kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Æðstapreststbænin. · Heim · Það er fullkomnað. Predikun á föstudaginn langa. »

Guðsþjónusta á föstudaginn langa á Þingvöllum

Kristján Valur @ 19.05 9/4/04

Í dag var guðsþjónusta á Þingvöllum kl.14.00. Hópur kvenna sem starfað hefur að málefnum kristninnar í landinu undir heitinu: Systur í Kristi undirbjó guðsþjónustuna og annaðist lestra og bænir. Guðsþjónustan var upphaf að bænagöngu þeirra um Þingvelli:

Guðsþjónusta á föstudaginn langa

P Í nafni Guðs + föður og sonar og heilags anda
S Amen
P Hjálp vor kemur frá Drottni
S Skapara himins og jarðar.

Játning

P Ég játa fyrir almáttugum Guði, og fyrir yður, bræður og systur, að ég hefi syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. Ég játa mína miklu skuld. Því bið ég yður, biðjið fyrir mér til Drottins Guðs vors.
S Almáttugur Guð miskunni þér, hann fyrirgefi þér synd þína og leiði þig til eilífs lífs.
P Amen.
S Vér játum fyrir almáttugum Guði, og fyrir þér, að vér höfum syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. Vér játum vora miklu skuld. Því biðjum vér þig, bið fyrir oss til Drottins Guðs vors.
P Almáttugur Guð miskunni yður, hann fyrirgefi yður syndir yðar og leiði yður til eilífs lífs.
S Amen
A Nem frá oss Drottinn, syndir vorar og lát oss koma saman til þessarar guðsþjónustu með hreinum vörum og trúföstum hjörtum. Fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen

Inngöngusálmur

Sálmur 138

Kem ég nú þínum krossi að,
kannastu, Jesús minn, við það,
syndanna þunginn þjakar mér,
þreyttur ég nú að mestu er.

Þar við huggar mín sála sig,
svoddan allt leiðstu fyrir mig,
þíns hjartadreyra heilög lind
hreinsar mig vel af allri synd.

Krossins burt numinn kvölum frá,
kóngur ríkir þú himnum á.
Herra, þá hér mig hrellir pín,
hugsaðu’ í þinni dýrð til mín.

Hallgrímur Pétursson (Ps. 40)

P: Heyrið spádóm Hósea (5. 15b – 6. 6.)

Ég mun fara burt og hverfa aftur á minn stað, uns þeir kannast við afbrot sín og leita míns auglitis. Þegar að þeim þrengir, munu þeir snúa sér til mín. Komið, vér skulum hverfa aftur til Drottins, því að hann hefir sundur rifið og mun lækna oss, hann hefir lostið og mun binda um sár vor.
Hann mun lífga oss eftir tvo daga og reisa oss upp á þriðja degi, til þess að vér lifum fyrir hans augliti.Vér viljum og þekkja, kosta kapps um að þekkja Drottin hann mun eins áreiðanlega koma eins og morgunroðinn rennur upp svo að hann komi yfir oss eins og regnskúr, eins og vorregn, sem vökvar jörðina.Hvað skal ég við þig gjöra, Efraím, hvað skal ég við þig gjöra, Júda, þar sem elska yðar er eins hvikul og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur? Fyrir því verð ég að vega að þeim fyrir munn spámannanna, bana þeim með orði munns míns, og fyrir því verður dómur minn að birtast eins óbrigðult og dagsljósið rennur upp. Því að á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum

Miskunnarbæn
P Látum oss ákalla um miskunn þann sem bar syndir vorar á líkama sínum upp á krossins tré.

Biðjum:
P Drottinn, miskunna þú oss.
S Drottinn, miskunna þú oss.
P Kristur, miskunna þú oss.
S Kristur, miskunna þú oss.
P Drottinn, miskunna þú oss.
S Drottinn, miskunna þú oss.

Heilsan og kollekta
P Drottinn sé með yður
S og með þínum anda.
P Biðjum.
Almáttugur eilífur Guð. Þú sem lést son þinn líða kvöl á krossi, svo að þú mættir hrekja brott frá oss veldi óvinarins. Vér biðjum þig. Hjálpa oss til að minnast þjáninga hans í trú og eignast fyrirgefningu syndanna og frelsun frrá eilífum dauða, fyrir þann sama son þinn, Drottin vorn Jesú Krist sem með þér í einingu heilags anda lifir og ríkir um aldir alda.
S Amen.

Ritningarlestrar
P Sonur Guðs gaf sig í dauðann fyrir oss í fullkominni hlýðni við föðurinn.
Heyrið orð spámannsins Jesaja um hinn líðandi þjón.
Jesaja 52. 13 – 53. 12

Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn. Eins og margir urðu agndofa af skelfingu yfir honum svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum eins mun hann vekja undrun margra þjóða, og konungar munu afturlykja munni sínum fyrir honum. Því að þeir munu sjá það, sem þeim hefir aldrei verið frá sagt, og verða þess áskynja, er þeir hafa aldrei heyrt.Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber? Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð. Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann. Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum. Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum. Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það? Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða. Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans. En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða. Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra.
Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.

P Heyrið vitnisburð postulans Péturs.
1.Pétursbréf.2. 19-25

Ef einhver þolir móðganir og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð, þá er það þakkar vert.Því að hvaða verðleiki er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum vegna misgjörða? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.
Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.
Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.
Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.
Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir.
Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.

Sálmur 132

Hvað hefur þú, minn hjartkær Jesús, brotið,
af hverju dóm svo þungan bíða hlotið?
Hvers vegna hlýtur hegning þú að líða
svo harða’ og stríða?

Hve undarlegt! Í staðinn sinna sauða
er sjálfur leiddur hirðirinn til dauða,
og Herrann réttvís þess með þjáning geldur,
er þrællinn veldur.

Ó, Drottinn hæsti, hirðir sálna kæri,
með hverju get ég lofað þig sem bæri?
Ég á ei neitt, er helgri hátign þinni
rétt hæfa kynni.

Ó, styrk þú mig, svo veg þinn vel ég feti,
ei veröld neins og hennar gæði meti,
ei láti framar hold og heim mig villa
og hjarta spilla.

Þér trúan lát mig lífs til enda vera,
svo lífsins krónu’ eg síðar megi bera
og lofa þig í himna dýrðarhöllum
með hólpnum öllum.
Helgi Hálfdánarson

Guðspjall Jóh.19.16-30

Þá seldi hann þeim hann í hendur, að hann yrði krossfestur. Þeir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.”Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið.” Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga. Pílatus svaraði: Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað. Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann. Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn.Þetta gjörðu hermennirnir. En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: Kona, nú er hann sonur þinn. Síðan sagði hann við lærisveininn: Nú er hún móðir þín. Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín. Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: Mig þyrstir. Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: Það er fullkomnað. Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

Trúarjátning

Sálmur 145

Ó, höfuð dreyra drifið,
er drúpir smáð og pínt,
af höndum þræla þrifið
og þyrnum sárum krýnt,
ó, heilagt höfuð fríða,
er himnesk lotning ber,
en háðung hlaust að líða,
mitt hjarta lýtur þér.

Þú auglit allra skærast,
í upphæð vegsamað,
þú yndið engla kærast,
hví ertu hrækt og spjað?
Hví ertu þannig þjakað,
að þekkjast mátt ei nú?
Hví svo af böðlum blakað,
að blikna hlýtur þú?

Af blygð og harmi hrelldur
ég, Herra, játa má:
Mín syndasekt því veldur,
hún sárt þig lagðist á.
Sjá, hér ég er, sem hefi
þig hrakið, pínt og smáð.
Þín miskunn mér þó gefi,
að megi’ eg öðlast náð.

Æ, virstu við mig kannast,
svo vondur sem ég er,
og sauð þinn auman annast,
sem einatt villur fer.
Mér virstu særðum svala
í sálar þungri neyð,
æ, virstu við mig tala
og vísa’ á rétta leið.

Ég vil þar vera hjá þér,
er veit ég píndan þig,
og eigi fara frá þér.
Æ, fyrirlít ei mig.
Er dauðans svefn fær sigið
á signað auga þitt,
ég vil þitt höfuð hnigið
við hjartað leggja mitt.

Af hjarta þér ég þakka,
að þyngstan kvaladeyð
þú ljúft þér lést að smakka,
svo leystir mig úr neyð.
Lát, Kristur kærleiksríkur,
ei kulna trú hjá mér,
en loks er ævi lýkur,
mig lát þú deyja’ í þér.

Paul Gerhardt – Helgi Hálfdánarson

Predikun

Sálmur (Einsöngur án undirleiks)

Sálmur 143

Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Í gegnum móðu’ og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað. -
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

Almenn kirkjubæn

P Biðjum saman í Jesú nafni.
D Bræður og systur. Biðjum saman undir krossi frelsarans fyrir heilagri kirkju hans, að Drottinn vor og Guð gefi henni sinn frið, hvar sem hún er á jörðu, að hann tengi hana saman til eins líkama og varðveiti hana, að hann sigri andstæðinga hennar og óvini og gjöri þá að vinum hennar, svo að vér getum hvar sem er um víða veröld tilbeðið og heiðrað vorn almáttuga föður.
Látum oss biðja:
P Almáttugur, eilífur Guð, þú hefur opinberað dýrð þína öllum þjóðum í syni þínum og frelsara vorum , Drottni Jesú Kristi. Varðveit öll verk miskunnar þinnar svo að kirkja þín megi breiðast út um alla jörð, þjóni þér í staðfastri trú og varðveiti játningu þíns heilaga nafns. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

S Drottinn, heyr vora bæn.

D Látum oss biðja fyrir öllum hirðum og kennurum kirkjunnar og fyrir öllum lýð Guðs, að eilífur Guð láti orð sitt bera ávöxt í hjörtum vorum, og að vér, styrkt í sannri trú, og fyllt anda kærleikans megum vakna til játningar vonarinnar.
Látum oss biðja:

P Almáttugur, eilífur Guð, þú sem með anda þínum stjórnar kirkju þinni og helgar hana, heyr grátbeiðni vora er vér biðjum fyrir öllum þjónum þínum, að þeir með fulltingi náðar þinnar megi kalla saman söfnuð þinn, að hann þjóni þér viljuglega og heiðri og lofi þig. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

S Drottinn, heyr vora bæn.

D Látum oss biðja fyrir þjóð vorri og fósturjörð, fyrir þeim sem stjórna málum þjóðarinnar og fyrir ráðgjöfum þeirra, að þau sinni embætti sínu í ótta Guðs og að ráð þeirra verði þjóðinni til heilla. Látum oss biðja um frið í heiminum og um að ríki Guðs komi.

Látum oss biðja:

P Almáttugur, eilífur Guð, í þinni hönd er allt vald og allur máttur. Þú kallar þjóðirnar fram og leiðir þær eftir ráðsályktun þinni og vilja þínum. Lít í náð þinni til lands vors og lýðs, gef öllum sem stjórna málum vorum, auðmjúkt og skynsamt hjarta, hyggileg ráð og gagnlegar tillögur og rétt verk og lát frið og einingu ríkja meðal þjóðanna. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

S Drottinn, heyr vora bæn.

D Bræður og systur, látum oss biðja til Guðs, hins almáttuga föður, að hann frelsi heiminn frá illu, taki burtu illar pestir og farsóttir, hindri hungrið, opni dyflissurnar, brjóti hlekkina, vísi hinum villtu heim, gefi sjúkum heilbrigði og bjargi þeim sem eru í neyð og hættu.

Látum oss biðja:

P Almáttugur, eilífur Guð, þú sem ert huggun hinum sorgmæddu, gleði hinum döpru, og styrkur hinum þjáðu, ljá eyra þitt öllum þeim sem til þín hrópa í neyð sinni og gef þeim að gleðjast í miskunn þinni. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

S Drottinn, heyr vora bæn.

D Látum oss biðja fyrir þeim sem fjarri eru hjálpræðinu í Kristi, að Guð, Drottinn gefi blindum sýn og daufum heyrn, svo að þeir þekki Drottin vorn Jesú Krist og snúi sér til hins lifandi Guðs.

Látum oss biðja.

P Almáttugur, eilífur Guð. Þú hefur undirbúið þjóðirnar margvíslega fyrir ráðsályktun endurlausnar þinnar og hefur safnað saman kirkju þinni meðal gyðinga og heiðingja, vér biðjum þig. Tak bindið frá augum þeirra sem ekki þekkja ljós sannleika þíns og steyp falsguðunum af stóli svo að þjóðirnar verði hrifnar út úr myrkrinu og snúi sér til hins sanna ljóss, sem er Drottinn Jesús Kristur. Safna saman því sem er aðskilið og sundrað, til þinnar heilögu kirkju, syni þínum til lofs og dýrðar, honum sem þoldi dauða á krossi vegna þeirra allra. Fyrir þann sama Drottin vorn Jesú Krist, ssem með þér í einingu heilags anda lifir og ríkir að eilífu.

S Amen.

Faðir vor

A Faðir vor, þú, sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni, gef oss í dag vort daglegt brauð og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum, eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

Blessun

Sálmur

Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst,
viska, makt, speki og lofgjörð stærst
sé þér, ó, Jesús, Herra hár,
og heiður klár.
Amen, amen um eilíf ár

Hallgrímur Pétursson (Ps. 50)

url: http://kvi.annall.is/2004-04-09/19.05.18/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli