kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Halla Einarsdóttir. Minningarorð · Heim · Pálsmessa »

Sigurður Guðmundsson.Minningarorð

Kristján Valur @ 13.17 23/1/10

Sigurður Guðmundsson fyrrum Hólabiskup lést þann 10.janúar síðastliðinn og var borinn til moldar þann 18.janúar tæpra níutíu ára að aldri. Við áttum samleið í hálfa öld. Útförin var gerð frá Akureyrarkirkju. Til kirkju  voru hálft sjötta hundrað manns, þar af 38 hempuklæddir prestar.

Minningarorð

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.  Amen.

Ritað er hjá Mattheusi guðspjallamanni: Þá er Jesús  gekk þaðan sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum.  Matt.9.9

Þegar við söfnumst saman hér í kirkjunni í dag til þess að kveðja aldinn kirkjuhöfðingja þá gerum við það undir þessari yfirskrift : Köllun og eftirfylgd.

Jesús Kristur kallar til lífs, nýs lífs í heilagri skírn, og með auknum þroska til eftirfylgdar í trú og þjónustu, hann kallar prestinn til sérstakrar þjónustu og eftirfylgdar, og síðast gengur hann að líkbörunum og snertir þær, þegar hann kallar sinn verkamann heim af akrinum og leiðir hann til síns himneska ljóss í dýrð hjá sér.

Ég er upprisan og lífið, segir Jesús Kristur.  Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.  (Jh.11.25) Við berum þau sem deyja  inn í kirkjuna, fram fyrir auglit Guðs á leiðinni til grafarinnar. Dauðinn  er áfangi  á leiðinni  heim til Guðs. Dauðinn er áfangi lífs sem lifað er í trú. Upprisa Jesú Krists frá dauðum boðar okkur það.

Okkar tímar einkennast af því að hraðfleyg er stund. Hugur mannanna hneigist að því að láta hið hraðfleyga ráða í stað þess að nema staðar og varðveita augnablikið, og láta ekkert trufla sig í því, og ekki þó að  önnur auglablik líði hjá á meðan eins og vindbólur.

Enginn gerir níutíuára ævi manns skil á fáeinum mínútum. Ekki einu sinni þó að það væri í öllum greinum fábrotnari ævi en sú sem hér er minnst í dag.

Þegar lífsdagur er liðinn nemum við staðar í þökk og virðingu. Enginn maður skilur  eftir sig minningarnar einar, heldur bæði það sem gjört var og ógjört var látið. Allir  skilja eftir sig spor, sumir djúp. Fáir samt jafn djúp bæði meðal sinna nánustu og einnig með kirkju sinni og þjóð.

Sigurður Guðmundsson sem hér er kvaddur var  fæddur á Naustum við Akureyri  þann 16. apríl 1920, sonur hjónanna  Steinunnar Sigríðar Sigurðardóttur og Guðmundar Guðmundssonar sem þar bjuggu. Eldri bróðir Sigurðar  og eini albróðir var Ólafur sem lést fyrir tæpum fimm árum.

Þegar Sigurður var fjögurra ára andaðist móðir hans. Sigurður ritar í minningum sínum: Þá komu dimmu árin. Þau rifja ég ekki upp.

Að liðnum þrem árum réðist til þeirra feðganna Herdís Finnbogadóttir. Um haustið 1927 gengu þau í hjónaband  Guðmundur og Herdís. Þau eignuðust fimm börn, Steinunni, Víglund, Sigríði,  Magnús og Ríkeyju.  Steinunn og Víglundur eru látin.

Sigurður Guðmundsson valdist snemma til trúnaðarstarfa. Þannig var hann ekki nema níu ára þegar hann var gerður að mjólkurpósti og flutti mjólk og fleira frá Naustum og niður í bæ með hesti og kerru og gengdi þessu starfi þrjú sumur. Um þetta  ritar  hann með sínum stuttaralega hætti:  Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér var sýnt svo ungum.

Við gætum sagt að þetta væri nokkuð einkennandi fyrir hann: Hann tókst á hendur þau verk sem honum voru falin og axlaði þau af ábyrgð.

Hann var góður og jafnframt metnaðarfullur  námsmaður. Að loknu námi við Menntaskólann á Akureyri sem hann lauk með sæmd, hóf hann nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands með það fyrir augum að verða prestur.
Á námsárunum hafði hann kynnst Aðalbjörgu Halldórsdóttir frá Öngulsstöðum og þann 12. febrúar 1944 voru þau gefin saman af einum af kennurum Guðfræðideildar, séra Sigurbirni  Einarssyni síðar biskupi.

sr. Sigurður var einn þeirra níu presta sem vígðir voru til prestsþjónustu hinn 18. júní 1944 og voru kallaðir morgungjöf lýðveldisins. Það átti fyrir þeim öllum að liggja að skilja eftir sig varanleg spor jafnt í kirkjulegu sem almennt félagslegu tilliti og þannig rættist  sú ósk og það fyrirheit sem fólst í  heitinu sem Sigurgeir biskup gaf þeim.

sr. Sigurður hélt eftir vígslu norður að Grenjaðarstað í Aðaldal, eins hinna merkustu prestakalla landsins í sögu kirkju og þjóðar og sat þann stað í meir en fjóra tugi ára, fyrst sem prestur, síðan prófastur og síðast vígslubiskup. Þar lét hann til sín taka bæði á kirkjulegum vettvangi sem veraldlegum og brást jafnan við skyldum beggja  eins og eftir var leitað.

Með ungu prestshjónunum fluttist í Grenjaðarstað Magnús hálfbróðir Sigurðar  á 11. ári. Hann dvaldi hjá þeim  um sumarið, fór síðan til Akureyrar um haustið. Á jólunum 1944 dó Herdís móðir hans frá ungum börnum. Um vorið kom Magnús aftur og átti sitt heimili á Grenjaðarstað til fullorðinsára eins og sonur væri. Hér eru að leiðarlokum fluttar þakkir  Magnúsar fyrir fóstrið allt.

Við lok náms í Guðfræðideild hlaut Sigurður námsstyrk  til dvalar í Danmörku sem nota skyldi innan þriggja ára. Það varð því að ráði, og vel að merkja einkum að ráði frú Aðalbjargar að hann héldi til Danmerkur í ágúst 1946 þrátt fyrir að Aðalbjörg sæti þá eftir með búskapinn, símstöðina og tvö lítil börn.

Í þessari námsferð tókust góð kynni með honum og trúfræðiprófessornum  dr. Regin Prenter sem héldust lengi. Prenter vildi gera  hann að Lúthersfræðingi, en tókst ekki, að mati Sigurðar sjálfs, þó hann læsi með ánægju það sem Prenter fól honum að lesa.

Hann kom aftur heim í janúarlok 1947 og lagði á hilluna frekara nám í guðfræði.

Þingeysk bændamenning þess tíma átti ekki alltaf mikið aflögu fyrir presta, þó að kirkjan sjálf og trúargildin  ættu þar sinn sess, einkum þegar þau voru sett fram af hófsemi. Sigurður var mikill unnandi íslenskrar tungu og talaði blæbrigðaríkt mál sem lét vel í eyrum óvæginna, sem þótti hann framan af nokkuð ungur, enda vígður á undanþágu frá aldursákvæði.

Hann var snemma valinn til forustu í málefnum sinnar sveitar og var meðal annars oddviti um hríð, en hætti því fljótlega, er hann fann að það gat skaðað hann í nauðsynlegri prestsþjónustu.

42 ár er ekki langur tími í kirkjunni, en langur tími í þjónustu presta. Þótt nú sé nokkuð fennt í sporin er mynd hans lifandi og sterk þar austur frá. Hér eru fluttar  kveðjur frá söfnuðum Grenjaðarstaðarprestakalls, sóknarpresti og fjölskyldu hans, og sérstakar kveðjur frá  Kirkjukór Grenjaðarstaðarkirkju.

Hann var bóndi.  Hann var sveitapiltur frá Naustum sem þekkti rætur sínar í íslenskri alþýðumenningu og unni þeim. Hann var leiddur til æðstu virðinga í kirkju sinni sem prestur og prófastur og síðar vígslubiskup og um skeið biskup Íslands. Öllu þessu sinnti hann af trúmennsku og hógværð góðs bónda. Þó hann hefði alla burði til að leggja fyrir sig fræðimennsku og framhaldsnám valdi hann frekar að vera sóknarprestur í sveit og fjölskyldufaðir. Í stað þess að stefna sjálfur til æðri fræða, tók hann upp kennslu og undirbúning nemenda sem voru að leggja af stað á vit lífs og menntunar og fylgdi þeim fyrstu skrefin og bjó þá út með ríkulegt nesti í sínum eigin heimaskóla og við kennslu annarsstaðar.

Þegar litið er yfir ævi og störf séra Sigurðar er af mörgu að taka sem minnast mætti hér, en aðeins skal nefnt sem dæmi ævintýrið um Sumarbúðirnar við Vestmannsvatn sem ætíð mun tengt nafni hans í þríeyki þeirra séra Péturs síðar biskups og Silla bankastjóra á Húsavík.

Óhætt er að segja að samstarf þeirra vinanna Péturs biskups Sigurgeirssonar og Sigurðar hafi verið einstakt. Það hófst þegar þeir á menntaskólaárum sínum urðu samferða dag hvern til og frá skóla og blómgaðist meðan þeir báðir störfuðu á akri hins forna Hólastiftis og birtist einna skærast í uppbyggingu barna og æskulýðsstarfs og með stofnun sumarbúðanna við Vestmannsvatn og ÆSK í Hólastifti. Þetta var meira en vinátta tveggja kollega, þetta var vinátta tveggja heimila.

Hér eru fluttar kveðjur þeirra Péturs biskups  og frú Sólveigar Ágeirsdóttur, konu hans, til fjölskyldu séra Sigurðar og allra viðstaddra. Pétur biskup orðar þetta þannig: Milli heimila okkar var sönn vinátta og góðvild í lífi og starfi. Um það vitnar einnig  vinarkveðja  Péturs Péturssonar sonar þeirra, sem minnist í þökk fyrstu leiðsagnar á sviði predikunarfræða sem hann þáði barnungur hjá sr. Sigurði á æskulyðsdegi.   Sigurður  var alltaf bjartur og hvetjandi, sagði hann.

.

Hjónaband þeirra Aðalbjargar og Sigurðar var traust og farsælt í sextíu ár.

Börn þeirra hjónanna eru fimm.

Steinunn Sigríður er fædd 1944, hún er læknafulltrúi og skrifstofustjóri á myndgreiningu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.  Maður hennar er Ingólfur Steinar Ingólfsson rafvélavirkjameistari. Þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn.

Þorgerður fædd 1945, myndlistarmaður og kennari, lést árið 2003. Maður hennar var Gylfi Jónsson. Sambýlismaður hennar síðar var Ólafur H Torfason, rithöfundur.  Þorgerður og Gylfi eignuðust einn son.

Halldór er fæddur 1947. Hann er skólastjóri í Þorlákshöfn. Kona hans er  Ester Hjartardóttir, kennari.  Þau eiga eina dóttur. Með fyrri konu sinni Ástu Finnbogadóttur á Halldór  tvo syni. Barnabörn hans eru  8, en eitt lést á fyrsta ári.

Guðmundur er fæddur 1949 ráðunautur  Vesturlandsskóga á Hvanneyri. Kona hans er Sigrún Kristjánsdóttir, starfsmaður Andakílsskóla.  Þau eiga fjögur börn og fjögur barnabörn.

Yngst er Ragnheiður fædd 1954. Hún er  bókasafnsfræðingur og yfirbókavörður við bókasafn MA. Maður hennar er Bragi Guðmundsson, prófessor í sagnfræði við HA. Þau eiga tvö börn.

Barnabarnabörn Sigurðar  eru 13 en barnabarnabörnin 16.

Sigurður var börnum sínum umhyggjusamur faðir þótt þau hefðu á hans starfsömustu árum oft viljað sjá meira af honum. Því voru stundirnar við heyskap og bústörf dýrmætastar og eftirminnilegastar. En börnin öll tóku mjög virkan þátt í búskapnum.

Það var  yndislegt að fara með  honum í fjárhúsin, sagði yngsta barnið, og læra að þekkja alllar ærnar með nafni,  eða sitja og  færa inn í ærbókina,

Heimilið á Grenjaðarstað var ekkert venjulegt heimili. Það var félagsheimili og heimavist og mötuneyti og til að byrja með einnig símstöð sem var opin sex tíma á dag, meðan sími var ekki kominn nema á örfáa bæi. Börnin vöndust á að deila ekki aðeins foreldrum sínum með öðrum börnum heldur líka öllu öðru, herbergi og jafnvel rúmi. Það virðist  eftir á að hyggja hljóta að hafa verið óþægilegt á stundum, en þetta var bara svona. Og þroskandi og mótandi fyrir lífið.

Stopular stundir með foreldrunum einum urðu sérstakar og dýrmætari en ella, eins og sundferðir í Hveravelli að lokum starfsömum degi, að ekki sé minnst á þá dásamlegu daga þegar gerði stórhríð og allt var ófært og helst líka rafmagnslaust. Þá daga eina féllu niður allir fundir í skólanefndum og hreppsnefndum og sjúkrahússstjórnum og sóknarnefndum.

Á heimili sem þessu þurfti gott skipulag og rösklega stjórnun. Þegar litið er hér yfir kór og kirkjuskip er auðvelt að minnast þessa tíma. Þegar erfidrykkjur voru haldnar á heimili þeirra Aðalbjargar og Sigurðar var ekki mikill afgangur af plássi, og þannig verður það ekki heldur hér í dag. Aðstandendur biðja ykkur sem ekki farið í garðinn að fara rakleitt í kaffið, þeir verða komnir nógu snemma til baka til að hægt sé að minnast við þá þar.
sr. Sigurður valdist ungur til trúnaðarstarfa fyrir kirkju sína. Hann varð prófastur í ársleyfi sitjandi prófasts árið 1957 en settur  prófastur  1962 og skipaður ári síðar og gegndi því embætti í rúmar aldarfjórðung. Hann var Kirkjuþingsmaður því sem næst frá fyrstu stund þess, varamaður frá 1958 en aðalmaður frá 1964 óslitið til 1986 . Hann var varamaður í kirkjuráði  1975 -1981 og  kirkjuráðsmaður 1981-1986.Hann var vígður vígslubiskup Hólastiftis 1982 og gegndi því embætti fram yfir opinber starfslok sín eða til  1991, en síðar aftur sem settur hálft árið 1999 og  hálft annað ár 2002 -2003. Hann  var ennfremur settur Biskup Íslands frá júní 1987 til janúar 1988 og aftur um sumarið sama ár. Hann var settur vígslubiskup í Skálholtsstifti sumarið 1993 til loka september sama ár.

Þegar sr. Sigurður var kjörinn vígslubiskup var embættið enn án sinnar eðlilegu heimilisfesti á biskupsstólnum á Hólum. Það var með vissum hætti lán embættisins að sóknarprestsembættið á Hólum skyldi losna árið 1986 og að  sr. Sigurður sem setið hafði Grenjaðarstað yfir fjörutíu ár ákvað að sækja til Hóla. Þannig varð honum unnt að stíga það giftudrjúga skref að setjast að á Hólum sem sóknarprestur og taka þannig með sér  embætti vígslubiskups heim að Hólum. Fljótt fennir í sporin og breytingar á lögum um vígslubiskupa sem fylgdu í kjölfarið láta marga gleyma þessari afdrifaríku ákvörðun sr. Sigurðar. En góð ár áttu þau hjónin bæði heima á Hólum og minntust þeirra með mikilli gleði.
Biskupsferill sr. Sigurðar Guðmundssonar  er um margt merkilegur eins og af  þessu sést.  Hafa ekki aðrir biskupar í sögu kirkjunnar á Íslandi gengt öllum þrem biskupsembættunum. Óteljandi eru heimsóknir hans og vísitasiur til safnaða, kirkna og presta, og þrettán presta vígði hann. Hann var nákvæmur embættismaður  og tók sem prófastur vel á móti nýjum prestum og studdi þá með ráðum og dáð.

Eftir að formlegum starfsdegi lauk bjuggu þau hjónin á bernskuslóðum hans hér á Akureyri. Lítið lát varð þó á önnum hans við prestsstörf, biskupsstörf og fleira enda hentaði  það honum best og  varð svo  meðan dag gaf til starfa. Hann var virkur og virtur félagi í reglu Frímúrara og sinnti því sérstaklega eftir að hingað kom til Akureyrar.

Við hlið hans alla tíð stóð stoð hans og stytta í meira en 60 ár frú Aðalbjörg  Halldórsdóttir. Engin leið er að hugsa annað án hins, í öllu falli alls ekki hann án hennar. Frú Aðalbjörg lést árið 2005.

Síðustu ár sín sat hann á friðarstóli í skjóli fjölskyldu sinnar og einkum dætranna tveggja hér á Akureyri. Á þessum árum komu ýmsir eðliskostir hans í ljós sem minna fór fyrir í erli annasamra embætta. Hann dró saman seglin. Sitt margfræga ljóðabókasafn gaf hann til Menntaskólans á Akureyri, þar sem því er búin vegleg umgjörð. Það eru yfir þrjú þúsund eintök, en allt bókasafn hans var þegar mest var meira en fimm sinnum stærra en ljóðabókasafnið. Hann var ekki bara ákafur og einlægur bókasafnari heldur ástríðufullur.

Fjölskyldan er þakklát fyrir það að hafa fengið að hafa hann svona lengi og í raun að fá að kynnast honum uppá nýtt. Síðasta skeiðið var hann til heimilis á Hlíð.  Hann var svo sem ekki alveg sáttur við það framan af en fljótlega var hann orðinn hrókur alls fagnaðar þar sem áður annarsstaðar. Hann hélt áfram grúski sínu í ættfræði og þjóðmenningu og var kappsamur fram á hið síðasta. Síðustu vikurnar sem hann  lifði, eða alveg fram í nóvember, sat hann meðan sætt var við tölvuna og  kepptist við að skrásetja nokkur  brot minninga sinna.

Síðustu línurnar eru svohljóðandi:

Ég naut þess að vera bóndi og þótti líka vænt um preststarfið. Aðalbjörg kona mín studdi mig í starfinu. Hún var einnig mikil búkona. Það var mjög gestkvæmt á Grenjaðarstað og margar og stórar veislur oft haldnar. Aðalbjörg stóð sig vel í hlutverki gestgjafans sem og í öðru sem hún tók sér fyrir hendur.  Ég er ánægður að leiðarlokum.

Far þú í friði Sigurður Guðmundsson. Friður Guðs þig blessi og hafðu þökk fyrir allt og allt, En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2010-01-23/sigurdur-gudmundsson-minningarord/


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli