kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Lofsöngur páskanæturinnar – Exultet · Heim · Páskanæturmessa »

Atansöngur (vesper) á laugardag fyrir páska.

Kristján Valur @ 15.39 11/4/04

Aftansöngurinn á laugardag fyrir páska er sérstakt tilefni íhugunar. Þetta er sabbatum sanctum.Kyrrasti dagur hinnar kyrru viku.

Aftansöngur á laugardag fyrir páska

Upphaf

L Dagur er liðinn og verkalok nálgast. / Vér nálgumst lok hinnar heilögu viku / Kyrrð kvöldsins færist yfir. / Drottinn er í nánd./ Lútum höfði í auðmýkt / og minnumst þess að vér erum frammi fyrir augliti Guðs./

A Kvöldbæn vor stígi upp til þín Drottinn / en miskunn þín niður til vor./ Þinn er dagurinn og þín er nóttin. / Lát ljós sannleika þíns lýsa oss er dimmir /

L því að þú einn lýkur upp fyrir öllum heimi hliðum upprisunnar / Undirbú þú fyrir oss páskahátíðina og lát söfnuð þinn sjá stórmerki þín og undur. Leið oss til hvíldar næturinnar / og um síðir til eilífrar fullkomnunar.

Játning:

L: Vér játum fyrir Guði almáttugum / að vér höfum syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. / Vér játum vora skuld / vora skuld / vora miklu skuld.
A: Almáttugur Guð miskunni oss./ Hann fyrirgefi oss syndir vorar og leiði oss til eilífs lífs.
L: Fyrirgefningu allra vorra synda veiti oss almáttugur, náðugur Guð.
A: Amen.

Ritningarlestrar

Pistill.
Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.
Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi.
Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar það er átta sálir í vatni.
Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists,
sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
(1.Pét. 3. 18-22)

Guðspjall.

Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu: Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri. Pílatus sagði við þá: Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið. Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna. (Matteusarguðspjall 27: 62- 66.)

Vers:

L: Guð sé oss náðugur og miskunnsamur
A: og veiti oss blessun sína
L: Hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor
A: svo að vér megum þekkja veg hans á jörðu

Sálmur úr sálmabók 274

Nú hverfi oss sviðinn úr sárum
og sjatni öll beiskja í tárum,
því dauðinn til lífsins oss leiðir,
sjá, lausnarinn brautina greiðir.

Þótt líkaminn falli að foldu
og felist sem stráið í moldu,
þá megnar Guðs miskunnarkraftur
af moldum að vekja hann aftur.

Í jörðinni sáðkornið sefur,
uns sumarið ylinn því gefur.
Eins Drottinn til dýrðar upp vekur
það duft, sem hér gröfin við tekur.

Sá andi, sem áður þar gisti
frá eilífum frelsara, Kristi,
mun, leystur úr læðingi, bíða
þess líkams, sem englarnir skrýða.

Og brátt mun sá konungur kalla,
sem kemur að fylla von alla.
Hann græðir á fegurri foldu
þau fræ, er hann sáði í moldu.

Prudentius/Stefán Thorarensen/Sigurbjörn Einarsson

Ihugun

Hljóð bæn & Faðir vor

Blessun:
L: Almáttugur Guð, + faðir og sonur og heilagur andi, blessi oss og varðveiti að eilífu.
A: Amen.

url: http://kvi.annall.is/2004-04-11/15.39.04/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli