kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Sængurgjafir og skírnargjafir · Heim · Óværa eða ekki »

Annáll með óværu

Kristján Valur @ 13.35 13/11/06

Skilaboð um margar færslur á annál minn undangengna mánuði hafa kallað fram minningu: Þegar ég var tíu ára kom upp lús í skólanum. Sem betur fer kom fljótt í ljós hvaðan hún kom og hægt var að uppræta hana innan skamms.
Tvennt er mér einkum minnisstætt frá þessum dögum: Óþægindin við að láta kemba sér með lúsakambi á hverjum degi þegar heim kom og kvíði fyrir því að lenda í lúsinni í skólanum. Þetta er reyndar eina reynslan sem ég hef af því að kvíða því að fara í skólann, og kannski þess vegna svona minnisstæð.
Hinar fjölmörgu færslur að undanförnu, sem nú eru vonandi yfirstaðnar, hefur verið einskonar lúsagangur á annálnum. Og eins og önnur óþrif og óværa veldur einnig þessi viðvarandi óþægindum. Ég var farinn að halda að ég myndi bara hætta við að hafa annál og loka honum endanlega. Svona getur maður orðið gramur út í lúsina, hvað sem hún annars heitir.
En nú skilst mér á Árna Svan að þeir Örvar hafi komið fyrir lúsakambi sem stenst kröfur nútímans.
Ég fagna því og hef afráðið að hefja að nýju afnot af annálnum, þó að það verði eins og fyrr frekar til þess að varðveita þar texta til afnota, en til að tjá mig um hin aðskiljanlegu undur daglegs lífs.

url: http://kvi.annall.is/2006-11-13/13.35.27/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli