kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Siðbótardagur · Heim · Kemur hvað mælt var við mannkyn fram… »

Hið Heilaga

Kristján Valur @ 13.22 10/12/03

Ég hef að undanförnu kennt námskeið í Leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar undir heitinu: Hið heilaga. Nokkrir minnispunktar um efnið fylgja hér á eftir. Síðan má búast við meira efni sem tengist þessu.

Hið heilaga.

Í lífi flestra er eitthvað sem kalla má eða kallað er heilagt. Það hefur verið tekið frá og enginn óviðkomandi má snerta það eða spilla því. Hið heilaga er þannig oft nefnt á nafn án þess að alltaf sé augljóst hvað býr að baki, eða hvort um er að ræða sameiginlegan skilning. Við heyrum og lesum jákvæðar og neikvæðar setningar á borð við: ,,Það er mér heilög stund“, eða: ,, Er þeim ekkert heilagt?“.

Trúarlega skoðað er upphaf hins heilaga hinn heilagi Guð. Hið heilaga er það sem sérstaklega er tekið frá fyrir hann eða hann hefur sjálfur tekið frá. Í bréfum postulanna í Nýja Testamentinu eru þau sem tekið hafa trú á Jesú Krist ávörpuð sem hin heilögu.

Jesús segir sjálfur: Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Jh.15.16.

Við berum börn til Jesú Krists að hann helgi þau í heilagri skírn. Við göngum saman fram fyrir auglit hans og biðjum hann að helga hjúskap okkar og hjálpa okkur við að stofna kristið heimili í heilögu hjónabandi.

Nálægðin við hinn heilaga Guð kallar fram vitundina um hið heilaga og vekur löngun til að láta það hafa áhrif á líf sitt og hugsun. Það er kallað helgun.

Hugmyndir kristinnar kirkju um hið heilaga mótast fyrst og fremst af því að Guð er heilagur.

Það er grundvallar eiginleiki Guðs. Upphaf hins heilaga er hinn heilagi Guð. Hann er algjörlega annars konar en mannfólkið og heimurinn sem við höfum aðgang að og þó hefur hann gjört manninn í sinni mynd; hann gjörði þau karl og konu.

Guð sagði: Ég er Guð, en ekki maður. Ég bý á meðal yðar sem heilagur Guð. (Hós. 11.9)

Vegna helgi sinnar sem öllu er æðri á jörðu, er umhverfis Guð sérstakur helgidómur. Það er staður sem öllum mönnum er lokaður og enginn maður fær að ganga inn í: Guð sagði (við Móse) : Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð. (2M 3.5)

Hina heilögu nærveru sína tjáir Guð í móðurlegri umhyggju og föðurlegum áminningum:

Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum. Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla. Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: Hvað ert þú hér að gjöra, Elía? (1.Kon. 19. 11-13)

,,Þá yfir löndin stormur geisar stríður,
með sterkum róm hann boðar almátt þinn,
og þá um vanga blærinn leikur blíður,
hann boðar þú sért ljúfur faðir minn
”. (Valdimar Briem, Sb 20,4.).

Staður Guðs er heilagur. Slíkur staður heitir á latínu: fanum. Staðurinn sem ætlaður er mönnum liggur framan við hið heilaga. Hann er pro-fanum. Staðurinn framan við hið heilaga er ekki þar með staður sem er vanheilagur eða vanhelgaður. Hann er því ekki eins og eitthvað sem áður var heilagt en hefur síðan verið svívirt og vanhelgað.

Munurinn á fanum og profanum felst fyrst og femst í því að maðurinn er í forgarði hins heilaga. Hann kemst ekki nær hjálparlaust vegna þess að hann tilheyrir hinu fallna mannkyni, erfingjum Adams og Evu sem rekin voru burt úr helgireit Guðs, Paradís, vegna óhlýðni sinnar.

En Guð kemur sjálfur til barna sinna sem þessi hjálpari. Hið heilaga er mitt á meðal þeirra. Jesús Kristur er hinn heilagi Guðs. Guð varð maður í Jesú Kristi. Allt hið háa og heilaga sem er svo miklu æðra manninum eins og himininn er hærri en jörðin, kom til jarðar, kom til mannanna í honum.

(Guð) býr í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit né litið getur. Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen. (1.Tím. 6.16)

Kristinn maður er í heilagri skírn gróðursettur á Kristi, og helgaður Kristi. Þannig er hann hluti af heilögum lýð Guðs. Fyrir hann er enginn pro-fanum staður lengur til. Jesús Kristur sér til þess að hann er alltaf og allsstaðar í beinu sambandi við Guð. Hann hefur aðgang að hinu heilaga.

Það sem okkur er kært viljum við vernda. Það sem okkur er heilagt viljum við ekki að neitt eða neinn spilli. Ef við viljum til dæmis varðveita helgi hvíldardagsins þá gerum við það vegna þess að hún er okkur heilög.

Helgir dagar vaxa ekki upp af helgidagalöggjöfinni. Maðurinn sjálfur gerir sér dagamun. En kirkjan hvetur til þess að varðveita hið heilaga. Líka helgi hvíldardagsins og líka þegar við þurfum að vinna þá daga.

En hvíldardagurinn varð til mannsins vegna, segir Jesús. Við erum musteri heilags anda, en ekki bara þess vegna, heldur einnig vegna þess að við erum sköpuð í Guðs mynd og að vilja hans, ættum við að njóta helgi hans. Í því felst mannhelgi og friðhelgi lífsins.

Það breytir viðmóti okkar ef við horfum á aðra manneskju eins og hún sé helgidómur sem okkur ber að virða og vernda. Ef við gerum það vekur það ekki aðeins spurningar um afstöðu okkar til annarra. Það vekur líka spurningar um lífið og varðveislu þess.

Því að lífið er gjöf hins heilaga Guðs.

url: http://kvi.annall.is/2003-12-10/13.22.34/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 10/12/2003 16.24

Takk fyrir góðan pistil.

Torfi Stefánsson @ 11/12/2003 13.51

Ég tek undir með Árna Svan um góða pistil. Hér er skiljanlega lögð áhersla á nálægðina við helgihaldið, enda er höfundur sérfræðingur á því sviði. Ég sakna þó áherslu á hið heilaga líf sem við kristnir eigum að lifa, óháð öllum hátíðum og opinberu helgihaldi. Guðs lýður er hvattur til að vera heilagur (3Mós 19:2, Róm 1:7), lifa heilögu lífi (1Pet 1:15-16). Þannig hefur hugtakið einnig siðferðilega skírskotun, okkar líf skal einkennast af helgri göngu eftir Guðs vilja.
Þetta er auðvitað sá boðskapur sem við stöndum frammi fyrir á jólum, frammi fyrir hinu heilaga: Lifið í samræmi við kærleiksvilja Krists.
Þetta er sá boðskapur sem starfsfólk kirkjunnar hefur mest þörf fyrir, það sem söfnuðurinn vill sjá í verki, sá boðskapur sem fær fólk til að sækja hið heilaga heim á jólum: Verið heilagir eins og faðir yðar á himnum er heilagur.

Kristján Valur @ 12/12/2003 18.03

Ég er mjög feginn þessari athugasemd Torfa og þakklátur honum fyrir að gera hana vegna þess að hún er alveg í samræmi við framvindu námskeiðsins og þess samtals sem þar fór fram. Að því leyti sem það samtal er marktækt vill söfnuðurinn láta minna sig á návist hins heilaga í daglegu lífi ekki síður en á helgum og hátíðum.Það vill vera kallað til persónulegrar ábyrgðar á ,,hinni helgu göngu”.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli