kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Dagskráin frá Betaníu til Emmaus – fyrsti áfangi · Heim · Pálmasunnudagur – helgihald »

Messa. Smurningin í Betaníu.

Kristján Valur @ 16.03 2/4/04

Hér er form messunnar í Langholtskirkju laugardag fyrir pálmasunnudag ásamt kvöldbænum sem fylgja í Áskirkju.

Messa kvöldið fyrir Pálmasunnudag.

Upphaf.

P Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Amen.

P Hjálp vor kemur frá Drottni.
A Skapara himins og jarðar.
P Játum syndir vorar og lifum í kærleika og sátt við alla menn.

A Ég játa fyrir þér, almáttugi Guð, skapari minn og lausnari, að ég hef margvíslega syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. Fyrirgef mér sakir miskunnar þinnar og leið mig til eilífs lífs til dýrðar nafni þínu.

P Almáttugur Guð fyrirgefi yður allar syndir, styrki yður og leiði til eilífs lífs fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. A. Amen

Inngöngusálmur: Sb 593

Enn dag úr þinni hönd ég hefi,
ó, Herra, þáð. Nú kvöldar skjótt.
Mér næturró þín náðin gefi
svo nýjan megi öðlast þrótt.

Ég veit að kirkjan vakað getur
þótt verði dimmt um lönd og mar.
Guðs víngarð yrkja vill hún betur
og vilja hans svo gjöra þar.

Sjá, vítt um þína veröld alla
nýr vikudagur lofar hann,
sem þjóðir heimsins kom að kalla,
á krossi dó, en sigur vann.

Er sól þín hverfur sjónum mínum
og sest við hafsins ystu brún.
Í löndum fjær, þar lýðum þínum
þó ljósið morguns gefur hún.

Já, lof sé þér sem lífið gefur
um löndin öll þitt ríki fer
og allt á jörð þú örmum vefur,
þú einn ert Guð, það játum vér.

Ellerton – Kristján Valur Ingólfsson

Miskunnarbæn

(Forsöngvari syngur fyrir, söfn svarar)

Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, miskunna þú oss.
Drottinn, miskunna þú oss.

Bæn dagsins

P Drottinn sé með yður.
A Og með þínum anda.

P Látum oss biðja…. um aldir alda.
A Amen.

Lexía Sl. 43. 3-5

Lesari: Lexían er skráð í sálmum Davíðs.

Send ljós þitt og trúfesti þína,
þau skulu leiða mig,
þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga,
til bústaðar þíns,
svo að ég megi inn ganga að altari Guðs,
til Guðs minnar fagnandi gleði,
og lofa þig með gígjuhljómi,
ó Guð, þú Guð minn.

Hví ert þú beygð, sál mín,
og ólgar í mér?
Vona á Guð,
því að enn mun ég fá að lofa hann,
hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Lesari: Þannig hljóðar hið heilaga orð.
Guði sé þakkargjörð.

Pistill. Hebr. 9. 15. 24-28

Lesari: Pistilinn er úr Hebreabréfinu.

Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleifð, sem heitið var.
Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna. Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð.

Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni.
Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm,
þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.

Lesari: Þannig hljóðar hið heilaga orð.
Dýrð sé þér Drottinn.

Sálmur Sb 575

Af hjartans rót ég þakka þér
hið þunga stríð til frelsis mér
og dapran krossins dauða þinn,
þú dýrsti’ og besti vinur minn.
Þín heilög elska höndli mig
og haldi mér svo fast við sig,
að eigi ég um eilífð þig.

Björn Halldórsson

Guðspjall: Jóh. 12.1-36

P Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Jóhannes
Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilegan boðskap.

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum.
Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.
Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans.
En húsið fylltist ilmi smyrslanna.
Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum? Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.
Þá sagði Jesús: Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.
Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.

Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi, því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.
Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.
Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu: Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann.Nú vitnaði fólkið, sem með honum var, þegar hann kallaði Lasarus út úr gröfinni og vakti hann frá dauðum.
Vegna þess fór einnig mannfjöldinn á móti honum, því menn höfðu heyrt, að hann hefði gjört þetta tákn.
Því sögðu farísear sín á milli: Þér sjáið, að þér ráðið ekki við neitt. Allur heimurinn eltir hann.

Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni.
Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: Herra, oss langar að sjá Jesú.
Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú. Jesús svaraði þeim: Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.
Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.
Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.
Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu:
Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt! Þá kom rödd af himni: Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.
Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: Engill var að tala við hann.
Jesús svaraði þeim: Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna.
Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.

Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín.

Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

Mannfjöldinn svaraði honum: Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?
Þá sagði Jesús við þá: Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer.
Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins. Þetta mælti Jesús og fór burt og duldist þeim.

P: Þannig hljóðar hið heilaga guðspjall

Lof sé þér Kristur.

Trúarjátning

Predikun

Sálmur

María, kvað Júdas, með hneykslunarhreim,
hví brýtur þú smyrslanna ker?
Ég fæturna frelsarans þvo vil meðþeim,
og svo þerra þá hárinu með, hún hvað,
og svo þerra þá hárinu með.

Á torginu, María, myndum við fá
svo margvísleg not fyrir þau.
Við gætum keyot fatnað og fæði,- og sjá
við til fátækra gæfum það allt, hann kvað,
við til fátækra gæfum það allt.

Á morgun, á morgun ég þenki um þá,
því í dag er frelsarinn hér.
Ég veit ei hvort framar ég fæ hann að sjá,
og fyrst mun því hugsa um hann, hún kvað,
og fyrst mun því hugsa um hann.

María, kvað Jesús, og leit hvar hún lá.
Ég lifi, og svo gjörir þú,
o viljir þú sjá mig og þjóna mér, þá
hinum þurfandi leitaði að, hann kvað.
Hinum þurfandi leitaðu að.

Anders Frostenson. Þýðing. kvi

Almenn bæn

Vér sem erum nú saman komin í samfélaginu um borð Drottins til að halda hátíð hins nýja sáttmála
skulum nú biðja í friði til Drottins.
Drottinn minnstu safnaðar þíns
sem þú hefur frá upphafi valið þér.

Vér biðjum fyrir öllum kristnum bræðrum og systrum.
Hjálpa þú Drottinn þínum trúu sem á þig treysta.

Sjá, ásamt oss fagnar gjörvöll kirkjan meðal allra þjóða.
Heyr ákall hennar og gef henni sátt og einingu og frið.

Lít í náð til þeirra allra sem þú hefur sett til hirðisþjónustu í kirkju þinni, lít til þjóna safnaðar þíns og á öll þín börn.
Minnstu þjóðar vorrar og föðurlands vors og lát réttlæti og frið ríkja meðal allra þjóða.

Minnstu þeirra sem valin eru til stjórnar og ábyrgðar meðal vor og ráðgjafa þeirra.
Gef þeim anda ráðsnilldar, visku og ótta þíns heilaga nafns og lát áform þeirra þjóna heill fólksins.

Minnst þú barna vorra og alls æskufólks, brúðhjóna og allra hjóna sem og allra þeirra sem þjóna þér í einlífi, minnstu ekkla og ekkna og hinna munaðarlausu, minnstu þeirra sem eru einmana eða yfirgefin , vonlaus og uppgefin..

Drottinn vér minnumst þeirra sem oss eru tengd og skyld og nefnum nöfn þeirra í hljóði.
Send þeim öllum sem vér minnumst fyrir augliti þínu hjálp úr þínum helgidómi
og styrk þau í náð.

Vér minnumst þeirra sem sofnuð eru í þér, þau hvíli í friði og þitt eilífa ljós lýsi þeim.
Uppfyll oss með himneskri blessun svo að vér séum einn líkami í Kristi
og dveljum ætíð í honum g hann í oss.
Leið oss og þau öll sem við áköllum þig fyrir til hinnar fullkomnu gleði í ríki þínu. Amen

Friðarkveðja

(Prestur kynnir friðarkveðjuna. Eftir svarið: og með þínum anda, er friðarkveðjan látin ganga milli allra með því að sérhver leggur báðar hendur sínar í lófa annars og segir: Friður sé með þér (svar) og með þér.

P Verið einhuga í samfélaginu við Drottin. Leggið af ágreining og hræsni. Fyrirgefið eins og yður er fyrirgefið. Takið hvert annað að yður eins og Kristur hefur tekið yður að sér Guði til vegsemdar.

Friður Drottins sé með yður.
A Og með þínum anda.

Sálmur Sálmur 374

Þú, Drottinn, átt það allt,
sem öðlumst vér á jörð.
Hver gjöf og fórn, sem færum vér,
er fátæk þakkargjörð.

Vor eign og allt vort lán
þér einum heyrir til.
Þótt gætum vér það gefið allt,
vér gerðum engin skil.

Hér svíða hjartasár,
hér sveltur fátækt barn,
og vonarsnauður villist einn
um veglaust eyðihjarn.

Að létta bróður böl
og bæta raunir hans,
að seðja, gleðja, græða mein
sé gleði kristins manns.

Vér trúum á þitt orð,
þótt efi myrkvi jörð,
að miskunn við hinn minnsta sé
þér, mannsins sonur, gjörð.

How – Sigurbjörn Einarsson

Á meðan sálmurinn er sungin gengur samskotakarfa. Prestur tilreiðir brauð og vín.
Hann tekur við við körfunni,leggur hana á altarið og biður:

Bæn

Vér þökkum þér himneski Faðir fyrir gjafirnar sem þú treystir oss fyrir. Vér biðjum þig að blessa þær og gefa oss náð til þess að vér í krafti kærleika þíns þjónum þér og systkinum vorum fyrir Jesú Krist Drottin vorn. A. Amen

Af gnótt gjafa þinna berum vér fram þetta brauð og þetta vín í heilagri minningu fæðingar Drottins, pínu hans,dauða og upprisu, svo að vér í kirkju þinni megum fagna í árdagsbirtu hinnar nýju sköpunar.

Allt hefur þú skapað samkvæmt velþóknan vilja þíns. Þú gefur manninum mat og drykk, að hann lofi þig ásamt öllu því, sem þú hefur skapað. Því leggjum vér gjafirnar sem vér þiggjum af gæsku þinni, á altarið og biðjum þig: Lít eigi á syndir vorar, heldur á flekklausa fórn sonar þíns og meðtak oss í náð. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

A. Amen.

Þakkargjörðin

P Drottinn sé með yður. A Og með þínum anda.
P Lyftum hjörtum vorum til himins. A Vér hefjum þau til Drottins.
P Látum oss þakka Drottni Guði vorum. A Það er maklegt og réttvíst.
P Sannlega er það maklegt og réttvíst, ….. og segjum án afláts:

Heilagur heilagur, heilagur ert þú Drottinn, Guð allsherjar.
Himnarnir og jörðin eru full af dýrð þinni.
Hósíanna í upphæðum. Blessaður sé sá sem kemur í
nafni Drottins. Hósíanna í upphæðum.

Þakkarbæn

Sannlega ert þú heilagur, Drottinn, og með réttu lofar þig allt, sem þú hefur skapað. Þú hefur lífgað allt og helgað með heilögum anda þínum fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Vér biðjum þig: Veit viðtöku lofgjörðarfórn vorri og gef, að þessar gjafir þínar, brauð og vín verði oss hinn blessaði líkami og blóð sonar þíns eftir heilögu boði hans.

Drottinn vor Jesús Kristur tók brauðið nóttina sem hann var svikinn,, gjörði þakkir og braut það og gaf sínum lærisveinum og sagði: Takið og etið, þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.

Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði: Drekkið allir hér af, þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna. Gjörið þetta svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.

Þess vegna minnumst vér með tilbeiðslu vorri, að hann elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss, sigraði dauðann í upprisu sinni og er allt vald gefið á himni og á jörðu.

Vér biðjum þig: Send oss þinn heilaga anda og sameina oss í staðfastri trú og kærleika, fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn.
Fyrir hann, með honum og í honum sé þér almáttugi faðir, í einingu heilags anda, heiður og dýrð í heilagri kirkju þinni um aldir alda.
A: Amen.

A: Faðir vor, þú sem ert á himnum. …. að eilífu. Amen.

Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem sem burt ber heimsins synd. Miskunna þú oss,
Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem sem burt ber heimsins synd. Miskunna þú oss.
Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem sem burt ber heimsins synd. Gef oss þinn frið.

Berging

Þau sem neyta sakramentisins mynda hálfhring um altarið. Þau meðtaka brauðið í opinn lófa sinn og bergja af kaleik
eða ef þau kjósa heldur dýfa sjálf brauði í vínið.

Þegar prestur hefur innleitt berginguna með orðunum: Brauðið sem vér brjótum er samfélag um líkama Krists og sá bikar blessunarinnar sem vér blessum er samfélag um blóð Krists, segir söfnuðurinn:
Drottinn, ég er þess eigi verður að þú gangir undir þak mitt en seg það aðeins með orði þá mun sál mín verða heil.

Bæn eftir bergingu

Blessun
Eftir blessun er lagt af stað í göngu til Áskirkju

Ávarp

Bræður og systur.
Við erum fólk á ferð. Kynslóðir koma, kynslóðir fara, gegnum líf, gegnum
heim. Guð hefur sett okkur á þennan veg og hann leiðir að marki sem hann
hefur ákvarðað, í eilífu ríki sínu.
Og hann hefur heitið því að vera með okkur alla daga, allt til enda veraldar.
Stundum þurfum við með sérstökum hætti að setja okkur þá staðreynd fyrir sjónir að við erum fólk á ferð. Það munum við gera nú.

Við göngum í fótspor fyrrikynslóða og fyrri tíða. Og eins og þau sem á undan gengu berum við með okkur okkar eigin líf, eigin öryggisleysi og eirðarleysi, sársaukafulla og erfiða reynslu, þrár og vonir, gleði og eftirvæntingar.

Og við trúum því að líf og spor annarra veiti okkur innsýn inn í okkar eigið líf.
Við erum pílagrímar á leið til um áfanga trúarinnarinnar að krossi Krists og að opinni gröf.

Sungið meðan gengið er úr kirkju.

Sálmur. Sb 292

Gegnum hættur, gegnum neyð
göngum, Krists menn, vora leið.
Hvorki blöskri böl né kross,
brauðið lífsins styrkir oss.

Hræðumst engin sorgarsár,
sérhvert bráðum þornar tár.
Ótti hreki’ oss ei af braut,
orkan vaxi’ í hverri þraut.

Hugprúð gleðjist, hjörtu mædd,
herskrúðanum Drottins klædd.
Berjumst hart, ei hríð er löng,
hún mun enda’ í gleðisöng.

Áfram því með dug og dáð,
Drottins studdir ást og náð.
Sé hann með oss, ekkert er
óttalegt. Þá sigrum vér.

Gegnum hættur, gegnum neyð
göngum, Krists menn, vora leið.
Hvorki blöskri böl né kross,
brauðið lífsins styrkir oss.

Stefán Thorarensen

Í Áskirkju

Upphaf

P Í nafni Guðs + föður og sonar og heilags anda.
A Amen.
P Hjálp vor kemur frá Drottni.
A Skapara himins og jarðar.

Sálmur 460

Til hafs sól hraðar sér,
hallar út degi,
eitt skeiðrúm endast hér
á lífsins vegi.

Ó, Guð, hvort annað nú
ennþá vor bíður,
auglýsir engum þú
óðar en líður.

Nóg er, að vitum vel,
vort líf að endi
og að það eins og hel
er þér í hendi.

Að um oss annt er þér,
að sért vor faðir,
hughraustir vitum vér -
vissa nóg það er.

Þó dagsins skundum skeið
skjótt fram að nóttu,
brátt hennar líður leið
að ljósri óttu.

Svo lífið braut er breið
til banakífsins,
og dauðinn eins er leið
aftur til lífsins.

Svo lifa sérhver á
sem sálast eigi,
en andast eins og sá,
sem aldrei deyi.

Í þína umsjón nú,
ástríki faðir,
felum líf, byggð og bú,
blundum svo glaðir.

Arnór Jónsson

Lestur

Píslarsagan samkvæmt Matteusarguðspjalli

Að morgni gjörðu allir æðstu prestarnir og öldungar lýðsins samþykkt gegn Jesú, að hann skyldi af lífi tekinn. Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.Þegar Júdas, sem sveik hann, sá, að hann var dæmdur sekur, iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu og mælti: Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð. Þeir sögðu: Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því.

Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig.
Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar.Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá leirkerasmiðs akurinn til grafreits handa útlendingum. Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur.

Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum, og keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt.

Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: Ert þú konungur Gyðinga? Jesús svaraði: Þú segir það.
Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir, en hann svaraði engu.
Þá spurði Pílatus hann: Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna gegn þér?
En hann svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.

Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa lýðnum lausan einn bandingja, þann er þeir vildu. Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni.

Sem þeir nú voru saman komnir, sagði Pílatus við þá: Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?
Hann vissi, að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.
Meðan Pílatus sat á dómstólnum, sendi kona hans til hans með þessi orð: Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna.
En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas, en að Jesús yrði deyddur.

Landshöfðinginn spurði: Hvorn þeirra tveggja viljið þér, að ég gefi yður lausan? Þeir sögðu: Barabbas.
Pílatus spyr: Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur? Þeir segja allir: Krossfestu hann. Hann spurði: Hvað illt hefur hann þá gjört? En þeir æptu því meir: Krossfestu hann!

Nú sér Pílatus, að hann fær ekki að gjört, en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!

Og allur lýðurinn sagði: Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!

Þá gaf hann þeim Barabbas lausan, en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.
Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni. Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu, fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: Heill þú, konungur Gyðinga!

Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið. Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.

Á leiðinni hittu þeir mann frá Kýrene, er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera kross Jesú.

Og er þeir komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður, gáfu þeir honum vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það, en vildi ekki drekka.

Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér, sátu þar svo og gættu hans.

Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.

Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.

Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín og sögðu: Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér, ef þú ert sonur Guðs, og stíg niður af krossinum!

Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu: Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum vér trúa á hann.

Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: Ég er sonur Guðs? Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.

En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.
Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: Elí, Elí, lama sabaktaní! Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?
Nokkrir þeirra, er þar stóðu, heyrðu þetta og sögðu: Hann kallar á Elía!

Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.
Hinir sögðu: Sjáum til, hvort Elía kemur að bjarga honum. En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp.Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.
Þegar hundraðshöfðinginn og þeir, sem með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og atburði þessa, hræddust þeir mjög og sögðu: Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.

Sálmur 138

Kem ég nú þínum krossi að,
kannastu, Jesús minn, við það,
syndanna þunginn þjakar mér,
þreyttur ég nú að mestu er.

Þar við huggar mín sála sig,
svoddan allt leiðstu fyrir mig,
þíns hjartadreyra heilög lind
hreinsar mig vel af allri synd.

Krossins burt numinn kvölum frá,
kóngur ríkir þú himnum á.
Herra, þá hér mig hrellir pín,
hugsaðu’ í þinni dýrð til mín.

Hallgrímur Pétursson (Ps. 40)

Bænir á laugardagskveldi.

Drottinn Guð, þú hefur leyft oss að ganga í þinni vernd þessa viku alla til enda. / Vér þökkum þér fyrir allt sem þú hefur komið til leiðar með störfum vorum. / Vér biðjum þig: Breyt í blessun öllu því sem visnað hefur í vorri hönd. / Þú þekkkir dimmu stundirnar sem vér vildum dylja / og þó er ekkert hulið fyrir þér. Kenn oss að bíða í rósemi dóma þinna. / Þú ert frelsari vor og lausnari.

Fyrirbænir:

Vér biðjum þig á þessari kvöldstund fyrir öllum börnum þínum / Lát þau finna hvíld hjá þér frá öllum verkum sínum. / Vér biðjum þig fyrir þeim sem reynt hafa ríkdóm gæsku þinnar. / Lát oss ásamt þeim færa þér þakkir og vegsama þig. / Vér biðjum þig fyrir öllum sem niðurlægð voru af þinni hönd. / Reis þau upp að nýju með kærleiksorði þínu. / Vér biðjum þig fyrir öllum í söfnuðum vorum, / fyrir nýfæddum börnum og ófæddum, / fyrir þeim sem þú hefur heimsótt með sjúkleika og neyð, / fyrir öllum þeim sem hönd dauðans hefur lostið. / Leið oss um þetta líf á jörðu inn í þitt eilífa líf. / Vér biðjum þig fyrir þeim öllum sem oss eru af hjarta kær í nálægð og fjarlægð. / Varðveit oss í samfélaginu við þau, undir vernd þinni og í friði þínum. / Vér biðjum þig fyrir öllum þeim sem hjarta voru eru fjarlæg og andstæð. / Nem í brott það sem aðskilur oss og gef oss eindrægni og frið. / Vér biðjum þig fyrir öllum sem eru yfirgefin. / Kom í krafti þínum og kærleika til þeirra sem hjálpar þinnar þurfa við. / Drottinn, vér bíðum dags þíns. / Lát ljós hans renna upp yfir oss og uppvek oss til nýs lífs.

Fyrirbænarefni dagsins.

Hjóð bæn

Faðir vor

Bessun.

Gengið til baka að Langholtskirkju.

url: http://kvi.annall.is/2004-04-02/16.03.14/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli