kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« 1.maí. Dagur verkalýðsins og hinn almenni bænadagur · Heim · Hinn almenni bænadagur »

Morgunbæn í Hallgrímskirkju

Kristján Valur @ 21.54 27/4/05

Það var komið að mér að sjá um bænina í morgunmessunni í Hallgrímskirkju í morgun. Ég deili henni með ykkur, af því að ég veit að einhver ykkar þekkið til sr. Árna Bergs sem í báráttu sinni við óvægið krabbamein leggst undir hnífinn í fyrramálið, líkast til í þriðja sinn.

Það er annars rétt að geta þess vegna þeirra sem lesa en ekki hafa verið í messu á miðvikudagsmorgni í Hallgrímskirkju að messan í morgun var í senn yndisleg og stórkostleg. Það er gott þegar allir þekkja alla. Þá er líka hægt að taka vel á móti þeim sem bætast í hópinn. Í morgun voru þau þrjú sem kalla mátti ný.
Morgunverðurinn á eftir messunni kl. 8.30 var aldeilis frábær, enda voru það þau hjónin Birna og Þorsteinn sem báru ábyrgð á honum. Og þó að miðað sé við að fólk geti farið til vinnu kl. 9, þá var það nú samt þannig í morgun að við gátum ekki hætt að spjalla og að borða þennan góða morgunverð. Kannski mætti þess vegna einhver of seint?
Þetta er undursamlegt samfélag og það er einhvernvegin tímalaust, sem sést best á því að líkast til er aldursmunur yngsta og elsta 70 ár.

Bænin í morgun fylgir hér á eftir. Vegna Árna Bergs bið ég þig sem lest að gera þessa bæn að þinni.

Ég bendi þér líka á þessa messu á miðvikudagsmorgni í Hallgrímskirkju..
Við byrjuðum á öskudaginn 2003. Síðan hefur aldrei fallið niður messa á miðvikudagsmorgni.
Engar kvaðir, engar skyldur, bara gott og hlýtt og elskulegt samfélag í venjulegum þjóðkirkjusöfnuði.
Komdu með !

Bæn.

Drottinn Guð,
við komum til þín árla morguns
því að þú hefur kallað okkur
með heilagri raustu.
Þú hefur opnað hlið ríkis þíns
og þú laðar okkur til þín
með eilífri miskunn þinni.
Við biðjum þig.

Blessa öll störf á ökrum þíínum.
Blessa alla sendiboða þína.
Blessa sáðkorn þins heilaga orðs
og lát það spíra og bera ávöxt.

Meðtak þjónustu okkar í náð þinni
og blessa allt starf þessa dags fyrir ríki þitt.
Blessa þau öll sem eru í þér tengd saman.
Blessa kirkju þína.

Við berum fram fyrir þig á bænarörmum
bróður okkar, Árna Berg,
og biðjum þig að blessa hann
nú þegar hann er á leið í eina erfiða aðgerð enn.

Blessa þú. Drottinn,
læknana og hjúkrunarfólkið,
og legg þinn líknandi og læknandi kraft
í hendur þeirra og huga
og gef lækningu, styrk og bata.

Lát okkur ekki vera upptekin af tölfræðilegum líkum
heldur gef að við megum treysta þér einum
og megum vona á þín undursamlegu líknar – og kærleiksverk.

Drottin við bíðum þín.
Sameina það sem sundrað er á meðal okkar
lækna hið sjúka.
lífga hið dauða og ófrjóa ,
gef kraft og trúfesti
til að þjónustunnar við þig.

Tengdu okkur saman
í eina heilaga byggingu kirkju þinnar.
Gjör hana að stað friðarins
og húsi náðarinnar.

Andi lífsins tak þér bústað í okkur.
Í Jesú nafni, Amen

url: http://kvi.annall.is/2005-04-27/21.54.49/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Kristján Valur @ 28/4/2005 14.55

Rétt er að geta þess að umrædd aðgerð gekk vel og sr. Árni Bergur er kominn af gjörgæslu á almenna deild.

Sigurvin Jónsson @ 28/4/2005 17.43

Takk Kristján Valur fyrir að leyfa okkur sem höfum haft kynni af sr. Árna Berg að taka undir með þér í bæn fyrir honum. Guði sé þökk fyrir að aðgerðin gekk vel.

Árni Svanur @ 28/4/2005 19.42

Þetta er undursamleg bæn, takk fyrir að deila henni með okkur og leyfa okkur sem lesendum annálsins að gera hana að okkar. Það er jafnframt gott að heyra aðgerðin hafi gengið vel.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli