kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Kennsla hefst · Heim · Kyndilmessa »

Heiðar Baldvinsson

Kristján Valur @ 22.13 1/2/05

Borinn var til moldar í gær, mánudaginn 31.janúar Heiðar Rafn Baldvinsson, sextugur síðan í nóvember. Hann var sambýlismaður systur minnar í tæp þrjátíu ár. Minningarorð um hann eru sett hér að beiðni nokkurra ættmenna, en undir liðinn privatmál.

Guðspjallið.

Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?

Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér. Tómas segir við hann: Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?
Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig

Minningarorðin.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Við sem erum í eldri kantinum munum kannski eftir því að hafa verið send á milli bæja, eða heimila, eða hafa farið án þess. Á þeim árum voru þrjár spurningar og reyndar ein til grundvallarspurningar.

Þær komu ekki allar í einu.
Jafnvel gátu liðið nokkur ár á milli þeirra.
Þessar þrjár spurningar eru:

Áttirðu erindi? Ætlarðu að stoppa? Viltu kaffi?

Þessi síðasta spurning er nú kannski aukaatriði gagnvart stórum spurningum lífsins, en hún getur verið giska stór í daglegu amstri þessa lífs.Hinar tvær leita oft á huga sérhvers manns sem horfist í augu við líf sitt og þá staðreynd að dagarnir eiga sér kvöld og jarðvistin enda.
Að eiga erindi á annað heimili var að mikilvægi líkt vegabréfsáritun milli landa.
Og erindið réttlætti ferðina. Kannski var erindið ekki stórt en það nægði þó.
Þegar á ævina líður spyr maður sig spurninga af þessu tagi.

Hvert var mitt erindi?
Kom ég því til skila?

Hliðstæðar spurningar leita á þegar við kveðjum einhvern úr okkar hópi.
En þá bætist líka við ný spurning úr sama flokki. Ertu að fara lengra?

Einhvern vegin erum við ekki vön að vera með á vörunum miklar yfirlýsingar um það hvers við væntum utan þessa lífs. Og nákvæmar lýsingar á því hvers við væntum á himnum höfum við ekki á reiðum höndum.
Við heyrum ýmislegt fallegt og viljum gjarna að það sé satt, af því að hið fagra er alltaf satt. Það er notalegt að heyra þegar Jesús segir: Ég fer burt að búa yður stað, – ég tek yður til mín, – í húsi föður míns eru margar vistarverur.

Þetta heyrðum við í guðspjallinu:
Á þeim dögum sagði Jesús.
,,Ég fer burt að búa yður stað”.

Staður minn og þinn er í venjulegri merkingu staðurinn þar sem við eigum heima. Við kennum börnum okkar að rata heim og segjum að það sé þeim mjög dýrmætt veganesti. Þar með gerum við ráð fyrir því að það sé eftirsóknarverður staður, og höfum það hlutverk að sjá um að svo sé, því að það er ekki sjálfgefið.
Okkur er öllum nauðsynlegt að eiga stað, – stað á jörðu og stað á himni.
Jesús bætir við:
Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt að ég færi burt að búa yður stað.

Jesús býr okkur stað. Það segir segir vissulega eitthvað um hann, en það segir einnig eitthvað um okkur. Það segir okkur hversu dýrmætur hver einstaklingur er í augum hans – og skyldi vera í okkar augum. Jesús Kristur býr honum stað, sem er svo dýrmætur að hann lætur líf sitt til að tryggja hann.

Kannski er fátt nauðsynlegra en að vita um sinn stað, vita hvar maður á heima.Kannski er það ennþá nauðsynlegra en að vita erindi sitt.
Og kannski er það þá þannig að þegar maður veit ekki lengur hvar maður á heima, þyki manni til lítils að lifa , hvort sem maður væntir góðrar heimvonar til himna eða ekki.

Kæri söfnuður. Ég hef beint til ykkar þessum orðum er við komum saman til að minnast og heiðra minningu látins bróður.

Heiðar Rafn Baldvinsson sem hér er kvaddur var fæddur á Svalbarði á Litla -Árskógssandi 1.október 1944, elstur þriggja barna hjónanna Þórunnar Jóhannsdóttur og Baldvins Ásmundssonr. Yngri er Snjólaug og Jóhann Sigurður var yngstur. Hann var f.æddur 1951, en dó úr hvítblæði tæpra fjögra ára að aldri.
Á fyrsta aldursári Heiðars fluttu Þórunn og Baldvin í Viðarholt á Litla -Árskógssandi og áttu þar heima lengst af síðan..
Þórunn lifir í hárri elli en Baldvin lést fyrir réttum tuttugu árum.
Hér eru fluttar kveðjur og þakkir Þórunnar, sem ekki treysti sér hingað.

Heiðar ólst upp í foreldrahúsum til fermingaraldurs, en þá fór hann á vertíð í fyrsta sinn.
Með því markaði hann sér varanlega braut og ævistarf við sjómennsku og útgerð. Hann var á vertíð eins og þá gerðist ýmist í Njarðvikum, Grindavík eða Vestmannaeyjum.
17 ára gamall fékk hann fyrstu réttindi til að vera með bát. Þeir feðgar keyptu sér þá saman bát og gerðu út um hríð en á vetrum var hann á vertíð.
Þar kynntist hann árið 1962 Sigrúnu Arngrímsdóttur frá Dalvík. Þau festu ráð sitt og stofnuðu heimili á Dalvík.

Þau Sigrún eignuðust fjögur börn. Elstur er Jóhann Rafn, f. 1963. Kona hans er Hólmfríður Inga Helgadóttir. Jóhann á tvær dætur.
Arna Kristjana, er f.1964. Maður hennar er Rúrik Kjartan Scheving. Arna á þrjú börn
Baldvin Þór, er f. 1966. Hann á tvær dætur og tvær fósturdætur. Hafþór er f.1968, hann á þrjá syni.

Árin liðu við vertíð á vetrum en síldveiðar á sumrin, þar sem hann var lengi á Lofti Baldvinssyni og síðan kom hið sérstaka tímabil í Norðursjónum.Það sem einkenndi lífið var löng útivist, og lítið heimilislíf.

Sigrún og Heiðar slitu samvistir árið 1970.

Árið 1971 kom Heiðar í land um hríð og hóf störf á Akureyri. Hann tók meirapróf bifreiðastjóra og starfaði einkum hjá Möl og Sandi
Á Akureyri tóku þau saman Heiðar og Anna Steinlaug Ingólfsdóttir. þau bjuggu fyrst á Akureyri en fluttu 1972 hingað út á Grenivík þar sem þau stunduðu útgerð um 30 ára skeið og um tíma fiskverkun.Þau áttu fyrst heima í Dal, en byggðu síðan Melgötu 5 og fluttu þangað 1980 þar sem þau áttu heimili sitt í rúm 20 ár
Börn þeirra eru:
Dagný f. 1975. Maður hennar er Ægir Örn Leifsson, þau eiga eina dóttur.
Einir, er f. 1978. Kona hans er Ingibjörg Ósk Þorvaldsdóttir, þau eiga eina dóttur.
Uppeldisdóttir Heiðars er Linda Hrönn Helgadóttir. Maður hennar er Bergur Pálsson. þau eiga tvo syni.

Heiðar var sjómaður af lífi og sál. Hann var eiginlega ekki sami maður á sjó og á landi.
Þar hafði hann auga á hverjum fingri og tilfinning hans fyrir bát og sjó var eins og um hann sjálfan væri að ræða. Sá sem ekki hafði verið með honum á sjó þekkti hann ekki.
Frá árinu 1971 átti hann báta, réri stundum einn en oft með öðrum.

Fiskur var honum meira en lífsviðurværi, hann var forvitinn um nýjar leiðir í matargerð . og það var gaman að gefa honum góðan mat, en ekki síður að sækja hann heim því hann var höfðingi heim að sækja þegar sá gállinn var á honum. En hann var líka sá sem rauk á sjó og gleymdi að taka með sér nesti, eða át hafragraut og brauð með osti í öll mál, og hinir líka, eða greip úr aflanum og sauð í sjóþ

Og svo lauk útgerðatímanum. Árið 2002 seldu þau húsið og fluttu burt frá Grenivík.

Síðustu árin vann hann ýmis störf,og starfaði síðast við Kárahnjúka þar sem hann lést að kveldi 21. janúar síðastliðinn.
Hér eru fluttar kveðjur starfsfólks véladeildar á Kárahnúkum og annarra félaga þar.

Síðasta skeiðið í ævi Heiðars Baldvinssonar var honum sérstaklega erfitt, og líkast til erfiðara en við gerðum okkur ljóst, því ólíklegt er að það sem varð honum að aldurtila hafi ekki verið búið að gera rækilega vart við sig áður.
Hann hafði líka fjarlægst sitt upprunalega erindi, eða hvað er fjarlægara ástríðusjómanni, en starf uppi á reginfjöllum.

Á nokkrum síðustu metrum ævi sinnar átti hann að vinkonu Lindu Heiðdal Karlsdóttur. Hún er hér ekki viðstödd, en hún hefur beðið um að hér sé nefnt séstaklega kærleikur hennar til hans og þakklætið fyrir þann tíma sem þau áttu saman.

Fleiri eru einnig fjarverandi sem hugsa hingað í þökk.eins og Hafsteinn Skaftason og Sigríður kona hans, Hreinn Gíslason og fjölskylda hans, Pálmi Pétursson og fjölskylda hans og móðir hans Kolbrún Guðmundsdótttir.

Hér eru líka fluttar kveðjur frá Sonju fósturdóttur Baldvins,og frá Þórunni systurdóttur Heiðars sem er hjá ömmu sinni í dag. Enn fremur frá foreldrum Sigrúnar, Arngrími og Kristjönu. Og Ásrún Sigurbjartsdóttir bað fyrir kveðju frændsystkinanna og fjölskyldna þeirra.

Það er ekki hægt að segja annað en að líf Heiðars Baldvinssonar hafi verið stormasamt og að stormasamt hafi verið í lífi hans. Það má líka nota þá líkingu að hann hafi oftar en einu sinni brotið skip sitt, og að hann hafi komist að þeim beiska sannleika að það má einmitt alls ekki alltaf fá annað skip og annað föruneyti.
En trausta vini eignast maður með öðrum hætti, og þá missir maður aldrei.

Ég horfi yfir hafið
um haust af auðri strönd,
í skuggaskýjum grafið
það skilur mikil lönd.
Sú ströndin strjála’ og auða,
er stari’ eg héðan af,
er ströndin stríðs og nauða,
er ströndin hafsins dauða,
og hafið dauðans haf.

Heiðar var meira en sjómaður. Líf hans var eins og hafið: Stillilogn og úfinn sjór, brim og boðar, eða bölvuð bræla.
Og hafið sem er matbjörg og gæftabrunnur er hafið sem er sog dauðans, ógn og skelfing.

Og svo lyngnir eftir storminn.
Ef þið horfið út þá sjáið þið að í dag er fjörðurinn sléttur og sjórinn hljóður.

En fyrir handan hafið
þar hillir undir land,
í gullnum geislum vafið
það girðir skýjaband.

Hvað er það sem við væntum helst fyrir okkur sjálf við ævilok.?
Við væntum þess að við fáum frið. Frið í merkingunni hvíld og jafnvægi.
Þegar við förum skiljum við margt eftir.
Og við sem erum skilin eftir þurfum ekki að eins að skiljast við persónu og einstakling heldur einnig minningar, jafnt glaðar sem beiskar.
Og við þurfum sjálf að eignast þann frið sem við væntum að hinn látni fái í sinn skerf.

Hinn gamli bænadagur á vetri er nýliðinn. Þá var beðið fyrir piltunum sem voru að fara í verið. Verið er týnt úr málinu og bænin orðin bragðlaus. En þeir vissu það á sínum tíma piltarnir að brugðið gat til beggja vona á vertíðinni, og enginn vissi hvort öllum væri gefið það að snúa aftur heim. Nálægðin við lífsháskann gerði hugann og hjartað opnara fyrir orðinu um vernd Guðs.
Tvær myndir tóku margir með sér eins og nesti til óvissunnar. Önnur var um það þegar Jesús kyrrði vind og sjó, en hin þegar Jesús kom til fiskimannanna gangandi á vatninu.
Og margur treysti því að í háskanum myndi Jesús bjarga. Annað hvort aftur inn í bátinn og bátnum að landi, eða inn í himinn sinn.

Við biðjum Herra himins og jarðar, sem nú hefur lægt öldurnar, að taka til sín Heiðar Rafn Baldvinsson og bjarga honum inn í bátinn sinn sem siglir til himins.

En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2005-02-01/22.13.07/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli