kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Undarlegir hlutir · Heim · Predikun 4.sd.eftir páska »

Fyrir nemendur í Guðfræði díakoníunnar I

Kristján Valur @ 21.16 11/4/05

Við Ugla erum ekki í neinu góðu vináttusambandi. Hér eru því textar og minnisatriði fyrir námskeiðið í Guðfræði diakoníunnar I.

Minnispunktar úr The Diaconate

 1. Lesa bls 3 – 125 fyrir próf. Kaflar 1- 6. Meiri áhersla hvílir á köflum 4-6 en 1-3.
 2. Í kafla 1. er meginatriðið að átta sig á hugtökunum laos og ecclesia eins og höfundur kynnir þau.
 3. Kaflar 2 og 3 taka upp sömu stef og Helge Kjær fjallar um í dönsku bókinni, en Barnett fjallar um þau út frá djáknaembættinu í meira mæli en HKN. Ætla má að þið getið lesið kafla 1-3 hratt, enda hafið þið lesið HKN vel.
 4. Kafli 4. meginatriði til minnis.
  1. Gullöld diakoníunnar stóð 100 – 600. Það er tíminn frá Ignatiusi frá Antiochiu til Gregors mikla. Hversvegna gullöld?
  2. Hér þarf að hafa í huga muninn á hugtökunum diakonat og diakonia þar sem diakonian er andlit kirkjunnar og ábyrgð hvers kristins manns, en diakonat er frekar hin skipulagða díakonia sem djáknaþjónustan veitir og stýrir.
  3. Athuga þarf hvað er átt við með því að þjónustan sé þjónusta heilags anda. (á ábyrgð hans?) (sjá 44).
  4. Bréf Clemensar (í Róm) til kirkjunnar í Róm og kirkjunnar í Korintu (ca 96) draga upp mynd af kirkju í mótun; kirkju sem er að skipuleggja sig. Embættin eru að styrkjast.
  5. Ritið um Hirðinn á Hermas (óþekktur höfundur) (ca 97) birtir mynd af djáknaþjónustunni. Hver er hún?
  6. Didache: um 150. Skoðið http://www.vortex.is/catholica/thre.html
  7. Um þjónustuna segir þar m.a. Ekki líkja eftir þeim sem rétta út höndina til að þiggja en kippa henni að sér þegar kemur að því að gefa. Ef erfiði handa þinna hefur borið ávöxt mun það sem þú gefur verða lausnargjald fyrir syndir. Gef án hiks og án þess að mögla og þú munt komast að raun um af hvers örlæti þér verður umbunað. Aldrei vísa þeim frá sem eru þurfi; deildu öllu því sem þú átt með bróður þínum og haltu því aldrei til streitu að eitthvað sé þitt. Ef þið eigið sameiginlega hlutdeild í því sem er ódauðlegt hversu miklu meira er hún ekki í því sem er dauðlegt?
  8. Um val á biskupum og djáknum segir: 15. Þið veljið sjálfir biskupa og djákna sem eru Drottni verðugir; menn sem eru auðmjúkir og ekki fégráðugir heldur séu þeir einlægir og réttsýnir. Því þeir eiga að inna af hendi helgiþjónustu spámanna og kennara fyrir ykkur. Þið skuluð sýna þeim tilhlýðilega virðingu því þeim ber vegsemd jafnt spámönnum og kennurum. Ávítið hver annan en þó ekki af ákefð heldur á friðsaman hátt eins og guðspjallið býður ykkur að gera. En yrðið ekki á neinn þann sem hefur gert náunga sínum mein; lát þann mann ekki heyra orð af vörum ykkar fyrr en hann hefur iðrast. Í bænum ykkar og ölmusum, í öllu því sem þið gerið, leitið leiðsagnar í því sem stendur í guðspjalli Drottins.
  9. Ignatius frá Antiochiu (d. 107) sjá : http://www.vortex.is/catholica/two.html Ekki eyða of miklum tíma til að lesa þessi bréf, en þau birta mynd af þjónustu djákna, þar sem þeir aðstoða við altarisgönguna, og líkast predika þeir.
  10. Við lok þessa tímabils 120 – 150 hefur myndast hin klassiska skipan embættanna: biskup-prestur-djákni. Athuga þarf tengsl liturgiu og diakoniu á þessum tíma.
 5. Kafli 5. Frá Justinusi píslarvotti (um 150 til Konstantínusar.
  1. Minna á lýsingar Justinusar og Ireneusar (skrifar um 185) um helgihald og leiðsögn þess.- Ireneus er fyrstur til að tala um Stefán sem djákna og setja lýsinguna í Post. 6 sem upphaf djáknaþjónustunnar.
  2. Takið vel eftir Tertullianusi (skírður 193): Djáknar mega skíra börn með leyfi biskups. Konur mega hvorki skíra né kenna. Hann hefur nýja og sérstaka sýn á kirkjuna með almennum prestdómi í vissri mynd. Vægi leikfólks er jafnmikið og klerkdóms.
  3. Hippolytus. skrifar sitt verk um 215. Mikið rit og gefur miklar upplýsingar. Gefur aðgreinandi skýringu á þjónustu djákna og prests. Handayfirlagning biskupsins eins en ekki prestanna, vegna þess að hann er ekki hluti prestdóms heldur vígður til að þjóna biskupnum og ganga erinda hans. Hann meðtekur ekki andann með sama hætti … Í vígslubæninni kemur þetta fram: tvöföld þjónusta, pastoral og kærleiks og líturgísk, að þjóna kirkjunni og bera fram gjafirnar í evkaristíunni. Síðar í sama riti talar hann um frekara hlutverk djáknanna: Að bera fram gjafir fólksins til biskupsins í páskamessunni með skírn og kvöldmáltíð. Óvíst hvort þeir aðstoðuðu bara við kaleikinn en ekki brauðið. Svo má skilja það svo að þeir hafi kennt og þjónað við kærleiksmáltíðina (agape).
  4. Síðari hluti þriðju aldar. Tími ofsóknanna. Róm er skipt í sjö svæði undir stjórn biskups Fabian. Meginhlutverk djáknanna var umsjón með fátækum og sjúkum. Þeir önnuðust fjármuni. Þekkt er sagan um Lawrens djákna sem leið píslarvætti 258, þegar honum var skipað að afhenda fjársjóði kirkjunnnar kom hann með flokk fátækra.
  5. Hér er einnig rætt um djákna sem urðu biskupar.
  6. Takið vel eftir ritinu Didascalia frá Syrlandi frá því líklega um 220 – 250. Hér er talað um að biskup og djákni eigi að vera eins og ein sál í tveim líkömum (og einhuga). Eftirtektarvert er að ritið nefnir ekki bara presbyter og djákna, heldur einnig ekkjur og meyjar (orphan). Hér er rltt um hlutverk kvennana í verkefnum sem karlar gátu ekki sinnt (skírn stúlkna) Bent hefur verið á (sjá þar) að ekki sé hægt að ræða um karl og kvendjákna heldur hafi verið um tvennskonar störf að ræða og ólík. Ábyrgð kvenna hafi verið minni. (sjá sitat 69)
  7. Kyprianus ritar um 250. Hann hefur sýn á kirkjuna sem líkama Krists, þars em hvert hlutverk sé mikil svirði: Gerið ekkert án biskups – látið biskupinn ekki gera neitt án annarra. Hann getur þess vegna sagt, – látið djáknann leiða evcaristiuna því að það er kirkjan sem er gerandinn í athöfninni eftir Guðs náð.
  8. síðasti hluti kaflans er vangaveltur um það hvenær djáknar byrjuðu að annast tiltekin störf í kirkjulegri þjónustu. Hreyfingin er inn í kirkjuna, af akrinum. Hver tekur við hver annast verkefni diakoniunnar?
 6. Kafli 6. Beytingin mikla á 4.öld.

i. 313 verður kristin trú jafn rétthá öðrum trúarbrögðum í Rómveldi. Þar með varð gjörbreyting á hlutverki og stöðu kirkjunnar. Skilað var til kirkjunnar eignum sem tgeknr höfðu verið af henni á ofsóknatímum.

ii. athugið vel bls 111 hver aðalbreytingin verður. Hierarchia í stað diakoníu?

iii. Um einlífi – Ástæður og afleiðingar?

iv. Yfirlit um þróun embættisins 124-125 – Þetta er gagnlegt yfirlit.

Diakonía

Guðfræðilegur og biblíulegur bakgrunnur

Minnisblað 1.

Nokkrir þýðingarmiklir ritningarstaðir.

1. Diakonía sem hugtak kemur frá veraldlegum störfum eins og að þjóna til borðs og ganga um beina. Lk. 10. 40, Lk. 17.8, Lk. 12, 37. Jh. 12,2.

(og fleiri staðir.

2. Æðsta fyrirmynd þjónustunnar er Jesús sjálfur. Jesús kallar sjálfan sig þjón, eða diakon. Sjá Lk.22.27. Les ennfremur frásögn Jóhannesar um fótaþvottinn. (Jh.13.)

3. Frummynd og fyrirmynd diakoníunnar sér söfnuðurinn í lífi og starfi Jesú sjálfs. Lk. 22.27, og Lk. 12. 37. Jh. 13.1 (og áfram). Mk. 10.45. Mt. 20.28.

4. Díakonía í söfnuði er kristilegt hjálparstarf í krafti trúarinnar. Sjá. 1. Kor. 16. 15. (að helga sig þjónustu heilagra). Opb. 2. 19. (verkin þín…)

5. Í víðustum skilningi er boðun fagnaðarerindisins diakonía. Post. 6,4.

6. Í samræmi við þennan skilning á boðun fagnaðarerindisins er samstarfið í söfnuðinum (líka þegar það birtist í embætti postulanna) einnig diakonía: Rm.11.13, 2.Kor. 4.1, 6.3, Post. 1. 17.25 (og fleiri staðir).

7. Fjársöfnun er diakonía:. Rm. 15.31. 2.Kor. 8.19, Post. 11.29.

8. Náðargjafirnar sem nýtast söfnuðinum til uppbyggingar og þjónustu eru einnig diakonía. 1.Pet. 1.12. 1. Kor. 12.

Upphaf, miðja og endir þjónustunnar er Jesús Kristur sjálfur.

Diakonia er Kristsmiðlæg

1. Þjónusta Krists (Diakonía) er (a) hlýðni við föðurinn. Jh. 4.34. Hún er (b) miskunnsemi gagnvart fólkinu Mt.9.36 og (c) hún fullkomnast í fórn hans. Mk.10.45.

2. Á jarðvistardögum Jesú eru grundvallarskil í lífi hans og starfi túlkuð með freistingarsögunni (Mt.4, 1-11) : að uppfylla Guðsviljann í hlutverki þjóns.

3. Í hinum tveim dæmisögum Jesú um diakoníu: Miskunnsami samverjinn Lk 10.25-37, og Hvað sem þér gjörið hinum minstu, Mt. 25.31-44 er tvöföld skírskotun, Kristur er í senn veitandi og þiggjandi dæmisögunnar. (Hann er bæði subjekt og objekt).

4. Diakonía gengur út frá Kristi og hún gengur til Krists. Sérhvert kærleiksverk geymir í sér (í leyndum) þjónustu við Krist sjálfan. Hinn síðasti dómur við endi aldanna sýnir hvar fangamark Krists er á diakoníunni.

5. Í mynd hins góða hirðis, sem er elsta Kristsmynd sögunnar (sjá myndir í katakombum) ,bjó frumsöfnuðurinn sér til táknmynd af diakoníu Jesú Krists.

6. Hebreabréfið 1.14 geymir mynd sem sýnir tengsl diakoníu og liturgíu: ,,Eru þeir ekki allri þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir sem hjálpræðið eiga að erfa”. Á bak við myndina: þjónustubundnir andar, stendur hugtakið liturgia, á bak við : útsendir í þeirra þarfir sem.. stendur hugtakið: diakonia.

Minnispunktar 2

Díakonía

Þjónusta í söfnuðinum Sögulegt yfirlit

1. Diakonía er almenn þjónustuskylda allra kristinna og ekki aðeins verkefni þeirra sem sérstaklega eru vígð eða helguð til djáknaþjónustu.

2. Diakonia safnaðarins fær á sig fasta mynd í starfi djáknanna. Hún birtist í þjónustunni við sjúka, fanga, ekkjur, munaðarlausa, útlendinga og við látna, og ennfremur í umsjón fátækra og í fjármálastjórn safnaðanna. Í þjónustunni í helgidóminum hafa djáknar sérstakt og ákveðið hlutverk við að bera fram gjafirnar, brauð og vín til altarisins og við útdeilingu gjafanna. Stundum stýra djáknarnir einnig kærleiksmáltíðinni.

3. Í umhverfi frumkirkjunnar var náungakærleikur og þjónusta við þurfandi sjálfsögð félagsleg skylda. Kristindómurinn hafði þó ákveðna sérstöðu með því að kærleiksþjónustan var ekki bundin við raðir þeirra sem tilheyrðu hinum kristnu.

4. Sérkenni kristindómsins er þjónustuvilji og fórnarlund gagnvart öllum meðbræðrum og systrum óháð trú, litarhætti, kyni, þjóðerni eða nokkru öðru.

5. Kærleikur Krists og fordæmi hans og þeirra sem dvelja vilja í honum og starfa í honum er sérstakur að því leyti að þau vilja fyrst og fremst þjóna öðrum. Eigingirni, eigin vegsemd og ágóði er þeim framandi. Að elska eins og Kristur, er að elska í fórn, í trúfesti og óeigingirni.

6. Andlegt einkenni þjónustunnar í frumkirkjunni sést vel í samhengi við náin tengsl hennar við biskupsembættið. Sjá.Tím. 3, 8 – 12.

7. Í fornum ritum eru náin tengsl biskups og djákna undirstrikuð á marga vegu: Biskup og djákni eiga að vera eins og ein sál í tveim líkömum. Djákni er munnur, hjarta og sál biskups. (Did.Syr.)

8. Djáknastörf kvenna byggja á 1. Tím. 5, 3-16. Um ekkjur og hlutverk þeirra. Hlutverk ekkjunnar er ; bæn, sálgæsla, uppeldi og kennsla, sjúkravitjun. Ekkjum fylgja meyjar, þ.e. ungar konur sem helga sig algjörlega þjónustunni í söfnuðinum og stofna ekki eigin fjölskyldu. Heit til einlífis fylgir. Konan sem þjónar í söfnuðinum er kölluð diakonissa, eða safnaðarsystir. Hún aðstoðar biskupinn við skírnina og heimsækir kristnar konur á heimilum þeirra. Innsetning þeirra til embættis safnaðarsystur (Diakonissa) er með fyrirbæn og handayfirlagningu biskups. Þetta gerist fyrst í austurkirkjunni. Vesturkirkjan beið með þetta til uþb. 400.

9. Með ákvörðun Konstantíns keisara að gera kristindóminn að ríkistrú breyttist staða kirkjunnar og þjónusta hennar á einni nóttu. Það sem áður hafði verið þjónusta við þurfandi, vaxin af rótum máltíðar Drottins, (biskupsþjónusta framkvæmd af djákna). var orðin félagsleg þjónusta ríkisins.

10. Spítalar verða til. Klaustrin taka að sér félagslega þjónustu í anda Basileusar frá Cesareu ( 330 –379).

11. Það sem einkennt hafði diakoníu postulatímans var: Þjónustan við borðið. Önnur þjónusta óx af henni. Hvað stöðu hafði kvöldmáltíðin í lífi safnaðar ? Hvernig var samkoman ? Hvernig mótar kvöldmáltíðin skilning safnaðarins á því hvað kirkjan er og hver hún er?

12. Samspil diakoníu og liturgíu myndar eina órjúfanlega heild vegna þess að hún er vaxin af trúnni. Að trúa á Jesú Krist og að ,,vera í Kristi” er í senn þjónusta fyrir augliti Guðs á samkomum safnaðarins og þjónustan við náungann utan hinna verndandi múra guðsþjónustunnar.

13. Hið beina framhald postulatímans í frumkirkjunni kallar á svör við spurningum eins og þessum? . Hvernig sker kristinn maður sig úr?. Hverjar eru greinar dikoniunnar gagnvart heiminum. Að greftra hina dauðu ?

14. Þegar fram liðu stundir lét kirkjan hina skipulögðu diakoníu að mestu í hendur klaustranna. Söfnuðurinn laut kirkjuaga. Ekki síst skriftir og aflausn voru staðurinn þar sem kirkjan agar söfnuðinn til að þjóna í kærleika diakoníunnar, en djákninn verður embætti í embættastiga.

Minnispunktar III.

Diakonía á siðbótartímanum

1. Á siðbótartímanum var svo komið að hið opinbera hafði fyrir löngu tekið yfir hluta af hinni félagslegu þjónustu díakoníunnar. Neyð náungans var meiri en svo að kirkjan ein sem stofnun réði við hana. Þannig var fátækraframfærsla fyrst og fremst málefni hins borgarlega samfélags.

2. Siðbótin endurnýjaði diakoníuna á grundvelli trúarinnar og reyndi að leysa hana frá veraldlegum þáttum og áhrifum þeirra. (Laun og heiður!).

3. Í riti sínu : Til hins kristilega aðals 1520 setur Marteinn Luther fram vísi að kenningu um hina félagslegu díakoníu (Sozialdiakoníu).

4. Í skipulagsskrám hinna nýju kirkna sem stofnaðar voru á grundvelli hinnar nýju guðfræði siðbótarinnar (Kirkjuregla – Kirkjuorða – Kirkjuordinansía) er diakonísk ábyrgð kirkjunnar grundvölluð. Oft var það gert með sérstökum reglum um sameiginlegan sjóð safnaðarins til líknarmála.

5. Zwingli og Kalvin gengu miklu lengra en Luther í skipulagningu diakoníunnar og djáknaembættisins. Þessa gætti sérstaklega í Sviss,þar sem þeir höfðu mest áhrif. Diakonia þeirra varð mjög áberandi þáttur í þjónustunni við flóttafólk (Johannes frá Lasko í Englandi og Bremen og víðar) sem hrakist hafði vegna trúar sinnar frá heimalandi sínu.

6. Í mörgum tilfellum unnu ríki (land – furstadæmi) og kirkja saman að skipulagi hinnar opinberu diakoníu í Þýskalandi. Dæmi eru að að hinn ,,sameiginlegi sjóður” eða fátækrakistan væri á ábyrgð beggja, en deilt var úr honum hvern sunnudag. Fátækir, sjúkir og aldraðir skyldu fá stuðning til lífsframfæris síns úr þessum sjóði. Fátækir munaðarleysingjar skyldu fá uppeldi og menntun á kostnað hans.Ungar stúlkur fengu sérstakt framlag, -einskonar heimanmund, til þess að þær ættu meiri möguleika á giftingarmarkaðnum. Iðnaðarmenn fengu fjármuni til að koma undir sig fótunum, og erlendir farandverkamenn skyldu fá sama viðurgerning og heimamenn.

7. Áhersla kirkjunnar á díakoníuna var ávallt bundin vakningatímum í kirkjunni. Þannig varð pietisminn kveikjan að auknu starfi seint á 17.öld í Þýskalandi. Þar má nefna August Hermann Francke (1663- 1727) í Halle, Nikolaus Ludwig Graf von Zinzendorf (1700 – 1760) í Herrnhut og Johann Friedrich Oberlin (1740-1826) í Steintal, sem ruddu brautina fyrir nýjungar í diakoniu.Munurinn á Francke og Zinzendorf var sá að Fracke var að byggja upp stofnanir sem sinnu diakoniu, en Zinzendorf vildi byggja upp söfnuð sem axlaði sameiginlega ábyrgð diakoníunnar.

8. Það er ekki fyrr en á 18.öld sem fram kom ný hreyfing díakoníunnar eða endurnýjun hennar. Innri mission sem þá varð til vakti hina evangelisku díakoníu til nýs lífs. Upphafsár innri missionar í Þýskalandi er 1848. áður höfðu þó einstaklingar með sérstaka náðargáfu og gott skipulagsvit, oftast undir áhrifum vakningar sett á fót stofnanir sem sinntu diakonisku hlutverki. Meðal þeirra sem settu varanleg spor í þróunina til nútíma díakoníu voru Johann Daniel Falk (1768-1826) Amalia Sieveking (1794 – 18 59) og Elisabeth Frey ( 1780 – 1845) , öll í Þýskalandi.

9. Tengt Innri misson er starf Theodor og Frederike Fliedner í Kaiserswert (sjá síðar) , Johann Hinrich Wichern (1800-1864) og Friedrich von Bodelschwingh (1831 – 1910). Wichern setti á stofn heimili fyrir munaðarlausa drengi : Das Raue Haus 1833. Það varð upphaf að djáknaþjónustu karla. Grundvallarhugsun Wicherns um neyðina í samfélaginu, sem hann var að bregðast við, var að hún væri bæði persónuleg og samfélagsleg. Leið hans var hjálp til sjálfshjálpar. Starf von Bodelschwingh bar ávöxt í starfsemi Betel í Bielefeld sem nýtur mikillar virðingar enn í dag.

Theodor Fliedner og Kaiserwerter – Verband

1. Í sögu djáknafræðinnar gegnir diakonnissuhreyfingin stóru hlutverki. Upphaf henn er hjá Föbe safnaðarsystur sem nefnd er í Rom.16. Um diakonissur á fyrri öldum kristninnar hefur áður verið rætt.

2. Theodor Fliedner og kona hans Frederike, bjuggu í Kaiserswert, þar sem hann var prestur. Þau komu af stað hreyfingu meðal kvenna (fyrir konur) innan kirkjunnar sem kennd er við heimabæ þeirra, til mótunar þjónustustarfs í söfnuðinum. Diakonissur helga sig starfi í söfnuði til fimm ára hið minnsta. Þær eiga sameiginlegt heimili: Mutterhaus. Búningur þeirra er einkennisklæði giftra kvenna um miðja 19.öld. Upphafsár hreyfingarinnar er 1836. Hreyfingin breiddist út til Norðurlandanna, til Ameriku og víða um heim.

3. (Um upphaf og þróun hreyfingarinnar á Norðurlöndum: Sjá bók í þýðinug Ragnheiðar Sverrisdóttur: Kærleiksþjónusta á norðurlöndum).

4. Önnur hreyfing diakonissustarfs er kennd við Zehlendorf í Berlin. Hún á upphaf sitt árið 1894 og greinir sig frá Kaiserswert einkum á þá lund að diakonissurnar þar stefna að þvi að giftast og starfa sem giftar konur síðar í söfnuði. Þær bundu sig því aðeins til skamms tíma.

5. Báðar þessar hreyfingar eru nú að hverfa smám saman. Búið er að loka mörgum móðurhúsum í Þýskalandi, í öðrum eru næstum eingöngu gamlar konur. Hversvegna ?

6. Þróunin er með mismunandi hætti á Norðurlöndunum. Hversvegna? Hún festi ekki rætur á Íslandi. Hversvegna.

Diakonia í dag

séð með augum fagnaðarerindisins og sem stefna kirkjunnar.

1. Felagsleg þjónusta rikis og kirkju – hvernig tók ríkið forystuna, -og hversvegna fylgdi kirkjan ekki á eftir.

2. Þjónustan í söfnuðinum – sker kristinn söfnuður sig úr eða fylgir hann félagslegum tískustraumum – ef hann starfar eftir sjálfstæðri hugmyndafræði – þá er það fyrir vettvang diakoniunnar.

3. Hver er stefnan ? Safnaðardiakonia í samkeppni við stofnanadiakoniu eða samþætting beggja.

4. Hlutverk og staðir diakoníunnar í söfnuðinum. Framtíðarsýn.

5. Ábyrgð og hlutverk kirkjunnar og kristins fólks óháð launuðum störfum.

6. Sérkenni kristins manns. Eru þau til ?

7. Hvernig starfar söfnuður ? – Umönnun – fræðsla, vitjun sjúkra og vitjun fanga, trúaruppeldi í söfnuði, foreldrar, fermingarforeldrar. aldraðir o.s. frv.

8. Hafa atburðir í kjölfar 11.september breytt einhverju í starfi kirkjunnar, sett nýjar áherslur, eða skilið eftir spurningar til diakoníunnar ?

Vinnuregla diakoníunnar í samtímanum á upphaf sitt hjá J.H. Wichern.

Greining – aðferðafræði – markmið

url: http://kvi.annall.is/2005-04-11/21.16.10/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Pétur Björgvin @ 13/4/2005 12.45

Vona að mér leyfist smá innskot hér og að það trufli engan við undirbúning fyrir próf og væntanlega er innskot mitt óþarft þar sem ég þekki ekki kennsluefnið í heild sinni. En mér þætti vænt um að sjá nafn Johanns Hinrichs Wicherns í þessu samhengi. Kannski kemur þess ósk af því að ég er karlkyns djákni en fljótlega eftir að Wichern stofnaði ,,Das Rauhe Haus” í Hamborg (1833) tók hann að þjálfa ,,bræður” (1839) þ.e. djákna eða forvera karlkyns djákna.

Kristján Valur @ 13/4/2005 18.23

Kæri Pétur Björgvin, mér er sömuleiðis annt um heiður Wicherns, enda stendur hér í minnispunktunum að ofan:Johann Hinrich Wichern (1800-1864) og Friedrich von Bodelschwingh (1831 – 1910). Wichern setti á stofn heimili fyrir munaðarlausa drengi : Das Raue Haus 1833. Það varð upphaf að djáknaþjónustu karla. Grundvallarhugsun Wicherns um neyðina í samfélaginu, sem hann var að bregðast við, var að hún væri bæði persónuleg og samfélagsleg. Leið hans var hjálp til sjálfshjálpar. Starf von Bodelschwingh bar ávöxt í starfsemi Betel í Bielefeld sem nýtur mikillar virðingar enn í dag.
… Af þessu sérðu að ég hef nú ekki gleymt honum alveg!

Pétur Björgvin @ 13/4/2005 21.43

Jamm, nú hljóp ég á mig. Hef enga afsökun, skrifast alfarið á eigin fljótfærni. Takk fyrir svarið.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli