kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Sunnudagur í Hallgrímskirkju. · Heim · Skálholtshátíðarsunnudagur »

Sunnudagur á Þingvöllum

Kristján Valur @ 18.13 16/7/06

Þegar messu lauk í Hallgrímskirkju lá leiðin til Þingvalla þar sem messað var kl. 14. Messan var göngumessa. Fyrsti hluti hennar var á svæðinu fyrir framan Valhöll. Lestrar voru við Lögberg, predikun við Flosagjá, almenn kirkjubæn við Þjóðargrafreitinn og svo var endað með altarisgöngu í kirkjunni. Organistinn Guðmundur Vilhjálmsson lék undir sálmasönginn á harmonikku.

Kirkjugestir eða göngumessugestir voru 43. Ánægjulegt var að sjá í þeim hópi forsætisráðherrann og konu hans. Altarisgestir voru 36. Messunni lauk kl. 15.15. Klukkan 15.30 var skírnarguðsþjónusta í Þingvallakirkju þar sem skírð voru þrjú börn. Lauk svo þessum góða þriggja messu degi. Predikunin við Flosagjá fylgir hér á eftir.

Predikun við Flosagjá.

Kæri söfnuður, hér stöndum við og horfum yfir Öxará á eina hlið, og gjárnar tvær á aðra, og skammt undan liggur Þingvallavatnið í allri sinn tign og spekt og stærð.

Guðspjallið í dag greinir frá stefnumóti við Genesaretvatn, sem skiptir okkur máli, – okkur öll sem tilheyrum Kristi og viljum fylgja honum.

Genesaretvatnið ber oft á góma í guðspjöllunum. Það er dáltítið stærra en Þingvallavatn. Það er um það bil 20 km á lengd og 12 á breidd. Þingvallavatn er 14 og hálfur og og 9 og hálfur.
Og eins og hér, sést einnig þar til fjalla.
Til norðausturs liggja Gólanhæðir og á björtum dögum má sjá Hermonfjallið með snjó á toppnum rétt eins og við sem búum i Reykjavík fáum stundum að sjá Snæfellsjökul , sem líka býr yfir dulúð eins og Hermon.

Til suðurs rennur áin Jórdan gegnum grösuga dali og endar í Dauðahafinu. Í fjöllunum í austri er staðurinn þar sem Jesús ólst upp, Nasaret.

Genesaret vatnið er fagurt, segja þau sem voru þar og loftslagið er gott.
Á jarðvistardögum Jesú var þétt byggð á vatnsbakkanum. Í allt níu stór þorp og bæir. Einn þeirra var Kapernaum. Sjá má enn rústirnar af synagógunni þar sem Jesús predikaði.
Hér erum við að leita að rústum þeirra staða sem fyrst predikuðu Krist.

Jesús vildi reyndar miklu fekar predika undir beru lofti eins og í dag, þegar hann notaði bát fyrir predikunarstól, af því að fólkið tróðst nær til að heyra betur. Nokkir fiskimenn voru að hreinsa netin sín eftir veiðiferð næturinnar, og Jesús bað Símon Pétur um leyfi til að standa í bátnum hans og bað hann að róa lítið eitt frá landi.
Við vitum ekki hvað hann predikaði þennan dag, vegna þess að Lúkas sem guðspjallið skrifaði var miklu uppteknari af því sem gerðist eftir að hann lauk ræðunni.
Þetta er allt saman friðsælt þarna í guðspjallinu, eins og hér hjá okkur.
Þess vegna finnum við líka svo mikið til þegar við fáum núna daglegar fréttir frá þessum sama skika á jörðu, fréttir af ófriði og hatri og blóði og eyðileggingu. Og við skiljum ekki neitt. Hver skilur svosem þessi ósköp.

Við getum bara þakkað það sem við eigum og reynt að varðveita það fyrir börnin okkar:
Eins og Hulda segir ljóðinu sínu:

Hver á sér fegra föðurland
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Jesús segir við Pétur:
Legg þú á djúpið.

Pétur segir:
Við höfum stritað í alla nótt og ekki fengið neitt, en samkvæmt orði þínu vil ég gera það.

Þetta guðspjall er afskaplega afgerandi í hinum kristna sið.
Þeir sem ekkert höfðu veitt alla nóttina, lögðu út aftur að fyrirmælum Jesú og fylltu bæði sinn bát og annan til.
Þetta hefur áreiðanlega verið eftirminnileg sjón þeim sem sátu á ströndinni og höfðu hlýtt á boðskap Jesú er hann predikaði úr bátnum,

Á lánaðri fleytu hann flutti sitt orð
þeim fátæku á gleymdum stað ….

segir Sigurbjörn biskup í sálminum sínum: Þér léðu honum jötu.

Fyrsta myndin sem guðspjallið dregur upp, er af Jesú sem gerir bát að predikunarstól.

Í lífi kirkjunnar og trúarinnar er báturinn í ólgusjó íslenskrar sögu tákn um miskunn Guðs og mildi hans. Því tákni glatar hann ekki þótt við höfum líka séð hann verða að legstað þeirra sem gista hina votu gröf.

Báturinn er líka tákn heilagrar kirkju í sögu hennar. Hann er tákn kirkjunnar sem lendir í óveðri og ratar í lygnu. Hún hefur traustan stýrimann, sem er Kristur. Rýmið sem söfnuðurinn gistir þegar hann sækir kirkju, heitir af gefnu tilefni kirkjuskip.

Jesús stígur á skip og predikar, og kallar til eftirfylgdar. Það er sannarlega ekki veiðin sjálf sem er aðal atriðið í guðspjallinu heldur viðbrögð Péturs við mætti Guðs í Jesú Kristi, og hið nýja hlutverk sem Jesús felur honum.

Legg þú á djúpið eftir Drottins orði
og æðrast ei, því nægja mun þinn forði,
þótt ómaksför þú farir marga stund.
…

Í skilningi kirkjunnar hefur vatnið sérstaka merkingu. Vatnið sem er lífgefandi, – án vatns getum við ekki lifað, vatnið sem er dauðans ógn, -í vatni getum við ekki heldur lifað.

Kristur steig niður í vatn árinnar Jórdan – alveg á kaf og tók skírn af Jóhannesi. Hann steig niður í djúpið þar sem dauðinn er og svo reis hann upp úr vatnsbaðinu, – eins og hann gengur á undan okkur gegnum dauðann til lífsins. Í minningu þess og í eftirfylgd þess erum við skírð. Við göngum með Jesú gegnum dauðann til lífsins. Við eignumst eilíft líf með honum og fyrir hann.

Eftirfylgdin sem Pétur var kallaður til á bátnum forðum, er hin sama og okkar. Og með honum erum við send. Við sem höfum eignast lífið sem varir að eilífu fyrir vatn og heilagan anda.
Og þorum að fylgja honum í fullu trausti á leiðsögn hans.

Um þá eftirfylgd predikar litli krossinn sem hér er borinn á undan göngunni. Hann er skorinn út af óþekktum listamanni og trúmanni í Afríku. Honum var ekki ætlað að fara til Íslands. En hann fór samt og er hér. Þessi litli óásjálegi kross segir sögu um kristnina í öllum heimi.

Við sjáum aldrei nema svo agnarlítið af veruleikanum. Hvort það eru minjar hins liðna tíma og sögulega veruleika hér á Þingvöllum , eða ábendingar hins komandi tíma, okkar eigin framtíð eða barna okkar í ótryggum heimi.

Það var ekkert vit í því að kasta út netinu einu sinni enn á ördeyðuna. Það vissi Pétur. En hann þorði samt að treysta orði Jesú Krists.
Og þar, nákvæmlega þar erum við einnig stödd.
Og ef við treystum honum felur hann okkur verkefni, sitt eigið verkefni: Að kalla fram nýjan kraft til starfa fyrir hann.

url: http://kvi.annall.is/2006-07-16/18.13.32/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Pétur Björgvin @ 18/7/2006 08.00

Fyrst að þetta var göngumessa þá hefði nú verið tilvalið að klerkur hefði fengið lánaðan bát og staðið í duggunni út á Þingvallavatni og söfnuðurinn í fjörunni!

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli