kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Frá Betaníu til Emmaus · Heim · Messa. Smurningin í Betaníu. »

Dagskráin frá Betaníu til Emmaus – fyrsti áfangi

Kristján Valur @ 15.58 2/4/04

Dagskráin hefst laugardaginn fyrir pálmasunnudag. Hér er markmið og fyrsti áfangi.

Frá Betaníu til Emmaus

Áfangar á helgri leið Jesú Krists bænadaga og páska.

Markmið.

Að tengja saman hin hefðbundnu tilefni kirkjugöngu í dymbilviku og um páska og gefa þeim sem vilja kost á að nálgast atburðina sem minnst er með sameiginlegri íhugun og daglegu helgihaldi frá laugardegi fyrir pálmasunnudag til annars páskadags.

Dagskrá.

Auk hefðbundins helgihalds safnaðarins er alla daga frá laugardegi fyrir pálmasunnudag til annars páskadags, helgihald með einhverju sniði kl. 18.00 dag hvern nema skírdag og föstudaginn langa. Hér er þetta helgihald miðað við Langholtskirkju, þar sem flestir liðir dagskrárinnar fara fram. Ætlunin er að næsta ár megi fylgja dagskránni í heild eða að hluta í öðrum kirkjum ef prestar og söfnuðir kjósa það.

Fyrsti áfangi.

Laugardagurinn fyrir pálmasunnudag kl. 18.00.
Messa í Langholtskirkju.
Minnst smurningarinnar í Betaníu.

Grundvöllur messunnar og guðspjall hennar um smurninguna í Betaníu, er undirbúningur Jesú fyrir ferð hans til Jerúsalem eins og greint er frá í Jóhannesarguðspjalli.

Meginatriði messunnar er að öðru leyti hin almenna kirkjubæn og samfélagið um Guðs borð.

Eftir að hafa neytt kvöldmáltíðarinnar geta þau sem vilja gengið til Áskirkju, þar sem hlýtt verður á lestur píslarsögunnar samkvæmt Matteusarguðspjalli.
Gönguferðin hefur margþættan tilgang.
Hún færir þátttakendur enn nær þeirri ferð sem Jesús leggur upp til, fyrst í stað gangandi til Jerúsalem. Hún minnir á orð Jesú: Fylg þú mér.
Hún minnir á píslargöngu margra í fylgd hans.
Hún er sýnilegt tákn um að við erum á leið til að minnast atburðanna framundan um leið og þeir gerast.

Messan er stytt form Handbókarinnar, en bætt við samskotum og friðarkveðjan er látin berast á milli. Predikunin er stutt, enda er guðspjallslesturinn óvenju langur og ígildi predikunar í sjálfu sér.

url: http://kvi.annall.is/2004-04-02/15.58.35/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli