kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Hugleiðing í árdegismessu 22.júní · Heim · Hugleiðing í Hallgrímskirkju að morgni 13.júlí »

Af ættarmóti

Kristján Valur @ 18.46 13/7/05

Um helgina 8.-10. júlí var haldið ættarmót afkomenda Björns Jóhannessonar (1877-1951) og Önnu Pálsdóttur (1883-1958) sem bjuggu á Nolli í Grýtubakkahreppi frá 1903. Tæplega 300 manns sóttu mótið. Guðsþjónusta og lokasamvera mótsins var í Laufáskirkju og við legstað þeirra hjóna í Laufáskirkjugarði. Það er ekki nema einn prestur í hópnum svo að það kom í minn hlut að leiða guðsþjónustuna og flytja hugleiðingu.


Hugleiðing í Laufáskirkju 10.júlí 2005 á ættarmóti Nollarættar.

Guðspjallið Jh. 14.1-6:

Jesús sagði:
Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér.” Tómas segir við hann: “Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?” Jesús segir við hann: “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.”

Kæru ættingjar og venslafólk.
Hvað hugsar maður við legstað forfeðra og formæðra sinna?

Það er nú sjálfsagt bæði misjafnt og margskonar.
Kannski hugsar maður:

Hvaða fólk var þetta?
Hvernig fólk var þetta?
Hvað hef ég frá þeim?
Hver er ég?

Á ættarmóti mætir maður kunnugu en líka alveg ókunnugu fólki. Og maður sér, í mismunandi miklum mæli auðvitað, sjálfan sig. Stundum sér maður sjálfan sig jafnvel í óþægilega miklum mæli.

Það erfiðasta við ættarmót er þessi upplifun:
Ég var að horfa í spegilinn og mér líkaði ekki það sem ég sá.

Það yndislegasta við ættarmót er að sjá að maður er ekki einn í númeri.
Aðrir glíma sömu glímu, jafnvel við útlit sitt, og hafa sigur, eða ná í það minnsta jafntefli.

Það er orðið nokkuð langt síðan Björn og Anna á Nolli luku sinni vegferð á jörðu. Aðeins þau okkar sem komin erum á síðasta fjórðung ævinnar munum þau og þó jafnvel aðeins í óljósri mynd bernskunnar.
Samt eru þau lykillinn að því að við erum hér, og að lífið sem við eigum er eins og herbergi sem þau hafa lokið upp og þau ein áttu lyklana að.
Og í þessu herbergi var ýmislegur húsbúnaður og ýmislegar eignir.
Eða þó enn frekar, að í því voru bæði eignir og skuldir. Við tókum það í allt í arf.
Við máttum njóta eignanna en urðum líka að greiða skuldirnar.

Það sem við höfum endanlega uppskorið er auðvitað sú ávöxtun sem fæst fyrir tengsl við annað fólk og aðrar ættir. Þessvegna er líka mismunandi mikið ríkjandi af arfleifðinni frá Nolli í okkur öllum. En stofninn er hinn sami, og inneignin stór.

Stærsta og mesta eignin sem við fengum í arf er lífið sjálft.
Og lífið er stórkostlegt. Stærsta gjöf lífsins er lífið sjálft.
Og ef þið hafið ekki enn séð kvikmyndina La vita e bella, látið það ekki dragast. Hún er holl áminning um það hversu dýrmætt lífið er.

Næst því að vita að maður sé á lífi, er nauðsynlegast að vita hvar maður á heima.
Heima er ekki á Nolli. Enda á þar enginn heima af okkar fólki lengur.
Heima er þar sem fólkið manns er. En heima er þó fyrst og fremst staðurinn þar sem maður er í takt við sjálfan sig. Það finnur maður vel þegar maður er einn í heimili.
Heima er besti staður á jörðu vegna þess að þar er maðurinn í bestum tengslum við sjálfan sig.
Oftast eru þar ættingjar sem styðja þessi tengsl, en enn frekar vinir.

Það er vináttan sem heldur saman fjölskyldum og ættum og gerir lífið jafn spennandi og skemmtilegt sem það er.
Þess vegna eru líka ættarmót svona nauðsynleg.
Þau styrkja ekki ættarböndin, þau eru bundin hvort sem er. Þau styrkja vinaböndin.
Og vinaböndin eru sterkari en allt annað, af því að þau nærast af kærleikanum sem er sterkari en dauðinn.

Hér í Laufási, þar sem þau hvíla Björn og Anna, – amma og afi, hugsum við þess vegna um tvennt á þessum sunnudagsmorgni:
Þegar við deyjum förum við heim. Það er skilningur okkar á dauðanum.
Heimkynni okkar á jörðu á samsvörun á himnum.

Í guðspjallinu sem lesið var er sagt frá því þegar Jesús undirbjó lærisveina sína áður en hann skildist frá þeim og sagði: ,,Ég fer burt að búa yður stað”.
Staður minn og þinn er í venjulegri merkingu staðurinn þar sem við eigum heima.
Við kennum börnum okkar að rata heim og segjum að það sé þeim mjög dýrmætt veganesti.
Líkast til er ekkert til merkilegra eða dýrmætara sem við kennum þeim en einmitt það:
Það er alveg sama hvert þú ferð og hvað þig hendir, þú átt alltaf vísan og öruggan stað og þar áttu heima.
Þar með gerum við ráð fyrir því að heima sé eftirsóknarverður staður. Við höfum það hlutverk að sjá um að svo sé. Það er ekki sjálfgefið.
Og okkur er öllum nauðsynlegt að eiga stað. Stað á jörðu og stað á himni.

Jesús bætir við:
Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt að ég færi burt að búa yður stað.

Þetta sem hann segir eru mjög góð tíðindi, því að við sem erum samferða á jörðu erum ekkert endilega viss um að við viljum deila herbergi til langframa, þrátt fyrir allt!

Það að Jesús býr okkur stað segir vissulega eitthvað um hann en einnig eitthvað um okkur. Það segir okkur hversu dýrmætur hver einstaklingur er í augum hans. Þannig skyldi það einnig vera í augum okkar.
Sérhver manneskja er helgidómur og þannig ættum við að umgangast hvert annað.

Jesús Kristur býr okkur stað, sem er svo dýrmætur að hann lætur líf sitt til að tryggja hann.

Grafreitur, eða legstaður er ekki endanlegur staður lífsins. Það er vegna þess að dauðinn lokar ekki leiðinni heldur opnar hana.
Legstaður er þess vegna fyrst og fremst staður til þess að minnast og þakka fyrir líf þeirra sem við höfum kvatt og höfum þurft að horfa á eftir heim til Guðs. Þangað sem leið okkar allra liggur.

Og þegar við göngum út að leiði Björns og Önnu nú á eftir þá ætlum við að gleðjast yfir lífinu og þakka það allt sem lífið gefur, og þakka það að við eigum stað sem við megum kalla heima. Við væntum dauðans í rósemi, vegna þess að hann er líka leiðin heim.

Bænir.
Lof sé þér Guð, fyrir alla gæsku þína við oss mennina, fyrir heiminn, sem þú hefur fengið oss til dvalar með öllu hans undri og fegurð.
Lof sé þér fyrir líf og heilsu, fyrir fæði og klæði, fyrir vini og heimili, fyrir umhyggju þína, sem vakir yfir oss alla tíð, fyrir trúfesti þina, sem aldrei bregst.
Lof sé þér fyrir Jesú Krist, einkason þinn og frelsara vorn, sem kom í heiminn og dó fyrir oss og hefur opinberað oss kærleika sem er æðri öllum skilningi.
Veit oss lifandi trú, örugga von og fölskvalausan kærleika.

Lof sé þér Guð, fyrir fegurð þessarar jarðar, fyrir birtu morgunsins og skugga kvöldsins, fyrir sól og tungl og stjörnur, fyrir bláma himinsins og litbrigði skýjanna, fyrir dýrð blómanna og söng fuglanna, fyrir yndisleik barnanna og þokka mannanna.
Opna þú hjörtu vor, skapari vor og faðir, svo að vér fáum notið sköpunar þinnar og auðgað hug og hjarta.

Vér biðjum þig, Guð, að hugga og styrkja þau öll sem eru í vanda, sorg og neyð eða eiga í sjúkdómum eða annarri raun. Lát þau finna blessun og hjálp og öðlast kjark, huggun og frið.
Vér minnumst í þakklæti og auðmýkt látinna vina og vandamanna. Sameina oss þeim í einni trú, von og kærleika, svo að vér megum nálgast þig og eignast hlutdeild með þeim sem líta ásjónu þína í eilífri dýrð þinni.
Vér minnumst hér á þessum stað allra þeirra ættmenna og vina sem farin eru á undan oss heim til þín. Vér minnumst feðra og mæðra og ástvina allra.
Í dag minnumst vér sérstaklega Gunnþórs Ægissonar og biðjum þig að blessa hann og styrkja þau sem syrgja hann og sakna.

Drottinn Guð, hvorki líf né dauði gjörir þau viðskila við þig, sem treysta á kærleika þinn. Lát oss treysta kærleika þínum, sem umvefur öll börnin þín í lífi og dauða. Lát oss ætíð vera bundin ástvinum vorum í samfélaginu við þig og treysta því, að þú munir sameina oss þeim sem dauðinn hefur skilið frá oss.
Vér minnumst fyrir augliti þínu hjónanna á Nolli, Björns Jóhannessonar og Önnu Pálsdóttur. Þökk sé þér fyrir líf þeirra og arfleifð og fyrir minningarnar sem þeim tengjast.
Gef oss sem hér söfnumst saman, kjark, staðfestu og von fyrir Jesú Krist, Drottin vorn sem dó og var grafinn og reis upp frá dauðum vor vegna, svo að vér megum starfa eftir þínum helga vilja allar stundir sem þú gefur oss til starfa.
Í Jesú nafni. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2005-07-13/18.46.02/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli