kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Kvöldmessa í Hallgrímskirkju · Heim · Þjónusta prests á Þingvöllum 2006 »

Þorgeir Pálsson. Minningarorð.

Kristján Valur @ 20.08 27/2/06

Aldraður maður, Þorgeir Pálsson, af ætt konu minnar og sona var kvaddur í dag frá Langholtskirkju.
Í fjarveru sóknarprestsins talaði ég yfir moldum hans.

Guðspjallið.
Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima.
Marta sagði við Jesú: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um. Jesús segir við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. Marta segir: Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.
Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.
Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu? Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. (Jh.11.20-27)

Minningarorðin.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Samtal Jesú við Mörtu sem hér var lesið sem guðspjall hefur mörgum reynst huggun við líkbörur þó að það veki spurningar um leið og það veitir svör.
Ég er upprisan og lífið segir Jesús Kristur. Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. (Jh.11.25)

Allt sem lifir, deyr. Allt líf hverfist að einum ósi. Hvar hann er, og hvernig hann er vitum við ekki. Lifendum er ekki gefið að líta hann.
Dauðinn er aldrei langt undan. Sumum birtist hann eins og bróðir hans, svefninn,
öðrum er hann ægileg ísköld krumla, eins við höfum verið minnt á þessa daga.

Það er gott að mega leggjast til hvíldar að loknum löngum starfsdegi. Þá eru verkalok.
Hvíldin er þráð en dauðinn ekki. Dauðinn er engra vinur.
Og samt er ekkert eðlilegra lífinu en að það deyi.
En það er ekki áform Guðsríkisins.
Jesús glímir við dauðann og hefur sigur. Hann gefur líf að nýju.

Og við elskum lífið.

Við elskum hið jarðneska líf af því að það er elskuvert í hinum mörgu og mismunandi myndum þess. Í fegurð og tign fjallanna, lækjanna, lindanna, í söng fuglanna og í suði flugnanna, í tryggð dýranna, jarmi lambanna og þokka mannanna, og yndisleik barnanna, í ilmi jarðar og moldar undir sólu og regni við hnegg og frís.
Fáir orða betur þessa þversögn lífs og dauða, – að vilja lifa en eiga þó betra í vændum, en skáldið Einar Benediktsson gerir í sálminum sem hér var sunginn í upphafi þessarar athafnar.

Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum
sem himnaarf skulum taka?
Oss dreymir í leiðslu lífsins draum
en látumst þó allir vaka
og hryllir við dauðans dökkum straum
þótt dauðinn oss megi ei saka.


Til moldar oss vígði hið mikla vald,
hvert mannslíf sem jörðin elur.
Sem hafsjór er rís með fald við fald
þau falla en Guð þau telur
því heiðloftið sjálft er huliðstjald
sem hæðanna dýrð oss felur.

Lífið er okkur kært og dauðinn óvinur, líka þótt hið himneska taki hinu jarðneska fram.
Skýringin er einföld. Hún liggur í eðli mannsins. Hann er mold og heyrir jörðinni til og hann væri ekkert nema mold nema af því að Guð hefur blásið lífsanda í moldina. Það er andi, fæddur af hans og hverfur til hans aftur um eilífð þegar lífsdagur er liðinn og hin jarðneska tjaldbúð fellur til jarðar. Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var, en andinn til Guðs sem gaf hann.
Og Jesús Kristur býr honum stað á himni sem er svo dýrmætur að hann lætur líf sitt til að tryggja hann.

Ég hefi beint til yðar þessum orðum er vér nú komum saman til að heiðra minningu látins bróður.

Þorgeir Pálsson sem hér er kvaddur, var fæddur að Grænavatni í Mývatnssveit hinn 7. september 1918, sonur hjónanna Hólmfríðar Guðnadóttur og Páls Jónssonar sem þar bjuggu. Hann var frumburður þeirra hjóna en þrem árum yngri var systir hans Droplaug sem hér var kvödd fyrir fáum vikum. Uppeldissystir þeirra er Gyða Bárðardóttir.
Gamli bærinn á Grænavatni var ekki stór að flatarmáli miðað við nútíma skilning á því hvað er stórt, en hýsti þó fjögur heimili.
Löng göng skiptu bænum í tvennt og það var talað um að fara yfir um og að vera fyrir handan, því þó að aðskilið væri, var stöðugur samgangur, og frændsemi mikil og góð. Það var nánast ekkert nema heyskapurinn sem var sjálfstæður frá hverju heimili.
Þannig var til dæmis fjárgæslan sameiginleg.

Hér eru fluttar kveðjur Helga Jónassonar á Grænavatni, sem ekki kemst hingað í dag, en þeir Þorgeir voru miklir vinir. Þeir fengu snemma það sameiginlega embætti, þótt nokkuð miseldri væri á þeim, að gæta fjár og hirða það. Frá þeim árum lifa margar ljúfar minningar, sem hér verða ekki tíundaðar, en munu geymast án þess.

Á þeim dögum voru fimmtán börn á Grænavatni. Því var vandalaust að finna félagsskap við leik og störf hvenær sem hugur girntist. Félagsskapur fullorðinna var með öðrum hætti. Þar þyrfti einnig að halda mörgu til haga, af því að það er hluti af menningarsögu þessarar þjóðar, – eins og því að á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld komu allir saman til húslesturs í þessum stóra bæ, þótt húslestrar væru að öðru leyti lagðir af.

Þegar Þorgeir var á þrettánda ári dó Hólmfríður móðir þeirra systkina. Systur hennar tvær Snjólaug og Guðfinna sem fyrir voru á heimilinu tóku þá að sér að annast heimili Páls og fylgdu því eftir meðan þær lifðu.

Skömmu síðar tóku þau að sér Gyðu Bárðardóttur, frá Höfða, og ólst hún upp sem eitt systkinanna frá fjögra ára aldri. Það bar til þannig að Bárður sem flutt hafði til Akureyrar með fjölskyldu sína missti heilsuna. Þá voru yngri börnin sem ekki gátu séð fyrir sér, og hann sjálfur öll send í sína heimasveit, eins og háttur var á þeim dögum.
Gyða kom í Grænavatn, bræðurnir fóru á aðra bæi. Bárður sjálfur var einnig tekinn í Grænavatn og dó þar þrem árum síðar.

Þorgeir Pálsson hafði snemma myndað sér eigin skoðanir á öllu. Hann var næmur á ljóð sem laust mál. Hann var gamansamur og hann var stríðinn og hann hafði yndi af að herma eftir ýmsum, líka frændum sínum. Reyndar svo mjög að þótti bera vott um nokkurt óstýrilæti. Þessi íþrótt hefur lengi fylgt sömu bæjum og fjölskyldum og er það vel.
Þorgeir skynjaði fljótt að ekki er alltaf allt sem skyldi. Og margt er best geymt og tjáð í ljóði eins og þessu:

Ég kættist með fáum og mærði menn,
sem múgadómi sig trauðla háðu, -
leiður við einmæli allra senn;
oft átti mitt lof sá, er fæstir dáðu.
Ég mat ekki ljóðglapans lága hnjóð,
sem laklega hermdi, hvað aðrir kváðu,
-né þrælafylgið við fjöldans slóð
í forgönguspor, sem þeir níðandi tráðu.

Það smáa er stórt í harmanna heim,-
höpp og slys bera dularlíki,-
og aldrei er sama sinnið hjá tveim,
þótt sama glysi þeir báðir flíki.-
En mundu, þótt veröld sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
bölið sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.

(Einar Benediktsson. Úr Einræðum Starkaðar.)

Þorgeir hafði dálæti á ljóðum Einars Benediktssonar, Efalaust hefur hann fagnað með skáldinu í kvæði hans Fákar, því hann var hestamaður af Guðs náð, og góður knapi. Hann sat hest af þeirri tign sem hæfir.
Hann var dýravinur í víðum skilningi þess orðs þótt sögur hans snérust fyrst og fremst um hesta og hrúta.

Árin liðu og Þorgeir hélt til náms, fyrst á Alþýðuskólanum á Laugum, 1934-35, síðan fór hann í Bændaskólann að Hvanneyri og lauk þaðan búfræðiprófi 1938.

Lýðveldisárið 1944 flutti Páll faðir hans með fjölskyldu sína að Hesti í Borgarfirði þar sem honum hafði verið falin bústjórn á tilraunabúi í sauðfjárrækt og bjuggu þau þar í þrjú ár. Þorgeir var á Gautlöndum og fór ekki suður fyrr en ári síðar. Hann fór ríðandi lengstan partinn.
Þegar suður kom stundaði Þorgeir nám við Samvinnuskólann sem þá var í Reykjavík. Á námsárunum bjuggu þeir saman á Öldugötunni Þorgeir og Þráinn Þórisson.
Það mun mega segja það með sann að það hafi ekki verið leiðinlegt.
Einhver sagði að þeir hefðu verið eins og tvílembingar. Tveir efnilegir hrútar.

Þeir sungu saman í Karlakórnum Stefni í Mosfellssveit. Þorgeir hafði góða söngrödd og mikla unun af söng. Hann hafði áður sungið með Karlakór Mývetninga og verið í tvöföldum kvartett á Hvanneyri, og heimanfylgja hans frá Grænavatni var ofin með söng og tónlist.

Einnig síðar átti hann eftir að syngja með Karlakórnum Þrym á Húsavik, og naut söngs til hinstu stundar.
Árið 1947 flutti fjölskyldan til Húsavíkur. Næstu ár starfaði Þorgeir fyrst hjá Kaupfélagi Eyfirðinga og síðan Kaupfélagi Þórshafnar til 1949.

Ekki er mikið vitað um þessi störf Þorgeirs, né heldur skal reynt að rekja aðdraganda þess að Þorgeir festi ráð sitt, eins og það heitir. En það er mikill kraftur í því að elska og að finna hamingju sína. Svo aftur sé vitnað í skáldið sem hafði verið við Hljóðakletta og ort um það:

Er nokkuð svo helsnautt í heimsins rann
sem hjarta er aldrei neitt bergmál fann,-
og nokkuð svo sælt sem tvær sálir á jörð
samhljóma í böli og nauðum?
Ein barnsrödd getur um fold og fjörð
fallið sem þruma af hamranna storð,
eins getur eitt kærleikans almáttugt orð
íshjartað kveðið frá dauðum. (Hljóðaklettar, 6.vers)

Haustið 1949 gengu þau í hjónaband Þorgeir Pálsson og Stefanía Sigurgeirsdóttir frá Granastöðum í Köldu-Kinn. Þau stofnuðu heimili sitt á Húsavík og bjuggu að Laugarbrekku 17. Í sama húsi bjuggu þau feðginin Páll og Droplaug, og systurnar Guðfinna og Snjólaug.

Þorgeir vann fyrst við Mjólkursamlag KÞ og síðan við fiskvinnslu hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur þar sem hann var allan sinn starfsaldur á Húsavík.

Þau Þorgeir og Stefanía eignuðust þrjú börn.
Elstur er Páll, f. 1950,. kona hans er Helga Þorkelsdóttir. Þau eiga Hrefnu og Hildi Droplaugu, og eitt barnabarn, Hrefna á Helgu Kristínu.
Næstur er Sigurgeir, f. 1952, kona hans er Málfríður Þórarinsdóttir. Þau eiga Björgu Stefaníu, og Ólínu Kristínu.
Yngst er Hólmfríður, f. 1957, maður hennar er Árni Vésteinsson. Þau eiga Stefán Geir, og Valgerði, og tvö barnabörn, því Stefán og Hildur Björk Sigbjörnsdóttir eiga Hrafnhildi Ýr og Jökul Starra Hagalín.

Heimilið á Húsavík var afar gestasælt. Einkum áttu þar athvarf allir ættingjar og vinir hvert sinn og komið var í kaupstað. Mikill samgangur var ætíð á milli hæða og heimila, í húsinu við Laugarbrekku, rétt eins og verið hafði á Grænavatni.
Þannig gátu börn Þorgeirs og Stefaníu farið á milli hæða og ef þeim sýndist svo matast þeim megin, sem þeim þótti betra í það og það skipti, eða jafnvel á báðum stöðum. Oft var hvort eð var óvæntur fjöldi gesta og gangandi við borðið.

Við sem munum þessa tíma og önnur heimili lík því sem hér er minnst, við munum seint skilja hvernig stóð á því að aldrei var svo lítið til að ekki dygði öllum. Það var eins og gestrisnin ein léti vaxa í pottunum.
Í virðingu við þá gestrisni hinna gengnu er ykkur öllum boðið að þiggja veitingar í Perlunni að lokinni þessari athöfn.

Þeir feðgar Páll og Þorgeir voru saman um nokkurn búskap á Húsavík eins og títt var í þorpum og kaupstöðum lengi vel, alla tíð sem Páll lifði. Varla þarf að taka fram að aldrei gekk þeirra fé á Tjörnesi eða Reykjaheiði.
Eftir lát móðursystra sinna og föður árið 1969 hafði Droplaug sameiginlegt heimilishald með Þorgeiri bróður sínum og fjölskyldu hans.

Árið 1989, eftir 40 ára búskap á Húsavík fluttu Þorgeir og Stefanía suður, til þess að geta verið nær sínu nánasta fólki. Droplaug flutti með þeim.

Hér voru þeim þó ekki gefin nema þrjú ár saman. Konu sína missti Þorgeir í bílslysi árið 1992. Um það verður ekki skrafað margt hér, en minna má á vers úr kvæðinu :Hvað bindur vorn hug, sem ekki er í sálmabókinni og hljóðar svo:

Sem móðir hún býr í barnsins mynd;
það ber hennar ættarmerki.
Svo streyma skal áfram lífsins lind
þó lokið sé hennar verki.
Og víkja skal hel við garðsins grind,
því guð vor, hann er sá sterki.

Eftir lát Stefaníu annaðist Droplaug heimilishaldið að öllu leyti, um tíu ára skeið eða þar til heilsu Þorgeirs hrakaði svo að hann þurfti frekari aðhlynningu. Síðustu árin þrjú átti hann heimili í Skógarbæ þar sem hann lést hinn 18.þessa mánaðar.

Þorgeir Pálsson er kvaddur í miklum kærleika. Hann bar umhyggju fyrir sínu fólki og hafði mikið dálæti á barnabörnunum og barnabarnabörnunum.
Hann var frændrækinn og naut þess meðan hann gat að fara norður og vitja góðra vina, og rifja upp sögur um svaðilfarir eins og þegar Helgi á Grænavatni velti ofan af honum hrossinu og gaf honum lífið aftur, eða um göngur og réttir, um gæðinga og vekringa.
Nú hefur hann riðið úr hlaði hið síðasta sinn
og við syngjum hann úr hlaði.

Vor ævi stuttrar stundar
er stefnd til Drottins fundar,
að heyra lífs og liðins dóm.
En mannsins sonar mildi
skal máttug standa í gildi.
Hún boðast oss í engils róm.

Svo helgist hjartans varðar.
Ei hrynur tár til jarðar
í trú, að ekki talið sé.
Í aldastormsins straumi
og stundarbarnsins draumi
oss veiti himnar vernd og hlé.

Far þú í friði, Þorgeir Pálsson,
friður Guðs þig blessi
og hafðu þökk fyrir allt og allt.

En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen

url: http://kvi.annall.is/2006-02-27/20.08.49/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli