kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Predikun í Þingvallakirkju á hinum almenna bænadegi, 1.mai 2005 · Heim · Gottesdienst in deutscher Sprache »

Bæn 8.mai

Kristján Valur @ 23.46 9/5/05

Í gær, 8.mai var samkirkjuleg bænastund í Hallgrímskirkju þar sem biskupinn og utanríkisráðherrann fluttu ávörp, aldinn sjómaður sem var í stríðinu og fulltrúar kirkjudeildanna stóru lásu ritningarorð. Kantor gyðingasamfélagsins hér söng Kaddish og heimafólk las bænina sem hér fylgir.

.
Bæn 8. mai 2005 í samkirkjulegri minningarguðsþjónustu í Hallgrímskirkju.

Guð, sem vilt að vér og allir menn þiggi hjálp þína og leiðsögn.
Vér komum fram fyrir þig í sorg, í auðmýkt og í von.

Vér þökkum þér fyrir sérhvert skref til friðar
sem stigið hefur verið þessi sextíu ár
og vér biðjum þig:

Gef frið um allan heim.
Gef heiminum þann frið sem hann getur ekki fundið sjálfur
heldur þú einn getur veitt.

Vér áköllum þig.
Kyrie eleison.

Guð, á þessum degi minnumst vér fórnarlamba stríðs og blóðsúthellinga.
Vér minnumst einkum þeirra sem féllu í síðari heimstyrjöld
og þeirra sem þaðan komu sár til líkama og sálar.

Vér minnumst sérstaklega þeirra sem leidd voru þúsundum saman í dauðann
aðeins vegna þess að þau voru gyðingar, pólitískir andstæðingar
eða með einhverjum hætti öðruvísi en yfirvöldunum líkaði.

Vér minnumst fallinna hermanna
og óbreyttra borgara.
Vér minnumst þeirra sem enn eru deydd
í umkomuleysi og varnarleysi
vegna stríðsátaka.

Vér áköllum þig.
Kyrie eleison

Guð, á þessum degi biðjum vér þig sérstaklega að þú lítir til þeirra í náð
sem eiga um sárt að binda vegna stríðsins sem lauk fyrir sextíu árum
Ver með þeim sem misstu einhvern nákominn,

móður,
föður,
systur,
bróður,
dóttur
son,
eiginmann,
eiginkonu,
skyldmenni,
vini,
nágranna.
Lát þau finna fólk
sem styður þau, styrkir þau og vendar.

Vér áköllum þig.
Kyrie eleison

Guð vér biðjum fyrir þeim sem stjórna í heiminum
og ráða fyrir málum þjóðanna
að andi friðar og skilnings leiði þau.
svo að stríð og blóðsúthellingar hverfi
og réttlætið vaxi og sigri.

Vér áköllum þig.
Kyrie eleison

Ver með oss öllum, ó, Guð.
Gef oss hugrekki.
Gef oss kraft til að vera friðflytjendur

Vér áköllum þig.
Kyrie eleison.

Amen.

url: http://kvi.annall.is/2005-05-09/23.46.22/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli