kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Skriftir · Heim · Skriftaspegill »

Skriftaguðsþjónusta

Kristján Valur @ 15.56 24/3/04

Í handbók kirkjunnar er ekki guðsþjónustuform fyrir almennar skriftir. Það form sem hér fer á eftir er tillaga sem að stofni til lá fyrir við gerð handbókarinnar en hefur síðan tekið lítilsháttar breytingum.

Guðsþjónusta með almennum skriftum.

Sálmur sb 348

Inngangur

P Friður Drottins sé með yður
S og með þínum anda.

Innsetningarorð skriftanna.

P Vér erum hér saman komin fyrir augliti Guðs til þess að játa fyrir honum og biðja hann að fyrirgefa oss vorar skuldir.
Heyrið hvaða umboð Jesús Kristur hefir gefið kirkju sinni:

Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum. (Mt.16.19)

Þá sagði Jesús aftur við þá: Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: Meðtakið heilagan anda.
Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.
(Jh.20.21-23)

Sálmbæn

P Biðjum.
I. Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar,
II. afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
I. Þvo mig hreinan af misgjörð minni,
II hreinsa mig af synd minni,
I því að ég þekki sjálfur afbrot mín,
II og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.
I Gegn þér einum hefi ég syndgað
II og gjört það sem illt er í augum þínum.
I Því ert þú réttlátur, er þú talar,
II hreinn, er þú dæmir.
I Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hrein(n),
II þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.
I Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð,
II og veit mér nýjan, stöðugan anda.
I Varpa mér ekki burt frá augliti þínu
II og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
I Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis
II og styð mig með fúsleiks anda (Sl. 51, 3-6a. 9.12-14.)

A Drottinn miskunna þú oss, Kristur miskunna þú oss. Drottinn miskunna þú oss.

P Biðjum.

Gæskuríki Guð. Hjá þér er gleði yfir hverju barna þinna
sem snýr sér og gjörir iðrun.
Þú segir nei við syndum vorum,
en þú býður oss til þín til nýs upphafs.
Vér þökkum þér að þú ert miskunnsamur.
Gef oss kjark til að snúa við.
Gef oss kraft til að byrja aftur frá grunni.
Drottinn Guð vor,
vér biðjum þig,
vek oss upp af andvaraleysinu
og kenn oss að þekkja hver vér erum frammi fyrir þér.
Sundra sjálfsréttlætingunni.
Hjálpa oss til sjá oss sjálf
hver vér erum í þínu ljósi
og greina synd vora
og vona á miskunn þína.

Gjör oss reiðubúin til að fyrirgefa hvert öðru
og til að segja hvert öðru til syndanna í kærleika
og taka mark á því í sama kærleika
fyrir Jesú Krist Drottin vorn. Amen.

Skriftapredikun

P. Heyrið nú boðorð Drottins.

Þessi eru hin tíu boðorð Guðs.
Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra Guði hafa
Þú skalt ekki leggja nafn Guðs við hégóma
Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan
Heiðra skaltu föður þinn og móður
Þú skalt ekki mann deyða
Þú skalt ekki drýgja hór
Þú skalt ekki stela
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns
Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns,
þjón, þernu ,fénað né nokkuð annað sem náungi þinn á.

Tvöfalda kærleiksboðorðið

P: Drottinn vor Jesús Kristur hefur í tvöfalda kærleiksboðorðinu dregið saman vilja Guðs með þessum hætti:
Elska skalt þú Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum.
Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.
Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.
(Mt. 22.37-39)

Játning og Aflausn

Syndajátning

P. Postulinn skrifar

Ef vér segjum, vér höfum ekki synd, svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.
Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti. (1.Jh.1, 8-9)

P. Látum oss nú í þögn fyrir augliti Guðs minnast synda vorra og misgjörða.

B

Játum saman:

Drottinn Guð, í ljósi sannleika þíns sé ég og viðurkenni
að ég hef margvíslega syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum.
Þig á ég að elska yfir annað fram sem Guð minn og frelsara,
en ég hef elskað sjálfa(n) mig meira en þig.
Þú kallaðir mig til þjónustu við þig,
en ég hef illa varið tímanum sem þú gafst mér til þess.
Þú gafst mér náunga minn til þess að ég elskaði hann eins og sjálfa(n) mig,
en ég viðurkenni að ég hef brugðist í sjálfsdýrkun og hjartakulda.
Þessvegna kem ég til þín og játa skuldir mínar.
Dæm mig Guð minn, en varpa mér eigi frá þér.
Ég þekki ekkert annað skjól en órannsakanlega miskunn þína.

Amen.

Skriftaspurningar

P. Frammi fyrir heilögum Guði spyr ég yður, hvert og eitt:

Játar þú að hafa syndgað og iðrast þú synda þinna,
þá svara Já.

S. Já.

P. Biður þú um fyrirgefningu synda þinna í nafni Jesú Krists,
þá svara, Já

S. Já.

P. Trúir þú einnig að fyrirgefningin sem þér er boðuð sé fyrirgefning Guðs,
þá svara Já.

S. Já.

P. Verði yður sem þér trúið.

Aflausn með blessun

P. Það sem Guð hefur gefið yður í heilagri skírn, fyrirgefningu syndanna og frelsi frá hinu illa er í dag gefið yður að nýju.
Í því umboði sem Drottinn hefur gefið kirkju sinni
og sem vígður þjónn hins heilaga Orðs segi ég þér:

Syndir þínar eru þér fyrirgefnar
í nafni Guðs + föður og sonar og heilags anda. Amen.

P Komið og krjúpið og meðtakið blessun og staðfestingu þessa með handayfirlagningu.

Söfnuður krýpur við gráður, eða eitt og eitt.

Prestur leggur hendur á höfuð hvers og eins og mælir:

Almáttugur Guð sem hefur fyrirgefið þér allar syndir þínar
gefi þér kraft og blessun til að lifa eftir vilja hans.
Friður sé með þér +

Söfnuður stendur fyrir framan altari eða gengur til sæta sinna.

P Sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. Trúr er sá er yður kallar. Hann mun og koma þessu til leiðar.

Sálmur Sb 384
Þakkarbæn

Almáttugi Guð, vér þökkum þér að þú hefur miskunnað oss og fyrirgefið oss skuldir vorar. Það sem var þarf ei framar að íþyngja oss. Það sem kemur þarf ei framar að valda oss ótta. Náð þín gefur oss gleði og nýjan kjark. Þér sé lof og dýrð að eilífu.

Vér heitum ekki aðeins börn Guðs, vér erum það.

Biðjum nú saman, systur og bræður, eins og frelsarinn hefur kennt oss.

Faðir vor.

Blessun.

Blessi oss almáttugur Guð + Faðir og Sonur og Heilagur Andi. Amen

url: http://kvi.annall.is/2004-03-24/15.56.27/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Axel Árnason @ 11/4/2004 09.42

Mikið væri þessi iðja hreinsandi fyrir þjóðlífið og mannlífið.

gunný @ 11/4/2004 11.46

Hvaða iðja? Og hvernig hreinsun?

Axel Árnason @ 8/2/2005 10.00

Jú og ári síðar; að skoða sjálfan sig, Láta af því að skoða aðra og spegla sig í þeim. Hreinsun? Jú hreinsun sem felst í því að fyrirgefa öðrum (og kannski líka sjálfum/sjálfri sér).

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli