kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Barnadagur · Heim · Finnskur jólasálmur »

Nýarsdagur í Þingvallakirkju 2009

Kristján Valur @ 14.01 2/1/09

Það var hlýtt og notalegt í Þingvallakirkju á nýársdag, enda komnir nýir ofnar í kirkjuna og frostlaust úti. Kirkjusókn var ágæt, og margir sem eru fastagestir þennan dag.
Guðspjallið. Jóh. 2. 23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.

Þín miskunn Herra hár
oss hlífði liðið ár
með ástúð óþreytandi,
við allri neyð og grandi.

Þótt harma skelfdu ský
oss skein hvern morgun ný
með blessun lands og lýða
þín líknarsólin blíða.

Oss börn þín bæn heyr þú
vér biðjum faðir nú
Sem áður enn vor gættu
við allri neyð og hættu.

Veit kristnum lýð þitt lið
og landi voru frið
þeim hjálp er hér enn þreyja
þeim himinn þinn er deyja.
Sb. 100.

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Spurning séra Matthíasar í sálminum fagra sem við sungum: Hvað boðar nýárs blessuð sól? virðist skrifuð skírara letri á þessum nýársdegi en oft áður.  Flestum gengur heldur illa að ráða þær rúnir sem liðnir dagar hafa ritað. Þó stefna sé valin og stýrið sé fast geta vindar og veður  fært bát í kaf eða kastað á land upp.
Hvað er til ráða í málum lands og lýðs, í málum heimilanna og fjölskyldnanna  og í okkar eigin málum hvers og eins?
Það er ekki viðfangsefni þessar predikunar að ráða fram úr því. Það er sameiginlegt viðfangsefni okkar allra eftir því sem við höfum styrk til  og rftir því hver aðkoma okkar er að mótun stefnu og lausna..
Í  hinu kirkjulega og trúarlega samhengi  sem guðspjall dagsins setur fram, er stefnan skír og afdráttarlaus. Kannski  mætti hafa það til marks í víðara samhengi.

Textinn sem við heyrðum úr guðspjallinu  er ritaður í beinu framhaldi af frásögninni um hreinsun musterisins, þar sem kjarnaatriðið er að hús Guðs skuli vera bænahús en ekki ræningjabæli.
Kæri söfnuður, þetta þýðir ekki síður að ekkert hús á að vera ræningjabæli, nema náttúrulega  lögheimili ræningjanna, því einhverstaðar verða vondir auðvitað að vera.

Þetta þýðir auðvitað ekki aðeins það að í kirkjunni, í kirkjuhúsinu,  eigi ekkert að fara fram annað en það sem hæfir Guðs húsi, og að þau sem vitja Guðs húss eigi að sýna húsinu virðingu eins og Guði sjálfum sem þar er lofaður og tilbeðinn, það þýðir líka að þar skuli oft og einatt fara fram bænagjörð og að sérhver sá sem játar trú á Jesú Krists vitji síns bænahúss reglulega.
Það er ekki nóg að rækja og rækta trú sína í einrúmi þó gott sé, heldur þarf líka að sýna  Guðs húsi ræktarsemi.
Og þetta erum við að gera hér á Þingvöllum á afmælisári þessa fagra helgidóms, bæði hið ytra og hið innra eins og sjá má og finna má, bæði af málningarlyktinni og þessari óvanalegu hlýju sem umlykur okkur og nýju ofnarnir standa fyrir.

Í yfirfærðri merkingu þýðir þessi áminnig um að Guðs hús skuli vera bænahús og ekki annað, einnig  að ekki skuli blanda saman óskyldum og ósamræmanlegum hlutum. Í Guðs húsi er Guð einn tilbeðinn.  Guðs hús er frátekinn og afmarkaður staður helgaður Guði og þjónustunni, þar sem maðurinn veitir Guði þjónustu og Guð honum.  Starfsemi sem er óskyld og framandi guðsþjónustunni á ekki að fara fram þar sem Guð er tilbeðinn.
Það er vegna þess að Guð er einn og að sá Guð sem er einn birtist í Jesú Kristi, sem við köllum Guðs son og við mætum honum þegar við komum saman í húsi hans ,og eigum að geta gert það truflunarlaust.

Það ligggur fyrir tillaga um að ekki skuli byggð venjuleg kirkja í Mosfellsbæ heldur menningarhús í samvinnu bæjarfélagsins og safnaðarins. Það er  eins konar fjölnotahús.  Það er næstum því  eins og að ætla sér að byggja helgidóm fyrir ýmisskonar  trúarbrögð, eins og hugmyndin var með endurgerð Fossvogskapellu sem þarf að mæta þörfum hinna ólíku trúarbragða við andlát og útför. Það gengur samt misvel að þóknast þeim.

Margir hafa líka séð þess konar kapellur á stórum alþjóðaflugvöllum. Þar hefur þá  verið tekin sú ákvörðun  að taka skuli tillit til þess í svo stóru samhengi að mjög margir flugfarþegar eru bæði flughræddir og  trúaðir, en tilheyra mismunandi trúarbrögðum. Þess vegna þarf að finna þeim stað til tilbeiðslu. Einn stað fyrir alla.
Hver er niðurstaðan: Þangað leitar varla nokkur maður, vegna þess að trúaður maður á auðveldara með að biðjast fyrir í einrúmi án nokkurs sérstaks rýmis heldur en í alrými allra trúarbragða,  Það gefur svona álíka mikinn frið í sálina eins og að vera ástfanginn í öllum konum í einu.

Kæri söfnuður.
Við höfum að undanförnu verið  þátttakendur í einhverskonar hrærigrautarsamfélagi.  Hugmyndin að fjölnota húsinu í Mosfellsbæ í staðin fyrir kirkju er líkast til afkvæmi þess.
Þegar allt er metið til fjár og launa er eins og allt sé falt fyrir fé. Það sem ég vil það fæ ég af því ég get borgað fyrir það, eða af því að ég á rétt á því. Í hrærigrautarsamfélaginu eru engar skyldur, bara réttindi, og forréttindi. Og þeim er haldið við með offramboði á öllum sviðum.
Við höfum búið við ofgnótt.

Það var fyrir löngu komið í ljós að það er ekki gott að borða hvað sem er og í hvaða röð  sem er, eða blanda hverju sem er saman. Það eru skilaboð næringarfræðinnar.
Í stórveislum liðins árs sáum við, í bókstaflegum skilningi vel að merkja, fólkið fara frá hlaðborðinu með diskinn sinn kúfaðan eins og það ætti ekki von á mat á næstunni.
Og þar var rækjusalatið  ofan á djöflatertunni og rjóminn ofan á ostinum, graflaxsósan á svínalærinu og brúnuðu  kartöflurnar á harðfiskinum.

Þessari veislu hefur nú verið slitið, og við þurfum ekki að sakna hennar. En það er eftirsjá að því sem fór beint af borðinu í ruslaföturnar.
Við  munum ekki skaðast á því að borða minna, eða eiga úr færri tegundum að velja.  Það sem er hinsvegar kvíðvænlegt á nýja árinu er  atvinnuleysið og skuldir heimilanna. Við verðum öll að hjálpast að við að leysa þann vanda. Ef við getum tryggt fleira fólki atvinnu með því að minnka eigin innkomu þá eigum við að gera það, nema ef það þýðir að við getum þá ekki staðið í skilum með lánin okkar. Þá getum við það ekki.  Og það er ekki heldur hægt að ætlast til þess.

Kæri Þingvallasöfnuður.
Við vitum ekkert um þetta nýja ár. Við vitum ekkert um þá framtíð sem bíður okkar. Við vitum hinsvegar að við erum stödd í atburðarás sem er farin af stað og komin lengra en við kunnum að greina. Við vitum að við þurfum að vera viðbúin ýmsu án þess að vita hvað það er.
Hvernig undirbýr maður sig fyrir það? Eins og fyrir átök og erfiði.  Með því að efla styrkinn. Fyrst hinn innri styrk  með því að vera í góðu jafnvægi líkamlega og andlega og svo styrk samstöðunnar.
Einar Benediktsson sem hvílir hér fyrir austan kirkjuna, segir:

Maðurinn einn er ei nema hálfur
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.

(Einar Benediktsson, Fákar)

Hvert er þá inntak þess sem gjöra skal?  Að leggja lið hinu góða  og andæfa gegn hinu illa. Að elska.
Það eina sem við eigum nóg af þegar harðnar á dalnum er kærleikur og umhyggja. Það er það eina sem við þufum ekki að spara og megum ekki spara.

Við höfum lært að vera ekki að grautast í öllu í einu, heldur taka markvisst fyrir eitt og eitt málefni og fylgja því eftir til lykta.
Við höfum lært að eyða ekki dýrmætum kröftum í óþarfa , eða spilla því einfalda með flóknum búningi.
Við höfum lært að það sem skiptir máli er að við erum manneskjur af holdi og blóði og að við viljum vera elskuð og virt  og viljum gera okkar til þess að við séum elskuverð.
Við höfum lært að sá boðskapur að Guð elski okkur eins og við erum , er í raun stórhættulegur vegna þess að hann leitar staðfestingar Guðs á þeim persónulegu ágöllum okkar sem við nennum ekki að breyta.

Hin skíra stefna guðspjallsins er að benda á Jesú einan. Á Jesú nafn.
Fyrsti janúar á kirkjualmanakinu er dagurinn þegar Jesús fékk nafn, eins og  segir í guðspjalli dagsins eftir fyrstu lestraröð:… og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi. (Lk.2.21)
Guðspjallið eftir annarri röð  sem lesið er  í dag,  bætir við:  Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans,… (Jh.2.33)

Nýtt ár er hafið. Við vitum ekkert um það, nema að fyrsti dagur þess er helgaður nafni Jesú Krists.  Þannig heilsuðu kynslóðirnar hverjum nýjum degi. Þær fólu sig Guði á vald í Jesú nafni.Við gerum það einnig.
Í nafni hans  er styrkur og kraftur til lífs; kraftur til að takast á við lífið og við dauðann .

Séra Matthías fermdi Benedikt afa minn. Það var nánast sjálfsagður hlutur í uppeldinu að bera mikla virðingu fyrir því sem hann sagði.  Það sem hann segir í sálminum sem við sungum, getur gilt fyrir öll heimili þessa lands.
Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.

Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.

Vor sól og dagur, Herra hár,
sé heilög ásján þín í ár.
Ó, Drottinn, heyr vort hjartans mál,
í hendi þér er líf og sál.

Þannig er það, kæri söfnuður, og ekkert öðruvísi en það.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2009-01-02/nyarsdagur-i-thingvallakirkju-2009/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 2/1/2009 16.51

Takk fyrir þessa prédikun og áminningu um hrærigraut og mataræði af ýmsum toga.

Þingvallakirkja | Nýársdagur í Þingvallakirkju 2009 @ 21/3/2009 16.37

[...] Það var hlýtt og notalegt í Þingvallkirkju á nýársdag rétt eins og á jóladag. Nýju ofnarnir skila sínu með prýði. Góður hópur þeirra sem sækja kirkju á Þingvöllum nýársdag, kemur á hverju ári. Svo var einnig nú. Predikunina er að finna hér. [...]


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli