kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Predikun í Langholtskirkju 2.sd. e.páska · Heim · Prestsþjónusta á Þingvöllum sumarið 2004 »

Sálmur

Kristján Valur @ 23.21 18/5/04

Síðastliðna viku var ég á tveim ráðstefnum um sálma og sálmafræði í Danmörku. Ég kom heim með nýjan sálm, þýddan úr færeysku.

Sálmur eftir T.N.Djurhuus (1971) og K.Olsen (1978).
Þýddur 11. maí 2004 í Løgumkloster.

Vorsálmur. Má syngja að lokinni langferð eða við ævilok.

Sálminn kynnti séra Jákub Reinert Hansen, frá Sandi, mánudagskvöldið 10.maí 2004, á ráðstefnu um sálma Lúthers í Løgumkloster. Sálmurinn er eftir T.N. Djurhus (d.1971) og saminn út frá ljóði Luthers Die beste Zeit im Jahr ist mein, og mjög í anda hans, en ekki er um þýðingu að ræða. Sálmurinn var fyrst fluttur í Færeyjum undir laginu við Lútherstextann og að viðstöddum höfundinum. Síðasta versið er þökk fyrir lífið. Það verður enn eftirminnilegra fyrir það að skáldið dó nokkrum mánuðum eftir að ljóðið var fyrst sungið. Þannig er þýðingin að sönnu gerð eftir ljóðinu, en ekki síður í samræmi við kynningu séra Jákups!
Knut Olsen gerði lag við sálminn 1978 og er ætlast til að þýðingin sé sungin við það lag.

Ég reyndi að halda sem mestu af blæ textans og notaði þau orð sem eru eins á báðum málum. Færeyskan er auðskilin. Þó er rétt að taka fram að lykkutámi er einskonar hitamistur, og flytifuglar eru farfuglar.

Nú strýkur vár um heimlandsvøll
við lýkkutámi millum fjøll;
nú fánar fonn og grasið grør,
nu vaknar aftur heimlandsjørð.

Hoyr vestanlot og veingjasús
og vakurt flytifuglabrús,
nú tjaldur, lógv við lát og gleim
úr suðurlondum venda heim.

Og vársins fuglaparadís
við frøi syngur Harrans prís
og lovar lívsins Guði hátt,
hvørs skaparverk er ævigt gott.

Eg við vil syngja gleðisong
sum fuglur yvir vársins ong
og takka Guði manga ferð
mær loyvi gav at liva her.

-.-.-.-.-.-.-.-.-.-.-

Nú strýkur vor um völl og dal
svo vökna brár í fjallasal.
Nú lifna grös um laut og börð
sjálft lífið vekur freðna jörð.

Heyr farfuglanna kvæðaklið,
er kría, tjaldur bregða við,
með gleðiraust og söngvaseim
úr suðurlöndum snúa heim.

Sú fagra fuglaparadís
hún flytur Guði lof og prís
og syngur ljóð um líf og vor
svo léttir yfir hverri skor.

Og fagna má sem fugl í söng
við ferðalok í jarðarþröng
sá er þú leiddir langan veg.
Ó, lífsins Guð, þig tigna ég.

url: http://kvi.annall.is/2004-05-18/23.21.17/

Athugasemdir

Fjöldi 7, nýjasta neðst

Torfi @ 19/5/2004 09.26

Bravó Kristján Valur! Hugljúf þýðing á fallegum texta. Vona að lagið sé í sama stíl!

Færeyingar eru mjög músíkalskir. Því var ég vitni að fyrir aðra helgi. Þá var stórt kóramót í Köben þar sem vestnorrænir kórar með aðsetur á stór-Kaupmannahafnarsvæðinu komu saman í hinni nýju miðstöð vest-norrænu þjónanna úti í Kristianshavn, rétt þar sem nýja Óperuhúsið er að rísa.
Færeyingarnir slógu þar algjörlega í gegn með kóra á heimsmælikvarða. Svo voru þeir svo skemmtilegir. Skemmtu sér ærlega, dönsuðu og sungu allan tímann.
Já, og konurnar maður minn! Þær voru fyndnar, fallegar og hæfileikaríkar ;-) ) Ég er ástfanginn af Færeyingum!

Adda Steina @ 19/5/2004 11.50

Hlakka til að syngja þinnan fallega sálm.

Sigurður Árni @ 19/5/2004 14.27

Undursamlegur sálmur og hjartans þakkir. Ein spurning: Hvernig skýrir þú strokið um? þ.e. “Nú strýkur vor um völl og dal” Mér sýnist að þetta hefði allt eins getað verið “Nú strýkur vorið völl og dal.” Það er reyndar hljómfagurt að segja “um” en mér þó illskiljanlegt.

Kristján Valur @ 19/5/2004 16.58

Góði vin, Sigurður Árni. Þetta er nú ekki málfræðiæfing og ekki heldur málssögukafli og sárt þykir mér ef þér þykir eitthvað ill-skiljanlegt. Illt er hér ekki neitt hugsað eða gjört af minni hendi. Þú hefur skrifað og talað fallega um móður þína, og ég hef séð hana fyrir mér. Það er best að útskýra þetta fyrir þér með því að draga upp mynd af henni. Ég tel víst að hún hafi að loknu verki í garðinum strokið yfir moldina, síðan strokið af verkfærunum, strokið sér í framan þegar hún kom inn og svo hefur hún strokið þér um vangann. Það hefur þú örugglega skilið miklu betur en nokkra málfræði. Þó er það alveg óskiljanlegt eins og þegar vorið strýkur sinni blíðu hönd um landið allt, og hefur þó enga hönd!

Torfi @ 19/5/2004 17.42

Dálítið fyndin umræðan hjá ykkur Eyfirðingunum!
Kvæðið sýnir hve impulsívur Kristján Valur er. Það er þýtt á einum degi. Vel gert!
Nú á eftir að fínpússa það! En stundum er það fyrsta sem maður skrifar, það besta.

Nýjustu fréttir úr fjölmiðlum hér ytra er hryðjuverkaárás Ísraelshers á mótmælagöngu friðsamra Palestínumanni. Í gær drápu Ísraelar 20 Palestínumenn, þar á meðal tvö systkin, 12 og 16 ára. Og í dag liggur fjöldi barna í valnum.
Biðjum við ekki fyrir börnum um þessar mundir?

Kristján Valur @ 19/5/2004 18.02

Við biðjum fyrir börnum. Við biðjum fyrir brjálæðingum sem drepa börn af því að börn annarra en þeirra eigin eru þeim sem flugur og óværa. Við biðjum fyrir því að þeir komist til vits og sjái veruleika verka sinna. En við biðjum fyrst og fremst fyrir þeim sem nú gráta af því að þau hafa misst börnin sín. Það gerum við sannarlega, við sem erum farfuglar í þessum heimi. Á leiðinni heim.

Torfi @ 20/5/2004 10.13

Jæja, biðjum “við” fyrir börnum? Ég hef ekki séð neina yfirlýsingu frá biskupi vorum eða kirkjunni vegna dráps á börnum, ungmennum og konum í Palestínu og Írak í gær og fyrradag.

Áður hefur verið sagt frá árás Ísraelshers á friðsama mótmælendur. Yfir 20 manns féllu, að stórum hluta börn og ungmenni.
Bandaríkjamenn gerðu svo þyrluárás í gær á lítið þorp í Írak og jafnaði það við jörðu. Í valnum lágu eftir yfir 40 fagnandi brúðkaupsgestir, að stórum hluta konur og börn.

Biður kirkjan fyrir þessum fjölskyldum? Þá fer það mjög hljótt.
Svo voru menn að tala um að Saddam hafi verið slæmur!

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli