kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Mozart requiem · Heim · In Paradisum »

Leyndardómasónötur Bibers

Kristján Valur @ 21.18 10/4/04

Að kveldi páskadags, kl.19.00 verða fluttar í ríkisútvarpinu Leyndardóma – eða Rósakranssónötur Heinrich Ignanz Franz von Biber. Þetta er afar merkileg tónsmíð og verður etv. tækifæri til að fjalla frekar um þær síðar. Upptakan var gerð í fyrra og er með því besta sem gerist. Hér eru textarnir sem fylgja.

Rósakrans sónötur Heinrich Ignaz Franz von Biber (1644-1749)

Rósakrans eða Leyndardóma – sónötur Heinrich Franz Biber eru 15 hugleiðingar – eða leyndardómar í þrem hlutum með fimm sónötum í hverjum hluta. Hugleiðingarefnið er líf Jesú Krists og Maríu Guðsmóður. Í fyrsta hlutanum eru hugleiddir hinir gleðilegu leyndardómar, í öðrum hinir þjáningarfullu og í þriðja hinir dýrðarríku.

Hinir gleðilegu leyndardómar byggja á atvikum snemma í lífi Krists, frá boðun Maríu til Kyndilmessu, þegar Kristur er færður til musterisins, hinir þjáningarfullu leyndardómar frá þjáningunni í grasgarðinum á Olífufjallinu, fram að krossfestingunni, en hinir dýrðarríku leyndardómar ná frá upprisuundri páskanna til krýningar Maríu.

Líkast til var verk Bibers upphaflega flutt sem hluti af rósakransbænargjörð safnaðarins, þar sem hver sónata var flutt eftir hvern viðeigandi þátt bænanna.

Rósakransinn

Rósin er meðal tákna fyrir Guðs móður. Rósakransinn er bæn sem hefur Maríu sem viðmælanda. Rósakransinn er íhugandi bæn, þar sem biðjandinn setur sér fyrir sjónir atburði í lífi Jesú Krists.

Upphaf rósakrossins er oft rakið til heilags Dominicusar.(1170-1221) Hugmyndin að baki hans er að gefa þeim sem ekki kunnu að lesa, leiðbeiningu til bænar sem auðvelt væri að læra utanað í stað þess að lesa og syngja sálma Saltarans, eins og venja var.

Fyrst í stað var einungis beðið Faðir vor, 50 eða 100 sinnum í röð.

Til þess að halda tölunni var notað perluband. Heitið rósakrans varð svo síðar bæði heiti bænanna sem lesa átti og perlubandsins sem minnti á fjöldann. Bænirnar sem mynda grunninn í rósakransinum eru auk Faðir vor, bænin Heil sért þú María, eða Ave María og Dýrðarsöngurinn minni, Dýrð sé Guði, Föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Við þessar bænir bætast síðan áminningar um atriði í lífi Jesú Krists og Maríu Guðs móður, svokallaðir leyndardómar.

Bænin er þá beðin þannig, að bænin hefst eins og venja er : Heil sért þú María, full náðar. Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna; og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús. … og svo kemur hið sérstaka hugleiðingarefni.

Bænin og íhugunarefnið, eru endurtekin tíu sinnum hvert. Tíunda skiptinu lýkur með lofgjörðinni: Dýrð sé Guði Föður og Syni og Heilögum Anda. etc. Síðan fylgir bænin: Jesús, fyrirgef oss syndir vorar og Faðir vor. Þá fylgir næsta íhugunarefni.

Það er fyrst og fremst hin djúpa íhugun þessara leyndardóma sem gefur rósakransinum sína eiginlegu merkingu.

Alls eru þessir leyndardómar eða íhugunarefni fimmtán í þrem köflum . Fyrst eru hinir gleðilegu leyndardómar, þá hinir þjáningarfullu og síðast hinir dýrðarríku. In rosario gaudioso, in rosario doloroso, in rosario glorioso. Allir byggja þeir á ákveðnum ritningarstöðum, nema kanski tveir hinir síðustu.

Það er nokkuð víst, að Biber hafði þessa texta til hliðsjónar við samningu sónatanna.

Mælt er með því að þessir textar séu lesnir á undan flutningi hverrar sónötu og verður svo gert í flutningi útvarpsins.

Sonata 1. Boðun Maríu

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús

sem þú ó, meyja varðst þunguð að fyrir heilagan anda

Lúkasarguðspjall 1:26-38
En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María.
Og engillinn kom inn til hennar og sagði: Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.
En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri.
Og engillinn sagði við hana: Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ.
Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða. Þá sagði María við engilinn: Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?

Og engillinn sagði við hana: Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, en Guði er enginn hlutur um megn. Þá sagði María: Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum. Og engillinn fór burt frá henni.

Sonata 2. Heimsókn Maríu til Elisabetar

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús

sem þú ó, meyja barst til Elisabetar

Lúkasarguðspjall 1:40-55
Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu.
Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda
og hrópaði hárri röddu: Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns.
Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín?
Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu.
Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni.
Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.

Sonata 3.Fæðingin

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður er ávöxtur kviðar þíns Jesús,

sem þú, ó, meyja fæddir í Betlehem.

Lúkasarguðspjall 2:6-20
En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.
Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.
Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,
en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.
Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.
Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss.
Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu.
Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta.
Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim.
En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.
Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

Sonata 4. Barnið Jesús borið til musterisins

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður er ávöxtur kviðar þíns Jesús,

sem þú, ó meyja, færðir Drottni í musterinu.

Lúkasarguðspjall 2:21-39
Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi.
En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni,
en svo er ritað í lögmáli Drottins: Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,
og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur.
Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi.
Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins.
Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins,
tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:
Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér,
því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,
ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.
Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann.
En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt,

og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.
Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær
og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.
Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.
Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret.

Sonata 5 Jesús 12 ára í musterinu

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

sem þú, ó, meyja, fannst aftur í musterinu.

Lúkasarguðspjall 2:41-51
Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni.

Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni.
Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi.
Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja.
En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.
En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.
Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.
Og hann sagði við þau: Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?
En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.

Sonata 6 Kristur á Olífufjallinu

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús …. hann sem fyrir oss sveittist blóði.

-

Matteusarguðspjall 26:36-46
Þá kemur Jesús með þeim til staðar, er heitir Getsemane, og hann segir við lærisveinana: Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna.

Hann tók með sér þá Pétur og báða sonu Sebedeusar. Og nú setti að honum hryggð og angist.
Hann segir við þá: Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið með mér.
Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.
Hann kemur aftur til lærisveinanna og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund?
Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.
Aftur vék hann brott annað sinn og bað: Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist, að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji. Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra. Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr. Og hann kom til lærisveinanna og sagði við þá: Sofið þér enn og hvílist? Sjá, stundin er komin og Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna.

Standið upp, förum! Í nánd er sá, er mig svíkur.

Sonata 7 Húðstrýkingin

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús,

hann sem fyrir oss var húðstýktur

Matteusarguðspjall 27:26

Þá gaf hann þeim Barabbas lausan, en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.

Sonata 8 Þyrnikórónan

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

hann sem fyrir oss var krýndur þyrnum.

Matteusarguðspjall 27:28-29

Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu, fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: Heill þú, konungur Gyðinga!

Sonata 9 Jesús ber krossinn

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

hann sem fyrir oss bar hinn þunga kross.

Lúkasarguðspjall 23. 26-32
Þegar þeir leiddu hann út, tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene, er kom utan úr sveit, og lögðu krossinn á hann, að hann bæri hann eftir Jesú.En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu.Jesús sneri sér að þeim og mælti: Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar.Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu.Þá munu menn segja við fjöllin:Hrynjið yfir oss!og við hálsana:Hyljið oss!

Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?
Með honum voru og færðir til lífláts aðrir tveir, sem voru illvirkjar.

Sonata 10 Krossfestingin

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

hann sem fyrir oss var krossfestur.

Lúkasarguðspjall 23:33-46
Og er þeir komu til þess staðar, sem heitir Hauskúpa, krossfestu þeir hann þar og illvirkjana, annan til hægri handar, hinn til vinstri.
Þá sagði Jesús: Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra. En þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér.
Fólkið stóð og horfði á, og höfðingjarnir gjörðu gys að honum og sögðu: Öðrum bjargaði hann, bjargi hann nú sjálfum sér, ef hann er Kristur Guðs, hinn útvaldi.Eins hæddu hann hermennirnir, komu og báru honum edik og sögðu: Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér.

Yfirskrift var yfir honum: ÞESSI ER KONUNGUR GYÐINGA. Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur! En hinn ávítaði hann og sagði: Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi? Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst. Þá sagði hann: Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!

Og Jesús sagði við hann: Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.

Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns, því sólin missti birtu sinnar. En fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju. Þá kallaði Jesús hárri röddu: Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn! Og er hann hafði þetta mælt, gaf hann upp andann.

Sonata 11 Upprisan

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

hann sem er upprisinn frá dauðum.

Lúkasarguðspjall 24:1-12
En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu út búið. Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi. Og þær minntust orða hans sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki.
Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.

Sonata 12 Uppstigningin

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður er ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

hann sem er stiginn upp til himna.

Lúkasarguðspjall 24:50-51

Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá.
En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins.

Sonata 13 Hvítasunnan

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður er ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

hann sem oss hefur sent hinn heilaga anda.

Postulasagan 2:1-4

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir.
Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru.
Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra.
Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

Sonata 14 Himnaför Maríu

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

hann sem tók þig María inn í himininn.

Himnaför Maríu byggir ekki á frásögn Nýja Testamentisins, en er sterkur þáttur í trú stórs hluta kristninnar. María Guðsmóðir, er móðir Guðs sonar, og fyrimynd kirkjunnar, – en hún er meira en það. Söfnuðurinn, kirkjan, er líkami Krists á jörð.

Guðs Sonur Jesús Kristur er sonur Maríu, og María er móðir kirkjunnar.

Opinberunarbókin 12:1
Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar,

María er tákn kirkjunnar, sem rís upp með Kristi.

1. Korintubréf 15:20
En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.

Sonata 15 Krýning Maríu

Heil vert þú María full náðar, Drottinn er með þér. Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ere ávöxtur kviðar þíns Jesús ….

hann sem krýndi þig María á himnum.

Svo segir í Opinberunarbókinni um konuna sem klædd var sólinni:

Opinberunarbókin 12.1

og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.

Og á öðrum stað er ritað:

Opinberunarbókin 2:10.c

Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

……………………………………………………

Rósakranssónötunum fimmtán lýkur á passakagliu fyrir einleiksfiðlu.

Henni fylgir engin tilvitnun í ritninguna enda er hún ekki beinlínis hluti rósakransins
Hún er einfaldlega niðurlag.

Eina tilvitnunin í nótnahandritinu er mynd af verndarengli sem leiðir barn. Ef til vill er það vegna þess að Rósakransinn var fastur hluti messudags verndarenglanna. 2.október.

Í textum þess dags segir:

2. M 23.20-23

Sjá, ég sendi engil á undan þér til að varðveita þig á ferðinni og leiða þig til þess staðar, sem ég hefi fyrirbúið.Haf gát á þér fyrir honum og hlýð hans röddu, … mitt nafn er í honum. Engill minn skal ganga á undan þér og leiða þig

Matteusarguðspjall 18:5,10

Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.
Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður.

Biber byggir passakaglíuna á fyrstu fjórum nótunum í sálmi sem algengur var á hans tíma,
og sunginn á degi verndarenglanna.
Það er sálmurinn Einen Engel Gott mir geben.

Bara að Guð gæfi mér verndarengil.

url: http://kvi.annall.is/2004-04-10/21.18.00/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Axel Árnason @ 16/4/2004 00.36

Ég missti af þessum flutningi og vert væri að gefa þetta út á geisladisk. Hins vegar á ég á spólu sambærilegan flutning sem ég tók einhvern tímann upp í Rúv og þá var útvarpað frá Skálholti. Lestur sr. Guðmundar Óla er mér ógleymalegur, það er eins og hann lesi -svona rétt eins og tilheyrandi þessari tónlist. Ég er samt viss um að það hefði verið unun að hlusta á lestur sr. Kristjáns Vals. Hvað ætli það kosti að fá að gefa þetta úr? Ég ætti kannski að kíkja undir koddann!

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli