kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Skálholtshátíðarsunnudagur · Heim · Útimessa í Skógarkoti »

Ragnheiður Danielsdóttir. Minningarorð.

Kristján Valur @ 14.26 30/7/06

Þar sem viðkomandi sóknarprestur var í sumarleyfi var ég beðinn að annast útför fimmtudaginn 27.júlí. Minningarorðin birti ég hér.Það er einkum vegna þess að þrátt fyrir síbatnandi tæknibúnað er alltaf einhver í sérhverri útför sem ekki heyrir nógu vel. Þá er gott að geta vísað til þess að lesa megi minningarorðin á tilteknum stað eða fá þau útprentuð.

Ragnheiður Danielsdóttir.Minningarorð við útför 27.júlí kl. 15 í Fossvogskapellu.

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Ég fer burt til að búa yður stað, segir Jesús í guðspjallinu. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

Fegurðin ríkir á jörðu og himni. Litbrigði jarðar, þúsund litir náttúrunnar skarta sínu fegursta. Sól og regn mála myndir augnabliksins á á himininn. Lífið fagnar. Lífið andspænis dauðanum.
Allt sem lifir, deyr. Allt líf hverfist að einum ósi.

Guð sendi son sinn Jesú Krist í heiminn vegna barna sinna í heiminum, vegna dauðans sem er í heiminum, og vegna lífsins sem er sterkara en dauðinn.
Ég er upprisan og lífið, segir Jesús Kristur.
Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.
(Jh.11.25)

Við berum þau sem deyja inn í kirkjuna, fram fyrir auglit Guðs á leiðinni til grafarinnar.
Dauðinn er áfangi á leiðinni heim til Guðs. Dauðinn er áfangi lífsins.
Upprisa Jesú Krists frá dauðum boðar okkur það.

Ekkert er eðlilegra í lífinu en að deyja.
Samt er dauðinn alltaf óvinur. Hann tekur frá mér þann sem ég elska.

En það er ekki áform Guðsríkisins.
Hlutverk Jesú Krists er að sýna fram á það.
Jesús glímir við dauðann og hefur sigur.
Lífið ber sigurorð af dauðanum.
Og lífið er það sem við elskum og sækjumst eftir.

Lífið sem iðar og tifar, tiplar og skriplar.
Við elskum hið jarðneska líf af því að það er elskuvert. Það er lífið í allri sinni dýrð, í fegurð og tign fjallanna, lækjanna, lindanna, í söng fuglanna og í suði flugnanna, í tryggð dýranna og þokka mannanna og yndisleik barnanna, í ilmi jarðar og moldar undir sól og regni, vetur, sumar, vor og haust.
Fáir orða betur þversagnir lífs og dauða, – að vilja lifa en eiga þó betra í vændum, en skáldið Einar Benediktsson:
Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum,
sem himnaarf skulum taka?

Til moldar oss vígði hið mikla vald,
hvert mannslíf sem jörðin elur.
Sem hafsjór er rís með fald við fald
þau falla en Guð þau telur
því heiðloftið sjálft er huliðstjald
sem hæðanna dýrð oss felur.
(Sb.418,1.2.)

Lífið er okkur kært og dauðinn óvinur, líka þótt hið himneska taki hinu jarðneska fram.

Það liggur í eðli mannsins. Hann er mold og heyrir jörðinni til og hann væri ekkert nema mold nema af því að Guð hefur blásið lífsanda í moldina. Það er andi, fæddur af lífgefandi anda hans, og hverfur til hans aftur um eilífð þegar lífsdagur er liðinn.

Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var, en andinn til Guðs sem gaf hann, segir predikarinn.
Maðurinn fellur til jarðar eins lauf á hausti og hlýtur legstað á jörðu, sem þó er ekki staður hans.

Ég fer burt til að búa yður stað, segir Jesús.
Jesús Kristur býr honum stað á himni sem er svo dýrmætur að hann lætur líf sitt til að tryggja hann.

Ég hefi beint til yðar þessum orðum er vér nú komum saman til að heiðra minningu látinnar systur.

Ragnheiður Daníelsdóttir sem hér er kvödd, var fædd hinn 22. maí 1932 á Bárustöðum í Andakílshreppi. Hún var þriðja barn af fjórum börnum hjónanna Rannveigar Helgadóttur og Daníels Fjeldsted Teitssonar, sem þar bjuggu. Eldri henni voru Teitur, Helga og Helgi, en Sigurður yngri. Teitur og Helgi eru látnir.
Þegar Ragnheiður var á tíunda ári fluttist fjölskyldan að Grímarsstöðum þar sem hún átti heima til fullorðinsára.

Bernskan leið við störf og leik. Farskóli var á þessum árum í sveitinni og var m.a. til húsa á Bárustöðum. Íþróttaáhugi var mikill og íþróttir stundaðar af kappi hjá Ungmennafélaginu Íslendingi. Ragnheiður lærði snemma að synda, enda stutt í Hreppslaugina. Hana byggði Ungmennafélagið undir forustu Daniels föður hennar sem sjálfur kenndi sund. Hún varð góð sundkona og keppti á mótum og vann til verðlauna fyrir bringusund.

Hugurinn stóð til náms og hún var nemandi fyrst við Héraðsskólann í Reykholti en fór síðar í fótspor Helgu systur sinnar til Blönduóss og lauk prófi frá Kvennaskólanum þar vorið 1951.

Ragnheiður hefði gjarna viljað stunda meira nám. – Þegar hún leit til baka yfir ævi sína var það um það bil hið eina sem hún sá eftir, að hafa ekki lært meira.
Veturinn eftir Kvennaskólann starfaði Ragnheiður við Bændaskólann á Hvanneyri og sá þar um bakstur. Hún var reyndar alla tíð snillingur í þeim efnum, en enginn bakstur varð henni þó jafn afdrifaríkur og þennan vetur.
Í skólanum var þá Árni Sigurðsson frá Valþjófsstöðum. Þau felldu hugi saman, eins og það heitir svo fallega. Um það þarf ekki að fara fleiri orðum.
Um fegurstu leyndarmálin er aldrei talað.

Hinsvegar segir í Brúðkaupssöngvum Einars Benediktssonar:

Öll sæla er gleði hins góða,
hún gjörir að höll hvert kot,
án hennar er auður hismi
og hreysi hvert konungsslot.

Af tveggja sálna sælu
er sál hvers engils glödd,-
en heimsbörn sem himin gleðja
til hæðanna verða kvödd
.
(Einar Benediktsson: Brúðkaupssöngvar)

Árni fór norður þegar skóla lauk, en næsta vor kom hann aftur og sótti brúði sína. Þau gengu í hjónaband um haustið 1953.
Það hafa vafalaust verið nokkuð mikil viðbrigði fyrir tvítuga manneskju að hverfa frá blómlegum byggðum Borgarfjarðar, þó að bæði fegurðin og ástin ættu heima norður við Íshaf. Um það var ekki skrafað margt, en gestur að sunnan var ekki margmáll um sinn.
En sá hið sama og skáldið sá:

Heiðanes skaga á hendur tvær
háfjöll í suðrinu rísa.
Norðrið er opið; þar Ægir hlær.
auðugur, djúpur, og sandana slær.
Gráblikur yzt fyrir landi lýsa
líkast sem bjarmi á ísa.

Norðan að Sléttunnar stálblá strönd
starir úr lognboða róti.
Fóstra, hún réttir þar hægri hönd,
harðskeytt og fengsæl, í útsauma rönd.
Lætur við eyra sem lífæð þjóti.
Leikur þar ,,Jökla” í grjóti.

(Einar Benediktsson: Sumarmorgunn í Ásbyrgi.)

Þau Ragnheiður og Árni hófu búskap á Snartarstöðum, en 1956 stofnuðu þau nýbýlið Hjarðarás á 2/9 hlutum úr landi Snartarstaða og bjuggu félagsbúi með Guðna á Hvoli.
Árni var við skólann, þar sem hann kenndi allar greinar nema handavinnu stúlkna, heimilið og búskapurinn lágu þyngra á Ragnheiði, en hún var djörf og úrræðagóð og var gefin fyrir að láta eitthvað gerast. Keppnisskapið sem bara hana til sigurs í sundinu sveik aldrei. Það er mikið átak að byggja allt upp frá grunni og það var það alveg sérstaklega á þessum árum þegar velta þurfti hverri krónu og snúa hverri flík.
Þá er gott að eiga áræði og handlægni og kunna til verka jafnt innan stokks sem utan.

Ragnheiður var fljót að festa rætur fyrir norðan og eignast þar vini. Hún féll vel inn í hópinn.Hún var vinsæl og það var gott að sækja hana heim. Hún varðveitti alltaf þá dyggð að hafa tíma fyrir gesti.
Mjólkursala var á bænum. Fólkið gekk frá Kópaskeri og sótti mjólk og fékk kaffi hjá húsfreyjunni, en börnin óku mjólkinni í Hótelið á handkerru.

Kannski fóru allar tekjurnar af mjólkursölunni í risnu, – en þannig reikningar voru aldrei gerðir.

Ragnheiður var góð búkona og hagsýn húsmóðir. Hún var fjárglögg, bar gott skyn á hesta, var góður knapi og drífandi mjaltakona.
Hún ræktaði grænmeti og matjurtir eins og móðir hennar hafði gert, hún hafði mikla trú á fjallagrösum og öðru því sem óx villt í náttúrunni og gerði sultur og saftir og bjó í haginn á hverju hausti fyrir komandi vetur. Búrið hennar var sveitarprýði.

Þau Ragnheiður og Árni eignuðust fimm börn. Elstur er Sigurður f. 1954, kona hans er Bryndís Alda Jónsdóttir, þau eiga Árna, Lindu Margréti og Láru Björk.Árni á Ingunni Birnu. Hann er staddur á Grænlandi, og hér eru fluttar kærar kveðjur hans og þakkir.
Næst í röð barna Ragnheiðar og Árna er Ingunn f. 1955, maður hennar er Sighvatur Arnarsson, hún á með fyrri manni sínum Kristjáni Ásgrímssyni, Árna, Brynju, Soffíu og Klöru. Árni hennar á Birgittu Írisi og Júlíu Karen, og Brynja á Arnar Snæ og Apríl Fjólu.
Þá er Helgi f.1956, kona hans er Sigurlína Jóhanna Jóhannesdóttir, þau eiga Guðna Þorra, Einar Atla og Úlfhildi Ídu.
Guðni Þorri á Patrek Helga.
Næstur er Daníel Unnsteinn f. 1959, kvæntur Sigurhönnu Sigfúsdóttur, þau eiga Ragnheiði Birnu og Hrafnhildi Jónu. Yngstur er Arnþór Gylfi f. 1962, kona hans er Guðrún Vala Elísdóttir, og þau eiga Sölva, Nökkva, Salvöru Svövu og Elís Dofra.

Barnabörnin eru 16, og barnabarnabörnin orðin 6.

Þau Ragnheiður og Árni stunduðu blandaðan búskap í Hjarðarási í 25 ár. Árið 1979 brugðu þau búi og fluttu á Kópasker þar sem þau áttu heimili sitt í 12 ár. Ragnheiður vann í rækjunni og á hótelinu en lengst af vann hún við afgreiðslustörf í Kaupfélaginu.
Árið 1991 fluttu þau til Reykjavíkur og settu saman heimili sitt að Gnoðarvogi 38 og bjuggu þar æ síðan. Þar var gestrisnin engu minni en áður hafði verið fyrir norðan. Það var alltaf tekið vel á móti gestum og þeir voru margir. Ragnheiður naut þess að halda veislur og notaði hvert tækifæri sem til þess gafst.

Ykkur öllum sem í dag heiðrið minningu hennar hér, er boðið að þiggja veitingar í Víkingasal Hótels Loftleiða að lokinni þessari athöfn. Ragnheiði fannst betra að geta gefið fólki eitthvað með kaffinu.
Hér fyrir dyrum úti munum við á eftir geta signt yfir kistuna og kvatt þannig.
Eftir að þau hjónin fluttu til Reykjavíkur hafði Ragnheiður frumkvæði að margri félagslegri iðju eins og að fara í ferðalög, og sinna menningarmálum með því að fara í leikhús og á tónleika. Hún hafði sérstaklega gaman af að ferðast.

Þegar hingað suður kom byrjaði hún strax að vinna og sinnti hér ýmsum störfum. Lengst starfaði hún á heimili fyrir Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra (SEM) og við heimaþjónustu. Hún gat sér gott orð, naut trausts og hlýju. Þegar hún fyllti sitt sextugasta og sjöunda ár lét hún af allri vinnu utan heimilis. Hún var þá farin að kenna þess heilsubrests sem hún stríddi við æ síðan.
Líkaminn lét ekki að stjórn eins og andinn vildi.
Hugurinn bugaðist aldrei og oft reyndi hún meira á líkamann en hann réði við. Hún var einstaklega kjarkmikil og forkur duglegur og þeim eðlisþáttum hélt hún alla tíð. Engum dylst því hugur um að það hefur verið skelfileg þraut fyrir konu eins og hana að glíma við sjúkdóm af þessu tagi, sem ekki hafði einu sinni ákveðið nafn. Samt kvartaði hún ekki. En hún gafst ekki heldur upp, heldur leitaði lækningar framan af með sama kappi og hafði einkennt hana í öðru, en síðar kom hún börnum sínum á óvart með æðruleysi gagnvart örlögum sínum. Hún hélt reisn sinni til hinstu stundar.

Ragnheiður Danielsdóttir var baráttukona. Hún hafði mikinn metnað bæði fyrir sjálfa sig og þó sérstaklega fyrir hönd barna sinna. Og þegar þau voru uppkomin tók hún að sér að kosta menntun og framfærslu stúlku í fjarlægu landi og ól önn fyrir henni af sama örlæti og einkenndi allt hennar líf.
Síðustu þrjú árin var hún alveg til heimilis á Skjóli. Hér skal í hennar nafni þakkað fyrir alla umhyggju þeirra þar.

Þau Árni gengu saman meira en hálfa öld um sléttar slóðir og klappaklungur eins og lífið er. Þau gengu saman síðast fyrir fáum árum Kjalveg hinn forna til Hveravalla þó að Ragnheiður væri þá orðin hart leikin af sjúkdómi sínum. En hún var ekki á því að gefast upp. Aldrei. Maður gefst heldur ekki upp fyrir dauðanum. Maður sigrar hann, með Jesú Kristi og í nafni hans.

Ég fer burt að búa yður stað, segir Jesús.
Allir staðir eiga sína fegurð. Til þess að sjá hana þarf það eitt að líta upp. Þar sem Ragnheiður Danielsdóttir dvaldi ævina hálfa þar er kvöldfegurð unaðsleg.
Líka þegar golan er köld.

Einar Benediktsson horfði á Lágnættissólina við Grímseyjarsund og orti:

Minn hugur spannar himingeiminn.
Mitt hjarta telur stjörnuseiminn,
sem dylur sig í heiðlofts hyl.
Svo hátt og vítt mér finnst ég skynja,
Guðs veröld! Andans hlekkir hrynja
sem hjóm við þetta geislaspil.
Mér finnst ég elska allan heiminn
og enginn dauði vera til.

(Einar Benediktsson.Lágnættissól við Grímseyjarsund)

Far þú í friði Ragnheiður Danielsdóttir
friður Guðs þig blessi,
og hafðu þökk fyrir allt og allt.

En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2006-07-30/14.26.59/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli