2010

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Ef fuglar mínir fengju vængjamátt,
þá fljúga þeir um loftið draumablátt,
og þér, sem hæst í himinsölum býrð,
skal helgað þeirra flug og söngvadýrð.

Og glæðir nokkur gleði meiri yl
en gleðin yfir því að vera til
og vita alla vængi hvíta fá,
sem víðsýnið – og eilífðina þrá
?

Við komum saman í fyrstu viku vetrar eftir langt og fagurt sumar, til að kveðja aldraðan  mann að loknum löngum starfsdegi sem líkt og sumarið sem leið var fagur og bjartur og ávaxtaríkur. Það er gott að mega kveðja í  fullvissu þess að ekki mun minni birta yfir þeirri vegferð sem bíður að liðnum degi, en sú sem lýsti hina fyrri.

Ég fer burt til að búa yður stað, segir Jesús í guðspjallinu. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
Dauðinn er alltaf ógnvænlegur. En að deyja í sátt við líf sitt og í glaðri von þeirrar trúar sem festir traust á eilíft líf fyrir sigur Jesú Krists yfir dauðanum, það er ekki ógnvænlegt. Það er  friðsælt. Eins og þegar sólin sest við hafsbrún í heiðríkju.
Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var, en andinn til Guðs sem gaf hann, segir predikarinn. Maðurinn fellur til jarðar eins lauf á hausti og hlýtur legstað á jörðu, en það er ekki staður hans heldur himininn sjálfur, þar sem bíða vinir í varpa.
Ég fer burt til að búa yður stað, segir Jesús. Því megum við fulltreysta.
Jesús Kristur býr þeim sem honum fylgja stað á himni. Þessi staður er svo dýrmætur að Jesús lætur líf sitt til að tryggja þeim hann. Það er krossinn.Það er upprisan.
Vertu ekki hræddur, trúðu aðeins, segir hann. Í þeirri trú komum við saman hér á þessum stað frammi fyrir augliti Guðs til að þakka, til að minnast og til að biðja Guð að taka vel á móti þeim sem kvatt hefur og við væntum endurfunda við í faðmi Guðs.

Ég hefi beint til ykkar þessum orðum er við nú komum saman til að heiðra minningu látins bróður.

Árni Sigurðsson sem hér er kvaddur var fæddur hinn 10. apríl árið 1927 á Valþjófsstöðum í Núpasveit, sonur hjónanna Ingunnar Árnadóttur og Sigurðar Halldórssonar er þar bjuggu. Þau Ingunn og Sigurður eignuðust fjögur börn. Eldri Árna voru  Guðrún og Halldór, en yngri er Gunnlaugur. Guðrún systir Árna er orðin lasburða og treysti sér ekki hingað enda um langan veg að fara, og biður fyrir bestu kveðjur í þennan hóp.

Árni ólst upp á Valþjófsstöðum til fullorðinsára.  Lengi býr að fyrstu gerð, segir máltækið. Sigurður faðir hans, búfræðingur frá Hólum, annálaður fyrir gestrisni, og Ingunn móðir hans bjó fólki sínu  traust og fagurt heimili, af litlum efnum, í rósemi og æðruleysi og trúrækni, sem var gott veganesti út í lífið. Hún skipti aldrei skapi, sagði fólk.

Árni bjó að sínu uppeldi, ásamt sínum eðlisþáttum og varð þekktur fyrir það að halda ró sinni ævinlega, hvað sem á gekk. Meira að segja þegar Kaupfélagið varð gjaldþrota og hann var gjaldkeri þess.
Árni fór snemma að taka til hendinni og  var liðtækur við búskapinn á unglingsárum sínum á Valþjófsstöðum.
Frændi Árna, Jón Halldórsson frá Valþjófsstöðum sem hafði ætlað að koma en treysti sér ekki útaf veðri og færð,  biður fyrir samúðarkveðjur í þennan hóp,  og þakkar langa samfylgd með góðum frænda og vini.

Árni fór snemma að æfa íþróttir og skaraði fram úr á því sviði. Til dæmis mun enn standa óhaggað met hans í kringlukasti í Norðursýslunni. Síðar á ævinni tók hann þátt í að kynna og sýna leikfimiæfingar á sviði, og sextugur gat hann enn sýnt barnabörnunum hvernig ætti að ganga á höndum.

Snemma kom í ljós að Árni hafði ekki aðeins mikla hæfileika á sviði íþrótta heldur hafði hann ríkulega námshæfileika. Ekki gáfust þó skilyrði fyrir langa námsdvöl fyrr en hann var orðinn 19 ára. Héraðsskólinn á Laugarvatni sameinaði áhuga hans á námi og íþróttum. Hann hélt þangað haustið 1946 og eftir að námi lauk við Héraðsskólann vorið 1948 tók við nám í Menntaskólanum sem á þeim tíma var rekinn sem útibú frá Menntaskólanum í Reykjavík. Að loknum einum vetri þar hóf Árni nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1951 með frábærum árangri.  Það urðu jafnt kennurum sem samnemendum mikil vonbrigði að Árni skyldi ekki hyggja á háskólanám að stúdentsprófi loknu þegar svo augljóst var hversu vel hann var til þess fallinn. En Árni snéri aftur heim í sína heimasveit eins og hann var vanur. Sá sem er bóndi getur ekki látið vera að freista þess að vera bóndi.

Og hamingjan fer sínar eigin leiðir og verður ekki lesin af háum einkunnum  einum saman eða líkindareikningi. Hún bíður iðulega þar sem þú ert ekkert endilega að leita að henni.
Um haustið 1951  hélt Árni til náms við Bændaskólann á Hvanneyri og lauk þaðan búfræðiprófi vorið 1952.
Væntanlegur lífsförunautur hans hafði á sama tíma ákveðið að sjá um allan bakstur í mötuneyti skólans þann vetur, Ragnheiður Daníelsdóttir frá Grímarsstöðum í Andakílshreppi. Þetta varð vetur örlaga þeirra.
Árni hélt norður um vorið 1952 þegar skóla lauk. En ári síðar kom hann aftur og sótti þá brúði sína Ragnheiði. Þau gengu í hjónaband um haustið 1953 og áttu farsæla samleið í meira en hálfa öld. Ragnheiður kvaddi þennan heim eftir  harða glímu við erfiðan sjúkdóm fyrir fjórum árum.

Þau Ragnheiður og Árni hófu búskap á Snartarstöðum, en 1956 stofnuðu þau nýbýlið Hjarðarás á 2/9 hlutum úr landi Snartarstaða og bjuggu þar – í félagi við Guðna á Hvoli þar til hann hætti búskap.

Ári eftir að þau hjónin gengu í hjónaband tók Árni að sér kennslu í barnaskóla sveitarinnar. Hann kenndi veturinn 1954-1955, og síðan aftur árin 1962 – 1974. Hann var lengst af eini kennarinn og kenndi allar greinar nema handavinnu stúlkna.  Það er þó fátt sem bendir til þess að hann hefði ekki getað það líka, ef ekki hefði fengist annar til þess. Heimilið og búskapurinn lágu þyngra á Ragnheiði. Hún var djörf og úrræðagóð og kunni vel  til verka jafnt innan stokks sem utan. En börnin fæddust með stuttu millibili og á sama tíma var allt byggt frá grunni á nýbýlinu Hjarðarási,  tvílyft hús, fjárhús og fjós, hlaða og vélageymsla, allt á rúmum sex árum. Það var sannarlega þrekvirki. Það var kannski ekki skrítið að þetta gengi nærri heilsunni, þótt mikið inngrip vegna magameins réði mestu þar um. Árni varð aldrei samur maður eftir það.

Árni vann mest sjálfur að uppbyggingunni, enda fæddur smiður, handlaginn og útsjónarsamur. Hann teiknaði innréttingarnar  í húsið og smíðaði þær, og hannaði einnig ýmislegt sér til hægðarauka í útihúsunum. Aðstoð hafði hann stundum við búskapinn veturna sem hann kenndi, en hver vinnudagur var langur og gat verið strangur. Samt gaf Árni sér ávalt tíma til að sinna fjölbreyttum félagsstörfum. Hann var mikil félagsvera, allt til hinstu stundar. Hann naut þess að vera í margmenni og skirrðist aldrei við að sinna samfélagslegum skyldum, hvort sem það var fyrir skólann, sveitina, kaupfélagið eða kirkjuna.
Hann var góður kennari. Ekki síst vegna þess hversu mikinn áhuga hann hafði á velferð barnanna, og þau fundu það. Hann var ákveðinn og traustur skólastjórnandi, þolinmóður og jafnlyndur. Hér eru fluttar kveðjur frænku hans Rannveigar Halldórsdóttur,frá Valþjófsstöðum, nú á Kópaskeri en hún og fjölskylda hennar senda aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.  Þau minnast Árna í þakklæti fyrir kennslu og frændsemi og öll artarlegheit fyrr og síðar.
Systkinin  frá Brekku, þakka líka af hjarta fyrir samfylgdina gegnum árin, hjónunum báðum Árna og Ragnheiði.

Þau Ragnheiður og Árni eignuðust fimm börn. Elstur er Sigurður f. 1954, kona hans er Bryndís Alda Jónsdóttir, þau eiga Árna, Lindu Margréti og Láru Björk. Árni á Ingunni Birnu,  Linda Margrét á Katrínu Björk, og Lára Björk á Þórhall Sölva.

Næst í röð barna Ragnheiðar og Árna er Ingunn f. 1955, maður hennar er Sighvatur Arnarsson, hún á með fyrri manni sínum Kristjáni Ásgrímssyni, Árna, Brynju, Soffíu og Klöru. Árni á Birgittu Írisi, Júlíu Karen, Jennýju Lilju og Róbert, Brynja á Arnar Snæ og Apríl Fjólu, Soffía á Ingunni Söru.

Þá er Helgi f.1956, kona hans er Sigurlína Jóhanna Jóhannesdóttir, þau eiga Guðna Þorra, Einar Atla og Úlfhildi Ídu.
Guðni Þorri á Patrek Helga og Hrafnhildi Jóhönnu.

Næstur er Daníel Unnsteinn f. 1959, kona hans er Sigurhanna Sigfúsdóttir, þau eiga Ragnheiði Birnu og Hrafnhildi Jónu.

Yngstur er Arnþór Gylfi f. 1962, kona hans er Guðrún Vala Elísdóttir, og þau eiga Sölva, Nökkva, Salvöru Svövu og Elís Dofra. Nökkvi á Birki Darra og Emilíu Ísis.
Barnabörnin eru 16, og barnabarnabörnin orðin 14.

Nokkur þeirra sem hér voru nefnd eiga þess ekki kost að vera hér í dag, vegna dvalar í fjarlægum löndum.
Klara, Brynja, Páll Ágúst, Arnar Snær og Apríl Fjóla senda hingað kveðju sem hljómar svo:

Elsku afi, langafi og vinur. Í dag kveikjum við á kerti um leið og við minnumst þín.
Því miður gátum við ekki fylgt þér hinsta spölinn og langaði þess vegna að senda þér kveðju. Þegar við lítum til baka þá koma í huga okkar ljúfar minningar um þig. Þú varst okkur góður afi, traustur og fyrirmynd í gegnum tíðina, afar skilningsríkur og hafðir alltaf tíma fyrir okkur þegar við leituðum til þín. Takk fyrir allt það sem þú hefur gefið okkur.  Við kveðjum þig með miklum söknuði og trega og minning þín mun ávallt lifa í hjörtum okkar.
Erlendis eru einnig Vilborg Ingunn og Steindóra Gunnlaugsdætur sem biðja fyrir innilegar samúðarkveðjur til barna Árna og fjölskyldna þeirra.

Þau Ragnheiður og Árni stunduðu blandaðan búskap í Hjarðarási í 25 ár. Árið 1979 brugðu þau búi og fluttu á Kópasker þar sem þau áttu heimili sitt í 12 ár.
Árni vann hjá Sæbliki, hann var  verkstjóri hjá Kaupfélaginu í nokkur ár,  þar til  hann tók að sér stöðu gjaldkera Kaupfélagsins og gengdi því starfi þar til starfsemi þess var lögð niður árið 1990 við gjaldþrot þess. Á þeim erfiðu dögum komu eðliskostir Árna vel í ljós. Þá voru margir í uppnámi. Ekki hann. Jafnvel þótt sumum þætti sjálfsagt að beina spjótum sínum að ósekju  að honum.

Árið 1991 fluttu þau  hjónin Árni og Ragnheiður til Reykjavíkur og settu saman heimili sitt að Gnoðarvogi 38. Þar var gestrisnin engu minni en áður hafði verið fyrir norðan. Það var alltaf tekið vel á móti gestum og þeir voru margir. Þau voru samhent í því hjónin.  Í þeim anda er ykkur öllum sem í dag heiðrið minningu Árna Sigurðssonar  hér,  boðið að þiggja veitingar í Víkingasal Hótels Loftleiða að lokinni þessari athöfn.  Þar verða mörg tækifæri fyrir ykkur til að deila hvert með öðru  minningabrotum og gleðjast yfir  þeim.

Þeirra Árna og Ragnheiðar var saknað fyrir norðan. Hjónin Sigrún Magnúsdóttir og Guðmundur Árnason  frá Ási biðja fyrir bestu kveðjur og þakka liðna tíð. Sömuleiðis bróðir Sigrúnar,  Einar Ófeigur Magnússon.

Og Anna og Friðrik Jónsson  frá Sunnufelli, hugsa hingað í þökk og kærleika.

Þegar  Árni var kominn hingað suður  fór hann að vinna við smíðar, hjá fyrirtækinu Hurðir og gluggar og starfaði þar um nokkurt skeið uns hann dró sig í hlé frá launaðri vinnu. En félagsmálamaðurinn dró sig aldrei í hlé. Jafnvel ekki eftir að heilsan bilaði alvarlega og hann fluttist á Eir þar sem átti síðast athvarf. Þar var hann frægur fyrir það hversu mikið félagslíf hann stundaði.
Hér fyrir sunnan voru endurnýjuð kynni við gamla skólafélaga og vini og ný tengsl mynduð.  Hér eru fluttar kveðjur og þakkir skólafélaganna frá Laugarvatni.

Hann  sáttur við líf sitt og aðstæður líka síðustu árin sem hann lifði þótt þau einkenndust nokkuð af andstreymi. Hann fær fagra umsögn frá samferðafólki sínu. Hann kom víða við í bókstaflegri merkingu, hann snerti við lífssögu margra og hafði jafnvel afgerandi áhrif á það hvernig hún varð.

Ef það er á annað borð hægt að segja það um nokkurn mann að hann sé góður maður, þá er Árni einn þeirra. Hann var mörgum fyrirmynd, sem kennari og uppalandi, sem íþróttamaður og íþróttaunnandi og sem félagsmálamaður. Honum var það eðlilegt og sjálfsagt að axla sameiginlega ábyrgð. Hann var samferðamaður allra þeirra sem voru í kringum hann, og fólk laðaðist að honum af því að hann var ríkur af skilningi og samúð.
Hann er kvaddur í miklum kærleika og þökk. Það er varla til betra hlutskipti en að vera umvafinn svona mikilli hlýju þegar maður er lagður til hinstu hvílu. Fyrir það skulum við þakka í nafni hans Guði sem allt gott gefur.

Hver fugl skal þreyta flugið móti sól,
að fótskör guðs, að lambsins dýrðarstól,
og setjast loks á silfurbláa tjörn
og syngja fyrir lítil englabörn.

Og eins og barnið rís frá svefnsins sæng,
eins sigrar lífið fuglsins mjúka væng.
Er tungan kennir töfra söngs og máls,
Þá teygir hann sinn hvíta svanaháls.

Nú fljúga mínir fuglar, góða dís.
Nú fagna englar guðs í Paradís.

Far þú í friði Árni Sigurðsson,
friður Guðs þig blessi,
og hafðu þökk fyrir allt og allt.
En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2010-10-26/arni-sigurdsson-minningarord/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli