kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Sunnudagur á Þingvöllum · Heim · Ragnheiður Danielsdóttir. Minningarorð. »

Skálholtshátíðarsunnudagur

Kristján Valur @ 21.40 23/7/06

Stór dagur er kominn að kveldi. Þingvellir voru baðaðir sól í morgun þegar þangað var komið til að messa í Þingvallakirkju kl.11. Þennan eina sunnudag ársins er ekki messa kl. 14, vegna þess að presturinn þarf að vera kominn í Skálholt til að hlýða messu þar á þeim tíma.

Ekki leit vel út með messusókn í morgun. Fyrir utan prestinn og organistann og hringjarann voru mættir tveir kirkjugestir. Predikunin fylgir hér á eftir. Skömmu eftir að messu lauk var gifting. Hjónin sem gefin voru saman tengdu bæði lönd og þjóðir og kirkjudeildir með sinni hjúskaparstofnun því brúðurin er þýsk og brúðguminn hálfur íslendingur og hálfur norðmaður. Athöfnin fór að mestu fram á þýsku, nema við sungum íslenskan sálm úr sálmabókinni og lestrar og bænir voru á báðum málunum. Til kirkju voru liðlega fjörutíu manns, og tóku vel undir sönginn. Á Þingvöllum geta allri sungið. Það þarf bara að segja þeim það. Og þau trúa því! Þegar giftingunni lauk var brunað í Skálholt og náð í hlað á réttum tíma. Þegar nær dró staðnum var ekkið fram á pílagrímana sem kvaddir höfðu verið með ferðabæn og fararblessun í gærmorgun kl. 10. Þau voru nærri sextíu talsins. Það er ógerlegt að lýsa því þegar þau ganga berfætt inn kirkjuna og setjast svo á kalt og svalandi kirkjugólfið. Kirkjan var full út úr dyrum. Sigurbjörn biskup predikaði. Bara að hafa hann þarna var predikun út af fyrir sig. Hans predikun verður birt annarsstaðar, en hér er mín frá því í morgun:

Predikun í Þingvallakirkju. 6.sd.e.trin.

Guðspjallið

Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. ( Mt. 28.18 – 20)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Guðspjallið í dag er okkur fyrst og fremst kunnugt úr skírnarathöfninni. Við höfum heyrt kristniboðsskipunina, sem lesin er við hverja skírn.
Hugsunin á bak við er sú að við notum tækifærið og hugleiðum í dag hvað það táknar að vera skírður, hvað það táknar að vera uppfræddur og hvað það táknar að vera sendur.
Jesús sendir okkur. Þegar við höfum verið skírð og uppfrædd erum við send.
Hann sendir okkur út í heiminn með erindi sitt, kærleika sinn og nærveru sína, svo að fólkið sem við hittum og mætum megi fá vitneskju um hann og gjafir hans.
Sum okkar eru send út til að vera predikarar og kristniboðar í bókstaflegum skilningi, og eiga að kenna um hann, útskýra orð hans og kalla til þeirra sem vilja fylgja honum og orði hans.

Miklu fleiri eru þau okkar sem send eru út til að starfa undir merki Krists með öðrum hætti: Til að breyta við náungann eftir þörf hans, alveg óháð því hver hann er, hvaða tungu hann talar, hvaða þjóð hann tilheyrir, hvernig húðlitur hans er, hverjar skoðanir hans eru. Vitnisburðurinn um Krist felst þá fyrst og fremst í því að svara rétt til ef við erum spurð: Hversvegna gerir þú þetta? Hversvegna gefur þú þér tíma fyrir mig?
Svar: Ég vil starfa undir merkjum Jesú Krists.
Hvað táknar það?
Að fylgja honum er að vera á vegi hans. Sá eða sú sem er á þeim vegi sér vel hver liggur við veginn og þarfnast hjálpar.
Einkenni þeirra sem fylgja Kristi er umhyggja, umönnum, umsjón. Þjónusta í nafni hans.

Við erum sem sagt send út. Til að þjóna.

Það var hérna kona um daginn. Í mínu ungdæmi hefði engum dottið í hug að kalla hana eitthvað annað en góða manneskju. af því að hún lætur gott af sér leiða. En konan var í dálitlu uppnámi. Hún sagði: Hvernig get ég vitað að það sem mig langar að gera fyrir aðra, og það sem ég geri fyrir aðra og hef gert í mörg ár, sé allt í lagi, og beri ekki bara vott um að ég sé haldin sjúklegri meðvirkni.

Kæri söfnuður.

Góð og árangursrík meðferðarúrræði í sjúkdómum eða gagnvart sjúklegu ástandi eru ekki lýsingarorð um atferli fólks yfirleitt, vegna þess að fólk yfirleitt er ekki sjúkt og samfélagið ekki heldur.

Tilraunir til einhverskonar allsherjar sjúkdómavæðingar samfélagsins og mannlegra samskipta, sýnast oft allsekki sprottnar af áhuganum fyrir heill mannanna heldur heilsuleysi þeirra. Gæti það verið vegna þess að það má hafa meiri tekjur hinu síðara?

Ég sagði við konuna: Hlustaðu ekki á þennan þvætting. Hlustaðu áfram á samvisku þína og á hjarta þitt og haltu áfram að gera gott og líka þeim sem ekkert er hægt að gera fyrir nem að elska og að biðja.

Svo segir í Jesajabókinni:
Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.
(Jes. 42.3)

Kristniboðskipanina sem við köllum svo setur Mattheus guðspjallamaður í beint framhald af frásögninni um upprisuna og í beint samhengi við hana.
Ef byrjað er að lesa framar en guðspjall dagsins gerir ráð fyrir, kemur ýmislegt í ljós.
Eftir upprisuna segir Jesús við konurnar : Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig. (v.10)
Hvað þýðir þetta?

Jesús verður sýnilegur þar sem hann setur lærisveinunum stefnumót við sig.
Kristið fólk hefur gjarna skilið þetta svo: Jesús er sannarlega allstaðar nálægur og öllum nálægur, samkvæmt fyrirheitinu: sjá ég er með yður, alla daga allt til enda veraldar, en fyrst og fremst er hann þar sem hann stefnir okkur til fundar við sig og það er í orði hans og sakramentunm. Í heilagri ritningu, í heilagri skírn í heilagri kvöldmáltíð.

Jesús kallar til sín lærisveinana til að senda þá út.

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til.
Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa
. (v.16-17)

Hvað mættu margir á fjallið? Ellefu?
Getur verið að hverjum lærisveinanna ellefu hafi ef til vill fylgt flokkur manna?
Hvað varð um konurnar? Fyrstu upprisuvottana. Máttu þær ekki koma með?
Það er annað sem líka vekur til umhugsunar. Ritað er : Þar sáu þeir hann, – en sumir voru í vafa.
Voru það þá sumir þessara ellefu?

Nú vitum við auðvitað ekki hvað sumir eru margir.
Það skiptir heldur engu, heldur hitt að jafnt þeir sem voru sannfærðir og þeir sem voru í vafa voru sendir.
Þannig er það enn.

Hingað í þessa kirkju koma nokkuð margir foreldrar til að bera börn sín til skírnar. Fermingar eru aftur á móti fátíðar, og nokkur ár eru í næstu fermingu hér í sókninni. En nokkrir aðrir utan sóknar ganga hér fyrir gafl til að staðfesta þann vilja sinn að fylgja vegi Jesú Krists og þiggja leiðsögn hans.
Það eru margir sem spyrja hvort það sé yfirleitt hægt að vænta þess að unglingar á þessum aldri geti valið veg sinn með þessum hætti.

Það er, ef eitthvað er, of lítið gert af því að leyfa börnum að axla ábyrgð. En við sem erum foreldrar og forráðamenn eigum að sjálfsögðu að kenna þeim um leið, að ef ábyrgðin virðist of þung eða sligandi, þá munum við bera hana með þeim.

Nákvæmlega hið sama gerir Jesús. Hann sendir okkur út með erindi sitt, en hann sendir okkur ekki ein, heldur fer sjálfur með. Farið, segir hann, og gerið allar þjóðir að lærisveinum. Þung ábyrgð og mikið erindi.

En svo segir hann: Og sjá, ég er með yður, alla daga, allt til enda veraldar.

Með öðrum orðum. Jesús segir: viltu fylgja mér.

Já. Þá skal ég leiða þig.

Við erum send.

Það er tvennt sem við þurfum að kunna.

Það er ekki víst að alltaf sé kunnugt hvert við erum að fara.

Það er ekki áfangastaðurinn sem við þurfum að þekkja. Við þurfum að vita með hvað við erum send, og hvernig við rötum heim.

Með hvað erum við send? Með okkur sjálf. Það sem við erum, kunnum, getum, langar til; að koma okkur sjálfum til skila og öllu því besta sem við eigum.

Og hvernig rötum við heim?

Hvað kennum við börnum okkar?.

Að vera maður sjálfur og : Að rata heim.

Að vita að það er til staður sem heitir heima, og að það er staður sem er alltaf opinn og er alltaf griðastaður, og lokar mann aldrei úti, – alveg sama hvað henda kann, og í hvaða raunir maður ratar, og alveg sérstaklega ef maður lendir í þeim kringumstæðum sem maður vildi forðast og mest var varað við.

Stundum er kominn sá tími sólarhrings að maður vildi vera búinn að fá allt fólkið sitt í hús. Þá er gott að geta hvílt í því að hafa gefið gott nesti, og kennt börnunum leiðina heim. Frá því fyrsta sem þú kennir barninu leiðina í skólann eða út í búð, þarftu að treysta því að það rati heim. Og barn ratar þangað sem það er elskað.

Og svona án þess að fara mörgum orðum um það, – þá er þetta alveg eins með Jesú.
Einhversstaðar um síðir, þegar ferðin á veginum er á enda, – þá er hann þar sem heitir: heima.
Þegar lífinu lýkur, þá förum við heim, til hans.

Lífið er ævintýr. Óumræðilega spennandi ævintýr.

Foreldrum þykir aldrei langt frá því að barn fæddist og var lagt í faðm þeirra að þau önnuðust það vel. Þau vissu ekkert betra eða öruggara en að fela barnið í í faðm Jesú Krists í heilagri skírn. Af því að þau vissu sem var að það koma tímar þegar foreldrar geta ekki annast barn eins og þau vilja, og þau geta ekki alltaf verið nálægt því og passað það eins og þau vildu.

Það er nú reyndar ágætt. Maður þarf auðvitað læra að bjarga sér sjálfur, og líka eiga sín litlu leyndarmál.
En það er svo gott að vera foreldri og mega fela barnið sitt í umsjá Guðs, og geta beiðið hann að fylgja því heim, ef það tefst.

Lífið er ævintýr. Lífið er ævintýr á gönguför með Jesú Kristi.

Guðspjallið í dag er til þess að minna okkur á hversu dýrmætt það er að vera merktur Jesú Kristi í heilagri skírn, og hafa þannig verið leiddur með honum í tákni skírnarvatnsins niður til dauðans og upp til hins nýja lífs upprisunnar, þar sem dauðinn er ekki framar til og gleðin ríkir.

Við erum send með þessa gleði. Og við erum beðin að horfa á samferðafólkið allt með gleði í augunum, handa þeim sem enga eiga og handa þeim sem spegla hana..

Uppspretta þeirrar gleði er Jesús Kristur sjálfur. Hann sem kallar okkur til sín og sendir okkur út þegar hann segir:
Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.
Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum. skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt sém ég hef boðið yður.

Sjá ég er með yður, alla daga, allt til enda veraldar.

url: http://kvi.annall.is/2006-07-23/21.40.33/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli