kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Ragnheiður Danielsdóttir. Minningarorð. · Heim · Sængurgjafir og skírnargjafir »

Útimessa í Skógarkoti

Kristján Valur @ 11.54 7/8/06

Þingvallaprestur boðaði til útimessu í Skógarkoti sunnudag verslunarmannahelgarinnar. Þetta var einnig reynt síðastliðið sumar en þann dag rigndi með þeim ósköpum á Þingvöllum að prestur og söfnuður flúðu inn í kirkjuna líkt og þingheimur þurfti þrásinnis að gera á öldum fyrr meðan þing var enn háð á Þingvöllum. En í þetta sinn var veður þurrt og fallegt.

Eftir um það bil hálfrar stundar göngu er komið að Skógarkoti. Nokkur bið var á því að messugestir kæmu á staðinn og skrifast það á reikning prestsins að hafa ekki merkt upphafsstað göngunnar nægilega vel.
Taldir voru fimmtíu og átta messugestir. Nokkrir fleiri gengu hjá og stóðu stutt við eða komu í messulok. Í messunni voru gefin saman brúðhjónin Rannveig Ingvadóttir og Ian Wilkinson, en hann var einn þeirra fjögurra blásara sem léku í messunni undir stjórn organistans Guðmundar Vilhjálmssonar. Enn að nýju sannaðist hversu gott er að hafa organista við Þingvallakirkju sem leikur á básúnu auk orgels og kennir líka á ýmiss blásturshljóðfæri.
Í messunni predikaði sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir. Hún á ættir að rekja til síðustu ábúenda í Skógarkoti. Hvort hún hefur predikunarhæfileikann þaðan er óvíst, en predikunin var eftirminnileg og hljómaði vel yfir grónar tóftir bæjarhúsanna.
Messan var sungin við steinaltari frá náttúrunnar hendi. Svo sem í upphafi þegar messa var sungin við kristnitöku fyrir þúsund árum var breiddur helgaður kristlíkamadúkur (corpolale) á klettinn. Undir dúknum var í þetta sinn þynna úr Hekluhrauni, eins og forðum var notað ferðaaltari, eða altarissteinn (altare portatile). Á þessari steinþynnu og kristlíkamadúknum stóðu kaleikur og patína úr íslenskum leir, brennd við ösku úr íslensku birki. Til beggja handa loguðu kertaljós í ljóskerjum. Altarisgestir voru 46. Veðrið var bjart og þurrt og sæmilega hlýtt.
Við hlið hins náttúrulega altaris stóð einfaldur göngukross. Róðan er gerð úr birki, útskorin af óþekktum listamanni einhversstaðar í Afríku.Í einfaldleik sínum minnti hann á hið stórkostlega: Jesús segir: Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.(Mt.28.20)

url: http://kvi.annall.is/2006-08-07/11.54.01/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli