kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Predikun á 3.sd. í aðventu · Heim · Jólabréfið 2004 – aðaltexti »

Jólabréfið 2004

Kristján Valur @ 18.23 27/12/04

Jólakveðja okkar hér í fjölskyldunni hafði að hefðbundnum sið litla hugleiðingu innanborðs.

Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss. Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. (Lk.2.15-16)

Hvað sögðu hirðarnir við Maríu og Jósef? Hvernig tókst þeim að segja frá því hvernig þeir fengu vitneskju um að þeir ættu að fara til Betlehem og finna barnið sem er konungur konunganna?

Sjá, himnarnir opnast. Hverfur nætursorti,
og himneskan ljóma af stjörnu ber.
Heilagan lofsöng himinhvolfin óma.
Ó, dýrð í hæstu hæðum
Guðs heilagi sonur, ó dýrð sé þér. (Wade – Valdimar V. Snævarr)

Hvað hjálpar okkur að bregðast við þessu? Gjafirnar? Jólakveðjurnar? Orðin sem sitja föst í hálsinum? Hlýtt handtak? Mjúkur koss?

Allt þetta.

En fyrst og fremst hlýtt hjarta.

Hjarta sem opnast um leið og hlið himnanna og geislar af birtu þeirra í þakklæti fyrir þá gjöf sem lífið er, til hans sem lífið gefur og til þeirra sem deila því með okkur.

Það er ekki aðalatriðið hvað hirðarnir sögðu við Maríu og Jósef, heldur sannfæring þeirra um að þeir hefðu meðtekið frétt sem breytti bæði lífi þeirra og þeirra sem fregnin var ætluð. Því að það sem þeir heyrðu hreyfði við þeim með þeim hætti að þeir urðu að bregðast við.

Og það er það sem skiptir máli, að boðskapur jólanna, með hverjum þeim hætti sem við nálgumst hann og hann okkur, verði til þess að við hljótum að bregðast við.

Sjá hann stendur við dyrnar og knýr á. – Hér er ég send mig.

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól í birtu himnanna og við yl minninganna.

url: http://kvi.annall.is/2004-12-27/18.23.43/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Rut í Koti @ 28/12/2004 14.26

Gleðileg jól elsku frændi !
Það verða engin jólakort frá mér í ár en í staðin mun ég senda út áramótapóst eftir áramótin !!
Bið svo að heilsa þinni fallegu fjölskyldu,
þín Rut Ingólfs
p.s. ég setti inn athugasemd við færslu þína um Trúarjátningu vonarinnar

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli