kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« In Paradisum · Heim · Atansöngur (vesper) á laugardag fyrir páska. »

Lofsöngur páskanæturinnar – Exultet

Kristján Valur @ 15.14 11/4/04

Í nótt var sungin páskanæturmessa í Langholtskirkju, með skírnarminningu, sungnu páskaguðspjalli og heilagri kvöldmáltíð. Þetta er ævaforn siður. Forn er líka páskalofsöngurinn Exultet sem að þessu sinni var lesinn og í styttri mynd.

Lofsöngur páskanæturinnar

Exultet

Fagnið þér himnesku englakórar
Fagnið þér þjónandi herskarar
Hljóma þú básúna hjálpræðisins
kunngjör sigurinn,
að Kristur er upprisinn frá dauðum.

Fagna þú jörð í ljósi hins eilífa konungs
Sem dagur lýsi öll lönd.
Nótt og myrkur verða að víkja.

Fagna einnig þú móðir kirkjan
böðuð í ljóma sólarinnar.
Hljómið þér helgu salir
enduróma máttug fagnaðaróp fólksins.

Svo bið ég yður, bræður og systur
sem sjáið þetta ljós,
sem sjáið hversu skært það logar,
ákallið með mér almáttugan Guð
að hann miskunni mér
sem hann hefur kallaði inn í skara þjóna sinna
ekki vegna þjónustu minnar eða að ég hefði til þess unnið
heldur aðeins af himneskri náð.
Hann gjöri bjart í hjarta mínu
og bjarta röddu mína
til að boða lof páskaljóssins.

Gangið fram og tendrið ljós.

Drottinn sé með yður
Og með þínum anda.
Lyftum hjörtum vorum til himins
vér hefjum þau til Drottins.

Látum oss þakka Drottni Guði vorum
Það er maklegt og rétt.

Í sannleika er það verðugt og rétt að elska með hreinu hjarta og lofa með fagnandi röddu, hinn hulda Guð og almáttuga föður og hans eina son Jesú Krist .
Því að hann hefur vor vegna friðþægt fyrir synd Adams eilífum föður
og rifið skuldakvittun hinnar fornu syndar
með heilögu blóði sínu.
Þetta er páskanóttin
þegar slátrað er hinu sanna lambi,
og blóð hans innsiglar dyr hinna trúuðu.

Þetta er nóttin þegar þú, ó, Guð – fyrir tíma feðranna
leystir börn Ísraels frá Egyptalandi
og leiddir þau þurrum fótum gegn um Rauðahafið.

Þetta er nóttin sem leysir alla kristnina á jörðu
frá illsku heimsins
og frá myrkri syndarinnar
og leiðir hana í náð heim til safnaðar hinna heilögu.

Þetta er nóttin þegar Kristur sleit fjötra dauðans
og steig upp úr djúpinu
sem sigrarinn dauðans sanni.

Hvað væri vort líf á jörðu
án hjálpræðis endurlausnarinnar.

Ó undur gæskunnar
sem hneigir sig í miskunn til vor.

Ó, þú óskiljanlega ást föðurins
sem gefur soninn til þess að leysa þrælinn.

Ó, synd Adams sem fær Krist
til þess að létta af vorum syndum með dauða sínum.

Ó, hve sæl er sú skuld sem eignast hefur
þennan miskunnsama lausnara.

Ó, sannlega sæla nótt
sem ein veit um tíma og stund
þegar Kristur rís upp úr djúpum dauðans.

Þetta er nóttin sem oss er sagt frá
nóttin sem er björt sem dagur
nóttin sem er mér ljósker minnar hátíðargleði.

Þessi heilaga nótt
geislandi í náðarbirtu
hrekur burt alla vonsku
þvær af alla skuld
gefur hinum reikandi styrk
hinum grátandi gleði.

Í mætti sínum hrekur hún hatrið burtu
hún sameinar hjörtun
og beygir hin voldugu.

Á þessari nóttu náðarinnar
tak að þér heilagi faðir
sem hátíðarfórn
hið brennandi kerti
sem kirkja þín ber fram
í höndum þjóna þinna.

Svo syngjum vér lof þessa ljóss
sem upptendrað er af eldi
til vegsemdar hinum hæsta.

Svo biðjum vér þig ó Drottinn,
í þessum fögnuði páskanna
að gefa oss daga friðarins
oss og öllum þjónum þínum
í skara þinna trúuðu.
Stýr oss í náð þinni
og varðveit oss ævinlega.

Lít einnig í náð þinni
þau sem stjórna þjóðunum
og stýr með miskunn og umhyggju
hugsun þeirra og hyggju
í átt til réttlætis og friðar
og leið oss öll,
og mannkyn allt
til hinna sönnu himnesku heimkynna.

Fyrir Drottin vorn Jesú Krist,
son þinn, sem með þér og heilögum anda
lifir og ríkir
einn Guð frá eilífð til eilífðar.
Amen.

url: http://kvi.annall.is/2004-04-11/15.14.33/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli