kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Pálmasunnudagur – helgihald · Heim · Predikun í messu laugardag fyrir Pálmasunnudag. »

Helgihald á mánudegi í kyrruviku

Kristján Valur @ 18.10 2/4/04

Á mánudegi í kyrruviku eða dimbilviku er aftansöngur kl. 18.00 í Langholtskirkju. Síðan er gengið um Sogamýri í átt að Elliðaám.

Mánudagur kl 18.00.
Aftansöngur á mánudagskvöldi í kyrruviku

Upphaf

Dagur er liðinn og verkalok nálgast. / Kyrrð kvöldsins færist yfir. / Drottinn er í nánd./ Lútum höfði í auðmýkt / og minnumst þess að vér erum frammi fyrir augliti Guðs./

A: Kvöldbæn vor stígi upp til þín Drottinn / en miskunn þín niður til vor./ Þinn er dagurinn og þín er nóttin. / Lát ljós sannleika þíns lýsa oss er dimmir. / Leið oss til hvíldar næturinnar / og um síðir til eilífrar fullkomnunar.

Kvöldsálmur úr sálmabók Sb 594

Ó, vef mig vængjum þínum
til verndar, Jesús hér,
og ljúfa hvíld mér ljáðu,
þótt lánið breyti sér.
Vert þú mér allt í öllu,
mín æðsta speki’ og ráð,
og lát um lífs míns daga
mig lifa’ af hreinni náð.

Tak burtu brot og syndir
með blóði, Jesús minn,
og hreint mér gefðu hjarta
og helgan vilja þinn.
Mig geym í gæslu þinni.
Mín gæti náð þín blíð,
að frið og hvíld mér færi
hin fagra næturtíð.

Magnús Runólfsson

Játning

Vér játum fyrir Guði almáttugum / að vér höfum syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. / Vér játum vora skuld / vora skuld / vora miklu skuld.
A: Almáttugur Guð miskunni oss./ Hann fyrirgefi oss syndir vorar og leiði oss til eilífs lífs.
Fyrirgefningu allra vorra synda veiti oss almáttugur, náðugur Guð.
A: Amen.

Davíðssálmur

Andstef:
I & II Fel mig í skugga vængja þinna (17.8)

I Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni
og tyfta mig ekki í gremi þinni.
II Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast,
lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.
I Sál mín er óttaslegin,
en þú, ó Drottinn hversu lengi?
II Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína,
hjálpa mér sakir elsku þinnar.
I Því að enginn minnist þín í dánarheimum,
hver skyldi lofa þig hjá Helju?
II Ég er þreyttur af andvörpum mínum,
ég lauga rekkju mína í tárum,
læt hvílu mína flóa hverja nótt.

I & II Fel mig í skugga vængja þinna (17.8)

I Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína,
Drottinn tekur á móti bæn minni.
II Allir óvinir mínir skulu verða til skammar
og skelfast mjög,
hraða sér sneyptir burt.

I & II Fel mig í skugga vængja þinna (17.8)

Ritningarlestur Jes. 50. 1a, 3 – 10

Svo segir Drottinn:
Ég færi himininn í svartan hjúp og sveipa hann í sorgarbúning. Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.
Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.
Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.
Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar.
Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín!
Sjá, hinn alvaldi Drottinn hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim.
Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.

Vers:

L: Guð sé oss náðugur og miskunnsamur
A: og veiti oss blessun sína
L: Hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor
A: svo að vér megum þekkja veg hans á jörðu.Sbr. DS 67.2-3

Lofsöngur Maríu (Magnificat)

Andstef:
Drottinn hefur mikla hluti við mig gjört,
voldugur er hann og nafn hans heilagt
.

Önd mín miklar Drottin,
og andi minn gleðst í Guði frelsara vorum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.

Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört,
og heilagt er nafn hans.

Miskunn hans við þá er óttast hann,
varir frá kyni til kyns.

Drottinn hefur mikla hluti við mig gjört,
voldugur er hann og nafn hans heilagt
.

Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upphafið smælingja.

Hungraða hefur hann fyllt gæðum,
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael þjón sinn
eins og hann talaði til feðra vorra,
við Abraham og niðja hans ævinlega.

Drottinn hefur mikla hluti við mig gjört,
voldugur er hann og nafn hans heilagt
.

Bæn & Fyrirbænir

Lofaður sért þú Guð, almáttugi Drottinn, sem lýsir upp daginn með geislum sólarinnar / og varpar birtu á nóttina með skini stjarnanna. / Þú hefur leyft oss í náð þinni að ganga brautir þessa dags / og leiðir oss senn til hvíldar næturinnar. / Tak í mót kvöldbæn vorri og leyf oss að njóta af gnægtum miskunnsemi þinnar./ Gjör oss að þjónum þíns réttlætis, / varðveit oss í sannleika þínum, / vernda oss frá öllu illu, / bjarga oss í sérhverri freistingu og geym oss í gæsku þinni./

Fyrirbæn:

Drottinn Guð, gef að þau öll sem í dag urðu ósátt láti ekki sólina ganga niður yfir reiði sína. / Miskunna öllum þeim sem leggjast til hvíldar án þess að lúta þér./ Lát engan deyja í syndum sínum/. Gef hinum þreyttu hressingu / og þeim öllum styrk sem sinna þurfa störfum sínum komandi nótt. / Lát engan falla sem reikar um í dimmunni. / Varðveit ferðalanga./ Gef hinum hungruðu saðningu. / Vak yfir hinum sjúku og vonlitlu. / Varðveit börnin. / Vitja hinna sorgmæddu með huggun þinni. / Reis þau upp sem eru niðurbeygð, / og vísa hinum villuráfandi á rétta leið./ Miskunna hinum hrelldu og gef jafnt þeim er sofa og hinum svefnlausu þinn frið.

Hljóð bæn & Faðir vor

Blessun:

L: Almáttugur Guð, + faðir og sonur og heilagur andi, blessi oss og varðveiti að eilífu.
A: Amen

Að kvöldbæn lokinni er gengið að Elliðaám með viðkomu í Sogamýri

Ávarp

Bræður og systur.
Við erum fólk á ferð. Kynslóðir koma, kynslóðir fara, gegnum líf, gegnum
heim. Guð hefur sett okkur á þennan veg og hann leiðir að marki sem hann
hefur ákvarðað, í eilífu ríki sínu.
Og hann hefur heitið því að vera með okkur alla daga, allt til enda veraldar.
Stundum þurfum við með sérstökum hætti að setja okkur þá staðreynd fyrir sjónir að við erum fólk á ferð. Það munum við gera nú.

Við göngum í fótspor fyrrikynslóða og fyrri tíða. Og eins og þau sem á undan gengu berum við með okkur okkar eigin líf, eigin öryggisleysi og eirðarleysi, sársaukafulla og erfiða reynslu, þrár og vonir, gleði og eftirvæntingar.
Og við trúum því að líf og spor annarra veiti okkur innsýn inn í okkar eigið líf.
Við erum pílagrímar á leið til um áfanga trúarinnarinnar að krossi Krists og að opinni gröf.

Sálmur

Við erum fólk í förum,
ef ferðin er erfið og löng,
við setjumst við læki og lindar
og leitum þín Guð, í söng.

Við erum fólk í förum,
á flótta, í óró og nauð,
og leitum að sátt þegar saman
er safnast um vín og brauð.

Við erum fólk í förum
og færumst í trúnni æ nær
því heima sem heimfús leitar,
og himininn okkur ljær.

Britt G Hallqvist 1981, Eyvind Skeie 1982, Kristján Valur Ingólfsson 2002

Fyrsta viðdvöl – á opnu svæði í Sogamýri

Lestur: Jes. 52.7-10

Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: Guð þinn er setstur að völdum!
Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.
Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að Drottinn huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem.
Drottinn hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.

Biðjum öll saman:
Vér þökkum þér, Drottinn að þú ert vegurinn, sannleikurinn og lífið. Vér biðjum þig, hjálpa oss að voga að halda veginn fram í nafni þínu, að vér getum látið hið gamla að baki og gengið inn í þau verk og viðfangsefni sem þú felur oss á hendur. Ver í för með oss, Drottinn, og kenn oss að ganga með hvert öðru sem traust og gott samferðarfólk. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.

Sálmur Sb 704

Þú ert Guð sem gefur lífið,
góða jörð og nótt og dag.
Þér til dýrðar syngjum saman
sólarljóð og þakkarbrag.

Undir blessun þinni búa
blóm og dýr og allt sem er.
Lífsins undur okkur gleðja,
yndisleg úr hendi þér.

Guð, sem færir fólki jarðar
frelsi, gleði, brauð og hlíf,
þakklát börn þín syngja saman
sólarljóð um eilíft líf.

Schmid – Jón Ragnarsson

Önnur viðdvöl – við ána.

P: Guð, skapari vor og faðir.

Úr vatni reis heimur þinn í dagrenning sköpunarinnar. Þú vökvar jörðina og gefur mannkyni líf og heilsu. Við vatnslindir veitir þú næði og svölun þreyttum og þyrstum Vér þökkum þér fyrir vatnið, sem gefur heiminum líf. Sonur þinn, Jesús Kristur, steig niður í öldur Jórdanar í skírninni, og fyrir hann gefur þú hverjum þeim sem biður þig lífsins vatn.
Vér þökkum þér að þú hefur tengt fyrirheit þitt vatni skírnarinnar: Sá sem trúir og er skírður mun hólpinn verða. Heilagur andi þinnsveif yfir vötnunum og kom yfir son þinn, fyrir hann endurfæðir þú oss í skírninni. Vér biðjum þig:
Endurnýja í dag trú vora og kærleika og lát oss rísa upp til nýs lífs í þér. Þér, faðir, sonur og heilagur andi sé lof og dýrð um aldir og að eilífu.
S: Amen.

Lestur. 1.Pétursbréf. 1.3 – 5, og 3.18 – 22.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum, til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum. Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.

Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda. Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar það er átta sálir í vatni. Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists, sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

Biðjum öll saman:
Guð vor og faðir, sem í skírninni kallaðir oss með nafni til að verða þín börn, þú veist hve oft vér höfum vanrækt að lifa í skírn vorri. Fyrirgef oss sakir Jesú Krists.
Lauga oss hrein og gef oss kraft andans til að að halda áfram lífsferðinni í skírnarnáð þinni.
Amen

Sálmur Sb 251

Andi Guðs sveif áður fyr
yfir vatnadjúpi.
Upp þá lukust ljóssins dyr,
létti’ af myrkra hjúpi.
Upp reis jörðin ung og ný,
árdags geislum böðuð í
þá úr dimmu djúpi.

Andi Guðs sveif annað sinn
yfir vatni köldu,
þegar lét sig lausnarinn
lauga’ í Jórdans öldu.
Opnast himinn, eins og nýtt
upp rann náðarljósið blítt
dauða’ úr djúpi köldu.

Andinn svífur enn sem fyrr
yfir vatni tæru,
opnast himins dýrðardyr
Drottins börnum kæru.
Eftir skírnar blessað bað
blómið upp vex nýdöggvað
lífs í ljósi skæru.

Valdimar Briem

P: Almáttugur Guð, sem hefur endurfætt oss fyrir vatn og heilagan anda og
tekið oss inn í ríki síns elskaða sonar, þar sem er fyrirgefning syndanna,
líf og sáluhjálp, hann styrki oss með náð sinni til eilífs lífs.
S: Amen

Gengið til baka


url: http://kvi.annall.is/2004-04-02/18.10.32/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli