kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Fleira vaknar en vorið · Heim · Sjómannadagsmessa í Þingvallakirkju »

Ásgeir Kristinsson. Minningarorð.

Kristján Valur @ 20.16 18/4/08

Útför Ásgeirs Kristinssonar fór fram frá Grenivíkurkirkju laugardaginn 5. apríl 2008

Ásgeir Kristinsson f. 25.nóvember 1935, d. 20. mars 2008.
Útför frá Grenivíkurkirkju  5. apríl 2008

Guðspjallið Jóh. 20. 1- 18a.

Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma að enn var myrkur og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins sem Jesús elskaði og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“
Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn sem verið hafði um höfuð hans. Sveitadúkurinn lá ekki með línblæjunum heldur sér, samanvafinn á öðrum stað.
Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.
En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“
Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“
Jesús segir við hana: „María!“
Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)
Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“
María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“

Náð sé með yður og friður  frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Við  höfum hlýtt á páskaguðspjallið nú þegar við komum hér saman  yfir moldum Ásgeirs Kristinssonar frá Höfða, í  hinni hvítu birtu páskasólarinnar.
Jafnvel jörðin gleðst yfir sól upprisunnar og gullnum geislum hennar.  Jesús stígur upp úr gröf sinni og hefur sigrað dauðann. Gröf hans er tóm.  Þannig eru og  grafir allra þeirra sem sofna í trú á hann. Tómar.
Í öðrum guðspjallstexta segir frá því að þegar Jesús undirbjó lærisveina sína áður en hann skildist frá þeim, sagði hann þeim að hann færi burt að búa þeim stað. (Jóh. 14. 2). Hvað merkir það?

Staður minn og þinn er í venjulegri merkingu staðurinn þar sem við eigum heima. Við kennum börnum okkar að rata þangað heim af því að það er  eitt hið allra dýrmætasta veganesti sem við getum gefið þeim. Okkur er  öllum  nauðsynlegt að eiga stað.  Stað á jörðu og stað á himni.
Jesús bætir  við:  Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt að ég færi burt að búa yður stað. (Jóh.14. 2-3)

Ásgeir Kristinsson þekkti sinn stað. Bæði á jörðu og á himni. Hann miðlaði þeirri þekkingu sinni og trú til sinna nánustu og annarra, og hann var og er okkur dýrmætur  sjálfur, eins og staður hans á jörðu og himni.
Öllu er afmörkuð stund, segir predikarinn. (Pred.3.1) Dag nokkurn er runnið  upp endadægur.   Moldin kallar og himnalúðurinn gellur.

Eins og Hallgrímur segir: Lífið manns hratt fram hleypur, hafandi öngva bið.   (Sb.273. Hallgrímur Pétursson). Það er lífið sem við elskum og viljum halda í svo lengi sem kostur er, því við elskum hið jarðneska þó að hið himneska sé í vændum.

Það liggur í eðli mannsins. Hann er mold og heyrir jörðinni til, og hann væri ekkert nema mold nema af því að Guð hefur blásið lífsanda í moldina. Það er andi, fæddur af hans,  og hverfur til hans aftur um eilífð þegar lífsdagur er liðinn og hin jarðneska tjaldbúð fellur til jarðar. Predikarinn segir: Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var en andinn til Guðs sem gaf hann.

Jesús Kristur býr honum stað, sem er svo dýrmætur að hann lætur líf sitt til að tryggja hann.
Kallið kemur og við verðum að hlýða því. Þá gerist það sem Davíð lýsir svo:
Í gegn um móðu og mistur, ég mikil undur sé. Ég sé þig koma, Kristur.  (Sb. 143. Davíð Stefánsson).
Jesús segir: Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. (Jóh. 14. 2-3)

Ég hef beint til yðar þessum orðum er vér komum nú saman til þess að heiðra minningu látins bróður.

Ásgeir Kristinsson sem hér er kvaddur var fæddur í Höfða í Höfðahverfi hinn 25.nóvember árið 1935, næst yngstur fimmtán barna þeirra hjónanna Sigrúnar Jóhannesdóttur ( 18.7. 1892 – 7.12.1989) og Kristins Indriðasonar (7.4.1890 – 16.11.1953)
Af þessum stóra hóp lifa nú aðeins fjögur, Sigríður Rósa, Ásmundur Hreiðar, Flosi og Haraldur Kristófer,  en látin eru Jóhannes Steinþór, Ragnheiður, Kristmann,  Valdemar Gestur, Indriði, Sigurður Árni, María Soffía, Anna Kristbjörg, Jón Yngvi og Jóhannes.
Ásgeir ólst upp  Höfða við öll venjuleg sveitastörf þess tíma, einmitt þegar sú bylting varð í búskaparháttum að lifandi hestöfl breyttust í vélræn. Ásgeir fylgdist með þessum framförum af miklum áhuga sem mótaði ævistarf hans.
Hann var ekki gamall þegar hann hleypti heimdraganum. Haustið 1948 flutti hann austur á Eskifjörð með systur sinni Sigríði Rósu sem þar hóf búsetu. Hann gekk í skóla á  Eskifirði og fermdist þar  vorið 1949. Ásgeir eignaðist marga vini og kunningja fyrir austan og var systur sinni,  með hennar eigin orðum sagt,   sannkallaður gleðigjafi og hjálparhella, þar sem hún var með tvö ung börn, annað ársgamalt en hitt í vöggu og eiginmanninn á sjó og því lengst af utan heimilis. 
Við vitum að þessi lýsing, gleðigjafi og hjálparhella, getur sem best verið yfirskrift yfir ævi hans allri.

Þegar dvölinni  fyrir austan lauk  var Ásgeir næstu árin heima í Höfða og starfaði við búskapinn, en árið 1955 tók hann meiraprófið á Húsavík og öðlaðist þar með réttindi til að stjórna öllum gerðum og stærðum ökutækja. 
Á vetrum var hann á vertíð í Grindavík og Keflavík og  Vestmannaeyjum og eitt sumar var hann á síld.

Á þessum árum varð hann fyrir því áfalli að meiðast  illa er hann klemmdist milli vörubíls og vagns, og þurfti að undirgangast tvo uppskurði.  Daginn þann fann öll sveitin til. En hann sigraðist á þessu eins og svo mörgu öðru og náði fullum bata.
Veturinn 1962 – 1963 var hann starfsmaður búnaðarsambandsins  og vann hjá bændum hér í sveit við ýmiss störf. Þá sem endranær  var enginn lognmolla í kringum hann. 
Nokkru fyrr, eða árið 1961 keypti Ásgeir sinn fyrsta vörubíl. Það var upphafið að löngum og farsælum starfsdegi sem vörubílstjóri að aðalstarfi til æviloka.
Annar, ennþá merkari kafli í ævi hans hófst einnig  árið 1961. Eins og það heitir svo fallega, þá gerðist það á því ári að þau felldu hugi saman Ásgeir og Elísa Ingólfsdóttir. Hinn 2. júni 1963 gengu þau í hjónaband. Þau  keyptu húsið Sólberg og stofnuðu  þar heimili sitt í nóvember  sama ár.

Þau hjónin eiga þrjú börn.
Elstur er Heimir fæddur 1963, kona hans er Ólöf Bryndís Hjartardóttir, þau eiga Hjört Geir og Sigríði Júlíu og fyrir átti Heimir Hörpu Rut. Næst er Sigríður Soffía fædd 1966,  dáin 1985.  Yngstur er Ingólfur Kristinn f. 1968 Kona hans er Álfheiður Karlsdóttir, þau eiga Ásgeir Tuma og Sigurð Hrafn.
Heimili þeirra stóð í Sólbergi í fjórtán ár. Þá byggðu þau sér nýtt hús á Stórasvæði 4 og fluttu í það árið 1977 og hafa búið þar alla tíð síðan.

Ásgeir hafði atvinnu af vörubílnum  en auk þess  stunduði þau hjónin kartöflurækt frá árinu 1963 og allt til þessa dags.  Kartöfluræktina hófu þau i samstarfi við frænda hans Pétur Axelsson og fjölskyldu hans og stóð það samstarf allt til þess að Pétur dró sig í hlé árið  1997, eða í  hartnær 35 ár. Það var gott samstarf.
Þekktastur var  Ásgeir fyrir störf sín sem vörubílstjóri. Hann var í  bílstjórafélaginu á gullaldarárum þess  og  því fylgdi  mikil vinna  og fjölbreytt samskipti við margt fólk og mörg heimili. Einkenni þessa tíma var:  Mikið unnið og lítið sofið. En hann var  heilsuhraustur  og hafði mjög mikið starfsþrek

Á seinni árum vann hann hjá malbikunarflokki Vegagerðarinnar,  allt þangað til sá flokkur var lagður niður og fór með honum vítt um land m.a alla leið til Vestfjarða.Hann var mjög farsæll í starfi sínu og átti að baki slysalausan feril.

En sorgin vitjaði hans einnig.
Stærsta höggið í lífi Ásgeirs var efalaust þegar einkadóttir þeirra  Lísu lést  hinn 21.júní 1985 í Þýskalandi aðeins nítján ára gömul.  Síssa, eins og hún var kölluð, hafði þá lokið þrem vetrum menntaskólanáms.  Hún var á málabraut og réði sig til sumarstarfa hjá þýskum hjónum til að læra málið betur.  Þar kom kallið og höggið þunga féll. Hún var jarðsett á afmæli móður sinnnar 29. júní.
Með þakklæti minnast þau hjónanna Steinunnar og Björgvins Tómassonar sem bjuggu á sama stað og veittu mikla hjálp og hlýju.
Og fólkið hennar  vill einnig  að það sé orðað svo óháð því hver  hér talar,     á erfiðri stundu í framandi landi var ómetanlegt að fá huggun frá gömlum sveitunga Kristjáni Val  sem kom óbeðinn til aðstoðar.  
Ásgeir bar tilfinningar sínar ekki á torg.  En fráfall Síssu var mikið áfall fyrir hann  og alla fjölskylduna.   Það er sár sem seint grær.
Þá er gott að mega trúa því að sérhver sá sem lagður er í faðm Jesú Krists í heilagri skírn og heldur sig við þá trú megi vænta endurfunda að liðnum lífsdegi við þau sem farin eru á undan. Nú eru þau feðginin á sama stað.

Ásgeir tók drjúgan þátt í félagsmálum sveitarinnar  og sat um tíma í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps. Hann vildi sveitarfélaginu allt hið besta.  Hann var Höfðhverfingur af lífi og sál og hefði geta sagt eins og Kristján Ben:

Ég minnist unaðs og æskustunda
er út á túni ég var að dunda
og vorið sindraði í sólareldi
á kyrru kveldi
í Höfðahverfi.

Þar leið æska mín eins og gengur
unaðsreit átti lítill drengur
þar margur átti að baki bróður
og grænn var gróður
í Höfðahverfi

Ennþá hugurinn er þar stundum
með æskufólki í leik á grundum
og birtan leikur um bjarta daga
og holt og haga
í Höfðahverfi.

Enda er sveitin mín öðrum betri
alltaf fögur á sumri og vetri
og þegar árin mig gugginn gera
þá vildi ég vera
Í Höfðahverfi.
Kristján H. Benediktsson

Ásgeir var í mörg ár formaður Björgunarsveitarinnar Ægis. Þegar hreppurinn að frumkvæði Kvenfélagsins,  keypti snjóbíl árið 1967 var hann ráðin bílstjóri á honum og sá um þá þjónustu að öllu leyti þangað til hún lagðist af.
Ásgeir var mjög félagslyndur og hann var  mannvinur.  Hann átti afar  marga góða vini, nær og fjær. Það var orðað svo hér í morgun að hann hefði þekkt annan hvern mann á landinu og kannast við hina!
Ýmsir eru þeir sem gjarna vildu vera hér i dag en geta ekki. Hér eru fluttar kveðjur Elínar Ringsted, fyrir áratuga vináttu, og  kveðjur félaganna Helga Ásgrímssonar  og Reimars Þorleifssonar á Dalvík  og Jóhanns Helgasonar og skipshafnarinnar allrar á Hákoni. Hér eru líka fjarverandi  en með hugann hér Jónas, Guðrún og börn á Grýtubakka I  og Kristján   á Grýtubakka og Hjálmar Guðmundsson.  Öll hefðu þau viljað  fá að þakka Ásgeiri fyrir góða og trygga vináttu, svo og alla hjálp og samstarf gegnum árin  og  flytja aðstandendum hans  samúðarkveðjur.

Í minningu samferðafólksins var helsta einkenni Ásgeirs dugnaður.  Menn höfðu á  orði að hann vekti við vinnu á sumrin en svæfi síðan þegar tími væri til. 
Hann var bóngóður og það besta sem hann gat hugsað sér var gera öðrum greiða.  Það var alltaf gaman þar sem hann var því hann var  alltaf jafn jákvæður og hress og til í allt. Einhver orðaði það svo: Hann var lyftiduft og púður allsstaðar þar sem hann kom nærri.   Þegar Lionsklúbburinn Þengill var stofnaður fyrir tæpum 40 árum, var hann að sjálfsögðu stofnfélagi.
Og Hestamannafélagið Þráinn gerði hann að heiðursfélaga sínum árið 2007, því þar var hann auðvitað líka félagsmaður til fjölda ára.
Ásgeir hafði mikla sölumannshæfileika, og fór víða um sveitir og seldi harðfisk og kartöflur, sigin fisk og saltfisk og jafnvel hákarl. Af þessu varð hann ekki aðeins kunnur og dáður heldur jafnvel elskaður,  og líka af þeim sem, eiginlega ætluðu ekki að kaupa neitt af honum, en gerðu það nú samt.

Ásgeir var mjög hreinskiptinn í samskiptum sínum við fólk og gerði þar ekki mun á smáum og stórum,  ungum eða gömlum.
Þess minnist sérstaklega fjölskylda séra Bolla Gústavssonar,  sem nú snýr aftur heim í Laufás, þegar hann verður lagður þar til hinstu hvílu á mánudaginn. Matthildur Jónsdóttir ekkja hans, sendir fjölskyldu Ásgeirs samúðarkveðjur og fjölskyldan hennar minnist Ásgeirs í miklu þakklæti fyrir ræktarsemi hans við sr. Bolla og þau öll  alla tíð.
Ásgeir var ákaflega barngóður og frændsystkinin í fjölskyldunni voru miklir vinir hans svo ekki sé talað um barnabörnin.
Hinn 14. mars sl. fæddist fyrsta langafabarnið. Þá  eignaðist elsta barnabarnið, Harpa Rut lítinn sólargeisla, en  Ásgeiri auðnaðist ekki að sjá hann.

Hann var mjög litríkur persónuleiki.  Hann var eiginlega ekkert venjulegur maður.  Og gestrisni hans og þeirra hjóna var víðfræg og náði út fyrir landsteinana.
Það kom ekki síst fram á Kanaríeyjum  en hjónin hafa farið þangað á vetrum um árabil. Þar var hann eins og víða annarsstaðar hrókur alls fagnaðar og söng mikið.
Og það sem meira var, hann tók með sér hamsatólg og rúgbrauð til Kanaríeyja og  saltfiskinn líka.  Og svo buðu þau hjónin  vinum sínum í alíslenska veislu á Kanaríeyjum. Hann er raunar vís til þess að hafa reynt að kenna Spánverjum að hafa hamsa út á fiskinn.

Gamlárskvöldin í Stórasvæði 4 eru fjölskyldunni líka ógleymanleg. Þá buðu hjónin til kvöldverðar.  Þar var glatt á hjalla og hápunktur kvöldsins þegar  farið var að skjóta upp flugeldum.  Þá varð Ásgeir eins og smástrákur og allra duglegastur við þá iðju, í þágu góðs málstaðar.
Ásgeir hafði  mikla ánægju af söng, og var mikill söngmaður  og þegar hann ekki söng var hann blístrandi.  Það er því vel við hæfi að það er  mikið sungið hér í dag.
Og sönginn um villöndina var hann búinn að kenna nafna sínum og  sonarsyni á ferðum þeirra á vörubílnum.

Hann var lengi félagi hér í Kirkjukórnum og hafði mikla ánægju af söngnum og félagsskapnum,  og hann af honum. Haukur og Ingibjörg sem ætluðu að vera með í kórnum í dag en eru forfölluð vegna veikinda, minnast Ásgeirs í miklu þakklæti, og það gerir líka kórinn allur og söngstjórinn. Skarð Ásgeirs þar verður aldrei fyllt.

Kórinn syngur hér á eftir úr kvæði Davíðs Stefánssonar um fuglana.  Í því kvæði eru líka önnur vers sem ekki eru sungin,  eins og þetta:

Sá einn er skáld sem skilur fuglamál
og skærast hljómar það í barnsins sál
Hann saurgar aldrei söngsins helgu vé
Hann syngur líf í smiðjumó og tré

Og glæðir nokkur gleði meiri yl
en gleðin yfir því að vera til
Og vita alla vængi hvíta fá
sem víðsýnið og eilífðina þrá.

Hver fugl skal þreyta flugið móti sól
að fótskör Guðs  að lambsins dýrðarstól
Og setjast loks á silfurbláa tjörn
og syngja fyrir lítil englabörn.

Þegar  þess var minnst um allan hinn kristna heim    Jesús hafði sent lærisveina sína til að útbúa loftsalinn fyrir síðustu kvöldmáltíðina á skírdag, þá kom kallið sem Ásgeir Kristinsson varð að hlýða. Páskamáltíð hans var ekki á jörðu heldur á himni þar sem hann á vini í varpa.

Nú leggjum við hann til hinstu hvíldar  í nýjan hluta kirkjugarðsins. Þegar við höfum borið kistuna í garðinn verður hin nýja viðbót helguð áður en moldað er.  Samkvæmt langri hefð er sá sem fær það hlutverk að vera jarðaður fyrstur í nýjan garð eða viðbót sérstakur vökumaður hins  nýja garðs.  Það fer vel á því að Ásgeir sé sá vökumaður.
Eftir moldunina göngum við að kistunni og signum yfir hana. Nánustu aðstandendur munu síðan ganga rakleitt að íþróttahúsinu þar sem okkur er öllum boðið að þiggja veitingar að hætti Ásgeirs.

Góð systkin og kæra fjölskylda.
Þetta er sannarlega kveðjustund sem við vorum ekki búin undir. En þó að sorgin sé sár eru gleðin og þakklætið skammt undan.  Lífsgleðin og lífskrafturinn sem einkenndi allt líf Ásgeirs  og þakklætið fyrir að hafa átt hann að vini og félaga er gjöf sem hann skilur eftir.
Hann er kvaddur í miklum og einlægum kærleika og dúpri þökk.
Fjölskyldan þakkar fyrir öll þessi yndislegu ár sem að baki eru.  2. júní næstkomandi hefðu þau Lísa  átt 45 ára brúðkaupsafmæli.  Það er löng samleið. Full af fegurð og eilægri gleði, full af styrk og jákvæðni, full af  trú á lífið, trú á hið góða og trú á Guð.
Þar er arfleifð hans, sem umvefur ástvini hans, stórfjölskylduna og vinina  og  í þeirri arfleifð hvílir hann sjálfur.

Nú fljúga mínir fuglar, góða dís
Nú fagna englar Guðs í Paradís.

Far þú í friði Ásgeir Kristinsson
Friður Guðs þig blessi
Og hafðu þökk fyrir allt og allt.
En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2008-04-18/asgeir-kristinsson-minningarord/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Jónas Sigurðarson @ 28/2/2009 00.42

Kæri Danni.
Á minn fátæklega hátt vil ég þakka þér þessa ræðu, ég var einn hamingju aðnjótandi að eignast Ásgeir fyrir vinnufélaga og vin.


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli