kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Útimessa í Skógarkoti · Heim · Annáll með óværu »

Sængurgjafir og skírnargjafir

Kristján Valur @ 10.37 9/8/06

Í morgunn kom hugleiðingin í árdegismessunni í minn hlut.

Sængurgjafir og skírnargjafir.
Lesturinn.
Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður. Því að vér höfum heyrt um trú yðar á Krist Jesú og um kærleikann, sem þér berið til allra heilagra, vegna vonar þeirrar, sem yður er geymd í himnunum. Um þá von hafið þér áður heyrt í orði sannleikans, fagnaðarerindinu, sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum. Það hefur það líka gjört hjá yður frá þeim degi, er þér heyrðuð það og lærðuð að þekkja náð Guðs í sannleika.

Hið sama hafið þér og numið af Epafrasi, vorum elskaða samþjóni, sem er trúr þjónn Krists í vorn stað. Hann hefur og sagt oss frá kærleika yðar, sem andinn hefur vakið með yður. Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans, svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði. Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæf til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu. Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar. Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra. Kól. 1.3-11.

Kæri söfnuður.

Nú hefur fjölgað í þessum systkinahópi kirkjunnar sem hér hittist reglulega á miðvikudagsmorgnum, með fæðingu dóttur Árna Svans og Guðrúnar í gærmorgun. Og ef við þekkjum rétt mun ekki mjög langt þangað til hún birtist hér einhvern morguninn ásamt sínu fólki.

Gagnvart slíku undri sem fæðingin er hlýtur maður að vera sem agndofa. Um leið sér maður og skynjar betur en áður óumræðilega elsku Guðs.

Nú eru ættingjar og vinir farnir að koma í heimsókn og þeir munu koma með gjafir til þessa litla jarðarbarns, og til móðurinnar og litlu systur og kannski fær pabbinn líka eitthvað.

Postulinn sem sendir okkur Kolossumönnum dagsins bréf sitt þennan morguninn mun aldrei hafa eignast barn ef sögur um hann herma rétt frá, en undur fæðingarinnar var honum í huga. Hann kallar það líka að stíga yfir frá myrkrinu til ljóssins. Hann á við það sem gerist þegar maður verður kristinn. Hann tengir það skírninni.
Svo algjör eru þau umskipti. Það er eins og að yfirgefa móðurlífið, slíta naflastrenginn og verða sjálfstæður einstaklingur. Hinn skírði er nýr maður. Hið gamla er farið. Hið nýja verður til.

Á þessu tvennu er auðvitað sá stóri munur að barnið hverfur frá hinni mjúku alhliða vernd móðurinnar, sem það er hluti af, og er skellt inn í þennan skærbjarta hávaðasama heim einstaklingsfrelsisins. Það er ekki nema von að það gráti.

Um þetta allt má ræða lengi í annan tíma. Hér á þessum morgni skal einungis eitt sagt til sérstakrar umhugsunar. Það er um þá miklu breytingu, við gætum sagt umbreytingu, sem skírnarnáðin felur í sér og við virðumst oft eiga erfitt með að tileinka okkur eins og til er ætlast og postulinn leggur áherslu á.

Þegar þessi morgunlestur er skoðaður vel, þá kemur í ljós að hér eru taldar upp nokkrar gjafir, sem við fáum ekki á sængina, heldur höfum hlotið sem kristnar manneskjur.

Mér sýnist ástæða til að nefna nokkrar. Það gæti verið að við hefðum gleymt þeim sumum og þar með líka gleymt mikilvægum hluta þess hvað það þýðir að vera kristin manneskja og vera fædd að nýju til eilífs lífs með Kristi.

Gjafirnar eru þessar – og ekki allar taldar:
Hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.
Hegðun eins og Drottni er samboðin.
Frelsun frá valdi myrkursins
Heimili í ríki Guðs sonar.
Fyrirgefning syndanna.
Þekking á vilja Guðs.
Speki.
Skilningur andans.
Þolgæði.
Umburðarlyndi.
Gleði.
Þakklæti.

url: http://kvi.annall.is/2006-08-09/10.37.04/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli