kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Við tendrum lítið ljós í kvöld · Heim · Nótt og nýfætt barn »

Aðventuljós og friðarbæn

Kristján Valur @ 01.20 9/12/05

Í framhaldi af síðustu færslu um aðventuljósin.


Á þessari aðventu árið 2005, á aðventukransinn í þeirri mynd sem við þekkjum hann 145 ára afmæli, en þar á undan hafði hann verið til í annarri gerð í 21 ár í munaðarleysingjaheimilinu sem Jóhann Hinrich Wichern kom á fót í Hamborg og enn er starfrækt. Þaðan breiddist hann út. Um sögu hans og tilurð má skrifa lengra mál í annan tíma.
Eftir því sem aðventukransinn varð algengari hefur fjölgað tillögum til að túlka merkingu kertanna fjögurra. Ein leið til þess hefur verið að gefa hverju kerti sérstakt heiti, eða gefa því tákn.
Miklu fleiri er þau sem beinlínis játa kristna trú hafa ást á aðventukansinum og jólaundirbúningnum.
Norðmenn hafa mikið dálæti á versum um aðventukransinn eftir skáldkonuna Inger Hagerup (1905-1985). Þessi vers sem venjulega eru lesin en ekki sungin, hafa enga beina skírskotun til hins kristna skilnings á jólaföstunni um komu Krists til kirkju sinnar, enda var höfundi annað í hug. En þau eiga að minna okkur á fjögur eftirsóknarverð hugtök: gleði, von, þrá og frið.
Full ástæða til þess að við eigum þessi vers á íslensku, til að deila með vinum okkar innan kirkju sem utan.
Á þessu ári er öld síðan Inger Hagerup fæddist og tuttugu ár síðan hún lést. Hún var þekkt ljóðskáld í Noregi og naut þar virðingar ekki síst fyrir barnaljóð sín. Hún var flokksbundin í norska kommúnistaflokknum og mjög áhugasöm um kommúnismann allt frá unga aldri, en þá voru kenningar hans einmitt að breiðast út.
Áherslur þeirra sem ekki eru kristin eru af eðlilegum ástæðum aðrar en okkar þegar kemur að trúarefnum, en aðrar áherslur geta sannarlega farið fullkomlega saman eins og gerist milli vina.
Við fögnum því þegar við getum fundið það sem sameinar okkur. Í því felst af okkar hendi að sjálfsögðu engan vegin höfnun hinna kristnu gilda, heldur auðgum við okkar líf með sameiginlegum áherslum með þeim sem ekki trúa. Áhersluna um gleði, von, þrá og frið geta allir átt saman, óháð öllu öðru en því. Á degi Sameinuðu þjóðanna, 21, september sl. mættust þjóðirnar í bæn fyrir friði, sameiginlega, og óháð trúfélagsaðild. Friður á jörðu fæst aðeins með sameiginlegu átaki hinna ólíku. Vegna þess góða markmiðs deili ég með ykkur þessu ljóði Inger Hagerup.


Aðventuljósin


Gleði, Von, Þrá og Friður.

vers frá Noregi eftir Inger Hagerup,
íslensk þýðing Kristján Valur Ingólfsson

Við tendrum lítið ljós í kvöld.
Eitt ljós sem táknar gleði.
Það segir sögu öld af öld
um allt sem forðum skeði.
Við tendrum lítið ljós í kvöld,
Eitt ljós sem táknar gleði.

Við tendrum ljósin tvö í kvöld,
sem tákna von og gleði.
Þau segja sögu öld af öld
um allt sem forðum skeði.
Við tendrum ljósin tvö í kvöld,
sem tákna von og gleði.

Við tendrum þrjú ljós þetta kvöld
um þrá og von og gleði.
Þau segja sögu öld af öld
um allt sem forðum skeði.
Við tendrum þrjú ljós þetta kvöld
um þrá og von og gleði.

Það loga fjögur kerti í kvöld
Þau kveikja von um frið,
með þrá og gleði, hlið við hlið
svo hér um ár og öld
á jörðu finnum fjær og nær,
þar frið sem hjarta slær.

url: http://kvi.annall.is/2005-12-09/01.20.06/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Kristín Tómasdóttir @ 11/12/2005 00.01

Takk fyrir þetta góða innlegg í samtalið um aðventuna. Þessi hugsun er vel í anda Jóhannesar sem benti á það sem var stærra en hann – og greiddi götu fagnaðarerindisins sem var öllum ætlað. Sömuleiðis er auðgandi að víkka prédikunina um jólaboðskapinn svo hann nái út fyrir “creeds and confessions”….er það ekki megin áskorun kirkjunnar í dag?

Torfi Stefánsson @ 11/12/2005 15.44

Jú. þetta er falleg og þakkarverð þýðing á ljúfum sálmi.
En ekki veit ég hvort játningarmálin séu “megin áskorun kirkjunnar í dag”.
Ég vil miklu frekar taka undir með Harold Pinter þegar hann segir að við verðum öll að sameinast í því að endurreisa það sem við höfum næstum týnt: virðingu mannsins (the dignity of man.).
Það sé knýjandi skylda okkar að skilgreina hinn raunverulega sannleika um okkur sjálf og um samfélög okkar:
I believe that despite the enormous odds which exist, unflinching, unswerving, fierce intellectual determination, as citizens, to define the real truth of our lives and our societies is a crucial obligation which devolves upon us all. It is in fact mandatory.

Sjá http://books.guardian.co.uk/news/articles/0,6109,1661516,00.html

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli