kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Morgunbæn í Hallgrímskirkju · Heim · Predikun í Þingvallakirkju á hinum almenna bænadegi, 1.mai 2005 »

Hinn almenni bænadagur

Kristján Valur @ 17.31 30/4/05

Þetta árið fer saman 1.mai og hinn almenni bænadagur. Þegar lesnar eru tilkynningar um messur morgundagsins, er eins og bænadagurinn sé að gleymast. Það er mjög miður.

Bænadagurinn

Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér. (Sl.66.20)

Fimmti sunnudagur eftir páska er bænadagur í kirkjunni. Hið latneska heiti dagsins er: Rogate. Biðjið.

Nafn sunnudagsins Rogate tengist hinum gamla sið í kristninni til sveita að ganga bænagöngu um akrana eða umhverfis þá og biðja fyrir góðri uppskeru. Þessi siður er enn við lýði í kaþólskum sið.

Hann á upptök sín í Róm á 4.öld, og var í fyrstu bundinn við 25.apríl sem fastan dag. Eins og svo margt annað í kristnum sið var hann tekinn upp til að berjast gegn trúarvenjum sem áttu upptök sín í eldri trúarbrögðum. Þá voru ýmis goðmögn náttúrunnar ákölluð og á þau heitið til góðs árferðis í löngum prósessíum um engi og akra.

Þegar fast skipulag komst á kirkjuárið og lestra þess var þessi bænadagur bundinn við 5.sd. eftir páska, eins og fyrr segir. Gangan hófst sunnudaginn og hélt áfram næstu þrjá daga. Heiti daganna tók í þýðingum mið af göngunni en ekki bæninni og heita því gangdagar í íslenskum textum, en dies rogationes á latínu. Þegar gangdagar enda kemur uppstigningardagur.

Tilefni bænadagsins tekur þar með ekki síst mið af tíma kirkjuársins. Þetta er síðasta skeið samvista lærisveinna við Jesú Krist áður en hann stígur upp til himna. Hinn upprisni hefur heitið því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í hans nafni, sé hann mitt á meðal þeirra. Söfnuðurinn hefur lært að biðja til Guðs í Jesú nafni. Það er megin umhugsunarefni dagsins.

Helgihald bænadagsins miðast allt við bænina; bæði lestrar og predikun og auðvitað bænagjörðin sjálf. Venja er í Þjóðkirkjunni að Biskup Íslands sendi prestum bréf þar sem minnt er á eitthvert málefni sem sérstaklega skal biðja fyrir. Svo er einnig nú.

url: http://kvi.annall.is/2005-04-30/17.31.26/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli