kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Jólabréfið 2004 · Heim · Kennsla hefst »

Jólabréfið 2004 – aðaltexti

Kristján Valur @ 18.32 27/12/04

Hefð er fyrir því að skrifa jólabréf á heimilinu. Enda þótt send væru rúmlega hundrað bréf reyndist það ekki nóg. Þau sem lesa vilja hafa því aðgang að bréfinu hér. Hefðbundin hugvekja er á öðrum stað.


Kæru vinir, ættingjar og venslafólk.

Þetta ár var eitt af þessum stuttu. Í minningunni virðist varla lengra en í gær síðan síðasta jólabréf var samið. Og þó hefur svo undramargt gerst. Smátt og stórt. Og eins og fyrr er margt hið stóra minning ein, en margt hið smáa vísir annars meira og varir enn.

Okkur tókst að vitja margra vina á þessu ári. Þannig fór fjölskyldan í tveggja vikna ferð til Þýskalands í lok júni, ók rúmlega tvöþúsund kílómetra á bíl vinafólks, kom við á 21 stað, gisti aldrei nema á einkaheimilum og borðaði einu sinni á eigin vegum. Margt af þessum vinum okkar höfðum við ekki séð lengi. Það sannast enn að dýrmætasta eignin og varanlegasta er vináttan.

Ekki var síður gaman að fara norður og halda hátíð með stórfjölskyldunni þegar hún kom saman á Grenivík og Gjáarmel. Nú mættu nærri hundrað manns og komu þó ekki allir.

Þetta var mikið stórafmælaár til beggja handa (eða í báðar ættir) og hafa því verið margar glaðar stundir og mikill söngur. Hefur því tímunum saman bæði verið vel mætt og kirkjan ómað öll . ,,Ég get sagt þér það. Það var gaman þá!”
Af heimilisfólki er annars það helst að frétta að Bóas hætti að vinna í Zöru í Smáralindinni og skipti yfir í GK á Laugvegi þar sem hann er í fullu starfi og líkar vel. Hann er nemandi í tónlistarskóla FIH, syngur bassa í Hamrahlíðarkórnum hjá Þorgerði og er búinn að taka fram kjuðana aftur (sem hann lagði til hliðar í Skálholti). Hann spilar á trommur í eigin hljómsveit, sem hefur vinnuheitið: Das Bild ist schief.

Benedikt er á sínu öðru ári í MH. Hann tók þátt í Músíktilraunum með hljómsveit sinni Mania, og komst í úrslit, en sneri svo alveg við blaðinu á haustmánuðum og syngur ekkert nema klassík. Hann hætti í gítartímum en hóf nám í Söngskólanum, þar sem hann söng á jólatónleikum nú fyrir nokkrum dögum og stóð sig frábærlega.
Svo syngur hann tenór í Menntaskólakórnum hjá Þorgerði. Fyrir skemmstu stóðu þeir báðir bræður á pöllum í Háskólabíó og sungu Magnificat Bachs með 130 manna Hamrahlíðarkórum báðum og Sinfoníunni.

Móðirin syngur nú önnur ljóð en fyrrum. Hún er komin vel af stað í stjórnunarnámi í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og stefnir á MBA gráðu vorið 2006. Þetta er mjög krefjandi nám en líka spennandi og skemmtilegt. Annars er hún sem áður kennari við Söngskólann og ber þar ábyrgð á kennaradeild og unglingadeild skólans.
Diskurinn með íslenskri kirkjutónlist er ekki kominn út en upptökum er öllum lokið. Önnur störf að tónlistarmálum eru fastir liðir og krefjandi verkefni, ekki síst Íslensku tónlistarverðlaunin.
Líklega merkasti viðburðurinn á söngsviðinu á árinu var flutningur Sköpunarinnar eftir Haydn á Kórastefnu í Mývatnssveit í júní, þar sem hún söng hlutverk Gabriels erkiengils.

Sjálfur hef ég haldið áfram kennslu við guðfræðideild og verkefnastjórn á Biskupsstofu og síðan í maí hef ég verið prestur á Þingvöllum. Það er fjarska gott að vera orðinn prestur aftur.

Sem fyrr skiptast á skin og skúrir, sorg og gleði. Þegar stórfjölskyldan var að búa sig til að koma saman í sumar kvaddi ættmóðirin á 93 aldursári, södd lífdaga. Það er notalegt að dvelja við minningarnar nú um jólin, og gleðjast yfir því hvað þær eru fjölbreytilegar:
Þegar hún blístraði við saumavélina.
Þegar hún hló þessum langa dillandi hlátri.
Þegar hún kenndi mér að slá með orfi og ljá.
Þegar hún saug upp bensínið, rissaði á kertið og snéri svo ljósamótorinn í gang.

En það að merkasta sem hún kenndi mér lærði ég ekki fyrr en eftir að hún var farin heim til Guðs.
Það var þetta:
Dýrmætustu jólagjafirnar eru góðar minningar.

url: http://kvi.annall.is/2004-12-27/18.32.59/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli