kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Predikun 4.sd.eftir páska · Heim · Morgunbæn í Hallgrímskirkju »

1.maí. Dagur verkalýðsins og hinn almenni bænadagur

Kristján Valur @ 17.47 26/4/05

Nú ber svo við þetta árið að saman fara hinn almenni bænadagur og frídagur verkalýðsins. Messað verður á Þingvöllum þann dag með þátttöku blásarasveitar barna.

Hinn almenni bænadagur er ævinlega fimmti sunnudagur eftir páska. Sá dagur heitir frá fornu fari: Rogate. Biðjið. Bænadaginn ber að þessu sinni upp á 1.maí, dag verkalýðsins, sem einnig er sérstakur bænadagur fyrir öllu vinnandi fólki og fyrir atvinnulausum. Dagarnir milli bænadagsins og uppstigningadags, sem er næsti fimmtudagur, eru kallaðir gangdagar, vegna þess að áður fyrr var á þeim dögum gengið um tún og engi, að lækjum og lindum og beðið fyrir góðu árferði. Þessa verður alls minnst við messu í Þingvallakirkju kl. 14.00 sunnudaginn 1.maí. Guðmundur Vilhjálmsson, organisti, sem einnig er básúnuleikari og kennari, leikur á orgelið við messuna, e stjórnar einnig lítilli blásarasveit barna sem eru nemendur í Skólalúðrasveit Árbæjar og Breiðholts. Þau leika við upphaf og endi messunnar. Þegar messu er lokið verður gengið í skrúðfylkingu á Lögberg og að Öxarárfossi og beðið fyrir gróandanum, fyrir góðum gæftum til lands og sjávar, fyrir öllu vinnandi fólki og fyrir þeim sem enga atvinnu hafa. Á þessum stöðum leikur blásarasveitin, og endar á því að leika Öxar við ána við Öxarárfoss, en í ár (27.júní) eru einmitt 120 ár síðan það lag var frumflutt á þeim stað af fjórum blásurum undir stjórn höfundarins, Helga Helgasonar.

url: http://kvi.annall.is/2005-04-26/17.47.00/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Guðmundur Sig. @ 1/5/2005 13.44

Það er alltaf gleðilegt þegar börn leika á hljóðfæri í helgihaldinu. Þetta er sérlega vel til fundið hjá ykkur. (Þau spila líklega ekki “Sjá roðann í austri” eða “Internasjónalinn” eins og ég veit að á að gera í dag, 1. maí, í ónefndri kirkju í eystri hluta höfuðborgarinnar…annað sem forspil og hitt sem eftirspil)
Þakka þér fyrir góða hugleiðingu um þennan dag sem BÆNADAG kirkjunnar- visslega er eins og hann hafi gleymst.

Kristján Valur @ 1/5/2005 17.55

Takk fyrir hlýleg viðbrögð. Sannleikanum samkvæmt er þess að geta að það kólnaði svo ört á Þingvöllum meðan messað var að við fórum ekki að Öxarárfossi, heldur bara að Öxará. Þegar ég sá hversu kalt þeim var á höndunum þegar þau spiluðu á Lögbergi, þá styttum við ferðina. Kannski komum við bara aftur í júnílok! Í messunni héldum við okkur við þekktari kirkjutónlistarverk en þau sem nefnd eru hér að ofan.

Kristján Valur @ 1/5/2005 17.58

Hitt málið sem þú nefnir, um tilefni bænadagsins sjálfs, má ég til með að nefna líka. Það er hörmulegt að sjá hversu dagurinn er að glatast. Það eru prestarnir sjálfir sem eru ábyrgir fyrir því. Það er hörmulegast af öllu.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli