kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Atansöngur (vesper) á laugardag fyrir páska. · Heim · Emmaus. Messa að kveldi annars páskadags. »

Páskanæturmessa

Kristján Valur @ 16.14 11/4/04

Hér er formið fyrir páskanæturmessuna. Það hefur verið notað frá árinu 1986. Fyrst á Ísafirði, síðan á Grenjaðarstað, einu sinni á Akureyri og nú um nokkurra ára skeið í Langholtskirkju. Fleiri form eru til og notuð. Frumkvöðull að páskanæturmessu í lútherskum sið á Íslandi, var sr. Sigurður Pálsson á Selfossi fyrir tæplega hálfri öld.

Páskanæturmessa

Textar og rúbrikkur

Kirkjan sé myrkvuð eða aðeins með neyðarlýsingu. Aðstoðarfólk sé við kirkjudyr og afhendi þeim sem koma lítil kerti, sálmabók og messuskrá. Æskilegt er að aðstoð sé veitt við að finna sæti, – ef þarf með litlu vasaljósi.

Ef því verður við komið má tendra eld við kirkjudyr við sérstaka athöfn. Það er hinn nýi páskaeldur. Af honum er tendrað ljós á páskakertinu.

Páskanæturmessan hefst með lestrum og bænum í dimmri kirkju. Eftir það er páskaljósið borið inn í skrúðfylkingu með inngöngusöng. Þá er fluttur hinn forni páskalofsöngur: Exultet og meðan hann er fluttur er borið ljós um alla kirkju. Að því búnu er skírnarminning. Að henni lokinni hefst hin eiginlega messugjörð með pistli páskanæturinnar og páskaguðspjallinu. Gömul hefð er að það sé tónað. Þegar páskaguðspjallið er út sungið þá eru páskar. Öll ljós eru kveikt og orgelið sem til þessa hefur þagað fær nú að hljóma í páskasálminum. Hringja má klukkum og boða þannig upprisu Drottins.

Altarissakramentið er fram borið og síðan eru messulok að venju.

UPPHAF

Lestrar og bænir í dimmri kirkju.

Lesarar komi sér fyrir á kirkjusvölum eða sönglofti, eða annarsstaðar þar sem ekki sést til þeirra en heyrist vel, annað hvort vegna náttúrulegra aðstæðna, náttúrulegs hljómburðar eða tæknibúnaðar.

Lesarar séu ekki færri en tveir, helst þrír en mega gjarna vera sex. Þá les hver sinn lestur og hver sína bæn.
Þau önnur sem þjóna að páskanæturmessunni safnast saman í forkirkju eða hliðarsal og bíða þar með páskakertið.

Fyrsti lestur. 1. Mósebók 6. 3a. 5 – 8. (Lesari I)

Þá sagði Drottinn: Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold.
Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga,þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.
Og Drottinn sagði: Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau.
En Nói fann náð í augum Drottins.

Bæn eftir fyrsta lestur. (Lesari II)

Drottinn Guð, þér sárnar illska mannanna. Þú deyðir þá og gjörir þá sem þú vilt aftur lifandi. Þú lætur syndaflóðið koma yfir syndugt mannkyn og bjargar Nóa, þjóni þínum. Drottinn, opna augu vor fyrir dómum þínum og fyrir miskunn þinni.

Drottinn miskunna þú oss.

Annar lestur. Jesaja 24. 1 – 6. 17 – 20 ( Lesari III)

Sjá, Drottinn tæmir jörðina og eyðir hana, hann umhverfir ásjónu hennar og tvístrar íbúum hennar.
Eitt gengur yfir prest og alþýðu, yfir húsbónda og þjón, yfir húsfreyju og þernu, yfir seljanda og kaupanda, yfir lánsala og lánþega, yfir okrarann og skuldunaut hans.
Jörðin skal verða altæmd og gjörsamlega rænd, því að Drottinn hefir talað þetta.
Jörðin viknar og kiknar, heimur bliknar og kiknar, tignarmenni lýðsins á jörðu blikna.
Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa.Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda fyrir það. Þess vegna farast íbúar jarðarinnar af hita, svo að fátt manna er eftir orðið.
Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, jarðarbúi. Sá sem flýr undan hinum geigvæna gný, fellur í gröfina, og sá sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni, því að flóðgáttirnar á hæðum ljúkast upp og grundvöllur jarðarinnar skelfur.
Jörðin brestur og gnestur, jörðin rofnar og klofnar, jörðin riðar og iðar.
Jörðin skjögrar eins og drukkinn maður, henni svipar til og frá eins og vökuskýli. Misgjörð hennar liggur þungt á henni, hún hnígur og fær eigi risið upp framar.

Bæn eftir annan lestur (Lesari IV)

Drottinn Guð, vér játum að undursamleg eru öll þín verk og að allt er gott sem þú hefur gjört. En vér höfum fallið frá þér og reiði þín liggur þungt á oss. Það sem þú gjörðir fagurt höfum vér afskræmt. Þar sem þú gjörðir reglu höfum vér gjört óreglu. Þessvegna er myrkrið yfir os og dauðinn heldur oss föngnum.
Vér biðjum þig: Kom og leið oss út úr gröfunum þar sem vér liggjum í fjötrum.

Drottinn miskunna þú oss.

Þriðji lestur. 1. Korintubréf 15. 12 – 19. (Lesari V)

En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?
Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn.
En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.
Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn.
En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir. Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.

Bæn eftir þriðja lestur. (Lesari VI)

Drottinn, vér játum að þessi er dómurinn að ljósið er komið í heiminn og að mennirnir elskuðu myrkrið meir en ljósið.
Þú sendir oss frelsarann og í honum birtir þú oss lífið. En vér lögðum Krist þinn í gröf. Harðúð hjartna vorra varð gröf hans. Vantrú vor lagði hann í gröf.

Drottinn miskunna þú oss.

Safnast saman í forkirkju

Lesarar ganga til forkirkju og safnast saman með þeim sem þar eru fyrir. Prestur II raðar upp og skiptir verkum. Fremst fer ljósberi með páskakertið, þá tveir ljósberar með kerti (án ljóss) þá kantor eða forsöngvari, þá sá/sú sem ber könnu með skírnarvatni, síðan þau sem aðstoða við útdeilingu og síðast prestarnir.
Kveikt er ljós á einu kerti (ekki páskakertinu). Ljósberi lýsir presti og lesara.
Þegar röðin er tilbúin gengur prestur I nær kirkjudyrum ásamt ljósbera og byrjar messuna sem hér segir:

INNGANGA

P Drottinn sé með yður
S og með þínum anda
P Hjálp vor er í nafni Drottins
S skapara himins og jarðar
P Látum oss biðja:

Almáttugi Guð, þú sem ert hið óforgengilega ljós, þú sem býrð í ljósi sem enginn fær til komist, þú sem ert brunnur og skapari alls ljóss og sagðir í upphafi: ,,Verði ljós, og það varð ljós og það varð líf.
Vér biðjum þig. Gef oss á þessari heilögu nótt að ljómi dýrðar þinnar skíni yfir oss og að ljós þitt lýsi upp hjörtu vor. Tendra ó, Guð, eld þessarar hátíðarnætur og gef að hún fullkomnist í birtu rísandi dags eilífðar þinnar.
Fyrir Jesú Krist þinn eingetinn Son, Drottin vorn sem lifir og ríkir með þér og heilögum anda frá eilífð til eilífðar.
S Amen.

Fjórði lestur 1. Mósebók 1. 1 – 5. 26 – 28, 2.1. (Prestur II)

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.
Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.
Guð sagði: Verði ljós! Og það varð ljós.
Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu.
Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.
Guð sagði: Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.
Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.
Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.
Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði.

Bæn (Prestur I)

Drottinn Guð, þú sem hófst verk sköpunar þinnar með almáttugu orði þínu og lést ljósið brjótast út úr nóttinni. Vér biðjum þig. Hef í dag að nýju verk þitt í oss og seg við sál vora:
Verði ljós, svo að myrkrið hverfi frá oss að eilífu og vér megum þekkja og líta verk þín og vegu þína í þínu heilaga ljósi og tilbiðja þig í auðmýkt.
Fyrir Son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar.

A Amen

Tendrað ljós á páskakerti.

Innganga
Áður en gangan leggur af stað er sungið hið fyrsta sinn Kristur er vort ljós, hið annað sinn á miðjum gangi, hið þriðja sinn þegar komið er að kórdyrum (tröppum)

Forsöngvari syngur einn : Kristur er vort ljós. Allir svara: Lof sé þér ó Guð.
Forsöngvari hækkar um hálftón í síðari skiptin bæði.

Ljósberi snýr í göngustefnu þegar sungið er nema í síðasta sinn, þá snýr hann fram. Síðan snýr hann sér við og gengur að ljósastiku og kemur kertinu fyrir. Gangan bíður á meðan.

Inngönguvíxlsöngur
K Kristur er vort ljós
S Lof sé þér, ó, Guð

Þegar kertinu hefur verið komið fyrir fer gangan til sæta sinna.
Prestur I gengur að páskakertinu og flytur fyrri hluta páskalofsöngsins.

Páskalofsöngurinn. (Exultet).

P Fagnið nú þér englar og þér himnesku hirðsveitir.
Fagnið þér dásemdarverk Guðs
bjart hljómi básúna hjálpræðisins
og vegsami sigur hins himneska konungs.

Jörðin gleðjist einnig,
böðuð skínandi ljósi
og uppljómuð dýrð hins eilífa konungs
sjái hún hversu myrkrið víkur frá henni .

Í dýrðlegum ljóma sama ljóss
gleðjist einnig kirkjan
og lofsöngur barna hennar
fylli hús Guðs vors.
Þessvegna systur og bræður
sem dveljið nú í bjarma páskaljósins
ákallið með mér miskunn almáttugs Guðs
að hann sem oss hefur kallað í hóp barna sinna
fylli oss skærum ljóma ljóss sins
og taki á móti lofsöng vorum í náð.
Fyrir Drottin vorn Jesú Krist
sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir
frá eilífð til eilífðar.
A Amen.

Ljósberar 1 og 2 (3 og 4) sækja ljós á páskakertið og tendra ljós á kertum safnaðarins með því að tendra ljós hjá fremsta manni í hverjum bekk sem síðan gefur þeim næsta ljós og svo koll af kolli. Ef ljósberar eru fjórir ganga tveir eftir miðgangi en tveir með veggjum. Síðast eru tendruð öll önnur kertaljós og ljós á altariskertum.

Á meðan þessu fer fram er fluttur síðari hluti páskalofsöngsins.

Páskalofsöngurinn – síðari hluti.

P Drottinn sé með yður
S og með þínum anda
P Lyftum hjörtum vorum til himins
S Vér hefðjum þau til Drottions
P Látum oss þakka Drottini Guði vorum
S það er verðugt og rétt.

P Sannlega er það verðugt og rétt, maklegt og hjálpsamlegt að lofa og vegsama hinn ósýnilega Guð og almáttuga föður og einkason hans Jesú Krist, Drottin vorn, sem greiddi himneskum Föður skuld Adams fyrir oss og máði af syndina með heilögu blóði sínu.
Þetta er hátíð páskanna, þegar fórnað verður páskalambi voru sem er Kristur.
Blóð hans varðveitir oss fyrir eyðandanum.
Þetta er nóttin, þegar þú, almáttugi Guð, leystir lýð þinn úr ánauð
og leiddir hann inn í landið fyrirheitna.
Þetta er nóttin þegar Kristur sleit bönd dauðans
og reis úr Helju sem eilífur sigurvegari.
Hvað gagnaði oss að vér erum fædd
værum vér eigi endurleyst og oss borgið?
Ó, hve undursamlega hefur miskunn þín náðað oss.
Óendanleg er gæska og vernd kærleika þíns.
Til lausnar þræli þínum og ambátt fórnaðir þú syni þínum.
Þetta er nóttin þegar Kristur afmáir vanhelgunina og þvær af syndina.
Í sakleysi fagna hin föllnu og syrgjandi.
Á þessari helgu nótt náðarinnar
tak þú Drottinn á móti þakkarfórn vorri
sem vér færum í lofgjörð þíns heilaga nafns
í skrúða réttlætis þíns upprisna sonar.

Og eins og skin þessa kertis hrekur myrkrið brott
megi hið sanna ljós, Jesús Kristur,
upplýsa alla menn, svo að einnig þau sem ekki trúa
snúi sér frá myrkrinu til hins undursamlega ljóss.

Svo biðjum vér þig auðmjúklega Drottinn,
að þú viljir gefa oss og öllum trúuðum frið,
að þú varðveitir oss í þessari páskagleði
og að þú leiðir oss með gjörvöllum lýð þínum
að vér komumst burt úr eymdadal þessa heims
til föðurlands vors á himnum.
Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér og heilögum anda
lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar
A Amen.

Skírnarminning

Bæn.

P I Almáttugi eilífi Guð. Ósýnilegur kraftur þinn verkar til hjálpar mönnunum með sýnilegum táknum. Með margvíslegum hætti hefur þú kjörið vatnið til að vísa á leyndardóm skírnarinnar.
Strax í upphafi sköpunarinnar skóp andi þinn líf úr vötnunum. Syndaflóðið var tákn skírnarinnar, því að vatnið eyddi syndinni og gaf heilögu lífi nýtt upphaf.
Þegar börn Ísraels, frelsuð úr ánauð Faraós, gengu þurrum fótum yfir Rauða hafið þá voru þau mynd lýðs þíns, mynd þíns fólks sem frelsað er úr ánauð hins illa með vatni skírnarinnar.
Og eins og Drottinn vor Jesús Kristur steig niður og lét skíra sig upp úr vatni dauðans, svo gef með heilögum anda þínum að þau öll sem í skírninni eru greftruð með Kristi megi með honum rísa upp til lífs hinnar komandi aldar. Þess biðjum vér þig faðir, almáttugur Guð, skapari himins og jarðar, fyrir Jesú Krist, sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar.
A Amen.

Bæn

P I. Á þessari heilögu nótt þegar morgunn hinnar nýju sköpunnar rís úr djúpi grafarmyrkursins og Guð tilreiðir heiminum endurlausn í upprisu sonar síns Jesú Krists, lofum vér hann sem hefur einnig veitt oss aðgang að þessari endurlausn fyrir vatnsbað heilagrar skírnar.
Vér viljum nú þakka Drottni fyrir þessa náð hans og játa því sem hann hefur gjört fyrir oss að hann hefur bjargað oss undan yfirráðum myrkursins og leitt oss inn í ríki síns elskaða sonar.

Meðhjálpari hellir vatni í skírnarfontinn.

P II Drottinn Guð, blessa þú þetta vatn. Lát það minna oss á vora eigin skírn og á samfélag kristninnar um allan heim. Auk oss trú og traust á umbreytandi kraft skírnarinnar sem vér höfum þegið að gjöf frá þér.
Amen.

Biðjum:

Kom Guð, skapari, heilagi andi,
andi sköpunarinnar,
þú sem í upphafi sveifst yfir vötnunum,
þú sem birtist í dúfulíki við skírn Jesú,
þú sem komst í eldi og stormi
yfir lærisveinanna á hvítasunnuhátíðnni,

Kom til vor,
opna hjörtu vor og huga
fyrir lífgefandi orð þitt í sáttmála skírnarinnar,
svo að vér heyrum og endurnýjumst af krafti þínum.
Amen.

Vatn er kraftur til lífs og til dauða.
Vatnslindir og lækir umbreyta þurru, örfoka landi, í lystigarð.
Syndaflóðið batt enda á líf.
Í vatni skírnarinnar er samfélag um líf og dauða Jesú Krist,

A Við lofum þig, Guð.

Vatnið hreinsar eins og höfuðsmaðurinn Naaman var hreinsaður af sjúkdómi sínum í ánni Jórdan og hlaut bata.
Í skírninn var allt hreinsað burt sem gæti skilið oss frá Guði

A Við lofum þig, Guð.

Án vatns er ekkert líf á jörðu.
Í upphafi sveif lífgefandi andi Guðs yfir vötnunum.
Í vatni skírnarinnar gefur Guð oss sinn lífgefandi anda.
Hann gjörir oss ný, hann lætur oss lifna til réttlætis
og til nýs lífs í nærveru Guðs.

A Við lofum þig, Guð.

Þegar skírnarbarnið er vatni ausið
er nafn hins þríeina Guðs lagt yfir það,
eins og þegar röddin við skírn Jesú kom yfir hann,
og sagði: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.
Í skírninni var líf okkar gróðursett í samfélaginu við Guð
og lýð hans um allan heim.

A Við lofum þig, Guð.

Vatnið sem notað er í skírninni vísar fram
til lækja lifandi vatns í Guðs heimi,
í hinni nýju Jerúsalem, sem er takmark lífsins.
Í skírninni erum við nú þegar í dag tekinn inn í komandi heim Guðs.

A Við lofum þig, Guð.

Kæru systur og bræður í Kristi
Í heilagri skírn hefur Guð tekið ykkur að sér og gert ykkur að börnum kirkju sinnar.
Í samfélaginu við lýð Guðs um allan heim hafið þið í orði hans fengið að heyra
hvaða mark hann setur ykkur í kærleika sínum.
Við borð hans þiggjum við næringu til þess sem hann kallar okkur til:
að bera vitni um fagnaðarerindið um Jesú Krist.
Því fel ég ykkur að endurnýja skírnarheitið.
Að hafna öllu veldi hins illa
að játa opinberlega trúna á Guð
og að treysta að nýju sáttmála Guðs við ykkur.

A Við afneitum hinu illa í öllum myndum þess
en játum Krist Jesúm upprisinn Drottinn og Herra,
sigur hans yfir dauðanum og mátt hans yfir öllu illu.
Með honum viljum við sem helguð vorum honum í heilagri skírn
yfirvinna hið illa með krafti kærleika hans,
ganga í ljósinu og ganga með ljósið
í eftirfylgd hans, sem er hið sanna ljós.

P Rísið úr sætum og játið með mér skírnarjátninguna.

Postulleg trúarjátning

A Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn,
sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey,
píndur á dögum Pontíusar Pílatusar,
krossfestur, dáinn og grafinn,
steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum,
steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs
og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á heilagan anda, heilaga, almenna kirkju, samfélag heilagra,
fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.
Amen

Bæn eftir túarjátningu.

P I
Drottinn Guð, þú sem gefur þeim sem á þig trúa nýtt líf í heilagri skírn.
Gef öllum þeim sem endurborin eru í Kristi vernd þína svo að þau festist ekki í snörum villu og syndar heldur varðveitist í náð þinni. Fyrir Jesú Krist. Drottin vorn.

A Amen

Eins og til staðfestu þess sem við höfum nú játað megum við hér á eftir ganga að skírnarlauginni, annað hvort um leið og við göngum til Guðs borðs eða í lok þessar guðsþjónustu, dýfa hönd í skírnarvatnið og gera krossmark fyrir okkur.
Við skulum einnig að gömlum sið bera vatn í augun, svo að við megum betur sjá Veginn.

P I
Góð systkin. Vatnið í skírnarfontinum minnir oss á vora eigin skírn. Það er um leið tákn um sameiningu allrar kirkjunnar í sannri páskagleði með öllum þeim sem fyrir heilagan anda eru endurfædd til eilífs lífs í heilagri skírn. Minnumst þess að þrátt fyrir hina sáru sundrungu kirkjudeildanna sameinar skírnin þær allar.

Syngjum í minningu vorrar eigin skírnar sálminn nr. 251.

(Sálmurinn er sunginn án undirleiks. Orgelið þegir fram yfir guðspjall).

Skírnarsálmur Sb 251

Andi Guðs sveif áður fyr
yfir vatna djúpi.
Upp þá lukust ljóssins dyr,
létti’ af myrkra hjúpi.
Upp reis jörðin ung og ný,
árdags geislum böðuð í,
þá úr dimmu djúpi.

Andi Guðs sveif annað sinn
yfir vatni köldu,
þegar lét sig lausnarinn
lauga’ í Jórdans öldu.
Opnast himinn, eins og nýtt
upp rann náðarljósið blítt
dauða’ úr djúpi köldu.

Andinn svífur enn sem fyr
yfir vatni tæru,
opnast himins dýrðardyr
Drottins börnum kæru.
Eftir skírnar blessað bað
blómið upp vex nýdöggvað
lífs í ljósi skæru.
Valdimar Briem

Pistill

P II Heyrið pistil páskanæturinnar.

Svo ritar postulinn Páll til Kólossumanna (3. 1 – 4)

Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er. Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði.
Þegar Kristur, sem er líf yðar, opinberast, þá munuð þér og ásamt honum opinberast í dýrð.

Hallelúja. Sb. 742

K Hallelúja,
A hallelúja,hallelúja.
Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn.
Hallelúja, hallelúja,hallelúja.

Guðspjall páskanæturinnar tónað

Matteusarguðspjall 28. 1 – 10. 16 – 20

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður.
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: Heilar þið! (Ljós!).
En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þá segir Jesús við þær: Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig. En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til.
Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa.
Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.
Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Um leið og lestri lýkur eru öll ljós kveikt í kirkjunni, og orgelið hljómar, organistinn leikur forspil að páskaálminum – ef hægt er má hringja klukkum. Ef vill má tendra ljós í miðju guðspjalli, eftir orð Jesú: Heilar þið.

Páskasálmurinn Sb 156

Dauðinn dó, en lífið lifir,
lífs og friðar sólin skær
ljómar dauðadölum yfir,
dauðinn oss ei grandað fær,
lífið sanna sálum manna
sigurskjöld mót dauða ljær.

Kóngur lífs á krossi deyddur
krónu lífs mér bjó hjá sér,
dapur nú er dauði neyddur
dýrðarlíf að færa mér.
Þótt hann æði, þótt hann hræði,
það ei framar skaðvænt er.

Hann, sem reis með dýrð frá dauða,
duft upp lætur rísa mitt,
leyst úr fornum fjötrum nauða,
fyrir blóðið helga sitt.
Hold og andi lífs á landi
lífgjafara sinn fá hitt.

Jesús minn, sem dauðann deyddir,
deyja gef mér eins og þú,
og við þig, í ljós er leiddir
lífið, æ að halda trú.
Lát mig þreyja þér og deyja,
þrá mín heit og bæn er sú.

Helgi Hálfdánarson

Á meðan sálmurinn er sunginn tilreiðir prestur brauð og vín.
Að sálminum loknum hefst þakkargjörðin.
Friðarkveðjan er samkvæmt eldra sið flutt á milli Faðir vor og Lamb Guðs.

Upphaf þakkargjörðarinnar

P Drottinn sé með yður.
S Og með þínum anda. (söfnuður rís úr sætum)
P Lyftum hjörtum vorum til himins.
S Vér hefjum þau til Drottins.
P Látum oss þakka Drottni Guði vorum.
S Það er maklegt og réttvíst.
P Sannlega er það maklegt og réttvíst, skyldugt og mjög hjálpsamlegt,
að vér alla daga og á öllum stöðum lofum þig og þökkum þér,
þú heilagi Drottinn, almáttugi faðir og eilífi Guð
fyrir Jesú Krist Drottin vorn.
Hann er hið sanna páskalamb, sem fyrir oss var fórnfært
og hefur með dauða sínum vorn dauða sigrað og með upprisu sinni lífið endurnýjað.
Þess vegna með englunum og höfuðenglunum, með tignunum og drottinvöldunum,
sömuleiðis ásamt öllum himneskum hirðsveitum lofum vér þitt heilaga nafn
óaflátanlega segjandi:

Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Drottinn, Guð allsherjar.
Himnarnir og jörðin eru full af dýrð þinni. Hósíanna í upphæðum.
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Hósíanna í upphæðum.

Bæn

Sannarlega eru himnarnir og jörðin full af heilagleik dýrðar þinnar í Drottni Guði vorum og frelsara Jesú Kristi. Hann afklæddist þinni dýrð, steig niður af himni til vor, fæddist af Maríu meyju fyrir heilagan anda og tók á sig þjóns mynd til að endurleysa oss. Hann var hlýðinn allt fram í dauða á krossi, þar sem hann útbreiddi sínar helgu hendur, er hann leið, svo að hann mætti dauðann sigra, slíta fjötra satans og frelsa frá glötun alla þá sem trúa og veita oss föllnum hlutdeild í guðdómi sínum.

Innsetningarorðin

Drottinn vor Jesús Kristur tók brauðið, nóttina sem hann var svikinn,
gjörði þakkir og braut það og gaf sínum lærisveinum og sagði:
Takið og etið, þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn.
Gjörið þetta í mína minningu.
Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn,
gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði:
Drekkið allir hér af, þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði,
sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna.
Gjörið þetta svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.

Bæn

Þess vegna gjörum vér við þetta helga altari minningu þá er hann bauð oss og minnumst pínu hans og dauða, sigrandi upprisu hans og dýrðarfullrar himnafarar og göngum að hásæti náðar þinnar með þetta helga brauð lífsins og kaleik eilífs hjálpræðis sem þakkar- og lofgjörðarfórn vora. Í samneyti hennar játum vér hina einu algildu syndafórn, sem þinn elskaði sonur, æðsti prestur vor, færði á krossinum í eitt skipti fyrir öll, til eilífrar lausnar öllum þeim sem helgaðir verða.

Vér biðjum þig að meðtaka þessa skyldugu þjónustu vora í náð og að afmá syndir vorar, að vér megum maklega neyta þessa helgasta leyndarsdóms, mettast allri himneskri blessun og náð, öðlast arfleifð með þínum helgu postulum, píslarvottum og öllum útvöldum og verða einn líkami með Kristi og allri kirkju hans.

Send oss þinn heilaga anda og sameina oss í staðfastri trú og kærleika, fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn.
Fyrir hann, með honum og í honum sé þér almáttugi faðir, í einingu heilags anda, heiður og dýrð í heilagri kirkju þinni um aldir alda.

Amen.

P: Vér heitum ekki aðeins börn Guðs, vér erum það! Biðjum með öllum Guðs börnum:

Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

Friðarkveðjan

P Verið einhuga í samfélaginu við Drottin. Enginn rísi gegn öðrum né hræsni fyrir öðrum. Fyrirgefið hvert öðru eins og yður er fyrirgefið og takið hvert annað að yður eins og Kristur hefur tekið yður að sér.
Þegar hinn upprisni Drottinn kom til fundar við lærisveinana að kveldi upprisudagsins sagði hann við þau sem þar voru saman komin : Friður sé með yður.

Þegar Friðarkveðjan hefur verið tónuð skulum við einnig rétt hvert öðru höndina og segja Friður sé með þér.

P Friður Drottins sé með yður.
S og með þínum anda.

Guðs lamb

K Ó, þú Guðs lamb Kristur
A þú sem burt ber heimsins synd miskunna þú oss.
Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem burt ber heimsins synd,
miskunna þú oss.
Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem burt ber heimsins synd,
gef oss þinn frið. Amen.

Útdeiling

Bæn eftir bergingu:

P Vér þökkum þér himneski faðir, að þú hefur mettað oss þessari hjálpsamlegu gjöf. Vér biðjum þig: Hjálpa oss til að lifa í trú og kærleika fyrir upprisu sonar þíns og bera fram líf vort sem fórn þínu heilaga nafni til lofs og dýrðar.
Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottinn vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

A Amen.

MESSULOK
Blessun

P Þökkum Drottni og vegsömum hann.
S Drottni sé vegsemd og þakkargjörð.
P Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sínu ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
A. Amen, Amen, Amen.

Lokasálmur Sb 577

Sjá ljóma yfir húmsins höf
í heiði sól með lífsins gjöf,
er skín í dag frá Drottins gröf.
Hallelúja, Hallelúja, Hallelúja, Hallelúja.
Vér miklum þig, Kristur Maríuson.

Hann hefur sjálfan dauðann deytt,
hans dimmu nótt og broddum eytt
og krossins þraut í blessun breytt.
Hallelúja …

Nú fagna þeir, sem þekkja hann,
og þakka stríðið sem hann vann
til lausnar fyrir fallinn mann.
Hallelúja …

Í sælli gleði syngjum vér
þeim sigri lof, sem fenginn er,
og segjum: Drottinn, dýrð sé þér!
Hallelúja …

Já, dýrð sé þér, Guðs þrenning há.
Lát þína elsku sigri ná
í hjarta manns sem himnum á.
Hallelúja …

Sigurbjörn Einarsson

url: http://kvi.annall.is/2004-04-11/16.14.59/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli