kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Páskanæturmessa · Heim · Hugleiðing í árdegismessu í Hallgrímskirkju »

Emmaus. Messa að kveldi annars páskadags.

Kristján Valur @ 22.02 12/4/04

Í kvöld lauk dagskránni frá Betaníu til Emmaus með einfaldri messugjörð og einfaldri máltíð í framhaldi af henni.

Kvöld í Emmaus.

Predikun í Langholtskirkju annan páskadag 12.apríl 2004

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

“Heyr gleðiboðskap þann sem æðstur er,
og eilífð nýja birtir heimi snauðum
Sjá, engill Guðs þann helga boðskap ber
Vor bróðir, Kristur, risinn er frá dauðum”.

Sb.150,.v.1

Páskahátíðin er að fjara út.
Framundan liggur enn ein venjuleg vinnuvika, – degi styttri að vísu en venuleg engu að síður.
Vikan sem leið var ekki venjuleg. Hún skilur eftir tilfinningu, ljósa eða óljósa:
Það verður ekkert eins og var.
Boðskapur páskanna rýfur hið hversdagslega samhengi hlutanna fullkomlega.

Við hrökkvum við þegar við stöndum frammi fyrir því hversu undra skammt er á milli lífs og dauða og við fyllumst beig þegar farið getur á hvorn veginn sem er.
Boðskapur páskanna snýst um líf og dauða.
En það getur ekki farið á hvorn veginn sem er.
Dauðinn hefur orðið að hopa.

Í dag höfum við fylgst með í huganum þegar guðspjallið segir söguna um mennina tvo á leið til Emmaus. Við höfum fylgst með orðum þeirra og hugsunum. Þeir eru að tala saman um það sem hugur þeirra er upptekinn af á þeirri stundu. Ógnaratburðir hafa orðið í lífi þeirra. Meistari þeirra og leiðtogi hefur tapað.
Þeir hafa séð hann líflátinn á krossi.

Þeir höfðu ekki einu sinni gefið sér tíma til að fara út að gröfinni og sakna, eins og María Magdalena.
Hún hélt að heiman í dagrenningu í gær til þess að setjast við gröf látins vinar,
rétt eins og við gerum, þegar við komum að gröf til að þakka fyrir líf þess sem við unnum,
til að orna okkur við arin minninganna og eiga á þeim stað sem líkami er lagður í mold,
stund hins hljóða saknaðar.

Það er gott að eiga legstaðinn eftir til að sinna um.
Að eiga stað til að taka við þjónustu handa og hugar.
Eilífð Guðs sem geymir þann sem dó, kann að vera svo langt í burtu,
svo óþekkt og framandi, en moldin og náttúran eru jarðnesk og kunnug,
og við þurfum þess með að geta komið kærleika okkar til skila á jarðneskan hátt.
Til dæmis með því að hugsa vel um legstaði þeirra sem við unnum.
Við erum bara venjulegar manneskjur og kærleikurinn okkar þarf að verða áþreyfanlegur.
Þau sem ég elska vil ég snerta.
Og eins og við áður breiddum sængina betur yfir þau sem sváfu svo að þeim yrði ekki kalt, hlúum við að moldinni og að gróðrinum sem grær á hinum jarðneska hvílustað.
Og við höldum því áfram þótt við vitum og trúum að dauðinn er ekki framar til heldur lifa þau sem dóu með Jesú Kristi, honum sem er upprisinn frá dauðum.

Ég lifi og þér munuð lifa, sagði Jesús.
Mennirnir tveir höfðu það ekki huga.

Nei, lærisveinarnir sem við heyrðum um voru á hröðum flótta frá ógn atburðanna.
En Jesús stöðvar flóttann, svo að einnig þeir megi lúta leyndardómi páskanna og mæta Jesú sjálfum í orði hans.

Það dettur víst engum í hug að segja: Skilur þú upprisu Jesú Krists frá dauðum? fyrst þú segir að þú trúir því að hann sé upprisinn.
Það er ekki bara lærisveinahópurinn sem er ráðvilltur á páskamorgni.
Þó höfðu þeir séð meistara sinn oftar en einu sinni grípa frammí fyrir hinum svokölluðu náttúrulögmálum.
Hann hafði hastað á vindinn og öldurnar, svo að gerði stillilogn.
Hann hafði læknað son hundraðshöfðingjans án þess að sjá hann.
Hann hafði reist upp dóttur Jairusar og gefið henni líf aftur.
Hann hafði læknað ólæknandi sjúkdóma, eins og holdsveiki var þá.
Blindum gaf hann sjón og lömuðum kraft og Lasarus hafði hann vakið upp frá dauða.
Með margskonar undrum og stórmerkjum hafði hann sýnt þeim að hann væri í sannleika sonur Guðs sem höfuðskepnurnar urðu að hlýða.

En samt var þeim efi í hug.
Svo ótrúlegt, svo undursamlegt var að hann hefði verið reistur upp frá dauðum.

Þeir gengu sína leíð, lærisveinarnir, í döprum hug.
Og Jesús gekk til þeirra.
En augu þeirra voru haldin og þeir þekktu hann ekki.
Þeir þekktu hann ekki.

Að þekkja er annað en að kannast við.
Að baki þessum orðum hyllir undir leyndardóm páskanna.
Hann er ekki sá einn að Jesús hefur sigrað dauðann.
Að þau sem lögð voru í mold í Jesú nafni eru ekki þar heldur heima hjá Guði.

Hann er sá að Jesús lifir eins og þú. Og meira en það, þú getur kynnst honum til að þekkja hann eins og bróður þinn.
Við segjum stundum þegar einhver kynnir sig fyrir okkur: Ég þekki þig. En það þýðir þá hið sama og: ég veit hver þú ert, ég kannast við andlit þitt og nafn.
Þannig þekkjum við ýmislegt fjölmiðlafólk og leiðtoga þjóðananna. En við þekkkjum þau ekki endilega, – ekkert frekar en við þekkjum Jón Sigurðsson og Hamlet og Maríu Stuart og Alexander mikla. Við þekkjum ekki sögupersónur liðinna alda, ekki heldur sögulegar og raunverulegar persónur.

Jesús er ekki saga sem við þekkjum. Ef við þekkjum hann einungis þannig þá þekkjum við hann ekki.
Upprisan þýðir að Jesús lifir og er hér og ég þekki hann og tala við hann, rétt eins og ykkur nú – og þó er Jesús enn nær, því að hann er bróðir minn.
Hann er upprisinn hann bróðir þinn.
Hann er kominn til þess að hitta þig og til að hugga þig. Hann er kominn til þess að bjóða þér til máltíðar þar sem hann brýtur þér brauðið svo að þú megir þekkja hann. Svo að þú megir ganga í fylgd hans eftirleiðis og standast í erfiðleikum hins daglega lífs.

Lærisveinarnir buðu manninum ókunna að ganga með sér inn og þiggja kvöldverð.
Ver hjá oss Herra, því að kvölda tekur og degi hallar, sögðu þeir. Og þegar hann braut brauðið lukust upp augu þeirra og þeir þekktu hann.
Þannig hefur hann á öllum tímum orið lærisveinum sínum þekkjanlegur í máltíð sinni, svo að einnig við megum lúta honum og hann negi umlykja okkur með nærveru sinni og blessun.

Ver hjá oss Herra, því að kvölda tekur.
Þannig báðu lærisveinarnir.

Þannig biður einnig kirkjan hans:

Ver hjá oss Drottinn
því að kvölda tekur og degi hallar.
Ver hjá oss
og hjá gjörvallri kirkju þinni.
Ver hjá oss
að kveldi dags
að kveldi lífsins
að kveldi heimsins.
Ver hjá oss
með náð þína og mildi
með heilagt orð þitt og leyndardóma
með huggun þína og blessun.
Ver hjá oss
þegar yfir oss kemur
nótt þyngsla og ótta
nótt efa og ásóknar
nótt hins beiska dauða.
Ver hjá oss
og með öllum þeim sem á þig trúa
um tíma og eilífð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2004-04-12/22.02.16/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli