kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Bænin, skrúðinn og kosningarnar · Heim · Fleira vaknar en vorið »

Í minningu sr. Guðmundar Óla

Kristján Valur @ 12.23 21/5/07

Föstudaginn 18. mai  var til moldar borinn séra Guðmundur Óli Ólafsson prestur í Skálholti á áttugasta aldursári. Ég birti kveðjuorð um hann í Morgunblaðinu sem ég ætla að varðveita hér á annálnum.
 

Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.
(Sálm. 69.31)
 

Séra Guðmundur Óli Ólafsson, prestur og prófastur í Skálholti var ótvírætt í fremstu röð predikara og kennimanna á síðari helmingi tuttugustu aldarinnar.Á þeim fimm árum sem hann var sóknarprestur okkar telst mér svo til að ég hafi heyrt hann predika liðlega tvöhundruð og fimmtíu sinnum. Þetta voru síðustu árin í langri starfsævi hans.  Predikun hans bar þess vott að þar fór predikari sem sannarlega hafði fengið mótun lífsreynslu sinnar,  en þó miklu mest þess erindi sem hann þjónaði. Oft þegar svo virtist sem hann væri óundirbúinn, var hann best undirbúinn. Þá steig fram á hljómmiklu, kjarnyrtu máli hið tæra fagnaðarerindi í arfleifð postulanna; vitnisburður um að það hafði gegnsýrt predikarann svo að það talaði sjálft, með tungu hans. Allt atferli hans við helga iðju bar vott um einlæga alúð og djúpa virðingu. Fyrir þjónustu hans  erum við fjölskyldan, ævinlega þakklát. Við áttum ýmisleg samskipti vegna starfa okkar, og satt að segja var þar nokkur tregða á framan af,  en okkur tókst að bæta úr því.  Við áttum saman margar stundir í helgri þjónustu og komandi hvor úr sinni áttinni gengum við saman til kirkju á mánudegi í fyrstu viku aðventu 1992 og hófum morgunsöng klukkan níu, og aftansöng klukkan sex, sem hefur ekki hljóðnað síðan.
Yfirskrift þessara orða, úr 69. sálmi saltarans, er einkennandi fyrir Guðmund Óla vegna þess að bæði var hann ágætt sálmaskáld sjálfur og hann vildi að nafn Guðs væri vegsamað í lofsöng, eins og  þáttur hans í Sumartónleikum í Skálholti ber best vitni um. En þetta tvennt minnir líka á annað vers úr sama sálmi:

Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig,
og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér. (69.10)

Fáa menn veit ég sem voru jafn einarðir í því að standa vörð um hið heilaga, og alveg sérstaklega hið helga hlið himinsins, kirkjuhúsið, eins og sr. Guðmund Óla. Ræktarsemi hans og trúfesti við móður allra vígðra húsa á Íslandi, Skálholtsdómkirkju, var einstök, en reyndist honum einnig oft erfið, því hann var hafði miklar tilfinningar og mikið skap.
En öll nálgun hans í þessu bar þess vitni að þar fór predikari Guðs Orðs, leiddur af því Orði sem hann var settur til að þjóna. Og nú hefur hann gengið inn um hlið himinsins, inn til fagnaðar Herra síns til að lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það með lofsöng, frammi fyrir hásæti hans:

Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar,
snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar. (Sálm.69.17) 

Lofaður sé Guð sem leyfði okkur að kynnast sínum dygga þjóni,séra Guðmundi Óla í Skálholti. 

Margrét, Kristján Valur, Bóas og Benedikt

url: http://kvi.annall.is/2007-05-21/i-minningu-sr-gudmundar-ola/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Gunnlaugur @ 21/5/2007 21.30

Vel skrifuð minningarorð, kollega. Og alltaf þykir mér gott að sjá vitnað í Davíðssálma í minningargeinum. Sú var og raunin með fleiri minningargreinar um sr. Guðmund Óla. Honum kynntist ég raunar aldrei persónulega en einhvern tíma fóru þó bréf okkar á milli og það leyndi sér ekki að hann var vel lesinn í guðfræði. Kkv, gaj.


© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli