kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Aftur kemur vor í dal (Dal). · Heim · Æðstapreststbænin. »

Messa á þriðjudagskveldi í kyrruviku

Kristján Valur @ 19.45 7/4/04

Hér er messan á þriðjudagskveldi í Langholtskirkju. Hún hafði sem megintema æðstaprestsbæn Jesú Krists í Jh.17. Syndajátningin var með öðru sniði, og samkvæmt eldra sið.

Messa
þriðjudag í kyrruviku
Æðstaprestbænin

Upphaf

P Í nafni Guðs + föður og sonar og heilags anda.
A Amen.
P Hjálp vor kemur frá Drottni.
A Skapara himins og jarðar.

Syndajátning

P Ég játa fyrir Guði almáttugum, allri hinni heilögu kirkju og yður, bræður og systur, að ég hef syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. Ég játa mína skuld, mína skuld, mína miklu skuld. Því bið ég yður: Biðjið fyrir mér til Guðs, Drottins vors.

A Almáttugur Guð miskunni þér. Hann fyrirgefi þér syndir þínar og leiði þig til eilífs lífs. P Amen.

A. Vér játum fyrir Guði almáttugum, allri hinni heilögu kirkju og fyrir þér, að vér höfum syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. Vér játum vora skuld, vora skuld, vora miklu skuld. Því biðjum vér þig: Bið fyrir oss til Guðs, Drottins vors.

P Almáttugur Guð miskunni yður. Hann fyrirgefi yður syndirnar og leiði yður til eilífs lífs. A Amen.

P Látum oss biðja:
Drottinn Guð, nem frá oss syndir vorar og veit oss að halda þessa guðsþjónustu með hreinum vörum og einlægum hjörtum og innganga til helgidóms þíns, fyrir Drottin vorn Jesú Krist.

A Amen

Inngöngusálmur: Sb 574

Þeir léðu’ honum jötu í fjárhúsi fyrst
og fóðurhálm undir kinn.
Þeir sóttu’ honum asna annars manns
til innreiðar hinsta sinn.
En krossinn þungi og þyrnanna krans var hans.

Hann fékk sér til láns þegar fólkið var svangt,
þau föng sem hann blessaði’ og gaf:
Tvo fiska og brauðin fimm sem hans lið
á fjallinu mettaðist af.
En krossinn þungi og þyrnanna krans var hans.

Af lánaðri fleytu hann flutti sitt orð
þeim fátæku’ á gleymdum stað.
Hann eignaðist hvergi neitt hæli á jörð
að halla sér þreyttum að.
En krossinn þungi og þyrnanna krans var hans.

Og loks fékk hann herbergi lánað eitt kvöld,
er liðinn var starfsdagur hans,
og legstaður hans var lánuð gröf
í landi framandi manns.
En krossinn þungi og þyrnanna krans var hans.

En þegar ég hugsa um kvalanna krans
og krossinn hans, eins og hann var,
þá finn ég og veit að það var ekki hans,
það var heldur mitt, sem hann bar,
að krossinn, sem frelsarinn kallaði sinn, var minn.

Bolander – Sigurbjörn Einarsson

Miskunnarbæn

(Forsöngvari syngur fyrir, söfn svarar)

Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, miskunna þú oss.
Drottinn, miskunna þú oss.

Bæn dagsins

P Drottinn sé með yður.
A Og með þínum anda.

P Látum oss biðja.
Drottinn, þú sem kallar oss til að afneita sjálfum oss, vér bipjum þig: Veit oss náð að fylgja krossferli þínum og finna í freistingunum styrk hjá þér, sem lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
A: Amen.

Lexian Sl 113.1-4

Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Lesari: Þannig hljóðar hið heilaga orð.
Guði sé þakkargjörð.

Pistill: Róm. 8. 24- 28a
Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér?
En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði.
Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið.
En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs.
Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs.

Lesari: Þannig hljóðar hið heilaga orð.
Dýrð sé þér Drottinn.

Sálmur Sb 125

Víst er ég veikur að trúa,
veistu það, Jesús, best,
frá syndum seinn að snúa,
svoddan mig angrar mest.
Þó framast það ég megna
þínum orðum ég vil
treysta og gjarnan gegna,
gef þú mér náð þar til.

Hallgrímur Pétursson (Ps. 15)

Guðspjall:Jóh. 17

P Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Jóhannes
Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilegan boðskap

Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: Faðir, stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan.
Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum, að hann gefi eilíft líf öllum þeim, sem þú hefur gefið honum.
En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.
Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.
Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.
Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir, og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð.
Þeir vita nú, að allt, sem þú hefur gefið mér, er frá þér,
því ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn, og trúa því, að þú hafir sent mig.
Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir,
og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn.
Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við.
Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og
enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist.
Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn.
Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.
Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.
Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.
Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.
Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn.
Ég helga mig fyrir þá, svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.
Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra,
að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.
Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt,
ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.
Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims.
Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig.
Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.

P: Þannig hljóðar hið heilaga guðspjall

Guði sé þakkargjörð

Predikun

Sálmur

Almenn bæn

Vér sem erum hér saman komin í samfélaginu um borð Drottins til að halda hátíð hins nýja sáttmála skulum nú biðja í friði til Drottins.
Drottinn minnstu safnaðar þíns
sem þú hefur frá upphafi valið þér.

Vér biðjum fyrir öllum kristnum bræðrum og systrum.
Hjálpa þú Drottinn þínum trúu sem á þig treysta.

Sjá, ásamt oss fagnar gjörvöll kirkjan meðal allra þjóða.
Heyr ákall hennar og gef henni sátt og einingu og frið.

Lít í náð til þeirra allra sem þú hefur sett til hirðisþjónustu í kirkju þinni, lít til þjóna safnaðar þíns og á öll þín börn.
Minnstu þjóðar vorrar og föðurlands vors og lát réttlæti og frið ríkja meðal allra þjóða.
Minnstu þeirra sem valin eru til stjórnar og ábyrgðar meðal vor og ráðgjafa þeirra. Gef þeim anda ráðsnilldar, visku og ótta þíns heilaga nafns og lát áform þeirra þjóna heill fólksins.
Minnst þú barna vorra og alls æskufólks, brúðhjóna og allra hjóna sem og allra þeirra sem þjóna þér í einlífi, minnstu ekkla og ekkna og hinna munaðarlausu, minnstu þeirra sem eru einmana eða yfirgefin , vonlaus og uppgefin..
Drottinn vér minnumst þeirra sem oss eru tengd og skyld og nefnum nöfn þeirra í hljóði.

Send þeim öllum sem vér minnumst fyrir augliti þínu hjálp úr þínum helgidómi
og styrk þau í náð.

Vér minnumst þeirra sem sofnuð eru í þér, þau hvíli í friði og þitt eilífa ljós lýsi þeim.
Uppfyll oss með himneskri blessun svo að vér séum einn líkami í Kristi og dveljum ætíð í honum og hann í oss.

Leið oss og þau öll sem við áköllum þig fyrir til hinnar fullkomnu gleði í ríki þínu. Amen

Friðarkveðja
(Prestur kynnir friðarkveðjuna. Eftir svarið: og með þínum anda, er friðarkveðjan látin ganga milli allra með því að sérhver leggur báðar hendur sínar í lófa annars og segir: Friður sé með þér (svar) og með þér.

P Verið einhuga í samfélaginu við Drottin. Leggið af ágreining og hræsni. Fyrirgefið eins og yður er fyrirgefið. Takið hvert annað að yður eins og Kristur hefur tekið yður að sér Guði til vegsemdar.

Friður Drottins sé með yður
A Og með þínum anda.

Sálmur Sálmur 587

Á meðan sálmurinn er sungin gengur samskotakarfa. Prestur tilreiðir brauð og vín.

Vér lofum þig, Kristur, sem kemur og ert meðal þinna,
vér tilbiðjum undrið, að oss viltu muna og finna.

Og allt það, sem spillti vor uppreisn gegn þér, viltu bæta,
því dauðinn í oss þínu upprisulífi skal mæta.

Sem þjónn vor og bróðir hér ertu og allt viltu gefa
oss börnunum snauðum og blindum af vantrú og efa.

Það líf, sem oss týndist, þín trúfesti aftur oss gefur,
þú gefur þig sjálfan við borðið, sem blessað þú hefur.

Og vér, sem þig svikum, í lofsöng og fögnuði færumst
frá dauða til lífs, er vér þiggjum og neytum og nærumst.

Vér tilbiðjum undrið, að oss viltu muna og finna,
vér lofum þig, Kristur, sem kemur og ert meðal þinna.

Ellingsen – Sigurbjörn Einarsson

Prestur tekur við samskotakörfunni, leggur hana á altarið og biður:

Bæn
Vér þökkum þér himneski Faðir fyrir gjafirnar sem þú treystir oss fyrir. Vér biðjum þig að blessa þær og gefa oss náð til þess að vér í krafti kærleika þíns þjónum þér og systkinum vorum fyrir Jesú Krist Drottin vorn. A. Amen

Af gnótt gjafa þinna berum vér fram þetta brauð og þetta vín í heilagri minningu fæðingar Drottins, pínu hans,dauða og upprisu, svo að vér í kirkju þinni megum fagna í árdagsbirtu hinnar nýju sköpunar.

Allt hefur þú skapað samkvæmt velþóknan vilja þíns. Þú gefur manninum mat og drykk, að hann lofi þig ásamt öllu því, sem þú hefur skapað. Því leggjum vér gjafirnar sem vér þiggjum af gæsku þinni, á altarið og biðjum þig: Lít eigi á syndir vorar, heldur á flekklausa fórn sonar þíns og meðtak oss í náð. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

A. Amen.

Þakkargjörðin

P Drottinn sé með yður. A Og með þínum anda.
P Lyftum hjörtum vorum til himins. A Vér hefjum þau til Drottins.
P Látum oss þakka Drottni Guði vorum. A Það er maklegt og réttvíst.
P Sannlega er það maklegt og réttvíst, skyldugt og mjög hjálpsamlegt,
að vér alla daga og á öllum stöðum lofum þig og þökkum þér,
þú heilagi Drottinn, almáttugi faðir og eilífi Guð fyrir Jesú Krist Drottin vorn.
Því að hann elskaði oss og gaf líf sitt til lausnargjalds fyrir oss
og sakir dauða hans urðum vér sætt við þig.
Þess vegna með englunum og höfuðenglunum,
með tignunum og drottinvöldunum, sömuleiðis ásamt öllum himneskum hirðsveitum
lofum vér þitt heilaga nafn óaflátanlega segjandi:

Heilagur heilagur, heilagur ert þú Drottinn, Guð allsherjar.
Himnarnir og jörðin eru full af dýrð þinni.
Hósíanna í upphæðum. Blessaður sé sá sem kemur í
nafni Drottins. Hósíanna í upphæðum.

Þakkarbæn

Sannlega ert þú heilagur, Drottinn, og með réttu lofar þig allt, sem þú hefur skapað.
Þú hefur lífgað allt og helgað með heilögum anda þínum fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.
Vér biðjum þig: Veit viðtöku lofgjörðarfórn vorri og gef,
að þessar gjafir þínar, brauð og vín verði oss
hinn blessaði líkami og blóð sonar þíns eftir heilögu boði hans.

Drottinn vor Jesús Kristur tók brauðið nóttina sem hann var svikinn
gjörði þakkir og braut það og gaf sínum lærisveinum og sagði:
Takið og etið, þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn.
Gjörið þetta í mína minningu.

Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn,
gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði:
Drekkið allir hér af, þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði,
sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna.
Gjörið þetta svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.

Þess vegna minnumst vér með tilbeiðslu vorri, að hann elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss,
sigraði dauðann í upprisu sinni og er allt vald gefið á himni og á jörðu.
Vér biðjum þig: Send oss þinn heilaga anda og sameina oss í staðfastri trú og kærleika,
fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn.
Fyrir hann, með honum og í honum sé þér almáttugi faðir,
í einingu heilags anda, heiður og dýrð í heilagri kirkju þinni um aldir alda.

A: Amen.

A: Faðir vor, þú sem ert á himnum. …. að eilífu. Amen.

Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem sem burt ber heimsins synd. Miskunna þú oss,
Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem sem burt ber heimsins synd. Miskunna þú oss.
Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem sem burt ber heimsins synd. Gef oss þinn frið.

Berging

Þau sem neyta sakramentisins mynda hálfhring um altarið. Þau meðtaka brauðið í opinn lófa sinn og bergja af kaleik eða ef þau kjósa heldur dýfa sjálf brauði í vínið.

Þegar prestur hefur innleitt berginguna með orðunum: Brauðið sem vér brjótum er samfélag um líkama Krists og sá bikar blessunarinnar sem vér blessum er samfélag um blóð Krists, segir söfnuðurinn:

Drottinn, ég er þess eigi verður að þú gangir undir þak mitt
en seg það aðeins með orði þá mun sál mín verða heil.

Bæn eftir bergingu

P Látum oss þakka og biðja.
Vér þökkum þér himneski faðir, að þú hefur mettað oss þessari hjálpsamlegu gjöf.
Vér biðjum þig: Lát þessa heilögu máltíð minna oss á,
að þú fyrir dauða sonar þíns hefur gefið oss lífið.
Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn,
sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda,
einn sannur Guð um aldir alda.

A Amen

Blessun

P Þökkum Drottni og vegsömum hann.
A Drottni sé vegsemd og þakkargjörð.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.
Drottinn láti sínu ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Amen.

Sálmur. Sb 41

Víst ertu, Jesús, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór

Ó, Jesús, það er játning mín,
ég mun um síðir njóta þín,
þegar þú, dýrðar Drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.

Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm,
fagnaðarsælan heyri’ eg róm.
Í þínu nafni útvaldir
útvalinn kalla mig hjá sér.

Kóng minn, Jesús, ég kalla þig,
kalla þú þræl þinn aftur mig.
Herratign enga’ að heimsins sið
held ég þar mega jafnast við.

Jesús, þín kristni kýs þig nú,
kóngur hennar einn heitir þú.
Stjórn þín henni svo haldi við,
himneskum nái dýrðar frið.

Hallgrímur Pétursson (Ps. 27)

url: http://kvi.annall.is/2004-04-07/19.45.22/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli