kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Miskunnsami samverjinn · Heim · Þakkláti samverjinn. »

Hólahátíð 2004 – Predikun í Gvendarskál

Kristján Valur @ 10.04 15/9/04

Hólahátíð 2004 stóð í þrjá daga. Á laugardag var messa í Gvendarskál. Föstudagskvöldið var samvera í Auðunnarstofu með söng Voces Thules úr Þorlákstíðum og erindi um fyrri tíðar helgan söng á höfuðbólum, þess sem hér ritar annál. Laugardaginn 17.ágúst var gengin helgiganga í Gvendarskál í Hólabyrðu. Lagt var af stað frá Hólaskóla kl. 13. Gangan upp tók um það bil klukkustund og þrjá stundarfjórðunga. Gengið var rólega og numið staðar fyrir fróðleik úr sögu lands og þjóðar, en á síðustu metrunum, sem eru nokkuð brattir, einnig fyrir sakir mæði sumra göngumanna. Telst sá er þetta ritar einn í þeim hópi. Þegar upp var komið var messað við Gvendaraltari. Hafði vígslubiskupinn falið mér þá þjónustu og einnig að minnast Guðmundar góða í predikun.

Um það bil þrjátíu manns var í hópnum og neyttu þau öll heilags sakramentis.

Predikun í Gvendarskál.

Guðspjallið: Mt. 23. 34-39

Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.
Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.
Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.
Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins.

Kæri söfnuður á fjallinu.

Þetta guðspjall sem hér var lesið er hinn hefðbundni lestur laugardagsins í aðdraganda komandi sunnudags sem er hinn 10.eftir þrenningarhátíð.

Með sögu Guðmundar biskups í huga er nánast eins og þess hefði verið vænst að hans skyldi minnst á þessum degi í framhaldi guðspjallsins og útleggingu þess.

Vel má þá einnig hafa í huga að fyrir utan að vera lestur þessa laugardags þá er þetta guðspjall einnig upphaflegur lestur á minningardegi Stefáns djákna og frumvotts. Þetta er eiginlega senn sorgar -og reiðilestur.
Kirkjan hefur þess vegna oftlega horft framhjá honum. Allavega sú kirkja sem ekki vill þekkja neinn Jesús nema þann sem ýmist er skælbrosandi yfir hinum góðu börnunum eða hágrátandi yfir þeim spilltu.
Varla þarf að minna á það hér uppi á fjalli að ekki er það nú tæmandi lýsing á Jesú guðspjallanna.
Sá Jesús réttir út læknandi og líknandi hönd til þeirra sem leita miskunnar, en reiðir þá sömu hönd með kaðalspotta til hirtingar þeirra sem leita eigin vegsemdar á kostnað almáttugs Guðs.

Það er eftirtektarvert í ljósi guðspjallsins og einnig sögu Guðmundar góða, að samkvæmt skilningi Jesú sjálfs er ekkert beint samband á milli þess umboðs sem Guð sjálfur gefur spámönnum sínum og sendimönnum og þess árangurs sem þeir kunna að ná meðal þeirra sem þeir eru sendir til.

Biskupssaga Guðmundar góða, og reyndar ævisaga hans öll sýnist í fljótu bragði ekki vísa til þess að Drottinn hafi haft á honum neitt sérstakt dálæti.

Áttahundruð ár og einu betur, eru liðin síðan Guðmundur góði varð biskup á Hólum.
Mjög fer tvennum sögum af biskupstíð hans.

Í öðrum er hann nánast eins og hver annar ribbaldi sem fer um landið með stóran flokk manna og étur fólk út á gaddinn og stendur fyrir illvirkjum og stríðsátökum við yfirvöldin, en í hinum er hann helgur maður sem aðeins hefur láðst að taka í tölu dýrðlinga, þó að öll efni til þess séu fyrir hendi.

Hér í Gvendarskál verður ekki reynt að gera tæmandi úttekt á lífi og starfi Guðmundar góða, heldur aðeins reynt að horfa til sögu hans og persónu út frá merkingu og inntaki kristinnar trúar á öllum öldum, eftir því sem Guð gefur náð til.

Kirkjan og trúin kunna að fara aðra leið í söguskoðun sinni og rannsóknum en aðrir sem söguna rannsaka. Hún kann þá líka að liggja undir ámæli fyrir óvísindalegar aðferðir og jafnvel tilraunir til að lesa inn í textann það sem þar er ekki að finna samkvæmt annarri aðferðafræði.

Vel getur þetta verið rétt og satt, nema að því leyti sem kemur að tilvísunum í trúarveruleika sem fyrir sitt leyti hefur áhrif á söguskilning eða jafnvel framvindu í rás atburðanna.
Þannig er hin innri nálgun tiltekinna daga og athafna og atburða aðeins skiljanleg þeim sem deila sömu trú og sagnaritarinn eða aðalpersónurnar.

Í raun má því tala um tvennskonar sögu. Hina ytri sögulegu framvindu og hina innri merkingu. Aðferðin við að segja sögu þeirra persóna sem leiðsögn hafa haft í kirkjunni, bæði í lifanda lífi og með fyrirmynd sinni að lífsdegi loknum gerir ráð fyrir að þetta tvennt, hið ytra og innra kallist á og hvorugt skiljist án hins.

Saga Guðmundar biskups Arasonar hefur af þessum sökum bæði verið skráð og rannsökuð með ólíkum hætti. Einhver endanlegur sannleikur í nútímalegri merkingu þess að það sé eitthvað sem sanna má, er vandfundinn.
Sannleikur eftirdæmisins, fyirmyndarinnar og þolgæðisins er hinsvegar augljós.

Frá því sjónarmiði var Guðmundur góði einlægur og kappsamur leiðtogi og leiðbeinandi í kirkjunni á mjög erfiðum tímum pólitískra átaka og innanlandserja sem jaðraði við borgarastyrjöld.

Hann var í senn nærfærinn og umhyggjusamur andlegur faðir kirkjunnar og kappsfullur verndari Hólastóls og heilagrar kirkju gagnvart ásælni veraldlegra höðfðingja sem sáu í honum fyrst og fremst handhafa og umboðsmann mikils valds og mikilla eigna.

Þær hörmungar sem yfir Ísland og þegna landsins dundu á Sturlungaöld voru sprottnar af þessari rót. Hinn róttæki boðskapur kirkjunnar til friðar og sátta megnaði ekki að hafa áhrif á höfðingja þess tíma í þá veru þótt þeir annars vildu allir eiga skjól hjá henni.
Líf og saga Guðmundar góða kennir okkur margt. Hún kennir okkur ekki bara sitthvað um hann sjálfan og um þá sögu sem kristið fólk í landinu mat með þeim hætti að hann fékk viðurnefnið hinn góði.
Hún kennir okkur annað sem að fullu varðar nútímann.

Skilaboð sögu Guðmundar góða til okkar hér og nú eru alveg afgerandi, hvernig svo sem háttað er nærveru hinna stóru leiðtoga kirkjunnar á fyrri tímum í kirkju samtímans. Guð einn ræður því.
Og af því að hann ræður því þá mun heldur enginn dauðlegur maður geta tjáð sig af viti um það hvort hægt er að heita á Guðmund góða með góðum árangri nú sem fyrr.

Skilaboðin eru þessi:
Þau sem ekki geta nálgast veruleika trúarinnar með öðrum leiðum en þeim sem hin veraldlega valdabarátta lætur þeim í té, þau munu ávalt sjá ógn í trúnni og iðkun hennar. Fyrir þeim er kirkjan ekkert annað en stofnun sem nýtur áhrifa og gæti beitt þeim áhrifum gegn þeim sem seilast til valda.
Sem slík er kirkjan ávallt ógn sem þarf að ónýta og gera marklausa.
Þannig geta jafnvel þau sem á venjulegum dögum koma fram sem stuðningsmenn og unnendur heilagrar kirkju orðið að helstu óvinum hennar.
Og öflugustu óvinir kirkjunnar eru allaf innan hennar eigin vébanda.

Hin pólitíska söguskoðun horfir á Kolbein Tumason og Guðmund Arason og býr til úr þeim ósættanlega andstæðinga.
Hin kristna söguskoðun sér í þeim tvo unnendur heilagrar kirkju og þar með um leið Maríu Guðsmóður og einlæga játendur Jesú Krists

Bæn Kolbeins sem hér var lesin hefur varðveist um aldir ekki síður en minningin um Guðmund góða.

Báðir gista þeir nú Guðs dýrð.
Við þökkum Guði þá báða og heiðrum minningu þeirra.
Og væntum hins sama himins og þeir.

url: http://kvi.annall.is/2004-09-15/10.04.18/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli