kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Minningarorð í Reykjahlíðarkirkju 11.jan. · Heim · Bænadagur á vetri »

Bróðir Jóhannes

Kristján Valur @ 23.37 27/1/06

Jóhannes Rau fyrrum forseti Þýskalands lést í dag 75 ára að aldri, eftir erfið veikindi.

Johannes Rau fæddist 16.jan 1931 í Wuppertal.

Strax á menntaskólaárunum tók hann mikinn þátt í kirkjustarfi og starfaði með hreyfingu sem kallaðist játningarkirkjan. (Die Bekennende Kirche) og barðist gegn nasismanum. Þar starfaði hann náið með Martin Niemöller, sem ýmsir guðfræðingar hér þekkja.

Hann starfaði lengst af sem blaðamaður og rithöfundur, en hóf ungur afskipti af pólitík.

Í rúm 30 ár (1965 – 1999) sat hann á kirkjuþingi (synodu) evangelisku kirkjunnar í Hessen, og sat í stjórn kirkjudagsins tæpan áratug. Hann tók við sem forsætisráðherra í Nordrhein-Westfahlen 1978 og hélt því embætti í tuttugu ár.

Frá 1985 var hann aðalútgefandi tímaritsins Evangelische Kommentare.

Jóhannes Rau var eftirtektarverður persónuleiki. Á fyrsta skeiði dvalar okkar hjónanna í Þýskalandi varð hann forsætisráðherra og framarlega í flokki sósialdemokrata, góður vinur Willy Brandt og Helmuth Schmith. Afskipti hans af málefnum kirkju og kristni og almannaheill, ásamt rólegri og yfirvegaðri framkomu og því að hann var lengst af piparsveinn, gáfu honum titilinn Bróðir Jóhannes. Hann glataði reyndar ekki titilinum þegar hann loksins, orðinn rúmlega fimmtugur giftist Christinu Delius, sem var 25 árum yngri en hann. Hún er barnabarn Gustavs Heinemanns, fyrrum forseta Þýskalands, en með honum steig Johannes Rau sín fyrstu skref í stjórnmálum þegar hann barðist gegn því 1952 að þjóðverjar settu aftur á stofn her.

Johannes Rau var valinn forseti Þýskalands 1.júlí 1999 og gegndi því embætti eitt kjörtímabil til 2004. Vegna heilsubrests bauð hann sig ekki aftur fram.

Hann flutti margar ræður á alþjóðavettvangi sem í eigin landi og var frægur fyrir að undirbúa sig sérstaklega vel fyrir þær. Hann hafði unum af að fægja og slípa textann og vel kunnugur því hversu máttur hins talaða orðs er mikill.

Hann var fyrsti forseti Þýskalands til að ávarpa þingið (Knesset) í Jerúsalem árið 2000. Það þótti tíðindum sæta og margir þingmenn stóðu upp og yfirgáfu þingsalinn þegar hann gekk í ræðustólinn. Það þótti líka tíðindum sæta hversu margir þeirra komu aftur og settust þegar á ræðuna leið.

Johannes Rau kom í opinbera heimsókn til Íslands sumarið 2003 ásamt Christinu konu sinni.

Meðan á dvöl hans stóð var haldin mikil hátíð í Hafnarfirði og afhjúpað listaverk til minningar um fyrstu lúthersku kirkjuna á Íslandi sem þar stóð. Hann tók því ljúflega að koma og vera viðstaddur afhjúpun listaverksins, sem þeir forsetarnir Rau og Ólafur Ragnar önnuðust. Þetta bar upp á 1.júlí.
Johannes Rau flutti stutt ávarp. Það kom í minn hlut að þýða það jafn óðum, því að það var samið á staðnum. Ég hafði áhyggjur af þessu hlutverki og sagði honum það, vel vitandi um ræðutækni hans. Það var mér engin huggun þegar hann svaraði:
Hafðu ekki áhyggjur af þessu. Ég segi aldrei neitt sérstaklega merkilegt!

Johannes Rau fór aldrei dult með trú sína.
Hann var alveg viss um að þó að mannlegt líf ætti sér endadægur væru það ekki endalokin.
Megi hann nú fá staðfestingu trúar sinnar.

url: http://kvi.annall.is/2006-01-27/23.37.21/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Gunnlaugur @ 28/1/2006 15.36

Kæri kollega,
Þakka þér þessi fróðlegu skrif um þann mæta mann, Johannaes Rau. Kkv, Gunnlaugur

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli