Halla Einarsdóttir. Minningarorð
Kristján Valur @ 22.43 22/1/10
Halla Einarsdóttir frá Kárastöðum í Þingvallasveit var kvödd í kyrrþey þann 8.janúar. Duftker hennar verður jarðsett síðar í Þingvallakirkjugarði.
Minningarorð.
Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Jólin hafa kvatt og eru þó ennþá í dyrunum. Halldór Laxness hélt því fram að Íslendingar hefðu þann sið að nefna ekki hvaða erindi þeir hefðu átt fyrr en í dyrunum um leið og þeir kveddu. Jólin eru í dyrunum en hafa ekki lokið erindi sínu.
Himinninn frekar en jörðin minnir á það erindi.
Skáldpresturinn Valdimar Briem orðaði það svo:
Hve fagurt ljómar ljósa her
á loftsins bláa geim.
Hve milt og blítt þau benda mér
í bústað Drottins heim.
Hve björt og fögur sú var sól,
er sást um austurgeim
og fegurst skein hin fyrstu jól
við fæðing Guðs í heim.
Ó, lát þá stjörnu lýsa mér
um lífsins eyðisand
og sýna mér, nær fjörið fer,
hið fyrirheitna land.
Ó, lát þá stjörnu lýsa mér
um lífsins myrka dal
og leiða mig, nær lífið þver,
í ljóssins bjarta sal. (Sb 110)
Allar hugmyndir okkar um hinn himneska veruleika eru jarðneskar. Það segir okkur hversu himneskt það er að vera á jörðinni og hversu stórkostlegt lífið er. Engin listaverk eru stórkostlegri en þau tónverk sem skaparinn leikur sjálfur á vind og logn eða myndverk hans í litum sólar á himni, morgun, kvöld og miðjan dag. Hið dásamlega og dularfulla undur lífs og dauða er geymt í fegurðinni.
Á jólum verður himininn blárri og birtan dýpri. Himininn beygir sig niður að jörðinni og snertir hana með vörum sínum. Lífið heilsar. Lífið sigrar.
Ég fer burt til að búa yður stað, segir Jesús í guðspjallinu.Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
Fegurðin ríkir. Litbrigði jarðar, þúsund litir náttúrunnar eru fölir á jólum, en himinhvolfin syngja sína fullgerðu hljómkviðu sem þó breytist dag frá degi. Sól og regn mála myndir augnabliksins á á himininn. Lífið fagnar. Lífið fagnar andspænis dauðanum.
Allt sem lifir, deyr. Allt líf hverfist að einum ósi.
Kristin hugsun og játning segir: Guð sendi son sinn Jesú Krist í heiminn vegna barna sinna í heiminum, vegna dauðans sem er í heiminum, og vegna lífsins sem er sterkara en dauðinn.
Ég er upprisan og lífið, segir Jesús Kristur. Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. (Jh.11.25)
Við berum þau sem deyja inn í kirkjuna, fram fyrir auglit Guðs á leiðinni til grafarinnar.Dauðinn er áfangi á leiðinni heim til Guðs. Dauðinn er áfangi lífsins.Upprisa Jesú Krists frá dauðum boðar okkur það.
Ekkert er eðlilegra í lífinu en að deyja.Samt er dauðinn alltaf óvinur. Hann tekur frá mér þann sem ég elska.En það er ekki áform Guðsríkisins.Hlutverk Jesú Krists er að sýna fram á það.Jesús glímir við dauðann og hefur sigur. Lífið ber sigurorð af dauðanum.Og lífið er það sem við elskum og sækjumst eftir. Lífið sem iðar og tifar, tiplar og skriplar.
Við elskum hið jarðneska líf af því að það er elskuvert. Það er lífið í allri sinni dýrð, í fegurð og tign fjallanna, lækjanna, lindanna, í söng fuglanna og í suði flugnanna, í tryggð dýranna og þokka mannanna og yndisleik barnanna, í ilmi jarðar og moldar undir sól og regni, vetur, sumar, vor og haust.
Lífið er okkur kært og dauðinn óvinur, og gildir einu þótt hið himneska taki hinu jarðneska fram. Það liggur í eðli mannsins. Hann er mold og heyrir jörðinni til og hann væri ekkert nema mold nema af því að Guð hefur blásið lífsanda í moldina. Það er andi, fæddur af lífgefandi anda hans, og hverfur til hans aftur um eilífð þegar lífsdagur er liðinn. Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var, en andinn til Guðs sem gaf hann, segir predikarinn.
Maðurinn fellur til jarðar eins og lauf á hausti og hlýtur legstað á jörðu, sem þó er ekki staður hans. Ég fer burt til að búa yður stað, segir Jesús. Jesús Kristur býr manninum stað á himni sem er svo dýrmætur að hann lætur líf sitt til að tryggja hann.
Ég hefi beint til ykkar þessum orðum er við komum nú saman til að heiðra minningu látinnar systur.
Halla Einarsdóttir sem hér er kvödd var næstyngst 11 barna þeirra hjónanna Guðrúnar Sigurðardóttur og Einars Halldórssonar að Kárastöðum í Þingvallasveit. Hún var fædd í Reykjavík þann 18. nóvember 1930 og í Reykjavík fæddist líka yngsta barnið á bænum. Nú lifa aðeins tvö systkinanna mörgu.
Óhætt er að segja að Kárastaðaheimilið hafi verið umsvifamikið heimili og ekki aðeins vegna þess að börnin voru mörg. Einar var barnakennari og hann var hreppsstjóri og hann var meðhjálpari í Þingvallakirkju. Þingvallakirkja kynni margt að segja frá trygglyndi Kárastaðaheimilisins við hana á afmælisári sínu ef hún mætti mæla. Því enn er ekki lát á því. Í rausnarskap sínum styrkti Halla með hárri upphæð minningarsjóð Guðbjargar systur sinnar, sem stofnaður var eftir andlát hennar árið 2004, og er ætlað að styrkja tónlistarflutning í Þingvallakirkju.
Halla ólst upp á Kárastöðum til fullorðinsára. Hún fékk sína grunnmentun í farskóla Þingvallasveitar, ýmist á Kárastöðum eða Brúsastöðum, og reyndist það gott veganesti.
Barnmargt heimili er líflegt heimili við leik og störf.
Hreysti hennar í bernsku var við brugðið og minntust margir þess hve oft hún sást renna sér á skíðum í ásnum fyrir ofan gamla bæinn án þess að bera annan skjólfatnað en einn þunnan léreftskjól.
Úr föðurættinni hafði hún erft hið rauðhærða og keltneska einkenni og var allt í senn skapmikil, og jafnvel hrjúf, og mild og rausnarleg.
Líkast til var hún alltaf barn sinnar sveitar. Hún þekkti kannski ekki hverja þúfu, en örnefni innan sveitarinnar kunni hún ótalmörg.
Hér læðist bakvið ása ærin stygg
yndisleg kroppar fuglagrasið mjóa;
fjöllunum mínum er hún trú og trygg
og töfrum þeirra allt til fyrstu snjóa.
Hér hefur veisla varað í þúsund ár
og varir meðan æruprísinn sprettur,
bláklukkan fellir dulræn döggvartár
og deplar auga mófuglsunginn nettur.
Halldór Laxness var í miklu uppáhaldi hjá Höllu. Hún kunni orðrétt langa kafla úr verkum hans og var ólöt að visa til þeirra. Svona orti Halldór árið sem Halla fæddist, en reyndar af öðru tilefni.
Um tvítugsaldur hleypti Halla heimdraganum og hélt til Reykjavíkur til að vinna fyrir sér. Hún hóf störf á prjónastofunni Malín á Grettisgötu, og var þar í nágrenni eldri systur sinnar Elísabetar sem bjó á Þórsgötu. Um skeið átti hún heimili sitt hjá elstu systurinni, Jóhönnu, í Nóatúni.
Eftir að prjónastofutímanum lauk starfaði hún um árabil hjá Áfengisverslun Ríkisins og eignaðist þar vini sem hún minntist lengi og þeir hennar. Síðar hóf hún störf hjá Landsbanka Íslands og það varð hennar lengsti starfsferill sem varði í rúmlega tvo áratugi.
Halla var mjög tengd Kárastöðum alla tíð og unni þeim. E.t.v. var hún bundnari bænum en nokkurt annað systkinanna sem fluttu burt. Þingvallavatn bar ógn yfir sér fyrir Kárastaðasystkin eftir að Geir bróðir þeirra drukknaði í vatninu aðeins 15 ára er hann var að aðstoða við byggingu sumarbústaðar í Kárastaðalandi með sandflutningum á bát.
Þær systur, Guðbjörg og Halla dvöldu um árabil um jól og áramót á Kárastöðum. Og eins og stendur í minnispunktum fyrir þessi minningarorð til nánari áréttingar: „í dekruðu yfirlæti húsfreyjunnar Elínar Helgadóttur og bróður þeirra, Guðbjörns – Mannsa - bónda og hreppsstjóra. “
Baðstofan stóð þeim opin allt árið. Það var Höllu því mikið fagnaðarefni þegar sú hugmynd kviknaði að gamli bærinn, reisulegi yrði endurnýjaður á vegum Þingvallanefndar og nýttur í þágu þjóðgarðsins. Það er þá líka verkefni okkar að fylgja þeim áformum eftir.
Tilsvör Höllu eru öllum ógleymanleg. Einar systursonur hennar segir að þau hafi oftar en ekki verið mórölsk áminning konu sem mátti ekki vamm sitt vita. Hún var afar gagnorð, tungutak hennar var meitlað og sterkt. Hún var í eðli sínu dul en þó ekki fálát, einförul en naut þess að vera í góðra vina hópi. Sá góði vinahópur sem hér er samankominn er boðinn til kaffisamsætis að Hótel Loftleiðum að þessari athöfn lokinni.
Halla unni ferðalögum jafnt innan lands sem utan og tók flugið þegar það gafst og var í hópi fyrstu ferðalanganna á vegum ferðaskrifstofunnar Útsýnar.
Tjaldferðalögin urðu mörg hér heima fyrir. Í minningum þátttakendanna í þeim ferðum var Halla alltaf hrókur alls fagnaðar, einkum þegar búið var að tjalda og fagna mátti góðu nesti af ýmsu tagi. Þá var hún óborganleg.
Halla giftist ekki, en hún átti sér vin og lífsförunaut, Guðbrand Guðjónsson, bankastarfsmann og útibússtjóra Landsbankans á Hvolsvelli en hann lést í desember árið 1999. Þau ferðuðust saman til útlanda, einkum til Lundúna sem Guðbrandur hafði mikið dálæti á. Þau áttu góða daga sama. Hann var rólegur og yfirvegaður, hún allnokkru hvatvísari.
Afkomendur á Halla ekki, en hún átti það sammerkt með systur sinni Guðbjörgu að fylgjast náið með afkomendum systkina sinna og sinnti þeim af áhuga og grandvarri umhyggju. Óbrigðult minni hennar á sögur og atburði hjá stórfjölskyldunni var dýrmætur brunnur að ausa úr.
Halla skilur eftir sig mjög afgerandi og eftirminnilega mynd sem jafnvel þeir sem ekki þekktu eiga auðvelt með að sjá fyrir sér þegar um hana er rætt.
Hún er kvödd í þökk og í virðingu.
Varla er hægt að kveðja hana betur en með lokaversum Halldórs Laxness í kvæðinu um hátíðina 1930.
Hvert spor mitt er sem gleymska lángra lífa.
Þau liðu burt. Þau verða ei framar stigin.
Mín sól er bakvið Mosfellsheiði hnigin,
hversdagsleg nótt á Vellandkötlu sigin.
Við Vatnskotstúnið hímir bleikur hestur.
Ég heilsaði onum kunnuglegur í bragði
- það á hann sjálfsagt einhver næturgestur.
Hann leit á mig og þekti mig og þagði -
Far þú í friði Halla Einarsdóttir
Friður Guðs þig blessi
Og hafðu þökk fyrir all tog allt
En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist.(1.Kor.15.56) Amen.